Þegar COVID-pestin verður gengin yfir,- hvort sem það verður eftir sex mánuði, tólf eða átján, munu örugglega gefast mörg tækifæri til að fara yfir hvað hefði betur mátt gera og/eða öðruvísi, hvað vel var gert, og í framhaldi af því nýta þá þekkingu til að vera betur búin undir að eiga við næsta faraldur. Í ljósi þess að þau sem standa í stafni baráttunnar, hvort sem það er þríeykið sem stjórnar aðgerðum eða heilbrigðisstarfsmenn sem eru að fást við sjúkdóminn beint, virðast vera að gera réttu hlutina og vinna dag sem nótt okkur hinum til heilla, er kannski rétt að við hin spörum gagnrýnina. Hlýðum því sem okkur er sagt varðandi sóttkví og einangrun, umgengnis- og samkomubann sem og annað það sem gerir heilsufarslegan skaða af vírusnum sem minnstan.
Því sem við hin ættum hins vegar að velta fyrir okkur er hvað tekur við? Ástand sem reyndar er að sumu leyti orðið að veruleika. Ljóst er að efnahagsleg áhrif pestarinnar verða langvinn og hafa jafnvel sést spádómar um að áhrifin verði enn verri á heimsbúskapinn en hið s.k. bankahrun, eða jafnvel kreppan mikla á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Nema að nú eru ríki heims og almenningur enn verr búin undir að takast á við nýja kreppu heldur en þá síðustu, enda ekki búin að jafna sig á þeim efnahagslegu hörmungum sem þá gengu yfir. Þess utan mun kreppa þessi leggjast á alla heimsbyggðina í einu og það á sama tíma. Skuldir flestra ríkja heims eru meiri í dag en þá, atvinnuleysi meira, ójöfnuður meiri, innviðir flestra ríkja eru illa í stakk búnir til að takast á við þarfir almennings o.s.frv. o.s.frv. Ef einungis er litið til Íslands þá spyr maður sig hvað gerist þegar hingað kemur varla nokkur erlendur ferðamaður í bráð og lengd, hverjir eiga að kaupa fiskinn héðan dýrum dómum og ekki mun álverð hækka á næstunni. Staðan er einfaldlega þannig, að fólk í útlöndum á nóg með sjálft sig; minnkandi tekjur, aukið atvinnuleysi og almennt hallæri sem aftur hefur áhrif á Íslandi. Því er ekki annað að sjá en að nú sé hafin djúp og langvinn kreppa.
Því læðist sú hugsun að manni, að kannski sé þetta efnahags- og þá ekki síður það auðlindanýtingarkerfi sem við höfum búið við síðasta árhundraðið endanlega hrunið,- eða að það virki í það minnsta ekki fyrir þorra fólks. Reyndar hefur þetta kerfi virkað ágætlega fyrir ríkustu 10% mannkyns, og þá sérstaklega fyrir það eina prósent sem er allra ríkast. En þá um leið á kostnað hinna 90%. Það eitt og sér ætti að klingja einhverjum bjöllum. Reyndar eru þegar farnar að birtast fréttir um að þeir allra ríkustu hafi heldur betur nýtt sér ástandið til að græða á hruni hlutabréfamarkaða með kaupum og sölu hlutabréfa, beinna ríkisstyrkja og skattaívilnana svo dæmi séu nefnd.
Ójöfnuður mun aukast í heiminum frá því sem nú er, og verður Ísland engin undantekning frá því. Þeir einstaklingar og fyrirtæki sem hafa sölsað undir sig náttúruauðlindirnar, munu sjá tækifæri í því að eignast enn meira af þeim. Það verður í það minnsta mikil freisting fyrir landstjórnina og sveitarfélögin að koma orkufyrirtækjunum okkar í verð þegar þarf að fara að takast á við efnahagslegar afleiðingar COVID-pestarinnar. Það þarf jú að halda uppi lágmarks heilbrigðis- og velferðarþjónustu, menntakerfi, löggæslu o.s.frv., og ekki króna til í kassanum vegna ónógra tekna. Svona mun þetta verða um heim allan,- aukinn ójöfnuður og óréttlæti á kostnað almennings. Og er ballið bara rétt að byrja.
Auðvitað kemur að því að lækning eða bóluefni finnist við veirunni,- spurning hvað það tekur langan tíma. Auðvitað er fólk líka hrætt við þær afleiðingar sem pestin mun hafa á sitt daglega líf og sinna nánustu. Kannski er hluti þessarar hræðslu til kominn vegna þess að við getum ekki með nokkru móti vitað hver veikist næst eða hversu illa, enda „óvinurinn“ ósýnilegur. Í því sambandi er dálítið merkilegt til þess að hugsa, að ekki hefur vantað viðvaranir frá vísindamönnum um að við gætum vænst þess að pest eða heimsfaraldur sem þessi stingi sér niður. Því er sorglegt til þess að hugsa hvað stjórnvöld um allan heim voru óviðbúin, litlar varnir til staðar eða áætlanir um hvernig skyldi takast á við vanda sem þennan.
Eins verður manni hugsað til annars vanda sem mannkynið stendur frammi fyrir núna. Vanda sem alþjóða vísindasamfélagið er búið að vara við í mörg ár, og við erum þegar farin að upplifa og finna á okkar eigin skinni. En það eru loftslagsbreytingar af mannavöldum. Miðað við hvað við vorum óviðbúin þessum vágesti sem COVID-pestin er, þá býð ég ekki í það þegar loftslagsbreytingarnar fara virkilega að taka í.
Það er kannski mál til komið að við stöldrum aðeins við. Viljum við áfram viðhalda efnahagskerfi sem byggir á nýlendustefnu, sem krefst sífellt meiri neyslu og notkunar á náttúruauðlindum, stöðugt meiri brennslu og mengunar af völdum olíu og kola, gífurlegri auðsöfnun fárra einstaklinga og þ.m. aukins ójafnaðar? Kerfis sem ekki tekur tillit til þarfa þorra fólks, og mun á endanum leiða til enn meiri hörmunga en við erum að upplifa nú.
Svari hver fyrir sig.
Höfundur starfar við olíuvinnslu.