Sá áfangi að lengja fæðingarorlof foreldra á Íslandi í 12 mánuði, er fagnaðarefni þótt það sé vonum seinna, og nokkuð á eftir nágrannalöndum. Þetta er um leið tilefni til að íhuga margþættar hliðar þess að auka rétt og velferð barna. Eitt af sterkum ákvæðum í lögunum um fæðingarorlof er ótvíræð áhersla á rétt barns til umönnunar beggja foreldra enda er það í samræmi við bæði íslensk barnalög og barnasáttmálann. Lagabreytingin er um margt framsýn en í því sambandi má gera nokkur atriði að umræðuefni og líta um leið til nárannalanda okkar.
Að styrkja fyrstu tengsl barns og foreldra
Þverfaglegur hópur sérfræðinga í málefnum verðandi foreldra og um velferð ungbarna sendi ákall til íslenskra stjórnmálamanna á árinu 2017. Hópurinn, sem kallar sig 1001 dagur beitir sér fyrir viðurkenningu á sérstökum þörfum verðandi og nýbakaðra foreldra og ungra barna þeirra, ásamt vitundarvakningu um gildi líffræðilegra og tilfinningalegra tengsla barns við báða foreldra, að breskri fyrirmynd. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson er verndari hópsins og hefur stutt frumkvæði hans og starfsemi frá upphafi. Í íslenska Ákallinu segir m.a.:
1001 dagurinn í lífi barna, frá getnaði til 2ja ára, leggur grunninn að lífsgæðum og geðheilsu ævina á enda. Á þessu tímabili þroskast tilfinningalíf barna meira en á nokkrum öðrum tíma ævinnar en þá læra börn að finna til öryggis, að þau geti treyst fólki og séu elskuð. Þetta er beinlínis ein undirstaða þess að þau geti myndað jákvæð tengsl við aðra og tekist á við áskoranir lífsins. Rannsóknir undanfarinna áratuga hafa varpað ljósi á hversu alvarleg áhrif skortur á stöðugleika, umhyggju og hlýju á meðgöngu og fyrstu árin geta verið. Þessi skortur veldur streitu sem getur haft áhrif á þroska barna og jafnvel óafturkræfar breytingar á heilastarfsemi.
Ein megin forsenda fyrir því þetta geti tekist er að foreldrar njóti verndar samfélagsins til að verja tíma með börnum sínum í frumbernsku - öðrum þroskaskeiðum fremur. Ábyrgðin skiptist þannig að foreldrar veita barninu ást og persónulega umönnun og samfélagið tryggir ytri umgjörð öryggis og þjónustu.
Tíminn frá getnaði til tveggja ára aldurs barns er oftast tími gleði og mikilla viðburða í lífi foreldra. Umbreyting á hlutverkum, ný verkefni, áður óþekktar tilfinningar og þarfir ásamt nýju álagi og óöryggi kalla því á fræðslu og stuðning fyrir verðandi foreldra, en einnig eftirfylgd heilsugæslu og velferðarkerfis. Þess vegna þarf samfélagið að tryggja báðum foreldrum fæðingarorlof sem er nægilega langt og þannig útfært að það tryggi tengsl barnsins við báða foreldra - án mismununar gagnvart missi tekna eða stöðu á vinnumarkaði. Öll börn eiga rétt á nánu og góðu sambandi við báða foreldra sína, jafnvel þó að foreldrarnir búa ekki saman. Mikilvægur verndandi þáttur þegar kemur að áhuga og þátttöku foreldris í lífi barnsins seinna meir eru tengsl barns og foreldris fyrstu æviárin. Þetta er ein helsta undirstaðan að velferð og vellíðan barnsins til framtíðar.
Löggjöf og þjónusta í deiglu á Íslandi
Megin áhersla þarf ætíð að vera á velferð barnsins, rétti þess til beggja foreldra og möguleika þeirra til að rækta tengsl við barnið hver sem hjúskaparstaða þess, fjölskyldugerð, samvista- eða búsetuform er. Gera þarf ráð fyrir að þjónustu- og stuðningsþörf foreldra sé ólík eftir þessum aðstæðum, og að tryggja þurfi rétt barnsins til beggja foreldra sem óháðast þeim. Sé foreldri eitt um forsjá og uppeldi barnsins t.d. vegna dauða, veikinda eða langtímafjarveru (fangelsi, búseta erlendis) er eðlilegt að barninu geti verið bætt upp sú mismunun með því að eiga tryggða umgengni, samskipti og vernd annarra nákominna (t.d. afa/ömmu, frændsystkin eða) í hinni fjölskyldunni.
Um þetta eru skiptar skoðanir bæði í fjölskyldum og í fræðasamfélaginu en þar þarf að hafa í huga að þetta eru réttindi barnsins frekar en foreldranna.
Í rannsóknum okkar, bæði á skilnaði foreldra (2014) og við andlát foreldris (2015-2018) kemur fram að tengsl barna við báða foreldra og frændgarðinn beggja vegna er ákaflega mikilvæg fyrir velferð og heilsu barna bæði í frumbernsku og til framtíðar.
Undanfarið hefur margt áunnist, nýir þjónustumöguleikar til að styrkja Fyrstu tengsl sbr. Miðstöð foreldra og barna, og stuðning við par- og foreldrasamband á grundvelli nýjustu þekkingar í fjölskyldufræðum, sbr. rannsóknir og klíniskt starf Gottman & Gottman, og verkefni umboðsmanns þeirra á Íslandi, ÓB-ráðgjöf, m.a. námskeiðið Barnið komið heim. Það veitir verðandi foreldrum innsýn í þá lífsskeiðsbreytingu sem fylgir fæðingu fyrsta barns og færir þeim verkfæri til að takast á við breytingarnar sem því fylgja. Fjallað er um mikilvægi parsambandsins í foreldrahlutverkinu og hlutverk beggja foreldra í uppeldi og umönnun barns. Rannsóknir hafa sýnt að líkindi eru á að sjö af hverjum tíu foreldrum upplifi minni ánægju í parsambandinu fyrstu þrjú árin eftir fæðingu barns. Á því álagstímabili eru hvað mestar líkur á að barn verði fyrir skilnaði forelda. Það er því mikið í húfi að vinna að forvörnum fyrir börn og foreldar með snemmtækri íhlutun um fjölskylduvernd. Dæmi um slíkt eru ákvæðin um fæðingarorlof (2019), ýmsar lagabreytingar um stöðu barna sem aðstandenda, m.a. við foreldarmissi (2019) og nú síðast innleiðing metnaðarfulls fræðslu- og stuðningsúrræðis fyrir fjölskyldur í skilnaði (2020). Þessi dæmi sýna hvernig markviss stefna núverandi félags-og barnamálaráðherra ásamt stuðningi þverpólitískrar þingmannanefndar hafa getað náð samstilltu átaki til hagsbóta fyrir börn.
Í þessum anda og með hliðsjón af stefnu Norðurlandanna, einkum Svíþjóðar þar sem við þekkjum best til, er gagnlegt að skoða hvar þörf er á frekari úrbótum hér á landi.
Litið til nágrannalanda
Í Svíþjóð eru greiddir út 480 dagar í fæðingarorlof fyrir hvert barn, eða um 16 mánuðir. Talað er um foreldrapening. Foreldrar geta tekið út foreldrapening þar til barnið verður 12 ára, þó mest 96 daga samanlagt eftir að barnið verður 4 ára. Allir foreldrar með forsjá barns eiga rétt á foreldrapening.
Einstæðir foreldrar, sem fara einir með forsjá barns, eiga að sama skapi rétt á 480 dögunum. Þeir geta látið eftir öðrum aðila foreldraorlofs daga ef sá aðili á önnur börn með foreldrinu eða ef sá er, eða hefur verið, giftur eða í skráðri sambúð með foreldrinu. Af þessum 480 dögum eru annars 90 dagar ætlaðir hvoru foreldri og eru óframseljanlegir. Annað foreldrið getur síðan gefið hinu foreldrinu allt að 150 daga í þágu barnsins ef það nýtir ekki sína daga. Foreldrar geta verið saman í orlofi í allt að 30 daga. Mæður hafa alltaf tekið út meiri hlutann af þeim sameiginlegum dögum sem foreldrar hafa, en markmið löggjafavaldsins hefur lengi verið að foreldrar skuli eiga kost á að skipta dögunum jafnt.
Í Svíþjóð geta foreldrar valið hvernig þeir taka út foreldrapening. Það getur t.d. verið hluti úr degi, ákveðnir dagar í viku eða samfellt orlof í lengri eða skemmri tíma. Margir foreldrar geyma daga til þess að nota þegar barnið byrjar í leikskóla eða til þess að geta tekið lengra frí með börnunum þegar þau verða eldri. Mikil áhersla er á að auka rétt barna til samveru með foreldrum sínum.
Með sjálfstæðum rétti til foreldrapenings hafa sífellt fleiri, og lang flestir eitthvað, tekið út foreldradaga. Þetta hefur leitt til aukins jafnréttis í skiptingu fæðingarorlofsins í Svíþjóð. Árið 2017 höfðu um 40% sænska feðra tekið út minnst 90 daga við 2ja ára aldur barns. Á sama ári voru 28% af foreldraorlofsdögum teknir af feðrum og 72% af mæðrum. Mæður taka enn meira fæðingarorlof á fyrstu 2 æviárum barns (að meðaltali 14,5 mánuð og feður 3,8 mánuði) en feður taka frekar sína daga þegar börnin verða eldri.
Þessu til samanburðar taka um 90% feðra á Íslandi út sinn sjálfstæða rétt og vaxandi hlutfall foreldra skiptir umönnunni jafnt í framhaldi og eftir því sem barnið eldist. Einnig hafa íslenskar rannsóknir leitt í ljós að feður sem nýttu feðraorlof sýna vaxandi ákveðni í því að viðhalda tengslum og samskiptum við börn sín eftir skilnað. Þannig hefur fæðingarorlof beggja foreldra gildi bæði í þágu kynjajafnræðis, foreldrajafnréttis og fyrir tengsl barns og föður- til framtíðar.
Hin Norðurlöndin
Í Danmörku og Noregi er, líkt og í Svíþjóð, mikil áhersla á sveigjanleika þegar kemur að foreldraorlofi. Foreldrar geta valið hvernig þeir deila orlofinu á milli sín og hvort þeir geymi orlofsdaga þar til barnið verður eldra.
Í Danmörku eiga mæður rétt á fæðingaorlofi í fjórar vikur fyrir áætlaðan fæðingardag barns og í fjórtán vikur eftir fæðingu barns. Feður eiga rétt á tveggja vikna orlofi fyrstu 14 vikurnar eftir fæðingu barns. Foreldrar geta því fengið dagpeninga í 20 vikur samanlagt. Eftir 14 vikur eiga báðir foreldrar rétt á samanlögðu foreldraorlofi í allt að 32 vikur með daggreiðslum, það getur lengst verið 40 vikur en þá án greiðslna síðustu 8 vikurnar.
Í Noregi eiga foreldrar rétt á samanlagt 12 mánuðum í launað foreldraorlof. Foreldrar geta lengt orlofið um 10 vikur ef þau taka 80% orlof í stað 100%. Mæður og feður eiga sjálfstæðan rétt á 15 vikum hvor, 19 vikum ef þau taka 80% orlof. Restinni geta foreldrar deilt á milli sín eins og þeir vilja.
Á síðasta áratug hafa orðið miklar viðhorfsbreytingar í Svíþjóð þegar kemur að ábyrgð og þátttöku beggja foreldra í lífi barns. Með auknu svigrúmi á atvinnumarkaði og bættum réttindum foreldra hefur viðhorf almennings til þátttöku feðra í lífi barna orðið allt annað. Frá því sem áður þótti til eftirbreytni þykir nú sjálfsagt, þ.e. að feður séu jafnvígir mæðrum þegar kemur að umönnun ungbarna, þátttöku í leikskóla eða skólastarfi og fjarveru frá vinnu vegna veikinda eða frídaga barna. Flestir foreldra vilja nýta það tækifæri sem samfélagið veitir og tengjast barninu á fyrstu mánuðum lífs þess. Það þykir til fyrirmyndar í Svíþjóð ef foreldrar skipta orlofinu jafnt á milli sín, en ekki hafa allir tök á því vegna atvinnu eða náms. Þetta hefur m.a. í för með sér að ef foreldrar slíta samvistum velja flestir foreldrar að halda áfram að deila umönnun og ábyrgð á barninu jafnt á milli sín. Þannig er sameiginleg forsjá og jöfn búseta algengasta samvistafyrirkomulagið eftir skilnað í Svíþjóð, líkt og stefnir í hér á landi.
Það er jafnframt athyglisvert að í Svíþjóð eru feður oft í meirihluta þegar kemur að aðlögun barna á leikskóla þar sem mæðurnar hafa þá oft snúið aftur til vinnu. Á foreldrafundum eru ekki síður feður en mæður og sama má segja um íþróttaviðburði, leikvelli eða jafnvel biðstofu tannlækna og lækna.
Svíþjóð er fjölskylduvænt samfélag þar sem áherslan er á að börn og foreldrar geti varið miklum tíma saman. Leikskólar eru til dæmis aðeins hugsaðir fyrir börn á meðan foreldar vinna eða stunda nám og foreldrar ítrekað minntir á að ef foreldri á frí á barnið líka að vera í fríi.
Horft til framtíðar
Þau viðhorf foreldrajafnræðis og sveigjanleika í notkun foreldrastuðnings í þágu barna í nágrannalöndunum sem hér hefur verið lýst, eru til eftirbreytni fyrir íslenskt samfélag. Í okkar samfélagi er það einkum tvennt sem brýnt er að beita sér fyrir nú. Í fyrsta lagi lengt fæðingarorlof og stuðningur til að brúa bilið milli fæðingaorlofs og aðgengis að leikskóla, meðan þess er þörf, ásamt auknum sveigjanleika í nýtingu réttinda í þágu barnsins. Í öðru lagi þarf að vinna að enn skarpari viðhorfsbreytingu meðal fagfólks og foreldra um að setja hagsmuni barna ofar öðrum í meðferð mála og í ákvörðunum. Þessu þarf að fylgja eftir með þekkingarmiðlun, upplýsingum og áskorunum til stjórnmálamanna um að haga enn markvissar löggjöf og þjónustu til foreldra í þágu ungra barna.
Sigrún Júlíusdóttir er prófessor emerita við Háskóla Íslands, félagsráðgjafi og fjölskylduþerapisti hjá Tengsl og Sólveig Sigurðardóttir er félagsráðgjafi og sérfræðingur hjá Familjerätten, Lundi, Svíþjóð.