Nánast öll fyrirtæki í helstu atvinnugreinum í landinu þurfa nú að endurskipuleggja starfsemi sína vegna COVID-19. Ferðaþjónusta fær mesta skellinn strax og þarf nú að búa sig undir erfiða næstu 6-12 mánuði. Ferðaþjónustan er margslungin atvinnugrein og afleidd áhrif munu valda því að flestallar aðrar atvinnugreinar finna fyrir því þegar hún hikstar. Atvinnuleysi mun rjúka upp tímabundið á meðan faraldurinn gengur yfir. Við þessu er lítið hægt að gera.
Gjaldeyristekjur síðustu ára mikilvægar
Frá árinu 2010 hefur ferðaþjónustan og annar útflutningur á vöru og þjónustu blómstrað og af þeim sökum hefur ytri staða þjóðarbúsins batnað hratt á tiltölulega fáum árum. Skynsamleg hagstjórn hins opinbera og úrvinnsla hrunmála hefur einnig haft sitt að segja. Sem sagt, digur gjaldeyrisforði Seðlabankans og lágt skuldahlutfall ríkisins eru m.a. því að þakka að gjaldeyristekjur og skatttekjur frá ferðaþjónustu hafa á síðustu árum margfaldast. Vitaskuld eiga aðrar atvinnugreinar líkt og sjávarútvegur og hin fjölmörgu glæsilegu hugverkatengdu fyrirtæki í landinu líka sinn þátt í að gjaldeyristekjur hafa aukist.
Stjórnvöld og bankar hafa kynnt sín fyrstu úrræði fyrir atvinnulífið og lofa þau góðu. Líklegt er að meira þurfi til í ljósi þróunar COVID-19 faraldursins í okkar helstu viðskiptalöndum. Ríkissjóður þarf því að gefa eftir af sinni sterku fjárhagslegu stöðu til að hjálpa ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum sem nú eru tímabundið í vanda. Til framtíðar litið er einnig lífsnauðsynlegt að umhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja gleymist ekki og frumkvöðlasjóðir verði efldir samhliða öðrum aðgerðum í atvinnulífinu.
Sterkir innviðir ferðaþjónustu
Eftir alla uppbygginguna í ferðaþjónustunni frá árinu 2010 er Ísland með sterka innviði fyrir komandi ár sem vonandi verða blómleg eftir að núverandi faraldur er afstaðinn. Þessi uppbygging hefur mikið til byggst upp af einkaframtaki fjölbreytilegra fyrirtækja í öllum stærðarflokkum. Glæsileg hótel og gistiheimili hafa risið víða. Fjölbreytt bændagisting hefur byggst upp út um land og aukið bjartsýni og atvinnumöguleika á landsbyggðinni.
Hvernig breytist ferðahegðun í heiminum?
Þegar yfirstandandi faraldri lýkur á heimsvísu mun ferðaþjónusta lifna við. Líklegt er að ferðahegðun geti breyst og ferðatíðni dregist saman fyrstu árin eftir faraldurinn. Hvernig nákvæmlega þetta gerist veit enginn og heldur ekki hversu hratt ferðaþjónustan mun lifna við. Í þessu öllu geta falist tækifæri fyrir Ísland. Vinsælustu ferðamannastaðir heims hafa á undanförnum árum verið helstu stórborgir heimsins, New York, París, Moskva, Prag, Amsterdam og svo framvegis. Og stórborgirnar verða auðvitað áfram vinsælar. Á næstu árum er þó vel hugsanlegt að ferðahegðun gæti breyst eftir slíkan faraldur sem geisar á þann hátt að margir ferðamenn velji í meiri mæli að sækja heim lönd og staði þar sem örtröðin er minni en á miðjum stórborgarstrætum. Og að sama skapi gæti ferðatíðnin breyst með auknum tækniframförum við fundahöld og ferðamenn ferðist þá sjaldnar en stoppi lengur á hverjum stað. Allt þetta getur skapað tækifæri fyrir Ísland.
Vel skipulögð markaðsherferð mikilvæg
Einn liður í að koma Íslandi rækilega á kortið eftir að faraldrinum lýkur er vel skipulögð markaðsherferð erlendis. Stjórnvöld og greinin sjálf hafa rætt um slíka herferð þegar séð er fyrir endann á faraldrinum. Með vel skipulagðri markaðsherferð fyrir Ísland eru stór tækifæri til að laða til okkar ferðamenn sem vilja nú koma og njóta einstakrar íslenskrar náttúru á öruggum stað, anda að sér fersku lofti utan kraðaks stórborga og upplifa landið og nýta sér þjónustu frá þeim fjölmörgu metnaðarfullu afþreyingarfyrirtækjum sem byggst hafa upp á síðustu árum. Næstu ár eftir að faraldrinum slotar geta því orðið góð á Íslandi ef að rétt er á spilum haldið.
Höfundur er framkvæmdastjóri Norðursiglingar hf á Húsavík og stjórnarmaður í Isavia og Sjóböðunum á Húsavík.