Atvinnulífið í heiminum skelfur og aðeins þeir sem hugsa á tánum og lenda á þeim líka eygja möguleikann að lifa af. Ein tegund fyrirtækja lítur á þennan veruleika sem daglegt brauð, það eru sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem hafa ekki náð tilætluðu tekjustreymi til að standa undir rekstrinum. Hjá þeim gildir ekki aðeins að finna ró í óreiðunni heldur líka trúna á að með stanslausri aðlögun og mótun að þörfum markaðarins nái þau að skjóta rótum. Hér gildir alls ekki lögmálið um að fylgja langtímaáætlunum og notast við hefðbundna markaðssetningu sem er bæði dýr og úthugsuð. Nei, hér gildir að vera í stöðugri leit að brennandi þörfum og finna vörulausnir hratt sem einhver greiðir fyrir með glöðu geði. Og þegar þessi einhver er fundinn, er vörunni helst dreift í gegnum þessa fyrstu notendur með sem minnstum tilkostnaði.
Þessi fyrirtæki eru líka flest að vinna með stafrænar lausnir sem leysa vandamál þvert á landamæri. Ástæðan er fyrst og fremst að það er auðveldara að stækka hratt slíka atvinnustarfsemi og sala- og markaðssetning er ekki háð ferðalögum og fundum eins og í hefðbundinni sölustarfsemi.
Það eru aðallega þrjár tegundir fyrirtækja sem hafa náð góðum og framúrskarandi árangri í þessu á Íslandi, það eru tölvuleikja-, heilbrigðistækni- og fjártæknifyrirtæki. Þessi fyrirtæki hafa flest upplifað aukna eftirspurn við núverandi aðstæður. Mig langar að leggja hér fram nokkrar hugmyndir að aðgerðum sem eru ekki kostnaðaraukandi varnaraðgerðir heldur skapa aukin sóknarfæri fyrir þá sem eiga séns við núverandi ástand.
1. Tölvuleikir
Um 20% af allir sölu á tölvuleikjum í heiminum fer í gegnum eina síðu, Steam.com. Það þýðir að Steam heldur utan um 4300 ma.kr. markað. Getur íslenska ríkið með hjálp Íslandsstofu gert samning um auglýsingaherferð fyrir alla íslenska tölvuleiki á Steam? Flestir íslenskir tölvuleikir eru í mikilli sókn vegna þeirra aðstæðna sem COVID-19 hefur skapað. Dæmi um slík fyrirtæki eru t.d. SolidClouds og 1939Games. Þessi aðgerð mun auka tekjur þeirra hratt og gera þeim kleift að ráða fólk í grafíska hönnun, sagnagerð, þýðingar, forritun og önnur afleidd störf. Hér geta skapast störf fyrir fólk með þekkingu í tungumálum og sagnagerð, þ.e. fólk sem hefur starfað við ferðaþjónustu.
2. Stafrænar heilbrigðislausnir
Stafrænar heilbrigðislausnir í fjarheilbrigðisþjónustu og þær sem hjálpa heilbrigðisstofnunum að auka aðgengi að þjónustu og tryggja gæði hennar eru í gígantískum vexti. Íslensk fyrirtæki í fjarheilbrigðisþjónustu, eins og t.d. Kara Connect, ná ekki að stækka þjónustuborðin sín nógu hratt um þessar mundir til að mæta flóðbylgju af nýjum kúnnum. Hér geta skapast störf fyrir fólk sem hefur verið í þjónustustörfum og móttökum og hefur þekkingu í tungumálum. Getur ríkið liðkað fyrir að hótel og önnur ferðaþjónustufyrirtæki geti lánað fólk til heilbrigðistæknifyrirtækja svo þau þurfi ekki að fara í uppsagnir því þetta er líka tímabundinn ofsavöxtur hjá heilbrigðistæknifyrirtækjunum?
Jafnframt er mikilvægt að íslenska ríkið sé ekki að hanna og þróa séríslenskar lausnir sem nýtast aðeins íslenska heilbrigðiskerfinu heldur notist við lausnir frá nýsköpunarfyrirtækjum, eins og hefur verið gert með Sidekick Health, sem bjóða vörur sýnar á erlendum mörkuðum, því þannig sköpum við útflutningsverðmæti fyrir okkur öll. Getur íslenska ríkið í samstarfi við Heilbrigðis- og líftækniklasann kvatt allar ríkisstofnanir til þess að nýta þessar íslensku heilbrigðistæknilausnir og hjálpað nýsköpunarfyrirtækjunum að mæta öryggis- og persónuverndarkröfum hratt og örugglega?
3. Fjártækni
Svarta hagkerfið er í mikilli uppsveiflu í þessu óreiðuástandi. Við eigum framúrskarandi fjártæknifyrirtæki sem byggja á þekkingu frá fjármálakreppunni, á gervigreind og því séríslenska greiðslufyrirkomulagi sem hér hefur verið byggt upp með RB. Getur íslenska ríkið með hjálp Fjártækniklasans stutt sóknarherferð fyrir þann hóp fjártæknifyrirtækja sem eru í hvað hröðustum vexti með það fyrir augum að skapa fleiri störf. Hér gildir að fókusera aðgerðina á þann hóp fyrirtækja sem geta skapað útflutningsverðmæti. Dæmi um slík fyrirtæki eru Lucinity, sem hefur þróað lausn fyrir banka til að berjast gegn peningaþvætti, Monerium, sem hefur skapað rafræna greiðslulausn, og Meniga sem býður víðtækar lausnir fyrir banka.
Fyrir utan þessi þrjú svið þá væri prófandi að bjóða fyrirtækjum sem eru í örum vexti við þessar einkennilegu aðstæður að skrá sig í gagnagrunn svo ríkið viti einfaldlega hver þessi fyrirtæki eru, því það er ekki augljóst, og geti þannig hraðar og auðveldar stutt við og dregið úr áhættunni við nýráðningar starfsfólks, sér í lagi hjá þeim sem skapa útflutningsverðmæti.
Ríkið er að lyfta grettistaki í að tryggja heilbrigði Íslendinga og að koma fólki í var sem er að missa vinnuna. Við vitum öll að það blæðir úr ríkissjóði á meðan ástandið varir og það er hugsanlegt að framundan sé hægfara viðsnúningur. Notum tímann vel, hugsum á tánum og reynum að skilja þessa breyttu vertíð sem við erum stödd í. Ef Íslendingar eru þekktir fyrir eitthvað þá er það að redda hlutunum og finna ró í óreiðunni. Veljum íslenskt.
Höfundur er meðeigandi hjá Crowberry.