Áður en lýðræði leit dagsins ljós út um heiminn, þótti eðlilegt að löndum væri stjórnað af kóngum. Landið var hans löglega eign og þegar hans tími kom, erfði sonur hans landið. Allt þetta var mjög eðlilegt, landið er þeirra eign og auðvitað á það að erfast eins og hver önnur eign. Það lá í augum uppi að kóngurinn réð lögum og lofum í sínu landi enda var það hans réttur. Kóngurinn þurfti ekki að fara eftir lögum, hann var lögin.
Maður þurfti að vera mjög róttækur til að segja upphátt að kóngurinn ætti ekki að hafa þetta vald yfir lífi fólksins. Það var litið á mann sem fávita ef maður hélt því fram að kóngurinn ætti ekki að hafa fullt vald í sínu landi, rétt eins og húsbóndinn hafði fullt vald inni á sínu heimili.
Annað fyrirkomulag leit þannig út, að valdi konungsins var dreift milli allra landeiganda landsins. Landeigendur komu saman og stjórnuðu því hvernig landinu, sem þeir áttu í sameiningu, var stjórnað. Ríkisstjórnir voru kosnar af eigendum landsins rétt eins og í einkahlutafélagi, og ákvarðanir voru teknar með þeirra hagsmuni í huga.
Þetta fyrirkomulag er með galla sem eru augljósir fyrir okkur í dag. Þegar fáir aðilar ráða öllu munu þeir stjórna landinu sér í hag. Þetta eru, nánast samkvæmt skilgreiningu, ríkustu einstaklingar landsins og munu þeir því móta landið í hag þeirra ríku. Við sættum okkur ekki við það! Við sættum okkur ekki við að við fáum ekkert um það segja hverjir stjórna landinu. Okkur er sama um þau rök að þeir eigi landið og að það sé brot á eignarrétti þeirra að taka ákvörðunarvaldið úr þeirra höndum. Allir fá atkvæðarétt, eitt atkvæði á manneskju, ótengt því hversu mikið þau eiga í landinu. Við eigum rétt á því að kjósa inn á Alþingi af því að ákvarðanir þess hafa áhrif á okkar líf.
Við hreykjum okkur af því að vera lýðræðislegt samfélag, en hunsum þann stað samfélagsins þar sem við eyðum stærsta hluta okkar vakandi lífs: vinnustaðinn. Um leið og við mætum í vinnuna stígum við inn í lítinn ólýðræðislegan heim þar sem litlir einræðisherrar ráða öllu. Þeir ákveða hvað við gerum, hvernig við gerum það og hvað er gert við verðmætin sem við sköpum. Okkar skoðun skiptir ekki máli enda er það eigandi fyrirtækisins sem á þetta allt. Fyrirtækið er hans eign og getur hann gert nánast hvað sem hann vill við það. Og þegar eigandinn deyr mun eignin erfast rétt eins og hver önnur eign.
Það er ljóst að atvinnurekendur hafa mikið vald á þínu lífi. Með því að ákveða launin þín hafa þeir bein áhrif á þín lífsgæði. Atvinnurekandi getur misnotað þig, hótað þér, brotið á þér og rekið þig. Þó það væri gegn lögum eða kjarasamningum, ef þú vilt gera eitthvað í því og sækja þinn rétt, þá geta þeir eyðilagt þitt líf og starfsferil. Atvinnurekendur þekkja aðra atvinnurekendur og þeir tala saman. Ef þú stendur upp fyrir þínum réttindum getur þinn atvinnurekandi látið það fréttast út að það sé erfitt að vinna með þér og að aðrir eiga ekki að ráða þig í vinnu. Innflytjendur hafa það ennþá verra og hefur maður heyrt margar hryllingssögur.
En vandamálið er dýpra en þetta. Samfélagið okkar er lýðræðislegt að forminu til, en atvinnurekendur hafa mikið vald yfir því hvernig því er stjórnað. Við búum í samfélagi þar sem litið er upp til fólks sem græðir mikinn pening. Það er tekið mark á skoðunum þess og þær skoðanir eru sýnilegastar í fjölmiðlum og í tali þingmanna.
Það er óþarfi að færa frekari rök fyrir því að fjölmiðlar tali almennt fyrir hag þeirra ríku; nóg er að benda á að það eru þeir ríku sem eiga fjölmiðlana. Þannig hafa þeir ríku tækifærin og getuna til að móta umræðuna í samfélaginu sér í hag.
Auðmenn og fyrirtæki geta fjármagnað og styrkt stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn, beint eða óbeint. Hversu margir eiga hundruð þúsunda króna afgangs til að gefa stjórnmálaflokkum? Á sama tíma getur eitt útgerðarfyrirtæki eytt næstum því 3 milljónum í að halda þingflokkunum á sinni hlið. Árið 2017 var þriðjungur af öllum styrkjum til þingflokka frá útgerðarfyrirtækjum. Hvernig á almennt vinnandi fólk að keppa við það þegar því eru borguð fátæktarlaun?
Á orði eigum við öll jafna rödd í lýðræðinu. En ef sumir geta borgað til að gera rödd sína hærri en hinar þá erum við ekki með lýðræði.
Á meðan við höfum ekki efnahagslegt lýðræði mun ójöfnuðurinn alltaf grafa undan pólitíska lýðræðinu. Það að rífast um hvort ríkið eiga að hafa meira eða minna vald á efnahagskerfinu er að misskilja vandamálið. Sú umræða á að eiga sér stað eftir að við ræðum um ákvörðunarvaldið sem starfsfólk á að hafa yfir sinni eigin vinnu.
Starfsfólk myndi ekki kjósa að að flytja störfin sín út úr landi. Starfsfólk myndi ekki að kjósa að láta sig lifa á fátæktarlaunum og starfsfólk myndi ekki kjósa að gefa forstjórum ofurlaun. Starfsfólk myndi ekki kjósa að skemma náttúruna í umhverfinu sem það býr í, og starfsfólk myndi ekki segja upp fjölda fólks til að halda uppi hámarksgróða.
Í flestum löndum Evrópusambandsins og EES getur starfsfólk, í misstórum fyrirtækjum, kosið sér fulltrúa í stjórnir fyrirtækjanna þar sem það starfar. Atvinnulýðræði eru réttindi á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi og er Ísland í minnihluta ríkja EES þar sem fólk hefur ekki þessi réttindi. Í þessum löndum skipar starfsfólk þó aðeins hluta af stjórn og er rétturinn bundinn við ákveðna stærð fyrirtækja. Þetta fyrirkomulag kemur ekki í stað raunverulegs lýðræðis þar sem fyrirtæki eru í lýðræðislegri eigu starfsfólks, en það er til skammar að við séum ekki með þau lýðræðislegu réttindi sem okkar nágrannar hafa átt í meira en hálfa öld. Við getum ekki lengur hunsað efnahagslegt lýðræði! Það er löngu tímabært að við fáum þessi sömu réttindi og nágrannar okkar. Það er tímabært að lýðræðisvæða vinnustaðinn!
Höfundur er stjórnarmaður í VR.