„Allir vinna“ var átak sem hrint var af stað á sínum tíma til að glæða störf iðnaðarmanna sem höfðu misst vinnuna í bankahruninu. Margir þeirra þurftu þá að fara úr landi til að afla sér viðurværis. Átakið tókst vel en það beindist nær eingöngu að störfum sem karlar sinntu. Endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnu iðnaðarmanna við heimili fólks og framkvæmdir sveitarfélaga varð til þess að verkefnin margfölduðust og margir iðnaðarmenn fengu vinnu. Alþingi samþykkti í gær að setja átakið aftur af stað.
Viðbrögð við kreppum hafa alltaf verið karllæg. Í heimskreppunni miklu sem skall á haustið 1929 í Bandaríkjunum, fólust aðalviðbrögð stjórnvalda gegn atvinnuleysi í því að byggja vegi og brýr. Karlar fengu vinnu. Hið sama hefur verið uppi á teningnum hér á landi en nú er kominn tími til að breyta því. Löngu er tímabært að hugað sé einnig að hefðbundnum kvennastörfum.
Kvennastörf í hættu
Hárgreiðslustofur og snyrtistofur um land allt eru lokaðar vegna samkomubanns. Oftast eru það konur sem reka sitt eigið fyrirtæki um starfsemina. Oftar en ekki er eigandinn eini starfsmaðurinn. Ef engar tekjur koma í kassann nægir þessari starfsemi ekki að fá frestun á greiðslum opinberra gjalda eða nýta sér hlutaatvinnuleysisbætur. Meira þarf að koma til. Og það er sjálfsagt að reyna að bæta stöðuna hjá þessum kvennastéttum líkt og þegar hefur verið ákveðið að gera varðandi karlastéttir, með því að fella starfsemina undir átakið „Allir vinna“. Ég vildi að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis legði fram breytingartillögur í þessa veru en vilji stjórnarliða stóð ekki til þess, a.m.k. ekki að sinni.
Niðurstaða þeirra var að bæta enn einni karlastéttinni við úrræðið; bifvélavirkjum. Sem er vissulega gott en af hverju ekki saumastofur, nuddstofur og gullsmiðir, hárgreiðslu- og snyrtistofur svo dæmi séu tekin? Enn hef ég ekki fengið að sjá rökin fyrir því að fjölga ekki hefðbundnum kvennastéttum sem gætu nýtt sér úrræðið.
Í efnahagskreppunni sem fylgir COVID-19 faraldrinum hefur fólk sem sinnir ýmsum þjónustustörfum misst vinnuna, þjónustustörfum sem konur sinna í mörgum tilvikum.
Það er kynjahalli á aðgerðum stjórnvalda sem eiga að vinna gegn atvinnuleysi og hjálpa fyrirtækjum að standa af sér storminn, konum í óhag. Þennan kynjahalla verður að rétta af strax í næsta aðgerðarpakka stjórnvalda, sem þau segja að sé á næsta leyti.
Höfundur er fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.