Þessa stundina eru kjaraviðræður í gangi. Þetta eru hópar sem hafa hvað minnst á milli handanna og eiga erfitt með að ná endum saman hver mánaðamót. Ég hef því velt fyrir mér stöðunni á húsnæðismarkaði þegar kemur að útgjöldum heimila með lágar tekjur. Hvað varð til þess að nafnverðshækkanir á húsnæði hækkaði eins og raun ber vitni á árunum eftir hrun.
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands
Eftir mikinn samdrátt á nýbyggingum á fyrstu árunum eftir hrun þá varð strax ljóst að skortur væri framundan á íbúðum. Margir höfðu misst sitt eigið húsnæði og sátu eftir með lítinn eða engan sparnað. Þessar íbúðir enduðu hjá fjármálastofnunum. Í gegnum fjárfestingaleiðina er alveg ljóst að þeir sem komu með fjármagn í gegnum hana keyptu upp þessar íbúðir enda var öllum ljóst að skortur væri framundan og það var hvergi betri leið til þess að ávaxta féð en á íbúðamarkaði. Þannig að fjárfestingaleið Seðlabankans hafði augljóslega áhrif á hækkun nafnverðs íbúða. Fjármagn sem kom á 20% afslætti inn í landið. Það má því segja að þeir sem komu inn með þetta fjármagn hafi dottið í lukkupottinn. Þó svo að útboðin hafi verið tvö þá var ekkert því til fyrirstöðu að gera framvirka samninga við lífeyrissjóði eða aðrar fjármálastofnanir á meðan beðið var eftir útboðinu og þannig náð að fjármagna kaup á þessum eignum.
Íbúðalánasjóður
Til þess að átta sig á samhenginu þá verður að telja til þær eignir sem Íbúðalánasjóður fékk í fangið eftir hrun. Því hækkun á nafnverði tengist því að þá sé eitthvað framboð til staðar. Aðilar sem koma með mikið fjármagn í gegnum fjárfestingaleiðina ryðja í burt þeim sem misstu sitt eftir hrun. Í raun átti það fólk aldrei möguleika gegn þessum aðilum. En af hverju þessi leynd yfir Íbúðalánasjóði? Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins virðist vera sá eini sem lætur sér þetta varða og verð ég að hrósa honum fyrir það. Hér ætla ég því að henda fram nokkrum spurningum til Íbúðalánsjóðsins (HMS):
- Hverjir fengu þessar eignir og á hvaða kjörum?
- Af hverju var sjóðurinn að lána félögum eins og Heimavöllum sem er leigufélag og stefndi á að skrá sig í Kauphöllina?
- Eru aðilar tengdir sjóðnum að fá lán til þess að kaupa íbúðir til útleigu?
- Getur verið að skilyrðin fyrir óhagnaðardrifin leigufélög séu bitlaus, það er, hægt að taka út söluhagnað síðar meir?
- Hvar eru stærri ákvarðanir teknar innan sjóðsins?
Verkalýðsfélögin hafa verið að kvarta undan framgöngu leigufélaganna á síðustu misserum. Því er síðasta spurningin nokkuð forvitnileg. Núverandi forseti ASÍ sat einmitt í stjórn Íbúðalánasjóðs á þessum árum. Gæti hún upplýst okkur hvað þarna fór fram?
Stöðugur íbúðamarkaður
Mannfjöldaaukning á Íslandi er nokkuð línuleg. Því er það nokkuð ljóst að íbúðum þarf að fjölga línulega með tilliti til fjölgun íbúa. Til þess að svo verði þarf hagkerfið að búa við stöðugleika og við þurfum að ná fram betri framleiðni á byggingamarkaði. Oft heyrir maður að það þurfi að byggja litlar, ódýrar og hagkvæmar íbúðir. En hvað þýðir það? Litlar íbúðir eru hlutfallslega dýrari í byggingu en stórar. Það er eins og skilningurinn sé ekki til staðar á byggingamarkaðnum hjá þeim sem hafa verið að greina markaðinn. Er framleiðnin að batna eða versna? Þá er ég að tala um framleitt magn á vinnustund en ekki með tilliti til söluverðs. Þegar nafnverðshækkanir á íbúðum er langt umfram hækkun annars verðlags þá bjagar það árangurstölur ef miðað er við söluverð.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá snúast betri lífskjör þeirra sem verst hafa það um að ná niður kostnaði heimilanna. Þannig að lækkandi húsnæðiskostnaður gæti skilað mun meiru en hækkun nafnlauna. Að sjálfsögðu á að hækka nafnlaun þeirra sem verst hafa það en það á einnig að reyna að ná húsnæðiskostnaðinum niður. Betri framleiðni á byggingamarkaði lækkar húsnæðiskostnað til lengri tíma án þess að það bitni á vaxtaákvörðunum Seðlabankans. Framleiðslugeta hagkerfisins eykst og því ætti það í raun að hafa jákvæð áhrif á vaxtaákvarðanir. Reiði fólks sem er á lægstu laununum og er fast á dýrum leigumarkaði er því skiljanleg.
Höfundur er fjármálahagfræðingur og framhaldsskólakennari.