Fyrir einhverjum vikum síðan las ég grein eftir Kára Stefánsson þar sem hann fordæmir harkalega dómsmálaráðherra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Þar fordæmir Kári þær hugmyndir Áslaugar um að aflétta auglýsingabanni á áfengi í fjölmiðlum og að auka frelsi með kaup á sömu vöru í gegn um netið. Fyrst eftir að ég las þessa grein þá vaknaði löngun hjá mér að koma með aðra hlið á þessu máli, en áður en af því varð kom upp þetta dæmalausa COVID-19 sem varð til þess að ég gerði ekkert í málinu. En nú þegar þó nokkur tími er liðinn frá því að Kári skrifaði greinina í Fréttablaðið og við erum stödd í miðjunni á þessu veirufári þá tek ég eftir að málið er að vakna aftur. Bæði hjá Áslaugu Örnu og í kjölfarið hjá fólki sem tekur kröftulega undir sjónarmið Kára Stefánssonar og þá get ég ekki setið á mér.
Nú vil ég taka það fram í byrjun að ég er sammála Kára um angistina og skelfinguna sem getur fylgt þeim sem eru að takast á við alvarlegan alkóhólisma og aðra fíknisjúkdóma. En að hann geti tengt það við hugmyndir dómsmálaráðherra um meira frjálslyndi á sviði áfengismála á Íslandi, því er ég bara alls ekki sammála. Í fyrsta lagi langar mig að rifja upp hvernig áfengiskúltúrinn var á Íslandi þegar við Kári vorum unglingar eða ungir menn. Þar sem við erum báðir á sama aldri (fæddir á fyrri hluta síðustu aldar) þá hlýtur hann að muna jafnvel og ég hvernig var til siðs að nota áfenga drykki á okkar sokkabandsárum. En sá kúltúr var allur undir þeim lögum og formerkjum að sauðsvartur almúginn færi sér ekki að voða þegar hann notaði þetta efni. Og ég vil taka það fram að í þá daga var ekki leyft að selja bjór á Íslandi vegna þess að stjórnvöld voru ákveðin í að forða almúganum frá því að vera út úr drukkinn frá morgni til kvölds. Eða það var alla veganna skýringin sem gefin var og dæmi nú hver fyrir sig hvort spárnar hafi gengið eftir, eftir að bjórbanni var aflétt. En aftur að vínkúltúr í æsku okkar Kára þegar forræðishyggjan var í hámarki, auðvitað til verndar því að sauðheimskur almúginn færi sér ekki að voða.
Ég get ekki látið það vera að láta flakka með minningu sem ég varð vitni að í æsku og er um það hvernig margt fullorðið fólk notaði áfengi í þá daga. Ég hef sjálfsagt verið um ellefu ára gamall og staddur í fjárréttum austur í sveitum þaðan sem ég er ættaður. Myndin er af einum virðulegum bónda í sveitinni sem hafði verið lagður til upp við réttarvegginn steindauður úr áfengisdrykkju og greinilega búin að míga á sig í þokkabót. Þar stutt frá stóðu svo aðrir mektarbændur úr sveitinni í einum hnapp og sungu af mikilli innlifun lagið. „Fram í heiðanna ró.“ Og ég man ekki betur en ástandið á sumum þessara söngfugla hafi verið á þann veg að þeir væru á leiðinni með að taka sér far með þeim hlandblauta inn í draumalandið. Allir þessir menn sem þarna um ræðir voru alls ekki þekktir fyrir að drekka vín dagsdaglega og höfðu jafnvel virkilega skömm á útlendingum sem sífellt væru að sulla í bjór. Þetta fékk maður alla veganna að heyra á sínum uppvaxtarárum. Þeir tóku hins vegar inn áfengisskammtinn á einum degi sem fólk í löndum sem bjó við frjálslyndari og siðaðri áfengiskúltúr tók á einhverjum vikum eða mánuðum.
Síðan skulum við velta fyrir okkur þessu atriði sem dómsmálaráðherra datt líka í hug, um að leyft yrði að auglýsa áfengi í fjölmiðlum á Íslandi. Auðvitað dettur fólki það fyrst í hug að áfengisneysla muni aukast og vandamálin sem af þeim hlýst verða meiri. En er það svo? Ég er bara alls ekki viss. Í fyrsta lagi eru áfengisauglýsingar út um allt í Íslensku samfélagi. Þær eru í erlendum blöðum og tímaritum sem fólk er áskrifendur af eða kaupir í næstu bókabúð. Þær eru á erlendum sjónvarpsrásum og á efnisveitum sem fólk streymir á netinu. Ekki síst ungt fólk og það fer bara vaxandi með aukinni alþjóðavæðingu. Jafnvel er hægt að sjá þetta í innlendum miðlum þrátt fyrir að það sé bannað með því að klína orðinu léttöl í eitt hornið og þá er allt í sómanum. Þvílík hræsni. En þá spyr fólk. Er það ekki einmitt tilgangur seljanda einhverrar vöru að auka söluna með því að auglýsa hana? Jú, meira að segja ég get verið sammála þessu nema kannski ekki á þann hátt að vandamál sem fylgir áfengisneyslu verði meiri. Hugsum okkur ungt fólk sem ætlar að fara á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og er ákveðið í að kaupa einn kassa af bjór til fararinnar. Þau verða sammála því að þessi bjórkassi skuli vera af tegundinni Túborg, en eftir að stór og glæsileg auglýsing birtist þeim í einhverju blaði þá var ákveðið að skipta yfir og kaupa Carlsberg frekar. Þarna í þessu dæmi tókst öðru fyrirtækinu að yfirbuga hitt og auka söluna á sinni vöru með kröftugri auglýsingu. Nú þykist ég vita að þeir sem ekki eru sammála mér í þessu dæmi bendi strax á að þetta unga fólk muni auðvitað bæta Carlsberg kassanum við hinn kassann og þar með verði aukin neysla í hópnum. Nú getur það vel verið að sú verði raunin en þá ætla ég að fullyrða að það hafi verið fyrir miklar efasemdir um það að einn kassi myndi duga til fararinnar. Því ef ungt fólk er eitthvað líkt því sem það var á mínum ungdómsárum þá lætur það ekki henda að það verði skortur á áfengisbyrgðum þegar farið er í slíkar ferðir. Og ég skal fúslega viðurkenna það að kröftug auglýsing getur haft áhrif á það hvaða tegund verður fyrir valinu og það vita þeir sem höndla með þessa vöru og þess vegna auglýsa þeir. Ég get þess vegna bætt því við að fjölþjóðarisinn Coka Cola sem hefur auglýst svakalega í gegn um tíðina eykur ekki við gosdrykkjaþamb í heiminum. En neysla á gosdrykkjum hefur frekar dregist saman að mér skilst vegna aukinnar heilsuvitundar hjá fólki. Þeir einungis auglýsa meira til þess að selja meira en keppinauturinn. Svo er við þetta að bæta að flestir fjölmiðlar á Íslandi sem manni skilst að rambi á barmi gjaldþrots mundu fagna nýrri tekjulind til þess að reka sig og standa jafnfætis erlendum fjölmiðlum á þessu sviði.
Nú fer sjálfsagt einhver sem les þetta að velta því fyrir sér hvort ég sé einn af þessum heilaþvegnu sjálfstæðismönnum sem verði að taka upp hanskann fyrir einn ráðherra þess flokks. En því er til að svara að þeir sem þekkja mig vita að þessi hugdetta er fjarstæðukennd. Ég hef þvert á móti haft frekar skömm á þessum flokki og talið hann vera dragbít á íslensku samfélagi. Sjálfstæðisflokkurinn er grímulaust hagsmunabandalag fyrir ákveðna hópa og því miður búin að móta okkar litla samfélag á þann hátt að maður hefur á tilfinningunni að þeir hirði rjómann af sameiginlegum auðlindum okkar mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. En því miður verður ekki litið fram hjá því að þessi flokkur er búin að vera ráðandi afl í íslensku samfélagi síðastliðin hundrað ár og allt útlit fyrir að hann verði það eitthvað áfram. Þess vegna er það fagnaðarefni að það skuli koma einhver frjálslyndistónn úr þessari átt og vottur þess að við séum færast nær öðrum þjóðum hvað varðar þá tilfinningu að stjórnvöld treysti þegnunum.
Ég gæti haldið áfram endalaust um þessa sjúku forsjárhyggju sem sumir Íslendingar eru haldnir en ég læt mér nægja að nefna eitt í viðbót. Á þeim tíma þegar ameríski herinn dvaldi hér á landi var það mikið rifrildismál og ekki síst fyrir það að hann hefði svo mikil og óæskileg áhrif á alþýðu Íslands. Þarna var aðallega verið að tala um sjónvarp og útvarp sem herinn var með á sínum snærum. Það þótti náttúrlega stórhættulegt að landinn gæti náð þessum útsendingum og þess vegna náðist það í gegn að útsending var takmörkuð við varnarsvæðið. Sem betur fór tókst það ekki að öllu leyti þannig að útsendingar náðust í Keflavík sem sumir segja að hafa orðið til þess að fleiri tónlistarsnillingar hafi fæðst þar en annars staðar á Íslandi. Og dæmi nú hver fyrir sig.
Ég hóf þessi skrif á því að deila hart á Kára Stefánsson og kallaði hann gamlan frethólk í fyrirsögn en eftir á íhugaði ég hvort þar væri einum of langt gengið. En svo ákvað ég að láta slag standa vegna þess að í mínum huga fellst í þessu orði ákveðin aðdáun á þessum manni. Hann hefur oft verið orðhvass og hitt í mark í þeim greinum sem hann hefur skrifað og þar hef ég oft verið honum sammála. Ég er líka þeirra skoðunar að Kári sé afskaplega fær maður í sinni fræðigrein fyrir utan að hann er bráð skemmtilegur karlinn.