Eftir að lóðarvilyrði fyrir svokölluðu lífhvolfi eða Aldin Biodome var samþykkt á Stekkjarbakka í jaðri Elliðaárdalsins hefur mikil umræða farið fram. Í Vikulokunum síðastliðinn föstudag á Rás 1 bar þetta mál á góma og þá sérstaklega sú krafa meðal íbúa að fá íbúakosningu um þegar samþykkt deiliskipulag á þessu svæði. Þá skrifaði Stefán Jón Hafstein nýverið ágæta grein um málið í Kjarnanum. Félagsskapurinn Vinir Elliðaárdalsins stóðu fyrir söfnun undirskrifta á Island.is og skrifuðu 9.003 Reykvíkingar undir. Það að slíkur fjöldi fólks sé tilbúinn að leggja nafn sitt við málstaðinn hlýtur að gefa borgaryfirvöldum tilefni til þess að gaumgæfa málið, jafnvel þó að fjöldinn nái ekki þeim 18.000 sem krafist er til þess að knýja fram kosningu. Þess má þá geta að að mati undirritaðra er þröskuldurinn til þess að knýja fram íbúakosningu – sem vel að merkja er lögum samkvæmt aðeins ráðgefandi – allt of hár.
En er íbúakosning endilega málið?
Íbúakosning er eins og hamar. Hann kemur að góðum notum þegar maður þarf að reka inn nagla en er óhentugur fyrir aðra og fínlegri vinnu. Nú þegar þróunin hefur orðið sú að íbúakosningar eru í hugum flestra samheiti íbúalýðræðis – en ekki bara eitt afbrigði af mörgum – þá sannast hið fornkveðna: Ef eina verkfærið sem þú átt er hamar, þá líta öll vandamál út eins og naglar.
Það eru ýmsir gallar við íbúakosningar. Oft reynist erfitt að sníða þær þannig að ljóst sé hverjar niðurstöðurnar eru eða hvernig þær endurspegla afstöðu almennings. Núverandi tillaga, sem snýr að kosningu um hvort íbúar í Reykjavík séu fylgjandi eða andvígir breytingu á deiliskipulagi fyrir Stekkjarbakka þróunarreit 73 (Þ73), myndi ekki endilega taka til einstakra framkvæmda eða lóðaúthlutunar. Vissulega hefur þó nokkur styr staðið um þetta tiltekna svæði meðal fólks og oft virðist ágreiningurinn vera hvort það sé hluti af Elliðaárdalnum eða fyrir utan hann. Sumir kunna að vera vel sáttir við uppbyggingu á reitnum en eru ekki spenntir fyrir tilteknum vilyrðum sem hafa verið samþykkt. Aðrir gætu verið andvígir allri uppbyggingu og myndu vilja sjá allt annað deiliskipulag sem myndi ekki heimila uppbyggingu yfirhöfuð. Engu að síður myndi fólk vilja kjósa um deiliskipulagið en út frá afar ólíkum forsendum. Og því yrði niðurstaðan, hver svo sem hún yrði, ráðgáta þar sem erfitt gæti reynst að leysa úr hver raunverulegur vilji fólks er.
Skoðanaskipti
Hægt væri að leita ýmissa annarra leiða til þess komast að niðurstöðu um svæðið enda getur íbúasamráð tekið á sig ýmsar myndir. Núna nýlega stóð forsætisráðuneytið fyrir svokallaðri rökræðukönnun um breytingar á stjórnarskrá með verulega góðum árangri. Markmið rökræðukönnunar er að komast að því hvort, og þá hvernig, fólk skiptir um skoðun þegar það fær tækifæri til þess að kynna sér málefnið sem til umræðu er. Í íbúakosningu fáum við engar slíkar upplýsingar.
Einnig mætti hugsa sér íbúaþing eða ráð, þar sem íbúar eru valdir slembiúrtaki til þess að taka málefni fyrir og ræða það í þaula. Vel væri hægt að hugsa sér slíkt þing sem tæki fyrir græn svæði í borgarlandinu. Þá væri hægt að ræða gildi og almenna afstöðu frekar en að taka fyrir einstök mál. Hægt væri að ræða hvernig við viljum hafa grænu svæðinu okkar, hve stór þau ættu að vera og hvaða þjónustu, ef einhverja, ætti að veita innan þeirra.
Kannski myndi slíkt þing skila þeirri niðurstöðu að lífhvolf myndi auðga lífið í Elliðaárdalnum, trekkja fleiri að og hvetja til útivistar í nærumhverfi hvolfsins. Eða kannski myndi þingið komast að þeirri niðurstöðu að við ættum ekki að fara í slíkar byggingarframkvæmdir heldur frekar að vinna að stækkun almennra grænna svæða, jafnvel að breikka út útivistarsvæði Elliðaárdalsins.
Slíkar niðurstöður fengjum við aldrei með einfaldri íbúakosningu. Með því að nýta betur öll þau verkfæri íbúasamráðs sem þróuð hafa verið getum við unnið að niðurstöðu í sátt við borgara og umhverfi. Og Reykjavíkurborg getur sýnt að hún stendur í fremstu röð borga heims hvað varðar lýðræðisstarf sem á að vera leiðarstef í mótun borgarinnar til framtíðar.
Líf Magneudóttir er oddviti Vinstri grænna í Reykjavík og Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson er ritari Vinstri grænna í Reykjavík.