Gömlum frethólki svarað

Einar Helgason svarar opnu bréfi Kára Stefánssonar til dómsmálaráðherra vegna hugmynda um að aflétta auglýsingabanni á áfengi í fjölmiðlum.

Auglýsing

Fyrir ein­hverjum vikum síðan las ég grein eftir Kára Stef­áns­son þar sem hann for­dæmir harka­lega dóms­mála­ráð­herra Áslaugu Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur. Þar for­dæmir Kári þær hug­myndir Áslaugar um að aflétta aug­lýs­inga­banni á áfengi í fjöl­miðlum og að auka frelsi með kaup á sömu vöru í gegn um net­ið. Fyrst eftir að ég las þessa grein þá vakn­aði löngun hjá mér að koma með aðra hlið á þessu máli, en áður en af því varð kom upp þetta dæma­lausa COVID-19 sem varð til þess að ég gerði ekk­ert í mál­inu. En nú þegar þó nokkur tími er lið­inn frá því að Kári skrif­aði grein­ina í Frétta­blaðið og við erum stödd í miðj­unni á þessu veiru­fári þá tek ég eftir að málið er að vakna aft­ur. Bæði hjá Áslaugu Örnu og í kjöl­farið hjá fólki sem tekur kröftu­lega undir sjón­ar­mið Kára Stef­áns­sonar og þá get ég ekki setið á mér.

Nú vil ég taka það fram í byrjun að ég er sam­mála Kára um ang­ist­ina og skelf­ing­una sem getur fylgt þeim sem eru að takast á við alvar­legan alkó­hól­isma og aðra fíkni­sjúk­dóma. En að hann geti tengt það við hug­myndir dóms­mála­ráð­herra um meira frjáls­lyndi á sviði áfeng­is­mála á Íslandi, því er ég bara alls ekki sam­mála. Í fyrsta lagi langar mig að rifja upp hvernig áfeng­is­kúlt­úr­inn var á Íslandi þegar við Kári vorum ung­lingar eða ungir menn. Þar sem við erum báðir á sama aldri (fæddir á fyrri hluta síð­ustu ald­ar) þá hlýtur hann að muna jafn­vel og ég hvernig var til siðs að nota áfenga drykki á okkar sokka­bandsár­um. En sá kúltúr var allur undir þeim lögum og for­merkjum að sauð­svartur almúg­inn færi sér ekki að voða þegar hann not­aði þetta efni. Og ég vil taka það fram að í þá daga var ekki leyft að selja bjór á Íslandi vegna þess að stjórn­völd voru ákveðin í að forða almúg­anum frá því að vera  út úr drukk­inn frá morgni til kvölds. Eða það var alla veg­anna skýr­ingin sem gefin var og dæmi nú hver fyrir sig hvort spárnar hafi gengið eft­ir, eftir að bjór­banni var aflétt. En aftur að vín­kúltúr í æsku okkar Kára þegar for­ræð­is­hyggjan var í hámarki, auð­vitað til verndar því að sauð­heimskur almúg­inn færi sér ekki að voða.

Auglýsing
Í þá gömlu og góðu daga var ekki til siðs þegar Íslend­ingar fengu sér vín, að drekka eitt­hvert létt­víns­sull eða bjór. Enda var hann reyndar ekki á boðstól­um. Nei takk, þá drukku menn bara almenni­legan rudda sem ann­að­hvort hét Íslenskt brenni­vín eða rúss­neskur vodki og svo auð­vitað Seni­ver sem  líka var vin­sælt. Og svo má ekki gleyma blessuðum land­anum sem var hálf­gerð þjóðar­í­þrótt að fram­leiða með mis­jöfnum árangri. Þá var líka sið­ur­inn sá að detta í það eða kannski rétt­ara sagt að hrynja í það. Enda voru vín metin góð þegar styrk­leik­inn var sem mestur og hægt var að ná því tak­marki að verða sem fyllstur á met­hraða. Í þá daga var það óþekktur kúltúr á Íslandi að setj­ast niður eina kvöld­stund með hvítvíns­glas eða bjór­glas án þess að verða blind­fullur og enda kvöldið með haus­inn í kló­sett­skál­inni ælandi lifur og lung­um. Og Kári hlýtur að muna eftir djamm­inu í Glaumbæ þar sem drykkur húss­ins var vodki í kók eða eitt­hvað á svip­uðum styrk­leika og ástandið á fólk­inu í stíl við það. Eða í Þórs­kaffi þar sem engar vín­veit­ingar voru og í raun bannað að drekka vín þar inn­an­dyra. Það furðu­lega var að ég man ekki eftir öðru en flestir hafi verið þar á rass­gat­inu úr vín­drykkju sem átti ekki að vera leyfi­legt. Enda var það keppn­is­í­þrótt meðal ungs fólks í þá daga hverjum tæk­ist að smygla sem mestu af víni inn í Þórs­kaffi. Jafn­vel var gengið svo langt að hífa heilu flösk­urnar með snær­is­spotta upp í kló­sett­glugg­ann sem var á efri hæð­inni. Og svo þegar ballið var búið á kristi­legum tíma auð­vitað að boðun stjórn­valda þá hélt djam­mið áfram í ein­hverju heima­hús­inu. Og ef þið haldið að partíið hafi logn­ast út af þegar allt vín var búið þá er það tómur mis­skiln­ing­ur. Í þá daga þurfti ekki annað en hringja á vissa leigu­bíla­stöð og biðja um góðan bíl með vökvastýri og viti menn hann var mættur fyrir utan húsið tíu mín­útum seinna. Hvort bíll­inn var með vökva­stýri eða ekki skipti ekki máli í þessu sam­bandi því öruggt var að skottið var fullt af brenni­víni sem bíl­stjór­inn seldi svo á upp­sprengdu verði. Og í þessum við­skiptum var ekk­ert spurt eftir lög­legum vín­kaups­aldri eða álíka titt­linga­skít. Þarna gilti ein­ungis að eiga pen­inga og þá stóð skottið upp á gátt fyrir hverjum sem kaupa vildi. Allur þessi villi­manns­legi kúltúr með vín á Íslandi hafði þró­ast vegna boða og banna sem stjórn­völd settu og héldu í sínum barna­skap að þar með færi fólk sér ekki að voða við að með­höndla vín.

Ég get ekki látið það vera að láta flakka með minn­ingu sem ég varð vitni að í æsku og er um það hvernig margt full­orðið fólk not­aði áfengi í þá daga. Ég hef sjálf­sagt verið um ell­efu ára gam­all og staddur í fjár­réttum austur í sveitum þaðan sem ég er ætt­að­ur. Myndin er af einum virðu­legum bónda í sveit­inni sem hafði verið lagður til upp við rétt­ar­vegg­inn stein­dauður úr áfeng­is­drykkju og greini­lega búin að míga á sig í þokka­bót. Þar stutt frá stóðu svo aðrir mekt­ar­bændur úr sveit­inni í einum hnapp og sungu af mik­illi inn­lifun lag­ið. „Fram í heið­anna ró.“ Og ég man ekki betur en ástandið á sumum þess­ara söng­fugla hafi verið á þann veg að þeir væru á leið­inni með að taka sér far með þeim hland­blauta inn í drauma­land­ið. Allir þessir menn sem þarna um ræðir voru alls ekki þekktir fyrir að drekka vín dags­dag­lega og höfðu jafn­vel virki­lega skömm á útlend­ingum sem sífellt væru að sulla í bjór. Þetta fékk maður alla veg­anna að heyra á sínum upp­vaxt­ar­ár­um. Þeir tóku hins vegar inn áfeng­is­skammt­inn á einum degi sem fólk í löndum sem bjó við frjáls­lynd­ari og sið­aðri áfeng­is­kúltúr tók á ein­hverjum vikum eða mán­uð­u­m. 

Auglýsing
En aftur að þessu opna bréfi sem Kári Stef­áns­son skrif­aði til Áslaugar Örnu dóms­mála­ráð­herra. Þar heldur hann því fram að hún sé að leggj­ast í vík­ing til þess að auka neyslu á áfengi og stuðla um leið að meiri vanda­málum sem vissu­lega fylgir ef neyslan verður meiri. En þarna er ég ekk­ert viss um að neyslan verði meiri, þótt Kára og fleirum finn­ist það furðu­leg afstaða. Ef við byrjum til dæmis á því að velta fyrir okkur þess­ari hug­mynd dóms­mála­ráð­herra um aukið frelsi að kaupa áfengi í gegn um net­ið. Í fyrsta lagi ef við tökum þann hóp sem er verst staddur í sinni áfeng­is­neyslu og er jafn­vel heim­il­is­laus af þeirri ástæðu. Þá get ég ekki ímyndað mér að margir af þeim eigi tölvu svona yfir­leitt. Fyrir utan hvað það væri fárán­legt að láta sér detta það í hug að þeir færu að panta sér vín í gegn um netið sem þeir þyrftu svo að bíða eftir í ein­hverja daga. Og þetta á líka við um þá sem eru langt leiddir af þessum sjúk­dómi en eiga heim­ili og tölvu. Þeir munu ekki bíða í ein­hverja daga með að fá sinn skammt sem þeir þurfa á að halda ekki seinna en strax. Þeir einu sem mér dettur í hug að muni panta sér vín í gegn um netið eru þeir sem eru vand­látir á vín­teg­und­ir. Þeir munu not­færa sér þennan vett­vang til þess að panta þær teg­undir sem fást ekki í Áfeng­is­verslun rík­is­ins. En það er ekki sá hópur sem Kári og hans skoð­ana­bræður þurfa að hafa áhyggjur af.

Síðan skulum við velta fyrir okkur þessu atriði sem dóms­mála­ráð­herra datt líka í hug, um að leyft yrði að aug­lýsa áfengi í fjöl­miðlum á Íslandi. Auð­vitað dettur fólki það fyrst í hug að áfeng­is­neysla muni aukast og vanda­málin sem af þeim hlýst verða meiri. En er það svo? Ég er bara alls ekki viss. Í fyrsta lagi eru áfeng­is­aug­lýs­ingar út um allt í Íslensku sam­fé­lagi. Þær eru í erlendum blöðum og tíma­ritum sem fólk er áskrif­endur af eða kaupir í næstu bóka­búð. Þær eru á erlendum sjón­varps­rásum og á efn­isveitum sem fólk streymir á net­inu. Ekki síst ungt fólk og það fer bara vax­andi með auk­inni alþjóða­væð­ingu. Jafn­vel er hægt að sjá þetta í inn­lendum miðlum þrátt fyrir að það sé bannað með því að klína orð­inu lét­töl í eitt hornið og þá er allt í sóm­an­um. Því­lík hræsni. En þá spyr fólk. Er það ekki einmitt til­gangur selj­anda ein­hverrar vöru að auka söl­una með því að aug­lýsa hana? Jú, meira að segja ég get verið sam­mála þessu nema kannski ekki á þann hátt að vanda­mál sem fylgir áfeng­is­neyslu verði meiri. Hugsum okkur ungt fólk sem ætlar að fara á þjóð­há­tíð í Vest­manna­eyjum og er ákveðið í að kaupa einn kassa af bjór til far­ar­inn­ar. Þau verða sam­mála því að þessi bjór­kassi skuli vera af teg­und­inni Túborg, en eftir að stór og glæsi­leg aug­lýs­ing birt­ist þeim í ein­hverju blaði þá var ákveðið að skipta yfir og kaupa Carls­berg frek­ar. Þarna í þessu dæmi tókst öðru fyr­ir­tæk­inu að yfir­buga hitt og auka söl­una á sinni vöru með kröft­ugri aug­lýs­ingu. Nú þyk­ist ég vita að þeir sem ekki eru sam­mála mér í þessu dæmi bendi strax á að þetta unga fólk muni auð­vitað bæta Carls­berg kass­anum við hinn kass­ann og þar með verði aukin neysla í hópn­um. Nú getur það vel verið að sú verði raunin en þá ætla ég að full­yrða að það hafi verið fyrir miklar efa­semdir um það að einn kassi myndi duga til far­ar­inn­ar. Því ef ungt fólk er eitt­hvað líkt því sem það var á mínum ung­dóms­árum þá lætur það ekki henda að það verði skortur á áfeng­is­byrgðum þegar farið er í slíkar ferð­ir. Og ég skal fús­lega við­ur­kenna það að kröftug aug­lýs­ing getur haft áhrif á það hvaða teg­und verður fyrir val­inu og það vita þeir sem höndla með þessa vöru og þess vegna aug­lýsa þeir. Ég get þess vegna bætt því við að fjöl­þjóðaris­inn Coka Cola sem hefur aug­lýst svaka­lega í gegn um tíð­ina eykur ekki við gos­drykkja­þamb í heim­in­um. En neysla á gos­drykkj­um  hefur frekar dreg­ist saman að mér skilst vegna auk­innar heilsu­vit­undar hjá fólki. Þeir ein­ungis aug­lýsa meira til þess að selja meira en keppi­naut­ur­inn. Svo er við þetta að bæta að flestir fjöl­miðlar á Íslandi sem manni skilst að rambi á barmi gjald­þrots mundu fagna nýrri tekju­lind til þess að reka sig og standa jafn­fætis erlendum fjöl­miðlum á þessu sviði.

Nú fer sjálf­sagt ein­hver sem les þetta að velta því fyrir sér hvort ég sé einn af þessum heila­þvegnu sjálf­stæð­is­mönnum sem verði að taka upp hansk­ann fyrir einn ráð­herra þess flokks. En því er til að svara að þeir sem þekkja mig vita að þessi hug­detta er fjar­stæðu­kennd. Ég hef þvert á móti haft frekar skömm á þessum flokki og talið hann vera drag­bít á íslensku sam­fé­lagi. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er grímu­laust hags­muna­banda­lag fyrir ákveðna hópa og því miður búin að móta okkar litla sam­fé­lag á þann hátt að maður hefur á til­finn­ing­unni að þeir hirði rjómann af sam­eig­in­legum auð­lindum okkar mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. En því miður verður ekki litið fram hjá því að þessi flokkur er búin að vera ráð­andi afl í íslensku sam­fé­lagi síð­ast­liðin hund­rað ár og allt útlit fyrir að hann verði það eitt­hvað áfram. Þess vegna er það fagn­að­ar­efni að það skuli koma ein­hver frjáls­lynd­is­tónn úr þess­ari átt og vottur þess að við séum fær­ast nær öðrum þjóðum hvað varðar þá til­finn­ingu að stjórn­völd treysti þegn­un­um.

Auglýsing
Og þá er ég kannski komin að kjarn­anum á því hvað fór mest í taug­arnar á mér við þetta mál og ástæð­unni fyrir því að ég er að skrifa þennan pistil. Hvers vegna í fjand­anum þarf ég enn einu sinni að búa við það, kom­inn á gam­als­ald­ur, að fram spretti ein­hverjir sjálf­skip­aðir siða­post­ular öskr­andi um, að ef við á Íslandi færumst eitt­hvað nálægt því sem gengur og ger­ist í lönd­unum hérna í kring um okkur þá fari stór hluti þjóð­ar­innar sér að voða. Og það hlægi­lega, eða eigum við að segja það grát­lega við þetta er að hluti af þessum siða­postulum býr í þessum löndum þar sem áfeng­is­kúltúr er mun frjáls­legri heldur en á Íslandi. Frá því að ég man eftir og fór að fylgj­ast með íslenskum þjóð­málum hef ég orðið vitni af þess­ari sjúk­legu for­ræð­is­hyggju. Jafn­vel á sínum tíma þegar átti að koma sjón­varp á Íslandi þá byrj­uðu siða­post­ul­arnir að góla um að þjóðin myndi ekki höndla það. Og svo aftur seinna þegar átti að senda út sjón­varp í lit þá þótti það of mik­ið. Jafn­vel sum orðin sem þá voru látin falla eru bein­línis hlægi­leg í dag, eins og að morðin í glæpa­mynd­unum yrðu svo raun­veru­leg að hin sak­lausa alþýða Íslands gæti ekki höndlað það. Síðan er hægt að rekja sög­una í hverju mál­inu á fætur öðru. Þegar við gengum í EFTA og svo seinna ESS þá átti hin Íslenska þjóð að standa hjá á meðan útlend­ingar hirtu af okkur vinnu og annað fémætt sem hérna var að finna. En reyndin varð heldur betur önn­ur. Hagur okkar stór­batn­aði og því miður jaðr­aði frekar við að við mis­not­uðum útlend­inga sem hingað komu til þess að vinna fyrir okk­ur. Þegar aflétt var bjór­banni átti hver vinnu­stað­ur­inn á fætur öðrum að vera óstarf­hæfur sökum þess að starfs­fólk yrði svo ölvað frá morgni til kvölds. En reyndin varð sú að vín­kúltúr á Íslandi stór­batn­aði og ég man ekki betur en að hafa heyrt um að dregið hafi úr áfeng­is­neyslu ungs fólks á Íslandi frá þeim tíma. 

Ég gæti haldið áfram enda­laust um þessa sjúku for­sjár­hyggju sem sumir Íslend­ingar eru haldnir en ég læt mér nægja að nefna eitt í við­bót. Á þeim tíma þegar amer­íski her­inn dvaldi hér á landi var það mikið rifr­ild­is­mál og ekki síst fyrir það að hann hefði svo mikil og óæski­leg áhrif á alþýðu Íslands. Þarna var aðal­lega verið að tala um sjón­varp og útvarp sem her­inn var með á sínum snær­um. Það þótti nátt­úr­lega stór­hættu­legt að land­inn gæti náð þessum útsend­ingum og þess vegna náð­ist það í gegn að útsend­ing var tak­mörkuð við varn­ar­svæð­ið. Sem betur fór tókst það ekki að öllu leyti þannig að útsend­ingar náð­ust í Kefla­vík sem sumir segja að hafa orðið til þess að fleiri tón­list­ar­snill­ingar hafi fæðst þar en ann­ars staðar á Íslandi. Og dæmi nú hver fyrir sig.

Ég hóf þessi skrif á því að deila hart á Kára Stef­áns­son og kall­aði hann gamlan fret­hólk í fyr­ir­sögn en eftir á íhug­aði ég hvort þar væri einum of langt geng­ið. En svo ákvað ég að láta slag standa vegna þess að í mínum huga fellst í þessu orði ákveðin aðdáun á þessum manni. Hann hefur oft verið orð­hvass og hitt í mark í þeim greinum sem hann hefur skrifað og þar hef ég oft verið honum sam­mála. Ég er líka þeirra skoð­unar að Kári sé afskap­lega fær maður í sinni fræði­grein fyrir utan að hann er bráð skemmti­legur karl­inn.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar