Eftir hrunið 2008 pakkaði margur landinn í vörn og fór að velja Íslenskt og prjóna lopapeysur.
Núna, þegar við erum að upplifa hrun vegna COVID-19 vilja sumir nýta tækifærið og kalla eftir stórkostlegum fjárútgjöldum almennings í þágu landbúnaðar svo sem ylræktar. Rökin eru matvælaöryggi, að við verðum að framleiða nóg fyrir okkur.
Það má margt gott um landbúnaðinn segja og reyndar framleiðslu fallegra lopapeysa ef út í það er farið, en við lifum ekki lengur á landbúnaðinum, hann styðst í dag við úrelta hugmyndafræði og er alfarið háður stuðningi almennings.
Við lifum á frjálsum viðskiptum og góðum samgöngum. Þannig seljum við til útlanda um 99% af fiskafurðum, ferðaþjónustan, stærsta atvinnugreinin, lifir nánast eingöngu á góðum samgöngum og svipað má segja um orkufrekan iðnað.
Það er ekkert að því og reyndar bæði sanngjarnt og fagurt að vinna saman yfir landamæri og kaupa frá öðrum löndum það sem við höfum þörf á svo sem grænmeti og blóm sem ódýrara er að framleiða í sól og yl sunnar á hnettinum. Þannig ættum við að hjálpa fólki í þróunarlöndum að framleiða meira og kaupa af því hluta framleiðslunnar eins og mörg Evrópulönd gera.
Ef við viljum byggja upp aukið matvælaöryggi í ljósi hugsanlegra stórhamfara, stríðs og tregðu í flutningum ættum við að skipuleggja það mál af yfirvegun og víðsýni. Þannig gætum við komið okkur upp nokkurra mánaða birgðum af þurrmat, lyfjum og fleiru sem myndi þurfa ef til þessa kæmi. Þá ættum við að auka vegan fæði sem er umhverfisvænt og stuðlar að velferð dýra.
Mikið af núverandi landbúnaði myndi stoppa í flutningastoppi vegna aðfangaleysis. Þannig þurfum við að flytja inn um tvö kíló af korni fyrir hvert kg. sem við framleiðum af kjúklinga og svínakjöti. Auk þess þarf íhluti í allan þann tæknibúnað sem nú er eðlilega notaður í sveitum landsins.
Í dag erum við að styrkja landbúnaðinn beint með sköttum um 15 milljarða króna og óbeint með tollvernd um nálægt 25 milljarða króna. Það teljast um 3.000 bændur í landinu og um 7.000 vinna við matvælavinnslu landbúnaðarafurða og auðvitað fleiri við veiðar og vinnslu sjávarafurða.
Ef við í staðinn styðjum hvern bónda 400.000 kr. á mánuði kostar það skattgreiðendur um 15 milljarða króna á ári. Við ættum að breyta styrkjakerfinu þannig að Evrópskri fyrirmynd að greiða virkum bændum einhverja slíka upphæð og fella niður tollvernd. Þá ættum við að veita bændum frelsi til að stunda þá grein landbúnaðar sem þeir kjósa. Einnig ættum við að gefa bændum færi á ná sér í aukatekjur með til dæmis aðgerðum í þágu umhverfisins, dýra- og plöntuverndar, að fegra landið, skógrækt og fleira.
Með þessu móti virkjum við markaðsöflin til að þróa landbúnaðinn að þörfum landsins.
Þetta væri raunverulega landinu, almenningi og neytendum í hag. Matarútgjöld neytenda myndu lækka um að minnast kosti 10.000 króna á mann. Það munar um það fyrir fátæka, sérstaklega barnafjölskyldur því það þarf um 20.000 króna tekjur til að greiða 10.000 króna útgjöld. Fyrir fjögurra manna fjölskyldu myndi niðurfelling matartolla því jafngilda um 80.000 króna launahækkun.
Ekki hlusta á þjóðernis popúlista sem nú reyna að nýta sér óöryggistilfinningu vegna hrunsins til að skara eld að köku sérhagsmuna landbúnaðarins á kostnað almennings. Við lifum í frjálsum opnum heimi í dag og þannig viljum við hafa það.