Ný svört skýrsla um umhverfismál, sem kynnt var við upphaf árs á efnahagsráðstefnunni í Davos, sýnir að auðlindanotkun er komin upp í nýjar og sögulegar hæðir: Mannkynið hefur aldrei gengið jafn hratt og mikið á auðlindir jarðar. Um 100,6 milljarðar tonna af ýmiskonar jarðefnum og eldsneyti hafa verið notaðir á einu ári. Lítið ber á sjálfbærni og endurvinnsla minnkar.
Rannsóknin nær yfir árið 2017. Tæpur helmingur af þeim auðlindum, sem notaðar voru á árinu, eru jarðefni sem notuð eru í byggingariðnaði: sandur, leir, sement, möl og málmar. Jarðarbúar eru að nota meira en endurvinna minna: Eldsneytisnotkun, skógarhögg og efnavinnsla er orðin fjórum sinnum umfangsmeiri en hún var árið 1970, í engu samræmi við mannfjölgun sem hefur einungis tvöfaldast á þessum sama tíma; á síðustu tveimur árum hefur neysla og eyðsla aukist um 8% á heimsvísu. Á sama tíma hefur endurvinnsla minnkað úr 9,1% í 8,6%. Jarðarbúar eru því ekki bregðast við yfirvofandi hamfarahlýnun. Skýrslan segir umbúðalaust að ef við höldum áfram að ganga á auðlindir jarðar með þessum hætti þá munu afleiðingarnar verða hryllilegar fyrir allt lífríki á jörðinni.
Hver manneskja notar um 13 tonn á ári
Skýrslan, sem var unnin af hugveitunni Circle Economy, segir að auðlindanotkun hvers jarðarbúa sé um 13 tonn á ári. Það sé mun meira en jörðin ráði við. Hins vegar bendir skýrslan á að mörg lönd í heiminum hafi tekið upp markvissa stefnu í sjálfbærni og séu á góðri leið með að þróa hringrásarhagkerfi, nota endurnýjanlega orkugjafa og endurvinnslukerfi fyrir almennan úrgang.
„Hryllingur og hamfarir blasa við á heimsvísu ef við höldum áfram að ganga á auðlindir jarðar með þessum hætti“, segir Harald Friedl, framkvæmdarstjóri Circle Economy. „Öll ríki verða að innleiða hringrásarhagkerfi, hugsa í nýjum lausnum og endurvinnslu ef jörðin á að vera byggileg fyrir þá tíu milljarða manns sem munu búa hér um miðbik aldarinnar.“ Skýrsluhöfundar benda á að við þurfum að fara úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarkerfi.
Hvað er hringrásarhagkerfi?
Núverandi línulegt hagkerfi í löndum heimsins byggist á ósjálfbærri nýtingu auðlinda og miðast við að framleiða – kaupa – nota – henda – og kaupa nýtt. Þetta er orðin hættuleg tímaskekkja og brýn nauðsyn er að endurhugsa allt efnahagskerfið sem hringrásarhagkerfi sem miðast við að hámarka verðmætin og auðlindirnar, auka endurnotkun og endurvinnslu. Þetta kallar á ný viðskiptalíkön sem byggja meira á samnýtingu, eða kaupleigu, og að öll vöruhönnun miðist við betri endingu og nýtingu. Stærsti þátturinn í þessu kerfi er svo almenn flokkun á úrgangi og endurvinnsla þar sem reynt er eftir fremsta megni að halda efnislegum vörum og verðmæti þeirra og innihaldi inni í hagkerfishringnum eins lengi og mögulegt er. Hringrásarkerfið, græna leiðin í fjárfestingum og framleiðslu, er ekki bara mun vistvænna kerfi, sem sparar og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, heldur líka hagkvæmara fyrir atvinnulífið og hið opinbera til lengri tíma litið.
Ákall um breytingar
„Það er brýn nauðsyn að draga úr auðlindanotkun. Mannkyni fjölgar, neysla eykst, endurvinnsla dregst saman; þessu þarf að breyta“ – segir í niðurlagi í skýrslunnar, sem er í raun ákall um róttækar breytingar, ákall um nýjar, grænar lausnir. Um 40% af allri auðlindanotkun heims fer í byggingaframkvæmdir, þar sem efni eins og möl, sandur, leir og sement er mest notað. „Er mögulegt að byggja hús með umhverfisvænni aðferðum?“ spyrja höfundur skýrslunnar. Kol, olía og gas eru sömuleiðis auðlindir sem gengið er hratt á og valda mikilli mengun. Orkuskipti í heiminum verða að fara af stað, bæði hratt og örugglega.
Þurfum að endurvinna mun meira
Við göngum hratt á auðlindirnar og notum hráefnin stutt og illa. Einungis þriðjungur af öllum þeim hráefnum sem við notum endast úr árið. Þetta eru aðallega efni sem við notum í nýbyggingar og bíla. Önnur efni fjara út, brenna og er hent innan árs, sem er skelfileg nýting. Einungis 8,6% af allri auðlindanotkun heims fer í endurvinnslu.
Að mörgu leyti er almenningur, og sér í lagi unga kynslóðin, komin á undan atvinnulífinu og hinu opinbera þegar kemur að sjálfbærni og umhverfisvernd, en framtak þeirra nær skammt ef framleiðendur taka ekki boltann. Framleiðendur og fyrirtæki verða að sýna meiri ábyrgð og taka upp græna stefnu, flokka betur, endurvinna og bjóða upp á vistvænni vörur. Framleiðendur verða að treysta neytendum betur og koma til móts við þá, almenningur vill í síauknum mæli endurunnin efni og umhverfisvæna þjónustu.
Skýrslan leggur ríka áherslu á endurvinnslu. Með aukinni endurvinnslu og grænu hagkerfi verður allur markaðurinn samkeppnishæfari, opnari og gegnsærri, lífsgæði munu aukast - en það sem er auðvitað mikilvægast: við gætum hugsanlega náð þeim mikilvægu markmiðum sem við höfum sett okkur í loftlagsmálum. Alls 13 Evrópuríki, m.a. Frakkland, Þýskaland og Spánn, eru að innleiða hringrásarhagkerfið; Kólumbía er fyrsta landið í Suður-Ameríku sem hefur tekið upp þessa stefnu.
Hvað með Ísland?
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á nýafstöðnu Viðskiptaþingi 2020 að nú væri kominn tími afgerandi ákvarðana fyrir Ísland. Íslendingar ætla sér að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins og við ætlum okkur að verða kolefnishlutlaust land ekki seinna en 2040. Fram undan eru orkuskipti í samgöngum og búið aðboða að innflutningur bensín- og díselbíla verði bannaður 2030. Stjórnvöld ætla að beita sér fyrir innviðauppbyggingu fyrir rafbíla og önnur farartæki sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum og innleiða efnahagslega hvata til að þessi umskipti geti gengið sem hraðast yfir.
Íslendingar hafa alla burði til þess að vera fyrirmyndarríki þegar kemur að grænum leiðum. En ef við ætlum að innleiða hringrásarhagkerfið þurfum við að gera stórátak. Sorp hér á landi hefur aukist mikið frá efnahagshruninu 2008 og alls féllu 656 kíló af rusli frá hverjum Íslendingi árið 2017. Íslendingar eru meðal mestu ruslara í Evrópu samkvæmt nýjustu tölum frá Eurostat. Ef við ætlum að vera til fyrirmyndar og innleiða grænt hringrásarhagkerfi þurfum við að flokka og endurvinna betur.
Höfundur er samskiptastjóri Terra.