Samstaða og samhjálp er það sem dugar okkur best í baráttunni sem nú er fyrir höndum – bæði til að vinna bug á veirunni og til að sigrast á þeim efnahagslegu erfiðleikum sem við okkur blasa. Við sýnum samstöðu með því að fylgja öll fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda til hins ítrasta, hvort sem við erum í áhættuhópi eða ekki, og við viljum að samhjálp sé leiðarstef í öllum efnahagsaðgerðum stjórnvalda svo enginn hópur samfélagsins þurfi að bera of þungar byrðar þegar á móti blæs.
Það sem má ekki gerast
Þetta eru á marga lund skrýtnir tímar í pólitík. En það er gömul saga og ný að á krepputímum kalla jafnvel hörðustu hægrimenn eftir víðtækum ríkisstuðningi og háum fjárhæðum úr okkar sameiginlegu sjóðum. Nú er uppi rík krafa um að stjórnvöld stígi fram af krafti og komi atvinnulífinu til bjargar – og sú krafa er réttmæt, því þetta þurfa stjórnvöld svo sannarlega að gera.
Það má hins vegar ekki gerast að útkoman verði ríkisstuðningur við þá stóru og sterku en kaldur kapítalismi fyrir alla hina. Samfylkingin leggur höfuðáherslu á þetta – ekki aðeins með árangur aðgerðanna og velferð almennings í huga, heldur líka vegna þess að það skiptir máli fyrir traust í samfélaginu og trú fólks á að lýðræðið virki sem skyldi þegar á reynir. Þess vegna viljum að fólk í viðkvæmri stöðu fái þá hjálp sem þarf og að smærri fyrirtæki hafi jafnan aðgang að aðstoð, eða jafnvel enn betri, en þau sem eru stærri.
Hlutabætur það besta í pakkanum
Ríkisstjórnin kynnti á dögunum aðgerðapakka sem fengið hefur flýtimeðferð í þinginu en var því miður ekki unninn í samráði stjórnar og stjórnarandstöðu. Undantekningin frá því er hlutabótaleiðin svokallaða, sem batnaði mjög í meðförum velferðarnefndar og jókst að umfangi, en það er stærsta og mikilvægasta aðgerðin í pakkanum. Eftir nauðsynlegar breytingar nær hlutabótaleiðin niður í 25 prósent starfshlutfall og er með sérstöku gólfi þannig að laun fólks haldast óskert undir 400 þúsund krónum á mánuði. Þar náðum við breytingum til hins betra.
Að öðru leyti beinist aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar að mestu beint að fyrirtækjum og ber þar hæst ýmsa fresti á sköttum og gjöldum og svokölluð brúarlán til fyrirtækja sem verða fyrir tekjufalli. Samfylkingin styður allt það sem þokar okkur í rétt átt og aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru betri en ekkert. En hitt er ljóst að undir forystu Samfylkingarinnar hefði ýmislegt verið gert á annan hátt og nú verður tæpt á þremur mikilvægum atriðum sem betur hefðu mátt fara, þó listinn sé ekki tæmandi.
Meiri og markvissari stuðning við fyrirtæki
Í fyrsta lagi ættum við að ráðast í meiri og markvissari stuðning við þau fyrirtæki sem nú eru komin í algjört frost. Frestir og lán duga vel til að fresta vandanum og dreifa honum yfir lengra tímabil – og slíkar aðgerðir geta nægt til að bjarga þeim fyrirtækjum sem lenda í minniháttar tekjufalli yfir skemmri tíma. En nú er fjöldi fyrirtækja kominn í algjört frost og þá hverfa tekjurnar alveg þó fastur rekstrarkostnaður haldi áfram að hrannast upp.
Sum fyrirtæki geta kannski komist í gegnum slíkan brotsjó með frestum og lánum en standa þá eftir veikburða og skuldum hlaðin; önnur fara beint í þrot, einkum minni fyrirtæki sem eru á virkum samkeppnismarkaði og þau sem reiða sig beint eða óbeint á komu ferðamanna til landsins. Þetta er ástæða þess að dönsk stjórnvöld greiða nú 25 til 80 prósent af föstum kostnaði þeirra fyrirtækja sem verða fyrir tekjufalli upp á 40 prósent eða meira, og það eru greiðslur sem koma til viðbótar við skattafresti og brúarlán á borð við það sem stjórnvöld hérlendis hafa boðað.
Þá er brýnt að ríkið hlaupi sérstaklega undir bagga með litlum fyrirtækjum, sjálfstætt starfandi og viðkvæmum sprotum. Annars er hætt við að aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem fara í gegnum bankakerfið skili sér of seint og of illa til slíkra fyrirtækja. Hér hafa engar sérstakar ráðstafanir í þá veru komið fram en til samanburðar ganga dönsk stjórnvöld enn lengra til að mæta tekjufalli sjálfstætt starfandi og fyrirtækja með færri en tíu starfsmenn; það er gert með því að greiða þeim allt að 75 prósent af fyrri tekjum, allt þar til faraldurinn er genginn yfir.
Ekki ætti að ausa út peningum án skilyrða
Í öðru lagi skiptir miklu máli að stjórnvöld séu ekki að ausa út peningum til fyrirtækja án þess að því fylgi nokkur skilyrði. Ríkisstuðning við einstök fyrirtæki á ekki hugsa eins og peningagjöf til eigenda þeirra – slíkan stuðning á aðeins að veita ef þörf krefur og þá með hagsmuni samfélagsins alls að leiðarljósi. Þess vegna er ekki nema eðlilegt að fjárframlögum úr ríkissjóði til bjargar fyrirtækjum fylgi skýr skilyrði.
Ríkisstjórnin hefur boðað víðtækan beinan stuðning við fyrirtæki án nokkurra skilyrða sem miða að því að tryggja sem mestan samfélagslegan ávinning af aðgerðunum. Samfylkingin telur það misráðið. Betur færi á því að ríkisstuðningi fylgdu skilyrði, t.d. um að ekki verði ráðist í fjöldauppsagnir á sama tíma og að fyrirtæki sem þiggja stuðning greiði ekki út arð eða kaupi eigin hlutabréf í beinu framhaldi, né greiði ofurlaun eða bónusa.
Styðjum fleiri en fyrirtækin
Í þriðja lagi ættum við að styðja fleiri en fyrirtækin í landinu. Auðvitað viljum við bjarga þeim fyrirtækjum sem bjargað verður og það sem er mikilvægast af öllu er að standa vörð um störf fólks. En það vekur þó furðu að nær allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar ganga til fyrirtækja á meðan lítið sem ekkert er gert fyrir einstaklinga, fjölskyldur, sveitarfélög eða heilbrigðisstofnanir.
Til dæmis er barnabótaaukinn ekki nema rúmlega 1 prósent af þeirri upphæð sem gefin var upp í kynningu ríkisstjórnarinnar sem heildarumfang aðgerðanna. Barnabótaaukinn er góð aðgerð, til að vinna gegn neikvæðum efnahagsáhrifum vegna veirunnar á heimilum barna, en ekki sérlega rausnarleg. Að öðru leyti er ekki að finna neinar sérstakar aðgerðir fyrir einstaklinga og fjölskyldur nema telja megi ávísun að fjárhæð 5000 krónur sem á að hvetja fólk til ferðalaga innanlands. Engar aðgerðir eru boðaðar til að tryggja húsnæðisöryggi fólks.
Þá er sitthvað í pakkanum sem þyngir byrði sveitarfélaga án þess að nokkur stuðningur komi á móti. Það getur reynst erfitt víða um land enda sveitarfélögum sniðinn þröngur stakkur þegar kemur að fjármögnun sinni, ólíkt ríkissjóði, sem ætti ekki að velta frekari byrðum á sveitarfélög í ástandi sem þessu.
Alda atvinnuleysis var byrjuð að ganga yfir landið löngu áður en veiran lét á sér kræla, en nú er hún að breytast í flóðbylgju. Í þessu samhengi er mikilvægt að átta sig á því atvinnulausir einstaklingar og fjölskyldur þeirra eru í sérlega viðkvæmri stöðu þegar margir aðrir eru í sömu sporum og fjöldi fólks eygir nú litla möguleika á að finna sér nýja vinnu á næstu misserum. Samfylkingin vill því hækka grunnatvinnuleysisbætur strax til að koma til móts við þennan viðkvæma hóp á þessum erfiðum tímum.
Síðast en ekki síst er undarlegt að ekki hafi enn komið fram skýr áætlun eða a.m.k. fyrirheit um aukið fjármagn til heilbrigðisstofnana. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Landspítali og aðrar heilbrigðisstofnanir hafa átt fullt í fangi með að ráða við venjulegt árferði, hvað þá neyðarástand af völdum heimsfaraldurs. Að sama skapi ættu stjórnvöld að ganga til samninga við hjúkrunarfræðinga hið fyrsta – heilbrigðiskerfið verður ekki rekið án þeirra.
Gerum betur, fyrr en seinna
Umfang aðgerðanna sem ríkisstjórnin hefur kynnt er einfaldlega of lítið, á það bentum við strax og nú keppast hagsmunaaðilar og hagfræðingar við að taka undir það og hvetja stjórnvöld til dáða. Samanburður við viðbrögð annarra ríkja í Vestur-Evrópu er allur á eina leið: hér á landi eru stjórnvöld að gera minnst og hreyfa sig hægast – jafnvel þó ferðaþjónusta sé mun mikilvægari fyrir Ísland en löndin í kringum okkur.
Þetta átti við um fyrstu aðgerðirnar, sem kynntar voru 10. mars undir yfirskriftinni „Viðspyrna fyrir íslenskt efnahagslíf“ og voru í algjöru skötulíki, sömuleiðis hlutabótafrumvarpið eins og það var afgreitt úr ríkisstjórn og loks aðgerðapakkann sem var kynntur í Hörpu. Fjármálaráðherrann hefur oft talað um að betra sé að gera of mikið en of lítið í aðstæðum sem þessum, sem er alveg rétt, en þess sér samt lítinn stað í aðgerðum ríkisstjórnarinnar.
Eins og hér hefur verið rakið þarf einkum þrennt að koma til svo aðgerðir ríkisstjórnarinnar geti talist fullnægjandi til að taka á þeim efnahagslegu erfiðleikum sem við okkur blasa:
- Meiri og markvissari stuðningur við fyrirtæki, einkum þau sem horfa nú fram á algjört frost, auk sérstakra aðgerða fyrir minni fyrirtæki og viðkvæma sprota.
- Fjárframlögum til bjargar fyrirtækjum ættu að fylgja skýr skilyrði til að tryggja sem mestan samfélagslegan ávinning af aðstoðinni.
- Stuðningur við fleiri en fyrirtækin – og þar má nefna einstaklinga og fjölskyldur í viðkvæmri stöðu, sveitarfélög og svo auðvitað heilbrigðisstofnanir.
Samstaða og samhjálp eru grunngildi Samfylkingarinnar. Á þeim stöndum við föstum fótum, nú sem aldrei fyrr, og ef við berum gæfu til að gera það sem samfélag þá getum við lagt góðan grunn fyrir Ísland til framtíðar; með fjölbreyttu og sveigjanlegu atvinnulífi og öruggum undirstöðum sem þola vel efnahagsleg áföll. Veiran mun ganga yfir og með réttum viðbrögðum getum við lágmarkað þann efnahagslega og samfélagslega kostnað sem af henni hlýst.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.