Velferðarríkið er eitt allsherjar tryggingarkerfi til að verja fólk fyrir áföllum. Í venjulegu árferði tryggir það lífsviðurværi í atvinnuleysi, þegar heilsan og starfsgetan bilar og þegar aldur færist yfir. Það dregur úr fátækt og ójöfnuði með því að bæta sérstaklega hag þeirra sem minna hafa.
Öflugt velferðarkerfið er þó meira en afkomutryggingakerfi og jöfnunartæki. Það veitir öllum heilbrigðisþjónustu, menntun og tækifæri, ásamt því að leitast við að tryggja viðunandi húsaskjól.
En í kreppum fær velferðarkerfið aukið hlutverk við að tryggja almenning gegn tímabundnum skerðingum lífskjara.
Lærdómur af fjármálakreppunni í Evrópu
Reynslan frá fjármálakreppunni sem hófst árið 2008 sýndi með skýrum hætti hvernig velferðarríkin stóðu sig misjafnlega vel í að verja almenning gegn kjaraskerðingum.
Þær þjóðir sem bjuggu við öflugri velferðarríki fundu almennt minna fyrir fjárhagsþrengingum af völdum kreppunnar en þær þjóðir sem bjuggu við veikari velferðarríki.
Þetta er sýnt í nýlegri bók sem ég og átta erlendir samstarfsmenn skrifuðum, ásamt tveimur íslenskum rannsóknarmönnum*. Bókin heitir Welfare and the Great Recession: A Comparative Study og kom úr hjá Oxford University Press á síðasta ári (sjá nánar um bókina hér).
Með kerfisbundnum samanburði á umfangi fjármálakreppunnar og afleiðingum hennar fyrir lífskjör íbúa í 30 Evrópulöndum gátum við sýnt hvernig ólík velferðarríki skiluðu mismunandi árangri í að verja lífskjör almennings í þessum löndum.
En við sýndum einnig hvernig aðgerðir stjórnvalda skiptu máli – ýmist til góðs eða ills. Hvoru tveggja skipti máli (gæði velferðarríkisins og stjórnvaldsaðgerðir), að teknu tilliti til umfangs fjármálaáfallsins sem upphaflega leiddi til kreppunnar.
Í fjármálakreppunni skipti velferðarríkið einna mestu máli fyrir þá sem misstu vinnuna. En atvinnuleysisbótakerfin voru misjafnlega víðtæk og misjafnlega rausnarleg og því mismunandi fær um að verja lífskjör fólks.
Þannig guldu Grikkir t.d. fyrir það að atvinnuleysisbótakerfi þeirra náði bara til hluta af vinnandi fólki og réttur til bóta varði einungis í skamman tíma. Þegar leið á kreppuna þá var stór meirihluti atvinnulausra Grikkja án atvinnuleysisbóta og þeir áttu heldur ekki rétt á neinni lágmarksafkomutryggingu (samsvarandi fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hér á landi).
Þá var einungis eftir að stóla á ættingja, sem margir hverjir voru einnig í vanda. Þrengingar þjóðarinnar urðu því óheyrilega miklar og mestar fyrir þá sem voru tekjulægri til að byrja með.
Írar og Íslendingar urðu fyrir álíka djúpri efnahagskreppu en fjárhagsþrengingar almennings jukust meira á Írlandi. Þar munaði mestu um að íslenska velferðarkerfið veitti þrátt fyrir allt betri vörn en það írska.
Þrátt fyrir að bæði Finnar og Svíar fyndu fyrir talsverðum efnahagssamdrætti, og að atvinnuleysi yrði meira hjá þeim en Íslendingum, þá gætti ekki aukinna fjárhagsþrenginga að ráði meðal almennings í Finnlandi og Svíþjóð.
Velferðarkerfin þar veittu viðunandi vörn gegn kreppuáfallinu. Atvinnuleysisbætur þeirra voru nógu víðtækar og rausnarlegar.
Þó margt væri vel gert í úrvinnslu fjármálakreppunnar hér þá réð velferðarkerfið ekki nógu vel við áfall af þeirri stærðargráðu sem varð í hruninu. Varnir gegn verðbólgu og skuldavanda voru sérstaklega ófullnægjandi og atvinnuleysisbætur voru of lágar.
Nú er staðan með öðrum hætti.
Lærdómur fyrir núverandi kreppu
Kórónukreppan er önnur tegund af kreppu en fjármálakreppan sem hófst 2008. Nú stöðvast efnahagslíf þjóða með óvenju afgerandi hætti vegna sóttvarnaraðgerða, en síðast var skuldavandi banka og fyrirtækja helsta orsök kreppunnar.
Að þessu sinni reynir öðru fremur á heilbrigðiskerfi þjóðanna til að fækka dauðsföllum af völdum faraldursins og á atvinnuleysisbótakerfin til að tryggja framfærslu þeirra sem missa vinnuna.
Þjóðir sem búa við altækar sjúkratryggingar og öflug heilbrigðiskerfi standa að öðru jöfnu betur að vígi gegn veirunni. Nú munu t.d. Bandaríkjamenn líða fyrir það að umtalsverður hluti þjóðarinnar býr við ófullnægjandi sjúkratryggingar.
Þegar láglaunafólk þar í landi missir vinnuna missir það um leið sjúkratrygginguna (ef það var ekki án hennar fyrir). Það hefur þá oft ekki efni á að leita lækninga ef það veikist, freistast til að mæta veikt og smitandi til vinnu og dreifir veirunni meðal vinnufélaga sem eru í álíka veikri stöðu. Þetta er vítahringur fátæktar og ófullnægjandi velferðartrygginga.
Ríka fólkið í Bandaríkjunum býr hins vegar við hágæða heilbrigðisþjónustu. Dánartíðni verður því mun hærri í láglaunahópunum þar í landi (sjá um það hér).
Þjóðirnar við Miðjarðarhaf fóru margar mjög illa út úr fjármálakreppunni og þurftu að taka á sig mikinn niðurskurð velferðarútgjalda í kjölfarið, vegna mikilla opinberra skulda. Þær voru ekki búnar að jafna sig þegar kórónukreppan skall á og hefur hún nú þegar leikið sumar þeirra afar illa, t.d. Ítali og Spánverja.
Þar verða miklar neikvæðar afleiðingar af núverandi kreppu sem geta orðið langvinnar. Velferðarkerfi þessara þjóða eru að auki mun veikari en við eigum að venjast á Norðurlöndum.
Geta og vilji stjórnvalda skiptir líka máli
En það reynir líka á viðbrögð stjórnvalda í framkvæmd sóttvarnaraðgerða. Samkomubönn og samskiptareglur sem hamla útbreiðslu veirunnar eru félagslegar aðgerðir, stýring hegðunar frá áhættu.
Stjórnlynd og vel skipulögð stjórnvöld og hlýðnar þjóðir geta náð góðum árangri í baráttu við skæðar farsóttir, eins og mörg dæmi eru um frá Asíu (t.d. Kína, Singapore, Taiwan, Suður-Kórea og Hong Kong).
Lausatök á sviði sóttvarna leiða til meiri útbreiðslu sýkinnar sem leggur svo ofurálag jafnvel á öflugustu heilbrigðiskerfi.
Þar sem saman fer öflug stjórnun sóttvarna og öflugt heilbrigðiskerfi verður manntjónið af völdum veirunnar hvað minnst (t.d. í Þýskalandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og á Íslandi).
Þar sem saman fara veik stjórnvöld og ófullburða velferðarkerfi er hætta á verri afleiðingum fyrir lífskjör almennings (t.d. í þróunarlöndum).
Hvað efnahagslegar afleiðingar COVID-kreppunnar varðar skiptir lágmörkun umfangs atvinnuleysis og framfærsla atvinnulausra mestu máli.
Það þýðir ekki að biðja markaðinn eða frjálshyggjumenn um lausnir á þeim vanda.
Ríkisvaldið eitt er til bjargar – rétt eins og var í fjármálakreppunni eftir 2008.
Sumar ríkisstjórnir standa þó illa að vígi, meðal annars vegna baráttu frjálshyggjumanna fyrir niðurskurði velferðarútgjalda og veikingu ríkisvaldsins á síðustu fjórum áratugum.
Þar sem stjórnvöld geta síður stutt við atvinnulífið til að halda aftur af auknu atvinnuleysi (með Keynesískum örvunaraðgerðum) og þar sem atvinnuleysisbótakerfin eru lakari þar mun kreppan koma harðar niður á lífskjörum almennings. Þar mun ójöfnuður aukast í kjölfarið.
Áhrif frjálshyggjunnar hafa þannig öll verið á versta veg hvað þetta snertir.
Staða Íslendinga nú – það sem þarf að gera
Við Íslendingar njótum þess nú að búa við öflugt heilbrigðiskerfi sem nær til allra og er vel faglega mannað. Stjórnvöld hafa einnig haldið vel á málum við framkvæmd sóttvarnaraðgerða, undir leiðsögn fagfólks.
Útbreiðslu sóttarinnar er því haldið í lágmarki og dánartíðni virðist ætla að verða með minnsta móti hér á landi.
Það verður seint fullþakkað, en sýnir mikilvægi þess að búa við góða stjórnarhætti og öflugt velferðarkerfi sem nær til allra íbúa landsins.
Það sem er tvísýnast hjá okkur nú er atvinnuleysisvandinn. Hann getur orðið mikill og nokkuð langvinnur, einkum í sumum greinum ferðaþjónustunnar. Hversu vel atvinnuleysisbótakerfið tryggir kjör atvinnulausra verður lykilatriði fyrir lífskjörin í landinu á næstu mánuðum.
Í grunninn eru atvinnuleysisbæturnar hér á landi of naumt skammtaðar: atvinnulausir halda einungis 70% af fyrri heildarlaunum í fyrstu 3 mánuðina og síðan fer fólk á flatar atvinnuleysisbætur sem eru aðeins 289.510 kr. á mánuði, miðað við fullan bótarétt.
Þeir sem lenda í langtímaatvinnuleysi eru því mjög illa varðir gegn kjaraskerðingu. Að lágmarki lenda atvinnulausir í 30% kjaraskerðingu. Þau sem voru á meðallaunum fá t.d. meira en 50% kjaraskerðingu við að fara á flötu atvinnuleysisbæturnar (eftir 3 mánuði í atvinnuleysi).
Stjórnvöld hafa þó bætt úr með innleiðingu hlutabótaleiðarinnar. Hagur þeirra sem geta notað hana (þ.e. halda minnst 25% starfshlutfalli hjá vinnuveitanda sínum) er mun betur tryggður en þeirra sem missa vinnuna að fullu.
Fólk með allt að 400 þús. krónur í laun heldur þeim til fulls á meðan það er á hlutabótum og hlutfallið er einnig hærra en 70% hjá þeim sem voru með tekjur um 700 þúsund kr. á mánuði.
Útfærsla hlutabótaleiðarinnar hefur þannig bætt atvinnuleysisbótakerfið svo um munar. En ekki geta allir notið þess. Þau sem fá beinar uppsagnir fara á verri kjörin í almenna atvinnuleysisbótakerfinu.
Ef við munum búa við langvarandi atvinnuleysi, sem verður nær örugglega hjá stórum hluta starfsfólks í ferðaþjónustu, þá þarf að efla atvinnuleysisbótakerfið enn frekar til að verja atvinnulausa betur.
Það er best gert með hækkun flötu bótanna, lengingu tímabilsins á bótum sem eru hlutfall fyrri launa og/eða með hækkun bótahlutfallsins fyrir tekjulægri hópa, úr 70% í t.d. 90%. Þannig yrðu viðkvæmustu hóparnir betur varðir gegn of miklum kjaraskerðingum. Það er bæði réttlátt og skynsamlegt að gera.
Mikið veltur auðvitað líka á aðgerðum stjórnvalda og seðlabanka til að halda á floti fyrirtækjum sem ekki geta snúið að fullu til eðlilegrar starfsemi strax á næstu mánuðum. Það sama gildir um varnir gegn verðbólgu, sem seðlabankinn hefur nú mikla burði til að tryggja, ef vilji er til.
Fyrstu skref stjórnvalda voru mikilvæg, en betur má ef duga skal. Mikilvægur kostur í stöðu Íslands í þessari kreppu er að fjárhagur ríkisins og seðlabankans er góður, ólíkt því sem var eftir fjármálakreppuna 2008. Geta ríkisvaldsins til að brúa gjánna sem er í veginum er því mikil.
Þegar heilbrigðisyfirvöld verða tilbúin í afléttingu sóttvarnaraðgerða verður mikilvægt að veita efnahagslífinu örvun með öflugri einkaneyslu landsmanna sjálfra, því bið verður væntanlega á að erlendir ferðamenn snúi hingað í miklum mæli.
Þá mun kaupmáttur launa og atvinnuleysisbóta leika stórt hlutverk í eflingu einkaneyslunnar hér innanlands.
Íslendingar hafa góðar forsendur til að komast þokkalega frá þessari kreppu.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélagi.
* Samstarfsaðilarnir voru Mary Daly við Oxford háskóla í Englandi, Joakim Palme við Uppsala háskóla í Svíþjóð, Olli Kangas við Turku háskóla í Finnlandi, Jon Erik Dölvik við FaFo rannsóknarstofnunina í Noregi, Jörgen Goul-Andersen við Álaborgarháskóla í Danmörku, Fran Bennett við Oxford háskóla, Manos Matsaganis við tækniháskólann í Mílanó á Ítalíu og Ana R. Guillen við Oviedó háskólann á Spáni. Íslensku rannsóknar-mennirnir voru Agnar Freyr Helgason lektor við Háskóla Íslands og Kolbeinn Stefánsson sérfræðingur á Hagstofu Íslands.