Verkafólk í Eflingu stefnir á að fara í verkfall vegna þess að launin sem það fær fyrir vinnuna sína duga ekki til að framfleyta sér með skikkanlegum hætti hér á Íslandi. Viðsemjandinn er Reykjavíkurborg og þar segja menn að ekki sé hægt að hækka laun þeirra sem sitja á botninum. Ástæðan er að þá verði munurinn á launum hinna faglærðu og hinna ófaglærðu of lítill, sem valdi því að mikið höfrungahlaup – sem sumir kalla hákarlahlaup – hefjist upp allan launastigann og leiði til verðbólgubáls sem brenni upp allan ábata af hærri launum.
Forsvarsmenn Eflingar gefa ekki mikið fyrir hið margumrædda höfrungahlaup og benda á að þeirra verkefni sé að semja um laun fyrir sitt fólk sem dugi því til mannsæmandi framfærslu. Þetta er hnúturinn sem virðist svo óleysanlegur að nú blasir við verkfall, kannski langt.
Ekki er úr vegi að skoða aðeins hvernig þessi hnútur er til kominn. Lítum sem snöggvast á eftirfarandi tvær fullyrðingar.
- Laun ófaglærðs starfsfólks eru of lág.
- Launamunur þeirra sem hafa sótt sér menntun og hinna sem ekki hafa gert það þarf að endurspegla að menntunin sé metin að verðleikum.
Hvað varðar fullyrðingu (1) er nærtækt að grípa niður í nýlega grein Kolbeins Hólmars Stefánssonar í Stundinni, „Mannekla leikskólanna og kröfur Eflingar“. Hann hefur þetta að segja um stöðuna: „Í launarannsókn Hagstofu Íslands má sjá að árið 2018 (nýjustu gögn sem eru til) var ófaglært starfsfólk leikskólanna sú starfsstétt sem hafði lægstu launin. Heildarlaunin námu 370 þúsund krónum á mánuði að meðaltali.“ Þegar búið er að borga af þessum launum persónuafslátt eru eftir 285 þúsund krónur. Mér sýnist að flestir sem hafa tjáð sig um að ekki sé hægt að hækka launin hafi að minnsta kosti tvöföld eða fjórföld þessi laun. Jafnvel tíföld. En 285 þúsund krónur eru ekki sérlega mikið; líklega fer um helmingur í húsnæðiskostnað, jafnvel meira. Það er allavega ljóst að þessi laun eru of lág miðað við framfærslukostnað hér á landi.
Hvað varðar fullyrðingu (2) þá er hún líka sönn. Ástæður þess að eðlilegt er að fólk með fagmenntun fái hærri laun en ófaglært fólk eru af tvennu tagi. Annars vegar er mjög kostnaðarsamt að vera námsmaður til lengri tíma og því þarf fólk að fá góð laun að námi loknu svo það hafi hreinlega efni á að sækja sér menntun. Hins vegar er faglært starfsfólk gjarnan betri starfskraftur en ófaglært fólk einmitt vegna þess að það hefur lært til verka. Það er þó ekki sanngildi fullyrðingar (2) sem skiptir mestu máli heldur þær ályktanir sem af henni eru dregnar. Þegar menntun er metin að verðleikum birtist það ekki bara í launamun heldur líka í því hver launin eru. Mörg störf eru þess eðlis að til að vinna þau vel þarf að kunna til verka. Mörg störf eru líka þannig að þeim fylgir mikil ábyrgð. Og til að axla ábyrgðina þarf að kunna til verka; það þarf að kunna að vinna störfin vel. Leikskólastörf eru einmitt dæmi um svona störf. Þau eru mjög vandasöm og þeim fylgir mikil ábyrgð. Um þetta eru flestir sammála, líka þeir sem segja að ekki sé hægt að hækka laun ófaglærðs leikskólastarfsfólks. Þess vegna er líka gerð krafa um að fólk sem vill vinna sem leikskólakennarar sæki sér menntun í fimm ár áður en það fær að kalla sig kennara.
Í lögum um menntun kennara og skólastjórnenda (nr. 95 frá 2019, gr. 14) segir: „Að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda kennara.“ En hver er staðan í leikskólum borgarinnar? Þar starfa um 2000 manns. Af þeim eru innan við 500 menntaðir leikskólakennarar, álíka margir hafa aðra uppeldismenntun, og svo eru um 1000 ófaglært starfsfólk (tölur af vef Hagstofu Íslands frá 2018). Hlutfall menntaðra leikskólakennara er því um 25% en ekki 66%.
Ef menntun leikskólakennara væri metin að verðleikum þá væru laun leikskólakennara talsvert hærri en þau eru í dag og hlutfall menntaðra leikskólakennara væri væntanlega miklu hærra en það er, ekki 1/4 eins og núna heldur kannski 2/3 eins og lögin segja fyrir um. Skortur á að meta menntun leikskólakennara að verðleikum birtist ekki í því að ófaglært fólk hafi ekki nógu mikið lægri laun en faglærðir leikskólakennarar, heldur í því að faglærðir leikskólakennarar hafa alltof lág laun til að byrja með. Tölurnar tala sínu máli.
Í ljósi þess hvernig leikskólar eru mannaðir er mjög umhugsunarvert að lesa 19 gr. laganna sem fjallar um undanþágur. Þar segir: „Ef enginn kennari sækir um auglýst kennslustarf við leikskóla þrátt fyrir endurtekna auglýsingu er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða, að hámarki til eins árs í senn, einstakling sem ekki er kennari. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið kennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.“ Þetta orðalag gerir augljóslega ráð fyrir að það heyri til undantekninga að ófaglært starfsfólk sé ráðið í störf kennara. Þannig er það vissulega í grunnskólum og framhaldsskólum, en í leikskólum er undantekningin reglan.
Það ber því allt að sama brunni og ekki eftir neinu að bíða með að hækka laun þess fólks sem vinnur á leikskólum, bæði þeirra sem eru faglærðir og hinna sem eru ófaglærðir og neyðast til að axla ábyrgð sem löggjafinn telur að krefjist fimm ára undirbúnings í háskóla. Hvort fólk í öðrum starfsgreinum muni reka upp ramakvein yfir því verður bara að koma í ljós. Það getur vel verið að hákarlarnir bregði sér í skráp höfrunga og búist til hlaups, en það er hvorki á ábyrgð ófaglærðs fólks í leikskólum, né menntaðra leikskólakennara, að halda aftur af þeim.