Þjóðin berst lífróðri. Sama hvert er litið. Við erum öll í sama báti. Tengsl okkar við umheiminn eru í gegnum síma, netið og fjölmiðla. Á sama tíma og fyrirtæki draga úr starfsemi sinni og jafnvel loka vegna kórónuveirunnar, treystum við því að fjölmiðlar fræði okkur áfram um ástandið, standi vörð um velferð okkar og geðheilsu og séu okkar bestu vinir á löngum dögum innilokunar. Krafan er jafnvel sú að miðlarnir gefi í og auki þjónustu við okkur sem heima sitjum.
Ég sit í stjórn fjölmiðlafyrirtæksins N4 á Akureyri. Ég hef stolt fylgst með því hvernig framkvæmdastjóri þess og starfsfólk hafa hagrætt og endurskoðað allan reksturinn til þess að þrauka á undanförnum árum. Hver mánaðarmót hafa verið fyrirkvíðanleg og spurningin verið brennandi um hvort fyrirtækið þrauki enn önnur mánaðarmót? Í stað þess að gefast upp þann fyrsta apríl var ákveðið að mæta kórónufaraldrinum með því að leggja enn harðar að sér.
N4 vildi leggja sitt af mörkum og eru nú með sérstaka upplýsingaþætti um COVID-19 tvisvar í viku, tónlistarþætti og þétta dagskrá til þess að stytta okkur stundir á fjarstæðukenndum tímum. Ofan á aukið álagið bætast æ þyngri fjárhagsáhyggjur, áhyggjur af starfsöryggi og áhyggjur af heilsu starfsfólks og fjölskyldna þeirra.
Fylgifiskur þess að fyrirtækin í landinu draga saman starfsemi er samdráttur í auglýsingatekjum sjálfstætt starfandi fjölmiða. Þessa hefur þegar orðið áþreifanlega vart. Fjölmiðlarnir hafa lengi barist í bökkum og reynt að þregja Þorrann í þeirri von að fjölmiðlafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um stuðning við sjálfstætt starfandi fjölmiðla næði fram að ganga. Eðlilega hverfur þetta frumvarp um stund í skuggann fyrir lífróðri ríkisstjórnar á þessum krísutímum. En hvar verðum við stödd ef þessir fjölmiðlar gefast nú upp og loka vegna fjárskorts? Án stuðnings yfirvalda stefnir hratt í það.
Með þessu bréfi til háttvirts ráðherra vil ég vekja athygli á því sem Danir, vinir okkar og grannar, hafa gert. Þeir hafa samþykkt mikilvægan stuðning til fjölmiðla til þess að mæta tekjubresti vegna samdráttar í auglýsingum. Danska ríkisstjórnin samþykkti að veita tímabundinn stuðning sem nemur 3.7 milljörðum íslenskra króna til að koma í veg fyrir að dönsk fjölmiðlafyrirtæki fari í þrot. Þessi stuðningur gildir frá byrjun mars og fram í júní. Formaður danska blaðamannafélagsins hefur lýst yfir ánægju sinni með þessa ráðstöfun enda sé hún til þess fallin að fjölmiðlafólk geti sinnt hlutverki sínu af kappi í stað þess að óttast um störf sín og framtíð miðlanna.
Það þarf að bregðast hratt við. Ég skora á yfirvöld að fara að dæmi Dana og styðja strax við starfsemi sjálfstætt starfandi fjölmiðla út frá svipuðum viðmiðum og Danir hafa gert. Það þarf ekki alltaf að finna upp hjólið.
Þó má ekki gleyma því að fjölmiðlafrumvarpið, sem enn liggur óafgreitt í þinginu, verður enn brýnna en áður þegar horft er til framtíðar að kórónufaraldrinum afstöðnum. Þannig er hægt að efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni eins og frumvarpið kveður á um.
Höfundur er fjölmiðlafræðingur.p.s.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson hefur látið hafa eftir sér að fjölmiðlar gegni lykilhlutverki við skráningu sögunnar um kórónufaraldurinn sem sagnfræðilegt viðfangsefni. Brýnt sé að halda til haga upplýsingum, heimildum og frásögnum um þá atburði sem nú eru að gerast fyrir þá sem á eftir koma.