Þegar þessi grein er skrifuð hafa yfir 1500 COVID-19 sýni verið greind á Íslandi á mjög skömmum tíma. Aftur á móti höfum við ekki heyrt mikið um fólkið á bakvið greiningarvinnuna. Þetta er fólk sem vinnur linnulaust þessa dagana, hátt í 16 tíma vaktir dag eftir dag og er mætt aftur á landspítalann klukkan 7 á morgnana án þess að kvarta. COVID-19 greiningarvinnan leggst ofan á aðra greiningarvinnu sem þau sinna daglega og því held ég að við hin getum ekki ímyndað okkur álagið á þeim, eða þeim sem sinna sjúklingum sem koma inn.
Þau hafa verið svo lukkuleg að fá styrki frá ýmsum fyrirtækjum sem halda þeim gangandi, því lítill er tíminn fyrir máltíðir og enn minni til þess að fara heim til þess að elda svo kostnaður myndi annars aukast mjög fyrir þau, og eins og við vitum eru laun starfsfólks spítalanna ekki öfundsverð fyrir. Ég veit að það yljaði mér um hjartarætur að sjá fyrirtæki gefa þeim vörur án þess að auglýsa það, og hvet ég önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama til þess að sýna þeim stuðning á tímum sem þessum. Þau eiga það svo sannarlega skilið.
Sjálf er ég búsett í London þar sem fólk kemst ekki greiningu, jafnvel þó það sé með hita og öll einkenni. Það hefur sýnt mér hvað við erum heppin á Íslandi að eiga fólk eins og þau að, og samheldnina í landinu. Eftir erfiðan vetur með snjóflóðum og stormum hefur aldrei reynt eins mikið á og núna, og það hefur sýnt sig trekk í trekk í vetur að þegar við stöndum saman komumst við í gegnum hvað sem er.
Til starfsfólks spítalanna, og greiningardeildarinnar langar mig bara til þess að segja: Takk! Ég er viss um að ég tala fyrir meirihluta þjóðarinnar þegar ég segi að fórnfúsa starf ykkar við ótrúlega aðstæður er ómetanlegt og við stöndum við bakið á ykkur.