Útganga Stóra-Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit, staðfestir þá meginreglu Evrópusambandsins að fullveldi aðildarríkja þess er óskert. Þau geta gengið út hvenær sem þeim sýnist, samkvæmt 50. gr. Lissabonsáttmálans. Brexit, er sérmál Englendinga sem Skotar hatast við og Úlsterbúar vilja forðast.
Brexit-ferill Englendinga markast af innri vandræðum þeirra sjálfra, klofningi og klúðri. Nú er þessu lokið. Framundan eru margháttaðar breytingar og röskun, en ekkert bendir til annars en þess að Englendingar komist vel á skrið innan skamms tíma. Farnist þeim illa, verður það enn og aftur vegna eigin innri vandræða þeirra sjálfra.
Þrátt fyrir ævintýraleg stóryrði byggist andúð Englendinga á Evrópusambandinu ekki á reynslu þeirra af aðildinni. Englendingar voru alltaf margklofnir í afstöðu sinni og andstaða hávær. Í sem skemmstu máli eru helstu útgönguástæður þeirra eiginlega innri mál þjóðarinnar sjálfrar. - Englendingar vilja einfaldlega ekki, og margir þeirra hafa aldrei viljað, sameiginlegar stjórnvaldsstofnanir með öðrum ríkjum; - eða sameiginlegan dómstól eða lögsögu; - eða sameiginleg landamæri eða gæslu; - eða sameiginlega stjórnsýslu, skatta og regluverk; - eða sameiginlega verslunarsamninga, loftferðastjórn eða fiskveiðistjórn.
Stóra-Bretland er fjögur þjóðfélög með um 66 milljónir manna. Þessar þjóðir eru vel færar um að fara sínar eigin leiðir. Allir geta skilið útgönguástæður Englendinga, þótt skoðanir á þeim séu og verði auðvitað skiptar. Í Brexit-áróðrinum birtust margar fleiri ástæður, misjafnlega málefnalegar og margar tilhæfulausar. Þær hafa líka haft mikil áhrif og jafnvel velt hlassinu.
Útgönguástæður Englendinga eru að miklu leyti óháðar Evrópusamvinnunni og eiga sér djúpar og langstæðar rætur í þjóðarsálinni, miklu eldri og seigari rætur en Evrópusambandið. Að sumu leyti burðast Englendingar enn með gamlar heimsveldisbyrðar í þjóðarsálinni, og vonandi verða þær þeim ekki að fótakefli.
Þessu til viðbótar liggur fyrir að mörg bresk fjármálafyrirtæki hafa undanfarið aukið umsvif sín á meginlandinu, í samstarfi við aðra og í samstarfs- og dótturfyrirtækjum. Þau hyggjast tryggja aðild sína að markaði Evrópusambandsins áfram, og ýmsir telja að þá muni enn minnka vægi fjármálamiðstöðvarinnar í miðborg Lundúna. Í þessu öllu eru tvísýnar horfur fyrir Englendinga um framhaldið á komandi árum.
Um þessar mundir beinist athygli manna auðvitað að hugsanlegum afleiðingum kórónuveirunnar á stöðu og framtíð Evrópusamvinnunnar, hvernig Evrópusambandinu og evrunni reiðir af eða hvort einhvers konar upplausn verður. Hitt er annað mál að með útgöngu Breta má einnig búast við því að mjög dragi úr varúð og andstöðu gegn róttækri samþættingu og stórríkisþróun innan Evrópusambandsins. Mörgum er þetta annað áhyggjuefni.
Höfundur er fyrrverandi skólastjóri.