Þessa dagana erum við sem samfélag að upplifa aðstæður sem eiga sér enga hliðstæðu og við erum flest enn að reyna að fóta okkur í breyttu umhverfi og lífsmynstri og munum eflaust halda áfram að gera svo þar til yfir lýkur. Það er fyrst og fremst vegna þess að við erum ekki vön því að frelsi okkar sé skert eins og það er nú. Við erum ekki vön því að geta ekki gert það sem við viljum. Við erum ekki vön því að einhver segi okkur hvað við megum gera og hvað ekki. Við erum ekki vön því að neyðast til þess að vera heima hjá okkur (eins og virðist vera alveg skelfilegur hluti fyrir marga) og mega ekki fara út, í sumum tilfellum ekki einu sinni út í matvörubúð. Við erum ekki vön félagslegri einangrun, skorti á hreinlætisvörum og matvörum og skertri þjónustu, eins og við erum að upplifa núna þegar Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveirufaraldurs sem nú gengur yfir á heimsvísu og ógnar lífi okkar allra og hefur dregið fjölda fólks til dauða.
Eðli málsins samkvæmt þá hlýðum við þeim fyrirmælum um að vera heima (sumir væru nú fegnir að eiga heimili) og axla með því samfélagslega ábyrgð. Við fylgjumst með fréttum, aðstoðum þá sem standa okkur næst og stundum aðeins fleiri, sinnum börnunum okkar, göngum í verkefni sem hafa setið á hakanum um tíma, hvort sem það er frágangur á háaloftinu eða verkefni tengd vinnunni. Tæknin og tækin okkar gera okkur kleift að vinna áfram í mörgum tilfellum og klára önnina í skólanum og sumir eru frekar fegnir því að lokaprófin hafa verið felld niður. Tæknin gerir okkur einnig kleift að halda félagslegum samskiptum áfram þrátt fyrir einangrun. Í ljósi aðstæðna og hvernig tæknin gerir manni kleift að halda samskiptum á lofti veltir maður því fyrir sér hvort síminn væri ekki það tæki sem maður myndi grípa með sér ef maður þyrfti allt í einu að leggja á flótta?
Samstaða
Við upplifum mikla samstöðu í samfélaginu og við hjálpumst að við hitt og þetta, einstaklingar, fyrirtæki og samtök. Við vitum að um er að ræða tímabundið ástand og við viljum öll leggja okkar af mörkum til þess að við komumst með sem farsælustum hætti frá þessu ástandi. Eftir nokkrar vikur getum við svo farið að keppast um hver er með ljótustu klippinguna, mestu hárrótina og hver hefur misst mest af kílóum eftir alla heimaleikfimina á netinu. Eftir nokkrar vikur getum við farið aftur í skotgrafirnar, verið dónaleg og leiðinleg við hvort annað og rifist um hluti sem skipta ekki máli. Eftir nokkrar vikur getur allt frábæra listafólkið sem nú aðstoðar okkur við að halda geðheilsu okkar farið aftur að berjast fyrir því að fá greitt fyrir vinnu sína sem okkur þykir akkúrat á þessum tímapunkti ómissandi. Við verðum fljót að gleyma og höldum áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Nákvæmlega svona er staðan víða í heiminum í dag. Við stöndum frammi fyrir alvarlegri ógn og það er mikilvægt að gera ekki lítið úr því. Sjálf upplifi ég öðru hvoru mikinn kvíða, ég er hrædd um sjálfa mig, fólkið mitt og alla hina. Sjálf er ég búin að greina sjálfa mig nokkrum sinnum með veiruna, sem hefur ekki átt við nein rök að styðjast. Ég finn mikið til með þeim sem hafa misst ástvini og fjölskyldu. Ég hugsa mikið til þeirra sem eru alvarlega veikir og ég hugsa oft til þess hversu miklar hetjur þeir sem standa í framlínunni í þessari baráttu eru. Mér líður vel heima hjá mér og ég á jafn auðvelt með að sitja heima með bók eins og að vera úti á meðal margmennis. Ég er að vinna í mörgum verkefnum, rannsóknum í skólanum og nýt félagskapar manns míns og hunda inni á milli. Ég er vissulega búin að ganga í nokkur verkefni sem hafa lengi setið á hakanum og loksins klárað þau. Það er þó alveg sama hvað ég geri, að undanförnu hefur ítrekað læðst að mér einhver ónotatilfinning, ég upplifi að ég sé ekki að gera nóg, og mér verður ítrekað hugsað til þeirra sem upplifðu mikla neyð áður en faraldurinn skall á og eru nú í enn erfiðari stöðu. Á meðal þeirra er flóttafólk.
Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi
Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en nú þegar meira en 70 milljónir einstaklinga eru á flótta undan stríði, átökum og ofsóknum. Meira en helmingur þeirra eru konur og börn. Víða um heim upplifir fólk algjöran skort á frelsi, það er einangrað og víða innilokað og það á ekki heimili. Það eru aðrir en einstaklingarnir sjálfir sem stjórna ferðum þeirra. Þau upplifa mikinn og stundum algjöran skort á nauðsynjavörum eins og mat, vatni og rafmagni. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun, afþreyingu, listum og tækni er takmarkað eða ekkert. Ofan á þetta bætist ofbeldi, pyndingar, morð, mansal, þrælahald, vændi, misnotkun og aðrir skelfilegir hlutir. Þeir sem geta leggja á flótta.
Í upphafi árs 2020 voru um 600 einstaklingar í þjónustu hjá Útlendingastofnun og sveitarfélögum á Íslandi. Það þýðir að fleiri hundrað einstaklingar hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi á og bíða þess nú að fá niðurstöðu í mál sitt hjá yfirvöldum eða bíða þess að vera brottvísað frá Íslandi. Um er að ræða fjölbreyttan hóp fólks. Sumir hafa komið einir, börn eða fullorðnir. Um er að ræða einstæðar mæður og litlar og stórar fjölskyldur. Fólkið er á öllum aldri, eru af öllum kynjum og hefur mismunandi bakgrunn og uppruna, rétt eins og við hin. Þau eiga það þó öll sameiginlegt að hafa lagt á flótta frá heimalandi sínu, eru í viðkvæmri stöðu og búa við mikla neyð.
Það vill gerast að þegar erfiðleikar standa yfir þá gleymast þeir sem síst mega gleymast. Í þeim faraldri sem nú gengur yfir hér og um allan heim virðast umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa orðið út undan að miklu leyti í viðbrögðum við veirufaraldrinum. Sem dæmi má nefna að á daglegum upplýsingafundi í dag, laugardaginn 28. mars 2020, var rætt um viðkvæmustu hópana í samfélaginu og þjónustu við þá og ekki var minnst einu orði á fólk á flótta eða börn á flótta sem eru einn viðkvæmasti hópurinn í samfélaginu.
Samstaða fyrir alla?
Síðustu daga hefur stjórn Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi kannað aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi að upplýsingum um stöðu mála í samfélaginu. Upplýsingagjöf til þessa hóps hefur verið af skornum skammti. Á meðan sumir hafa fengið örlitlar upplýsingar, til dæmis um hvert eigi að hringja ef þeir halda að þeir séu sýktir, eru aðrir algjörlega einangraðir, hafa ekki átt í neinum samskiptum við þá sem eiga að halda utan um og þjónusta fólk á flótta. Margir hverjir eiga erfitt með að afla sér upplýsinga og vita því mjög lítið um stöðu mála, jafnt í samfélaginu sem og í sínum málum.
Margir upplifa enn meira óöryggi en áður vegna stöðu sinnar þar sem þeir hafa ekki hugmynd um hvað muni gerast í umsóknum þeirra um vernd hér á landi, hvort umsóknir þeirra verði afgreiddar á meðan faraldurinn stendur yfir. Aðrir, sem tilkynnt hefur verið um brottvísun, vita ekki neitt. Enn aðrir, sem standa frammi fyrir yfirvofandi brottvísunum, til dæmis barnafjölskyldur sem senda á til Grikklands, upplifa daglegan ótta og óöryggi, því engin veit hvar sú vinna sem á að koma í veg fyrir brottvísanir barna til Grikklands stendur í dag.
Solaris hefur einnig kannað aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að nauðsynlegum hreinlætisvörum eins og handsápu og sótthreinsandi efnum fyrir yfirborðsfleti. Um er að ræða hreinlætisvörur sem eru sérstaklega mikilvægar þar sem mikill fjöldi fólks býr saman, eins og staðan er í nokkrum búsetuúrræðum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi, og þar sem fjöldi fjölskyldna býr í sama úrræðinu.
Sumir hafa fengið loforð um að komið verði með hreinlætisvörur til þeirra en bíða enn mörgum dögum síðar. Aðrir hafa beðið um slíkt en ekki fengið nein viðbrögð. Um er að ræða hóp af fólki sem á ekki hreinlætisvörur í sama magni og aðrir og ætla mætti að þeir sem þjónusta hópinn ættu að sjá þeim fyrir hreinlætisvörum þar sem þau eru ekki í stöðu til þess að kaupa þær. Svo virðist þó ekki hafa verið gert, að minnsta kosti í mjög litlu magni.
Hvað getum við gert?
Solaris hjálparsamtökin, sem veita flóttafólki og hælisleitendum hér á landi nauðsynlega aðstoð í margvíslegu formi, hafa unnið hörðum höndum að því síðustu daga að festa kaup á hreinlætisvörum til þess að gefa umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi. Lögð hefur verið áhersla á að útvega handsápu og sótthreinsandi sprey til þess að þrífa yfirborðsfleti eins og hurðarhúna, handrið og borðplötur, sem er sérstaklega mikilvægt fyrir búsetuúrræði þar sem tugir einstaklinga deila flest öllu og ætla má að smithættan sé því meiri.
Það er ekki auðvelt að kaupa hreinlætisvörur í miklu magni þessa dagana, enda eru slík efni búin hjá mörgum fyrirtækjum þar sem neyðin er víða mikil. Það kostar einnig töluverða upphæð að kaupa sápu og sótthreinsandi úða í hundraða tali. Samtökin vilja því bjóða þeim sem hafa áhuga og tök á að styrkja umsækjendur um alþjóðlega vernd um handsápu og sótthreinsandi sprey að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni með okkur. Það er líka hægt að leggja sitt af mörkum með því að deila átakinu á samfélagsmiðlum, bjóða fram krafta sína í sjálfboðavinnu og senda ást og kærleik út í kosmósið!
Gleymum ekki þeim sem þegar voru í mikilli neyð og eru nú í enn erfiðari stöðu. Það er ekkert sem afsakar slíkt. Sýnum samkennd, stöndum saman og hjálpumst að. Þannig komumst við í gegnum flestar áskoranir.
Höfundur er formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.