Skyndilega hætti fólk að ferðast.
Eftir stöðugan vöxt alþjóðlegrar ferðaþjónustu undanfarinn áratug var okkur í einu vetfangi sýnt fram á fallvaltleika okkar daglega lífs og væntinga. Okkur var kippt niður á harða jörðina: þegar allt kemur til alls er heilsan mikilvægust. Við fylltumst ótta um að missa hana og erum núna tilbúin að fórna léttvægari lífsgæðum til að reyna að tryggja okkur heilbrigt líf til lengri tíma. Allt í einu getum við ekki farið þangað sem við viljum, gert það sem okkur langar til eða hitt þá sem okkur fýsir. Og allt í einu verður þetta þrískipta frelsi minna mikilvægt en góður handþvottur.
Ferðaþjónustan byggir á því að þetta þrífrelsi sé til staðar. Hún grundvallast á ferðafrelsi fólks og að til séu áfangastaðir, eftirsóknarverðir í augum ferðalanga, sem eru tilbúnir að taka á móti því. Hún krefst þess að áfangastaðurinn hafi upp á upplifanir að bjóða sem veita lífsfyllingu til skemmri eða lengri tíma og að þjónustan sem veitt er sé í samræmi við væntingar; en einnig að tryggt sé að gestirnir hagi sér með ábyrgum hætti og umgjörðin sé til þess ætluð að áfangastaðurinn sitji ekki undir skemmdum. Hún grundvallast á samskiptum: gestir að hitta gestgjafa, fólk að hitta fólk. Maður er manns gaman.
Íslensk ferðaþjónusta varð mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar á síðast liðnum áratug. Hún er víðfeðm, skapar margskonar störf fyrir fólk um allt land með allskonar bakgrunn og reynslu. Öflug fyrirtæki hafa orðið til í atvinnugreininni, sem leiða sókn á erlenda markaði, tryggja aðgengi að landinu, skapa ímynd og væntingar og setja markið í þjónustugæðum og ábyrgum rekstri. Hryggjarstykki þjónustunnar eru smærri fyrirtæki um allt land, þar sem sköpunarkraftur og frumkvæði einstaklinga nýtur sín og fólki gefst tækifæri til að skapa sér líf á eigin forsendum.
Tryggjum að áfram verði hlúð að gæðum og þekkingu sem forsendum upprisu atvinnugreinarinnar:
Það verður freistandi að rjúka af stað með tilboð um útsöluverð á ferðum. Slíkt getur verið að einhverju leyti nauðsynlegt, en gleymum okkur ekki í samkeppninni niður á botninn. Samkeppni um viðskiptavini, eingöngu á grundvelli verðlags, leiðir á endanum til lægri launa, minni þjónustugæða og takmarkaðrar upplifunar gesta og við munum ekki geta staðið við of lágt verðlag til lengdar ef við viljum standa undir nafni sem gæðaáfangastaður. Einblínum á að bjóða eftirsóknarverða gæðavöru á sanngjörnu verði.
Hlúum að smærri fyrirtækjum um allt land og tryggjum að þau gleymist ekki í þeim aðgerðum sem framundan eru:
Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykkið í íslenskri ferðaþjónustu. Nýsköpun í ferðaþjónustu á sér gjarnan stað fyrir tilstilli einyrkja, sem sameina lífstíl og atvinnu, koma nýjum áfangastöðum á kortið og opna augu viðskiptavina fyrir nýjum upplifunum, vegna þess að þeir þrá að lifa því lífi sem þeir kjósa sér. Slíkir frumkvöðlar geta orðið kjölfesta í atvinnulífi smærri byggðarlaga og skapað með tímanum mikilvæg störf sem ekki er auðvelt að flytja í burtu með handafli.
Rjúkum ekki í umfangsmiklar bráðaaðgerðir í markaðsmálum án langtímahugsunar:
Að sumu leyti má segja að allir áfangastaðir heims verði nýir áfangastaðir þegar fólk fer að huga að alþjóðlegum ferðalögum að nýju. Samkeppnin verður hörð.
Bati ferðaþjónustunnar verður langhlaup sem mjög mun verða háð viðhorfum fólks gagnvart því að ferðast yfirhöfuð, en ekki síður gagnvart því hvernig áfangastaðir rækta gildi sín og bakgarð. Ísland nýtur enn virðingar sem áfangastaður þeirra sem vilja upplifa stórbrotna náttúru án síu og njóta vingjarnlegrar þjónustu og atlætis. Aðeins hefur fallið á þá ímynd á undanförnum árum - nú er tækifæri til að endurskoða hvert stefnir og hvert við viljum fara.
Allra mikilvægast er að hlúa að fjöregginu:
Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að missa ekki sjónar á því að þessi mikilvægasta atvinnugrein landsins á allt sitt undir náttúru, umhverfi og verndunarsjónarmiðum. Gleymum okkur ekki við að spýta í lófa og taka til við framkvæmdir. Hugsum til langs tíma, til næstu kynslóða og munum að þessari vá mun ljúka. Þegar nýr dagur rís megum við ekki vera búin að moka burtu forsendum íslenskrar ferðaþjónustu til framtíðar.
Það eru erfiðir tímar fram undan og freistandi að rífa upp hamarinn og rjúka af stað til að bjarga málum. Göngum varlega um þær dyr og vöndum okkur, til að mölva ekki undan þeim tækifærum sem leynast í langri framtíð, fyrir okkur og næstu kynslóðir.
Höfundur er fyrrverandi ferðamálastjóri og eigandi sveitahótels í Fljótum í Skagafirði.