Komin er fram góð tillaga um hvernig megi best nýta svokallaðan „Stekkjabakkareit“ í Elliðaárdal. Hún er svona: Að svæðið verði nýtt á sama hátt og almennings- og útivistarsvæðið í dalnum öllum. Það fegrað í anda dalsins, gert gagnlegt til útivistar og unaðsstunda og tengt við náttúru og manngert umhverfi dalsins. Þessi tillaga hefur eftirfarandi kosti: Hún er ódýr, hún er í samræmi við tillögur starfshóps borgarinnar frá 2016 um borgargarð, hún er í anda aðalskipulags og komin er löng og góð reynsla á gildi dalsins. Þúsundir Reykvíkinga styðja þessa tillögu. Því miður er komin fram önnur, og verri, sem borgaryfirvöld vilja þrátt fyrir víðtæk mótmæli.
Síðri tillagan
Síðri tillagan byggir á því að kalla Stekkjabakkasvæðið „þróunarreit“ og gengur gegn tillögum starfshóps um borgargarð með því að leyfa þar afþreyingarmiðstöð undir glerhvolfi á stærð við Perluna eða 2/3 af gömlu Laugardalshöllinni. Fyrir utan ýmislegt annað sem á að setja þarna niður og ekki hefur verið nægilega upplýst um, verslanir, bílastæði, íbúðir. Þetta ráðslag mun kosta borgarbúa mikið fé, af greiðasemi við komandi fyrirtæki. Reiknað er með að nýja afþreyingarmiðstöðin muni draga til sín kringum 300 þúsund manns á ári – fjórðung af árlegum gestafjölda á Þingvöllum! Greiða þarf fyrir aðgengi með tilheyrandi mannvirkjum, sem er það sem starfshópurinn um Elliðaárdal varaði sérstaklega við.
Um hvað snýst deilan ekki?
Hún snýst ekki um ágæti glerhvolfs til ýmis konar viðskipta. Það má vera nánast hvar sem er og ef einhver vill setja í slíka fjárfestingu 5 milljarða á 5000 fermetrum þá segjum við: Góða skemmtun. Deilan snýst heldur ekki um þá tilraun borgarfulltrúa að tala svæðið niður sem gamla malarnámu eða „raskað“ svæði. Kjarni deilunnar er þessi: Önnur framtíðarsýn á nýtingu svæðis sem liggur beint að verðmætum almenningi sem borgarbúnar nýta nú þegar sér og sínum til yndisauka. Ekkert annað. Elliðaárdalurinn er frábær og nú gefst tækifæri til að gera hann enn betri.
Spurning sem ekki er svarað
Eftir að hafa fylgst með þessari umræðu í meira en ár virðist ómögulegt að fá svar við spurningunni: HVERS VEGNA? Hvers vegna þarf glerhvolfið að vera þarna og hvergi annars staðar? Hvers vegna þarf að setja niður alls konar „þjónustustarfsemi“ þar í kring með ærnum tilkostnaði? Hvers vegna er rökstuddum tillögum starfshópsins frá 2016 kastað fyrir róða? Hvers vegna er ekki hlustað á þúsundir borgarbúa sem hafa aðra sýn á not dalsins? Hvers vegna vilja yfirvöld ekki þróa dalinn áfram í núverandi mynd, sem mikill stuðningur er við? Hvers vegna vill borgarstjórnarmeirihlutinn ekki nýta umrætt svæði til útivistar og nátttúruupplifunar á sama hátt og gert er í dalnum öllum?
Þess vegna
Við sem viljum fagurt útivistarsvæði höfum svarað fyrir okkur. Umræddur reitur er einn af örfáum blettum sem laus er í borgarlandinu vestan Ártúnsbrekku til útivistar og náttúruupplifunar. Verra er að síðri tillagan mun útiloka frekari þróun Elliðaárdalsins á þann veg sem þegar nýtur vinsælda. Minna þarf á þann viðbótarfjölda íbúa í næsta nágrenni sem eiga að byggja strandlengjuna beggja vegna Elliðaárósa og þurfa útivist og hreyfingu. Þétting byggðar krefst beinlínis að svona svæði séu tekin frá til almannanota. Reynslan af dalnum í núverandi mynd er frábær og gæti orðið enn betri með því að fegra Stekkjabakkasvæðið í beinum tengslum þar við. Hvað er að því?
Íbúar kjósi
Til að vera jákvæður og uppbyggilegur ætla ég að spara mér athugasemdir við málsmeðferð því þær eru ekki fallegar. Nú er lokið undirskriftasöfnun til að knýja fram íbúakosningu um síðri tillöguna. Safna þurfti 18.000 manns á lista á einum mánuði sem er ekki lítið og náðist ekki í tæka tíð. Til samanburðar má geta þess að í kosningunni „Hverfið mitt“ kusu 13.600 manns eftir linnulausa hvatningu á þremur tungumálum á þar til gerðum vefsíðum með veggspjöldum, uppákomum og tilheyrandi verkefnastjórum. Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Samfylkingin 15.000 atkvæði og Sjálfstæðisflokkurinn 18.000.
Nú þyrfti borgarstjórnarmeirihlutinn að stíga fram og segja einfaldlega: „Við höfum hlustað og við teljum að fólkið eigi rétt á að kjósa.“ Hvað væri að því?
Höfundur er fyrrverandi borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans og Samfylkingar, fyrrverandi formaður samráðshóps um málefni Elliðaánna, ólst upp með Elliðaárdalinn sem leiksvæði og nýtir hann sem íbúi í næsta nágrenni.