Algengt er að starfsfólk við afgreiðslustörf, í fjármálageiranum og við símsvörun missi vinnuna og gervigreind er að útrýma mikið fleiri störfum við þjónustu. Fyrir liggur einnig að þeir sem starfa við sjávarútveg eru orðnir fáir og fækkar stöðugt og við mjólkurframleiðslu starfa tiltölulegar fáir og stórir aðilar við hátæknibú. Þeir sem eftir sitja í þessum atvinnugreinum eru hálaunamenn. Þannig varð landsbyggðin fyrsta fórnarlanb tæknibreytinga hér á landi. Í annarri framleiðslu svo sem í álverum og raforkuverum starfa sífellt færri og það er tæknilega öflugt starfsfólk sem telst til millistéttar. Svona fór þá fyrir framleiðslu- og verksmiðjulýðnum sem einkenndi Vesturlönd á tímum Karls Marx og hann taldi arðrændasta hluta verkalýðsins.
Enn eru unnin fjölmörg láglaunastörf í þjónustu, en þeim fer fækkandi – en opinber störf við umönnum og kennslu halda best, en umönnunarstörfum mun þó fækka hratt á næstu árum með aukinni hagkvæmni stafrænna lausna. Þá er talið að láglaunastörfum í þriðja heiminum t.d. við framleiðslu og símsvörun muni fækka mikið og jafnvel leggjast af á næstu árum með aukinni sjálfvirkni, notkun gervigreindar og þrívíddarprentun.
Margir hafa áhyggjur af því að þjóðarframleiðsla haldi ekki áfram að aukast þegar fækkar á vinnumarkaði. Það ætti hún reyndar að gera – með vaxandi tæknivæðingu skapar hvert starf mikið meiri auðæfi en áður. Menntun og endurmenntun, einkum á sviði tækni, er grundvöllur framtíðarauðs.
Nú kemur upp spurningin: Á almenningur rétt á því að þjóðfélagið leggi honum til hæfilega atvinnu – eða á hann bara rétt á velsæld, hvað sem líður tengslum hans við atvinnumarkaðinn. Oft láta menn sem svo að atvinna sé forsenda heilbrigðs lífs – en er það svo? Er tæknin ekki að leysa mannkynið undan atvinnu – og lífsbaráttan verður auðveldari og skemmtilegri? En tæknimenn og kennarar virðast munu hafa nóg að starfa.
Þetta eru mikilvægar spurningar og beina athyglinni að því hvort við viljum raunverulega tækninýjungar, sem nánast alltaf spara vinnu eða hvort við viljum snúa hjóli þróunarinnar við og taka aftur upp óhagkvæm vinnubrögð.
Tökum sem dæmi að einhverjir vilji útgerð og fiskvinnslu í hverju smáplássi, eins og var áður. En telja má að það auki þjóðarauð meira og spari fjárfestingar – að setja nýjar hátækniflæðilínur í togara líkt og Slippstöðin á Akureyri gerir. Þannig dregur úr mikilvægi fiskvinnslu í landi, mikið betra hráefni fæst úr sjó – auk þess sem fáeinir togarar geta nú nýtt fiskveiðiauðindina. Borgar sig ekki betur að fólkið í sjávarþorpunum sé á opinberu framfæri? Getur því liðið jafn vel og þegar það stóð erfiði fiskvinnslunnar og konurnar voru farnar að heilsu fyrir sextugt? Best færi á að arðurinn af sjávarútvegsauðlindinni stæði straum af velsæld íbúa.
Hvernig á annars að skipta auðæfum þjóðfélagsins? Rökstyðja má að stórauka þurfi áhersluna á jöfnuð og réttlæti – og að skattar á stórfyrirtæki þurfi að hækka auk auðlindagjalda til þess að kosta velsæld þeirra sem standa utan vinnumarkaðar. Hin auðugu þjóðfélög Vesturlanda geta auðveldlega mætt kröfum allra um mannsæmandi líf eins og þjóðartekjur sýna vel. En þetta mun væntanlega kosta endurnýjaða kjarabaráttu á allt öðrum forsendum en áður. Krafan er að þeir sem standa utan vinnumarkaðar hafi það jafn gott og aðrir þjóðfélagsþegnar – eða nógu gott til þess að lifa við full nútíma lífsgæði. Mikið vantar upp á það í dag. Þetta er réttlætiskrafa, en krafan um atvinnu er það ekki.
Jafnvel má segja að kominn sé til sögunnar nýr afskiptur hópur þeirra sem standa utan vinnumarkaðar í stað og til hliðar við þá hópa sem hefðbundinn sósíalismi greindi sem undirokaða.
Þessi þróun stendur í tengslum við tækniþróunina, líftækniþróunina og hagnýtingu auðvalds á þeirri framþróun. Allt bendir til vaxandi misskiptingar á komandi árum, bæði efnahagslega, milli þeirra sem vinna verðmæt störf og þeirra sem verða utan vinnumarkaðar og líffræðilega, þar sem auðstéttin getur keypt erfðabreytingar á sjálfri sér og börnum sínum. Þannig fjarlægist hún lágstéttirnar meira en nokkru sinni og getur sú þróun raunar skipt mannkyninu upp – og auðvald færist í sífellt færri hendur.
Sem stendur er margháttuð félagsleg þjónusta tengd atvinnuþátttöku. Þá er átt við orlofsþjónustu (t.d. aðgang að bústöðum), sjúkrastuðning, endurmenntun og námskeiðsþátttöku, virkniþjónustu (ASÍ rekur Virk bara fyrir vinnumarkaðinn meðan ljóst er að fjöldi annarra, m.a. stúdenta, aldraðra og öryrkja þurfa slíka þjónustu) – og svo má lengi telja. Félagsleg þjónusta verkalýðsfélaga og ríkisins þarf að ná til allra jafnt, bæði á atvinnumarkaði og utan hans. Til greina kæmi að þeir sem hverfa af vinnumarkaði verði áfram í þeim verkalýðsfélögum sem þeir voru í við starfslok.
Mikilvægast af öllu er að kenna þeim sem eru utan atvinnumarkaðar að lifa innihaldsríku lífi án atvinnu og að styðja þá til samfélagslegrar virkni af öllu tagi. Upp á þetta vantar mikið í dag. Er það samrýmanlegt að vera glaður og ánægður með sterka sjálfsmynd og vera nýtur þjóðfélagsþegn – og lifa á kostnað tryggingakerfa? Það gæti verið nýtt samfélagslegt markmið.
Hvernig verður framtíðin fyrir þann hóp sem stendur utan vinnumarkaðar, sem eru aldraðir, öryrkjar, atvinnulausir og námsmenn á öllum aldri:
i) Mikilvægast er að atvinnuleysi verði snúið upp í endurmenntun. Líklegt er að hver og einn verði að mennta sig til fleiri en eins ævistarfs í framtíðinni, kannski til fleiri en tveggja starfa. Því þarf að skapa greiðar leiðir frá atvinnuleysisstyrk til námslauna og efnahagslega hvatningu fyrir atvinnulausa að endurmennta sig.
(ii) Eðlilegt er að stytta vinnuvikuna og/eða lengja orlof til að dreifa atvinnunni jafnar. Það veldur hins vegar auknum kostnaði hjá atvinnulífinu, meðan fjölgun fólks utan atvinnumarkaðar eykur kostnað ríkisins.
iii) Þá getur ríkið, auk endurmenntunar, búið til atvinnubótavinnu fyrir atvinnulausa. Hún má þó ekki vinna gegn þjóðarhagsmunum, eins og sum atvinna getur gert, t.d. strandveiðar og sauðfjárrækt – heldur vera raunverulega í þjóðarhag og hún má ekki taka atvinnu beint frá atvinnumarkaðnum. Til greina kæmi að láta atvinnulausa leggja járnbrautarteina til Akureyrar og Egilsstaða.
iv) En hluti þeirra sem standa utan vinnumarkaðar verður þar alla ævi. Þá er átt við öryrkja, atvinnulausa sem vilja ekki endurmennta sig og þá sem ekki hafa menntun eða hæfileika til að hljóta menntun. Einföldum störfum er nefnilega að fækka ört. Þeir sem ekki hafa lesskilning við lok grunnskóla núna verða á opinberu framfæri ævilangt ef fram heldur sem horfir. Það verða einnig ómenntaðir innflytjendur.
v) Aldraðir munu fara af vinnumarkaði fyrr en áður vegna þess að þekking þeirra verður úrelt, en ef þeir endurmennta sig ættu þeir að geta unnið fram á áttræðisaldur, annars ekki. Raunar markar tímalengdin frá síðustu endurmenntun í aðalatriðum mælikvarða á getu til starfa, en ekki lífaldur.
Þessi þróun kallar á endursköpun tryggingamála og er þá átt við að málefni aldraðra, öryrkja, atvinnulausra og námsmanna – allra utan atvinnumarkaðar – málefni þeirra þurfa að renna saman í nýtt samfellt kerfi þar sem eðlilegir hvatar þrýsta á aukna menntun og verðmætasköpun.
Höfundur er stjórnsýslufræðingur.