Davíð Oddsson var formaður Sjálfstæðisflokksins í fjórtán ár 1991-2005. Skömmu eftir formannskjör varð Davíð forsætisráðherra og gegndi embættinu í ríflega þrettán ár, lengst allra sem því embætti hafa gegnt. Tvennum sögum fer af áhrifum Davíðs á Sjálfstæðisflokkinn. Sumir flokksmenn gefa honum goðumlíka stöðu, segja að hann hafi hafið flokkinn til nauðsynlegrar hugmyndalegra endurnýjunar og ríkisstjórnarforystu eftir tímabil hugmyndafátæktar, fastur í hlutverki stjórnarandstöðuflokks. Davíð hafi verið bjargvættur flokksins – og reyndar þjóðarinnar í heild. Aðrir telja að Davið hafi vikið frá meginhugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, Sjálfstæðisstefnunni, og haldið á vit kredduhugmynda sem hafi einungis tímabundið styrkt flokkinn, fært honum völd og aukið fylgi.
Hinn hefðbundni Sjálfstæðisflokkur
Davíð Oddsson tók við formennsku í stjórnmálaflokki með langa sögu og ríkar hefðir. Lengst af var Sjálfstæðisflokkurinn fjarri því að vera frjálshyggjuflokkur sem stillti öllum ríkisafskiptum upp sem skerðingu á frelsi einstaklinga. Áherslur Sjálfstæðisflokksins sáust best á helstu slagorðum flokksins: „Ísland fyrir Íslendinga“ og „Stétt með stétt“. Bæði vísuðu til heildarhyggju og hagsmuna heildarinnar en ekki til eindreginnar einstaklingshyggju og óhefts einstaklingsfrelsis.
Davíð verður formaður og forsætisráðherra
Haustið 1988 sammæltust formenn Framsóknar og Alþýðuflokks um að rjúfa stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Í kjölfarið mynduðu flokkarnir tveir ríkisstjórn með Alþýðubandalagi og síðar einnig Borgaraflokki.
Margir Sjálfstæðismenn upplifðu stjórnarskiptin 1988 sem mikla niðurlægingu fyrir flokkinn almennt og flokksformanninn sérstaklega. Nauðsynlegt væri að fá nýjan og sterkari flokksformann sem yrði forsætisráðherra í stað hins vinsæla Steingríms Hermannssonar formanns Framsóknarflokksins.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1991 felldi Davíð Þorstein Pálsson, þáverandi formann flokksins. Því fer hins vegar fjarri að allir Sjálfstæðismenn hafi fagnað framboði og formennsku Davíðs. Þannig studdu nær allir þingmenn flokksins Þorstein. Svo var einnig um marga forvígismenn atvinnurekenda sem töldu hatrömm átök í formannskjöri myndu veikja flokkinn. Úrslitin í formannskosningunni á Landsfundinum voru enda tvísýn: Davíð hlaut 53% atkvæða en Þorsteinn 47%.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk góða kosningu í þingkosningum 1991, nær 40% atkvæða og 26 þingmenn. Davíð myndaði síðan samsteypustjórn með Alþýðuflokknum. Nýr formaður skilaði sem sagt flokknum skjótt bæði kosningasigri og forsæti í ríkisstjórn.
Á fyrstu árunum eftir formannskjör þurfti Davíð eins og fyrri formenn flokksins að deila völdum með ýmsum öðrum forystumönnum hans. Prófkjörin styrktu mjög athafnarými einstakra þingmanna sem unnið höfðu prófkjörssigra með eigin sveit stuðningsmanna og öflugri kosningabaráttu. Á fyrstu árum valdaferils Davíðs var staða Þorsteins Pálssonar mjög sterk, reyndar sterkari en nokkru sinni á formannsferlinum. Davíð neyddist því til að gefa Þorsteini sjálfdæmi um ráðherraembætti og valdi hann að verða ráðherra bæði dómsmála og sjávarútvegs. Eitt af fyrstu verkum Þorsteins í embætti dómsmálaráðherra var að skipa Pétur Kr. Hafstein, sýslumann, hæstaréttardómara – en Pétur hafði gagnrýnt opinberlega formannsframboð Davíðs. Af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hafði enginn stutt Davíð í formannskosningunni.
Varkár forsætisráðherra
Í embætti forsætisráðherra reyndist Davíð mjög næmur á eigin valdastöðu, takmarkanir jafnt og styrkleika eins og hann lýsti í blaðaviðtali:
„Starf forsætisráðherra sem stjórnandi er hins vegar allt annars eðlis en borgarstjóra. Það gengur mest út á að samræma sjónarmið manna sem eru jafnvel með ólíkan bakgrunn. Ég hef heldur ekki sama yfirburðar-valdið. Þar á ég við hið beina boðvald sem ég hafði sem borgarstjóri. Hver ráðherra í ríkisstjórn hefur fullt vald yfir sínu ráðuneyti. Að forminu til getur ráðherra ekki skipað honum fyrir. Þess vegna er vald forsætisráðherra fremur í formi áhrifavalds en boðvalds þótt hvort tveggja sé auðvitað fyrir hendi.“ (Frjáls verslun nr. 1 1996: bls. 33).
Að ýmsu leyti tók ríkisstjórnin 1991 við góðu búi. Árið 1990 voru sett ný lög um stjórn fiskveiða sem tryggðu ákveðinn stöðugleika í greininni þótt áfram geisuðu harðar deilur um framtíðarfyrirkomulag. Sama ár náðist svokölluð Þjóðarsátt þar sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu forgöngu um víðtæka samninga um kaup og kjör. Ríkisstjórnin tryggði stjórn efnahagsmála í samræmi við Þjóðarsáttina og að kjarasamningar hins opinbera væru innan ramma þeirra.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks boðaði einkavæðingu opinberra fyrirtækja og fjármálastofnana. Fátt var þar framkvæmt nema helst að þeir bræður Einar og Benedikt Sveinssynir fengu Síldarverksmiðjur ríkisins án þess að eiga hæsta tilboð og sumir kölluðu á gjafverði. Helsta framlag ríkisstjórnarinnar var að standa vörð um Þjóðarsáttina. Kjaradómur úrskurðaði í maí 1992 miklar kauphækkanir til handa alþingismönnum, ráðherrum, forseta Íslands og öðrum embættismönnum. Úrskurðurinn olli uppnámi í landinu öllu enda hafði stuttu áður verið samið um 1,7% hækkun launa á almennum vinnumarkaði. Alþingi var farið í sumarfrí þannig að ríkisstjórnin gaf út bráðabirgðalög með samþykki forseta Íslands, Vigdísar Finnbogadóttur. Hækkanir Kjararáðs voru ógiltar en allir hópar fengu sömu hækkun.
Fljótlega kom í ljós að Davíð og Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins og utanríkisráðherra voru mjög ósamstíga í ýmsum málum, og töluðust reyndar ekki við frá sumri 1993. Í kosningum 1995 hélt Sjálfstæðisflokkurinn sínu fyrra fylgi en Alþýðuflokkurinn beið mikinn ósigur. Flokkarnir tveir héldu meirihluta á Alþingi en Davíð hafnaði engu að síður áframhaldandi stjórnarsamstarfi en gekk til samninga við Framsóknarflokkinn.
Smám saman styrkist mjög staða Davíðs, bæði sem formanns og forsætisráðherra. Fleiri þingmenn urðu honum handgengnir; náinn bandamaður, Geir H. Haarde var formaður þingflokksins og Björn Bjarnason, stuðningsmaður Davíðs, ráðherra menntamála í stað Ólafs R. Einarssonar sem var í liði Þorsteins. Davíð ræktaði einnig mjög tengslin við ráðherra samstarfsflokksins, einkum og sérílagi við Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formann Framsóknarflokksins og gerði hann meðal annars að staðgengli sínum, í stað samráðherra forsætisráðherra eins og áður var ófrávíkjanleg regla.
Bjargvættur Sjálfstæðisflokksins
Á þessum árum var Davíð Oddsson fyrst og fremst í hlutverki landsföður sem boðaði bjartsýni, þjóðlega samstöðu, stöðugleika og hægfara breytingar, allt í samræmi við hina hefðbundnu Sjálfstæðisstefnu. Enginn vafi er á að þessi stefna og starfshættir voru sem fyrr ein helsta ástæðan fyrir velgengni Sjálfstæðisflokksins og kosningasigrum, bæði í borginni og í þingkosningum. Davíð Oddsson reyndist flokknum því mikill bjargvættur, fyrst með því að vinna aftur meirihlutann í Reykjavík árið 1982 og síðan sem formaður og forsætisráðherra á fyrstu átta árunum. Hápunkturinn var svo kosningasigurinn árið 1999 þegar Sjálfstæðisflokkurinn hlaut yfir 40% atkvæða og 26 þingmenn.
Sjálfstæðisflokkur gegn lýðræði og réttarríki
Eftir kosningasigurinn 1999 hófst hins vegar dökkur tími í sögu Sjálfstæðisflokksins. Undir forystu Davíðs tók flokkurinn upp markvissa baráttu gegn undirstöðum lýðræðis og réttarríkis á Íslandi. Áður hafði fyrirgreiðsluvald stjórnmálaflokkanna ekki náð til Hæstaréttar eða fréttastofu ríkisútvarpsins – stofnana þar sem starfsmönnum bar skylda til faglegra vinnubragða. Dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins skipuðu nú tvo miður hæfa umsækjendur í embætti Hæstaréttardómara og einn í embætti Héraðsdómara. Allir voru þeir tengdir Davíð: einn var frændi, annar einkavinur og hinn þriðji sonur. Gengið var fram hjá hæfustu umsækjendum í starf fréttastjóra útvarpsins.
Árið 2003 ákváðu forsætisráðherra og utanríkisráðherra upp á sitt eindæmi að styðja innrás Bandaríkjanna í Írak. Ísland gerðist þar með fyrsta sinni aðili að styrjaldarrekstri. Ekki var haft lögbundið samráð við utanríkismálanefnd Alþingis heldur gripið til þeirrar haldlausu lögskýringar að ekki væri um að ræða meiriháttar ákvörðun í utanríkismálum!
Málaferlin gegn Baugi og fjölmiðlafrumvarpið afhjúpuðu markvissa viðleitni til misbeitingar valds. Aðaleigendur Baugs, Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, voru meintir óvinir Davíðs Oddssonar. Þeir áttu meðal annars fjölmiðlafyrirtæki með útvarps – og sjónvarpsrekstur og stofnuðu dagblað, Fréttablaðið, sem náði meiri útbreiðslu en Morgunblaðið, sem var nátengt Sjálfstæðisflokknum. Á þingi lagði forsætisráðherra fram frumvarp um fjölmiðla. Í upphaflegri gerð þess voru lagðar hömlur á prentfrelsi en að kröfu utanríkisráðherra voru þau ákvæði tekin út. Eftir stóð hins vegar frumvarp sem hefði svipt Baugsfeðga eignarhaldi á sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Skoðanakannanir sýndu yfirgnæfandi andstöðu almennings við frumvarpið og á skömmum tíma söfnuðust undirskriftir um 32.000 kjósenda – um 15% kjósenda á kjörskrá í landinu – þar sem skorað var á forseta Íslands á beita 26. gr. stjórnarskrárinnar og neita að staðfesta fjölmiðlalögin.
Í viðtali við Ríkisútvarpið 25. maí 2004 taldi forsætisráðherra „að mikill vafi léki á um hvort forseti Íslands hefði yfirhöfuð vald til að synja staðfestingu lagafrumvarps sem Alþingi hefði samþykkt. Færustu lögspekingar deila mjög mikið um það. Ég hef ekki enn þá tekið afstöðu til þess hvernig ég ætti að kanna það, en það kæmi sennilega í minn hlut að kanna það lögfræðilega.“
Um svipað leyti fullyrti Davíð við fjölmarga – þar á meðal forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson – „að Baugsmenn yrðu allir komnir í tukthúsið um haustið, enda væri um stærsta svikamál Íslandssögunnar að ræða.“ (Guðjón Friðriksson: Saga af forseta – bls. 330).
Forseti Íslands neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin sem Alþingi hafði samþykkt. Þau voru síðan dregin til baka enda ljóst að þau yrðu kolfelld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einn Baugsmanna, Jón Ásgeir Jóhannesson, var síðar sakfelldur fyrir bókhaldsbrot og dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Í tukthús fór enginn - þvert á fullyrðingar forsætisráðherra.
Fall byltingarmanns
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1999 opinberaði Davíð Oddsson draum sinn um eignargleðina, einkavæðingu og byltingu á Íslandi:
„Ýtt hefur verið undir það að sem flestir Íslendingar hafi beina hagsmuni af góðum rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, sem og fyrirtækja almennt. Í þeim efnum hefur orðið bylting á Íslandi á undanförnum árum. Það sást síðast við sölu á hlutabréfum í Búnaðarbanka Íslands og almenningur er mjög vel á prjónunum og vill, fyrir sitt leyti, taka þátt í þeirri einkavæðingu sem fram fer á vegum ríkisstjórnarinnar. Það á að ýta undir eignargleðina meðal Íslendinga, því ríkari sem eignargleðin verður, því minna svigrúm hefur öfundin. Því minna svigrúm, sem öfundin hefur, því minni markaður fyrir óábyrga vinstri flokka.” (Morgunblaðið 12. mars 1999).
Hefðbundin stefna Sjálfstæðisflokksins hafði boðað þýðingarmikið hlutverk ríkisvaldsins og blandað hagkerfi einkarekstrar og hins opinbera. Hlutverk ríkisvaldsins væri fyrst og síðast að tryggja stöðugleika og öryggi í þjóðfélaginu. Nú skyldi þessari stefnu varpað fyrir róða fyrir kenningu um að hið eina og sanna frelsi fælist í óskoruðu athafnarými einkaaðila á markaði. Regluverk hins opinbera með markaði skyldi vera sem minnst og öll álitamál túlkuð markaðsöflum í vil.
Fljótlega var horfið frá öllum fyrirheitum forsætisráðherra og ríkisstjórnar um sölu ríkisbankanna til almennings og að enginn einkaaðili hefði yfirráð yfir fyrrum ríkisbönkum. Í staðinn var notuð gamalkunnug helmingaskiptaregla þar sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur skiptu bönkunum á milli sín. Flokksformennirnir, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, beinlínis handstýrðu sölu bankanna á vildarverði til skjólstæðinga flokkanna tveggja. Sjálfstæðismenn fengu Landsbankann en Framsóknarmenn Búnaðarbankann og Vátryggingarfélag Íslands sem áður var í eigu Landsbankans.
Eins og sannir byltingarmenn hófu stuðningsmenn Davíðs að hreinsa til og losa sig við þingmenn sem reyndust ekki nógu eindregnir í eignargleðisbyltingunni. Sérstaklega voru þingkonur flokksins litnar hornauga og þrjár þeirra voru hreinsaðar út í prófkjöri í Reykjavík. Niðurstöðunni var sérstaklega fagnað af dyggum stuðningsmanni Davíðs í blaðagrein: „Bardagamennirnir sigruðu“: Þar segir m.a. :
„Það er liðin tíð að Sjálfstæðisflokkurinn geti leyft sér að að tefla fram hálfgerðum dulum, sem hafa það helst sér til ágætis, að því er virðist, að hafa verið duglegar við að færa til stóla í flokksstarfinu. Og núna dugir greinilega ekki að lengur að hafa gegnt formennsku í Hvöt eða Landssambandi sjálfstæðiskvenna. Tími slæðukvennanna er liðin.” (Viðskiptablaðið 22. nóvember – 3. desember 2002).
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði miklu fylgi – fékk tæplega 34% atkvæða í stað rúmlega 40% áður. Þingkonum Sjálfstæðisflokksins fækkaði um helming, urðu fjórar í stað átta áður. Ofan á fylgistap flokksins bættist sú staðreynd að Framsóknarflokkur og Samfylking höfðu nú saman meirihluta á Alþingi. Í fyrsta sinn í sögu íslenska lýðveldisins var mögulegt að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka án Sjálfstæðisflokksins. Til að halda flokknum í ríkisstjórn þurfti Davíð að gefa eftir forsætisráðherraembættið til Halldórs Ásgrímssonar en varð sjálfur utanríkisráðherra. Davíð lét af formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi 2005 en var sama ár skipaður aðalbankastjóri Seðlabankans.
Það fjaraði undan veldi Davíðs og Sjálfstæðisflokksins.
Bjargvættur eða skaðvaldur?
Fram til 1999 reyndist Davíð Oddsson, að mínu mati, bjargvættur fyrir Sjálfstæðisflokkinn og frekar farsæll forsætisráðherra. Á þessum tíma fylgdi Sjálfstæðisflokkurinn í verki nokkuð hefðbundinni stefnu og reyndi sérstaklega að höfða meira til kvenna. Afraksturinn var sigur flokksins í þingkosningum 1999. Á þessum árum deildi Davíð völdum með öðrum forystumönnum flokksins. Eftir kosningarnar 1999 varð Davíð nánast einráður í flokknum; gerð var krafa um skilyrðislausa hollustu við foringjann og hreinsað til í þingflokknum. Davíð Oddsson efndi til átaka við forseta Íslands og eigendur einkafjölmiðla í landinu. Gerð var atlaga að dómstólum og ríkisútvarpinu. Einráður í Sjálfstæðisflokknum og í bandalagi við formann Framsóknarflokksins hóf hann vegferð einkavinavæðingar og auðvaldsdekurs. Eftir einkavæðingu bankanna léku bankarnir lausum hala án þess að opinberir aðilar hefðust neitt að til að hemja gegndarlausa útþenslu þeirra. Afleiðingin var Hrunið 2008. Rannsóknarskýrsla Alþingis leiddi glögglega í ljós að Hrunið var í sérlegu boði íslenskra stjórnvalda, fjármálastofnana og eftirlitsaðila. Reyndar er íslenska Hrunið eina dæmið um fjármálakerfi í lýðræðisríki sem hrynur undan þunga innlendrar spillingar, vanhæfni, frændhygli og fúsks valdhafa í stjórnmálum og fjármálakerfi. Heimskreppa og/eða styrjaldir komu þar ekki við sögu.
Eftir Hrunið missti Sjálfstæðisflokkurinn mikið fylgi. Nýr formaður, Bjarni Benediktsson, var kjörinn í mars 2009. Undir hans forystu virðist fylgistapið orðið varanlegt. Í undanförnum kosningum hefur flokkurinn fengið um 25% atkvæða. Skoðanakannanir mæla nú fylgi hans í kringum 20%, eða helming þess fylgis þegar mest var. Fylgisgrunnur flokksins er þrengri en áður; yngri kjósendur kjósa hann miklu síður en eldra fólk, tekjuhærri hópar miklu fremur en þeir tekjulægri og karlar frekar en konur. Tveir nýir stjórnmálaflokkar, Viðreisn og Miðflokkurinn, sækja á fyrrum kjósendamið Sjálfstæðisflokksins.
Í stefnuáherslum sínum er Sjálfstæðisflokkurinn enn flokkur Davíðs Oddssonar þar sem kreddur eignargleði, einkavæðingar og þjónusta við útgerðarauðvaldið ræður för. Dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins halda áfram að hafna sjálfstæðum dómstólum en krefjast í staðinn fullveldis flokksins og rétt ráðherra til geðþóttaákvarðana við skipan dómara. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn og sér ekki burði til að hrinda þessum stefnumálum I framkvæmd. Hann hefur hins vegar gjarnan getað treyst á stuðning annarra flokka – nú VG og Framsóknarflokksins.
Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.