Fyrir skömmu hlýddi ég á útvarpsþátt Ævars Kjartanssonar og Halldórs Björnssonar um loftslagsmál. Viðmælandinn var Eggert Benedikt Guðmundsson forstöðumaður Grænvangs sem er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífsins um loftslagsmál og grænar lausnir. Að vonum var þátturinn hinn áhugaverðasti og ljóst að viðmælandinn var skýr og skorinorður og eflaust vel starfi sínu vaxinn. Umræðurnar voru lengst af fyrst og fremst tengdar loftslagsmálum og þeim verkefnum sem unnið er að á vettvangi Grænvangs. Undir lok viðtalsins varð viðmælanda tíðrætt um stóru myndina og lýsti ánægju með þá framþróun sem hann taldi mannkynið vera á. Hann taldi að loftslagsmálin væru bara tímabundið og afmarkað verkefni sem þjóðir heimsins yrðu næstu ár og mögulega áratugi að leysa og síðan yrði bara buissness as usual.
Ég verð að játa að ég hef miklar áhyggjur ef viðhorf Eggerts Benedikts er lýsandi fyrir afstöðu atvinnulífsins og stjórnvalda. Því miður óttast ég að svo sé. Við nútímafólk erum ótrúlega viðkvæm fyrir því að gagnrýna þann lífsmáta sem við flest lifum. Ég er auðvitað fyrst og fremst að tala um okkur ríka og góða fólkið. Að halda því fram að mannkynið hafi aldrei haft það betra en nú um stundir er álíka siðblint viðhorf og að tala um að raunveruleg fátækt ríki á Íslandi.
Það má að sumu leyti líkja ástandi jarðar við fallega einbýlishúsið okkar þar sem allt er óaðfinnanlegt innandyra og götumyndin af húsinu gallalaus. En þegar betur er að gáð er bakhliðin farin að láta mikið á sjá, málningin flögnuð af og rennan ryðguð. Gróðurinn í garðinum að mestu dauður, þó gervitrén sem sjást frá götunni lúkki frábærlega. Og þó að það þurfi mánaðarlega að hreinsa skolplögnina sér það enginn né heldur hvernig sjóða verður allt vatn til drykkjar. En meðan við lítum vel út á Instagram er allt í fína.
Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert að vinna að minnkun gróðurhúsalofttegunda, með orkuskiptum o.fl. aðgerðum og ekki síður vinna þær úr loftinu með skógrækt, niðurdælingu og fleiri aðgerðum sem tækni framtíðarinnar ber sem betur fer í skauti sér. En að berjast ekki á sama tíma fyrir breyttri hegðan okkar mannskepnunnar m.a. með gjörbreyttu byggðamynstri og skipulagi borga og þar með stórminnkuðum ferðum vegna vinnu og afþreyingar, endurskoðun á matvælaframleiðslu með því að gera hlut matvæla neðar úr fæðukeðjunni stærri en nú er, eðlisbreytingu á atvinnuskipulagi með t.d. fjögurra daga vinnuviku og sex tíma vinnudag að markmiði auk gjörbreytingar á skilgreiningu okkar á nær allri framleiðslu m.t.t. umbúða og endurnýtingar að ógleymdri endurskilgreiningu okkar á hagvexti og hagsæld, er óafsakanleg skammtímahyggja.
Ef við meinum eitthvað með því að gera líf okkar á Jörðina sjálfbært er okkur lífsnauðsynlegt að taka upp eiginlegt hringrásarkerfi á nær öllum sviðum. Við eigum ekki að sætta okkur við að hægt sé að framleiða nánast hvað sem er án þess að hugsað sé fyrir afdrifum vörunnar að notkun lokinni. Við verðum að skylda framleiðendur til að gera grein fyrir hvernig hver einasti hlutur viðkomandi vöru skal flokkaður og endurunninn. Og ekki bara það heldur að tryggja að til staðar séu innviðir sem geti tekið við og endurunnið viðkomandi hluti á þeim mörkuðum sem selt er inná. Við verðum að hefja raunverulega flokkun á upprunastað þ.e. inná heimilunum og í fyrirtækjunum. Þetta verður að gera með því að hætta að líta á umbúðir og úrsérgengna vöru sem sorp en þess í stað gera úr því verðmæti.
Við verðum að horfast í augu við að það frelsi sem við höfum tileinkað okkur síðustu fimmtíu til hundrað árin fær ekki staðist. Við höfum ekki kunnað með það að fara. Þess vegna verða að koma til takmarkanir og oft á tíðum bönn við því óhófi sem við höfum staðið fyrir í nafni viðskiptafrelsis og birtist m.a. í framleiðslu óumhverfisvænna vara og óstjórnlegum flutningum um heiminn þveran og endilangan. Þar hefur íslenskt atvinnulíf og íslensk stjórnvöld verk að vinna, ekki einungis á heimavelli heldur sem leiðandi þjóð meðal þjóða.
Þegar atvinnulífið og stjórnvöld hafa sýnt í verki að þau séu tilbúin að leiða slíka þróun höfum við efni á að tala með stolti um stóru myndina, fyrr ekki.
Höfundur er heimsborgari.