Legg við, faðir, líknareyra,
leið oss einhvern hjálparstig;
en viljirðu ekki orð mín heyra,
eilíf náðin guðdómlig,
skal mitt hróp af heitum dreyra
himininn rjúfa kringum þig.
Svona orti Bólu-Hjálmar 1851 og kallaði eftir hjálpræði guðs við þjakaða þjóð. Þá voru tímar guðsótta og vondra siða. Það þurfti kjark og mannlega reisn til að hóta guði að rjúfa himininn í kringum hann ef ekki raknaði úr neyðinni.
Nú er tilefni til að rjúfa varnarmúra pólitíkusa og embættismanna sem skýla sér bak við lagabókstafi og stjórnsýslureglur til að fremja óhæfuverk, að senda börn í vonlausar aðstæður í Grikklandi eftir að hafa stundað á þeim andlegar pyndingar dögum og vikum saman. Enn mun barn vera í meðferð vegna taugaáfalls á BUGL eftir þær aðfarir.
Varnarmúrar lagabókstafs og stjórnsýslu firra engan ábyrgð. Þeir eru birtingarmynd lágkúru illskunnar sem er ágæt þýðing á einu merkasta hugtaki stjórnmálaheimspeki 20. aldar, „banality of evil“ sem Hannah Arendt notaði um Adolf Eichmann, dyggan embættismann Hitlers sem vann að því að skipuleggja útrýmingarbúðir þriðja ríkisins (Þýðing hugtaksins er í afbragðsgóðum inngangi Sigríðar Þorgeirsdóttur að úrvali úr verkum Arendt: Af ást til heimsins, Himspekistofnun – Háskólaútgáfan, Reykjavík 2011. Kjarngóð útlistun hugtaksins er á bls. 40 í inngangi Sigríðar).
Hann hlýddi skipunum stjórnvalda og taldi sig því vera að gera rétt. Með því aftengdi hann eigin hugsun, skýldi sér á bak við valdboð og hlýddi í blindni.
Bólu-Hjálmar reis gegn trúarbókstafnum. Nú þurfum við að rísa gegn þeim embættismönnum og stjórnmálamönnum sem fela sig bak við lagabókstafi.
Lög og túlkun þeirra eru mannasetningar sem eiga að lúta almannavilja. Þegar þau eru notuð til illra verka sem ganga heimskulega í berhögg við hugmyndir langflestra um mannúð og náungakærleika þarf að breyta þeim, setja þá af sem skýla sér á bak við þau og leggja niður stofnanir sem virðast hafa það hlutverk eitt að níðast á fólki. Lög og framkvæmd þeirra verða að endurspegla hugmyndir almennings um mannúð og náungakærleika.
Lágkúru illskunnar verður varla aftur beitt til að smala fólki í gasklefa en váleg teikn eru þó á lofti. Evrópubúum fækkar og flóttafólki fjölgar vegna umhverfishamfara og stríðsátaka. Þá grípa öfgahópar til vanhugsaðra aðgerða til varnar ímynduðum verðmætum á borð við kynþætti og „þjóðmenningu“. Og ekki er útilokað að Íslendingar sjálfir þurfi að flýja landið ef allra verstu afleiðingar loftslagsbreytinga verða að veruleika. Hvernig sem það veltist væri landsmönnum hollt að hugleiða þann möguleika.
Mannúð og skynsemi verða að ráða. Framkoma okkar við flóttamenn og börn þeirra er prófsteinn á mennsku okkar og vitsmuni því lágkúra illskunnar sprettur af hreinni heimsku og getuleysi til að sjá hlutina í samhengi. Getuleysi sem felur í sér rótgróna kreddufestu og hugsunarleysi sem oft er ruglað saman við skynsemi.
Grundvallaratriðin í þessu máli – spurningin um það hvort mannúð og bræðralag eigi að víkja fyrir kaldrifjaðri þjónkun við bókstafinn – eru svo djúpstæð í samhengi mannlegs samfélags að framtíð þess er í húfi.
Þess vegna ætti þetta mál að vera tilefni stjórnarslita ef því er að skipta og stjórnmálamenn sem láta þetta yfir sig ganga verða örugglega dæmdir af þeim heigulshætti, ekki síst þeir sem kenna sig við einhvers konar samfélagslegt réttlæti frekar en kreddur lagatækni og auðræðis.
Stjórnmálamenn sem skreyta sig með guðstrú eða kirkjurækni þurfa að heyra þetta líka. Vel mætti kaffæra þá rækilega með biblíutilvitnunum um kærleiksboðskap Krists og framkomu við börn og okkar minnstu bræður.
Verði börnin send úr landi á næstu dögum ber öll ríkisstjórnin ábyrgð á því og allir þingmenn sem hana styðja.
Nú verður almenningur að rísa upp og koma í veg fyrir þessa óhæfu.
MÆTUM Á MÓTMÆLAGÖNGU FRÁ HLEMMI Á MÁNUDAGINN KL. 17.30.
MINNUMST REISNAR BÓLU-HJÁLMARS OG LÁTUM HRÓP AF HEITUM DREYRA RJÚFA VARNARMÚRA ILLSKUNNAR!