Aðstæður sem skapast hafa í atvinnulífinu og samfélaginu öllu vegna kórónuveiru-faraldursins eru fordæmalausar og ekki sér enn fyrir endann á þessum miklu hremmingum. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa kynnt til að styðja við fyrirtækin í landinu eru fagnaðarefni en því miður henta þær ekki sprotafyrirtækjum nema að litlu leyti.
Sprotafyrirtæki sem byrjuð eru að selja vörur sínar en eru enn með neikvætt fjárflæði standa nú frammi fyrir samdrætti í tekjum sem eykur fjármagnsþörf þeirra. Gera má ráð fyrir því að sprotar sem enn eru í þróun eigi einnig erfiðara með að sækja fjármagn á næstu vikum og mánuðum.
Sem betur fer á þetta ekki við um öll sprotafyrirtæki og sum þeirra vel fjármögnuð til næstu 12–18 mánaða jafnvel lengur. Hættan fyrir öll sprotafyrirtæki er hins vegar sú að viðskipti muni dragast verulega saman eða stöðvast.
Tugþúsundir Íslendinga hafa ýmist misst vinnuna eða orðið fyrir stórfelldri skerðingu á starfshlutfalli sínu og við blasir að þúsundir háskólanema verði án atvinnu í sumar. Við erum langt frá því að nýta alla þá þekkingu og mannauð sem þjóðin á og ljóst að hætta er á að mikil verðmæti fari forgörðum sé ekki gripið til markvissra aðgerða.
Í þessari flóknu stöðu eru þó ýmsar leiðir færar til gagnsóknar. Þegar við komum út úr þessari krísu skiptir máli að útflutningsgreinar okkar séu sterkar. Öflugt nýsköpunarumhverfi mun hjálpa okkur í viðspyrnunni, hraða uppbyggingu, fjölga störfum og auka hagvöxt.
Í kjölfar efnahagshrunsins fyrir rúmum áratug tók nýsköpun að blómstra sem aldrei fyrr og lifandi samfélag varð til í kringum frumkvöðla og sprotafyrirtæki á Íslandi. Fólk sem misst hafði vinnuna fékk tækifæri til að vinna að viðskiptahugmyndum sem það hafði lengi dreymt um að koma í framkvæmd og mörg okkar öflugustu nýsköpunarfyrirtæki urðu til.
Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að senda út í samfélagið jákvæð og uppbyggileg skilaboð. Ég ætla að leyfa mér að trúa því að ríkisstjórnin sjái leiðir og muni á næstu dögum kynna frekari aðgerðir sem koma betur til móts við nýsköpunarfyrirtækin okkar og aðgerðir sem munu virkja til athafna þann mannauð sem er án atvinnu. Þannig má margefla umhverfi nýsköpunar og tryggja að við komum út úr þessari krísu hlaupandi!
Höfundur er framkvæmdastjóri Icelandic Startups.