Ég vildi óska þess að ég hefði eitthvað gáfulegt að segja og skrifa um COVID-19. Því miður er það ekki raunin. Mín þekking á viðbrögðum við veirufaraldri byggir alfarið á kvikmyndinni Outbreak og hinni stórgóðu Outbreak 2, the Virus takes Manhattan, með Jean Claude Van Damme. Í ofanálag verður að viðurkennast að ég man frekar lítið eftir Outbreak og að Outbreak 2 er ekki alvöru kvikmynd.
Sjálfur starfa ég á fjármálamörkuðum, nánar tiltekið við rekstur Kauphallarinnar. Hlutverk okkar sem störfum á fjármálamörkuðum er nokkuð einfalt í svona krísum: Ekki þvælast fyrir og aðstoða þá sem eru að bjarga heiminum með aðgengi að fjármagni. Það má raunar segja að þetta eigi alltaf að vera hlutverk okkar, þó það hafi reyndar átt það til að gleymast.
Við höfum áður stillt fjármálamörkuðum upp í hetjuhlutverkið. Reynt að vera númer eitt, baðað okkur í sviðsljósinu og gert tilraun til þess að skapa raunveruleg verðmæti úr því að færa fjármagn fram og til baka. Það heppnaðist ekki mjög vel. Fjármálamarkaðir þurfa að vera meira eins og Q frekar en James Bond. Láta lítið fyrir okkur fara og útvega hetjunni þau tæki og tól sem viðkomandi þarf til að bjarga deginum.
Á næstu vikum og mánuðum þýðir þetta annars vegar að tryggja þurfi heimilunum og atvinnulífinu aðgengi að fjármagni og annan stuðning, eins og við á. Halda öllu gangandi og gott betur. Það hefur verið hughreystandi að sjá skjót viðbrögð stjórnvalda, Seðlabankans og bankanna á síðustu dögum í þessu furðulega ástandi.
Sagt er að tíminn lækni öll sár, en þetta sár hefur verið allt of lengi að gróa. Frá því í febrúar 2009 og þar til í febrúar 2020 hefur mælikvarði á traust á bankakerfinu t.d. mjakast úr 4 í 21, skv. könnun Gallup á trausti til stofnana. Árið 2008 stóð gildið í 40. Ég tel ekki ólíklegt að heimfæra megi þessa þróun á fjármálamarkaði í víðari skilningi. Vissulega hreyfing í rétta átt, en langt frá því að vera ásættanlegt. Með þessu áframhaldi tekur það okkur tíu ár í viðbót að nálgast það traust sem var á fjármálamörkuðum árið 2008, sem var þó varla framúrskarandi.
Að því leytinu til er þetta kjörið tækifæri. Ef við komumst í gegnum þessa krísu án þess að eftir standi gjaldeyrishöft og sviðin jörð vafasamra viðskiptahátta, markaðsmisnotkunarmála og innherjasvika höfum við vonandi sýnt það í verki að við eigum traust skilið. Við þurfum að gera bókstaflega allt sem við getum til að passa upp á þetta. Það er mikið í húfi og ef vel tekst til gæti íslenskur fjármálamarkaður að mörgu leyti verið í mun sterkari stöðu en fyrir þessa krísu, tilbúinn til að standa á hliðarlínunni og aðstoða þá sem ætla að bjarga heiminum með aðgengi að fjármagni. En fyrst: Ekkert rugl.
Höfundur er viðskiptastjóri hjá Nasdaq Iceland.