Það er undarlegt um að litast í Reykjavík þessa dagana. Fáir eru á ferli og ólgandi mannlífið virðist víðs fjarri. Þetta eru óvenjulegir tímar en borgin og borgarbúar hafa seiglu til að takast á við ástandið, með bjartsýni og jafnvel gleði eins og allir þeir sem sett hafa út bangsa í glugga til að skemmta börnum í göngutúr sýna.
Reykjavíkurborg vill standa þétt við bakið á borgarbúum og atvinnulífinu í borginni á þessum óvissutímum. Til að stytta niðursveifluna eins og kostur er, verja lífskjör borgarbúa og styðja við atvinnulífið hefur borgarráð samþykkt 13 tillögur að aðgerðum.
Tillögurnar munu koma til framkvæmda eftir því sem faraldurinn þróast og sumar hverjar þurfa að sæta færis þar til við megum á ný fara að faðma hvort annað og hittast í hópum stærri en 20 án þess að eiga þess á hættu að sýkjast af COVID-19.
Sumt getur samt ekki beðið eins og afkoma fólks og fyrirtækja. Því verður strax ráðist í frestun, niðurfellingu og lækkun gjalda til heimila og fyrirtækja. Gjöld vegna leikskóla, grunnskóla og frístundar verða lækkuð eða felld niður í samræmi við skerðingu þjónustu. Árskort borgarinnar í sundlaugar og menningarkort verða framlengd í samræmi við lokanir.
Þegar aðstæður leyfa verður farið í verulegt markaðsátak til að kynna Reykjavík sem áfangastað, auk þess sem Reykjavík mun taka þátt í markaðsátaki Íslandsstofu. Mun markaðsátakið ríma vel við ferðamálastefnu borgarinnar sem ég hef lagt fyrir borgarráð.
Reykjavíkurborg ætlar líka að styðja við skapandi greinar og þekkingargreinar, fjárfesta í nýsköpun og nýjum tæknilausnum til að gera lífið í Reykjavík einfaldara fyrir alla. Nýsköpun og þekkingargreinar munu styrkja borgina til framtíðar. Einnig verður farið í mannaflsfrekar viðhaldsframkvæmdir og nýframkvæmdum flýtt.
Það er rólegt á meðan verið er að takast á við faraldurinn en lífið í borginni mun kvikna á ný og upp sprettur þessi fjölbreytta og líflega Reykjavík sem við öll þekkjum.
Höfundur er formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar í borginni.