Ríkisstjórnin þarf að senda skýr skilaboð sem allra fyrst um að hún muni gera það sem þarf til að takast á við efnahagslegt áfall af völdum kórónaveirunnar. Þörfin er brýn því væntingar fólks og fyrirtækja ráða miklu um framvindu efnahagsmála. Ef stjórnvöld hika og draga lappirnar er hætt við að skellurinn verði verri fyrir alla.
Fyrsta skrefið er að stjórnvöld lýsi því yfir og lofi að þau muni gera það sem til þarf – og svo að slík yfirlýsing sé trúverðug þarf samstillt átak ríkisstjórnar og Seðlabanka auk samráðs við aðila vinnumarkaðarins og Alþingi. Það hefði strax áhrif á væntingar. Því næst þarf að bakka þessa yfirlýsingu upp með aðgerðapakka.
Í honum þurfa að vera markvissar aðgerðir sem beinast beint að fólki og fyrirtækjum í þeim geirum sem verða fyrir fyrsta og versta högginu, t.d. í ferðaþjónustu og menningar- og skemmtanabransanum – og þá þarf einnig að hlaupa sérstaklega undir bagga með fyrirtækjum sem missa stóran hluta starfsmanna í sóttkví eða einangrun. En það er ekki nóg; þetta er bara hluti af pakkanum.
Það sem skiptir mestu máli í þjóðhagslegu samhengi er að ráðist verði í aðgerðir sem eru almennari og miða að því að halda uppi heildareftirspurn í hagkerfinu til skemmri og lengri tíma. Þegar einkaneysla og útflutningur skreppa skyndilega saman þarf hið opinbera að stíga fram af krafti með fyrirheitum um að taka a.m.k. hluta af slakanum, einkum í því skyni að aðrir geirar atvinnulífsins þurfi ekki að draga saman seglin um of vegna væntinga um minni heildareftirspurn. Annars munu of mörg störf tapast og of mörg heimili lenda í hremmingum, að óþörfu.
Yfirlýsing og aðgerðapakki eins og hér er lýst væru ekki bara í samræmi við trausta þjóðhagfræði heldur er þetta líka nákvæmlega það sem öll nágrannaríki okkar hafa verið að gera á undanförnum dögum, á gríðarlega stórum skala. Þetta finna ríkisstjórnir Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Þýskalands sig knúnar til að gera, jafnvel þótt ekkert þessara ríkja reiði sig á ferðaþjónustu í nærri sama mæli og Ísland.
Nú er ekki nóg að tala bara út í eitt um að staða þjóðarbúsins sé gríðarlega sterk; það þarf að nýta þessa sterku stöðu til að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Ekki síður í ljósi þess að atvinnuleysi var þegar að aukast, löngu áður en veiran lét á sér kræla, auk þess sem velferðarkerfið stendur á alltof veikum grunni, eins og alþjóð veit, þar á meðal Landspítali og aðrar heilbrigðisstofnanir sem hafa lengi verið á nippinu með að ráða við venjulegt árferði, hvað þá neyðarástand.
Í þessu máli mun Samfylkingin veita ríkisstjórninni stuðning og standa með öllum aðgerðum sem draga úr neikvæðum efnahagsáhrifum kórónaveirunnar. Við höfum veitt ríkisstjórninni gott ráðrúm og vinnufrið og áttum von á frekari aðgerðum fljótlega eftir síðustu helgi. En forsætisráðherra og fjármálaráðherra greindu frá því, á fundi formanna stjórnmálaflokka á mánudag – hvort sem það reynist rétt eða ekki – að engra frekari aðgerða væri að vænta í þessari viku. Og þá vöknuðu áhyggjur, því aðgerða er sannarlega þörf. Þessi orð eru rituð til að ítreka afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli og reka á eftir ríkisstjórninni.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.