Sæll Steingrímur,
Við lifum áhugaverða tíma. Agndofa fylgjumst við flest með því hvernig heimurinn hefur stöðvast, það er hinn manngerði heimur, vegna veiru sem við höfum enga stjórn á. Að óreyndu hefði ég, þér að segja, ekki trúað því að sátt myndi ríkja um það í okkar kapítalísku veröld að víkja efnahagslegum hagsmunum frá til að vernda líf og heilsu fólks. Mér hefur nefnilega oft sýnst það ekki koma til greina, sérstaklega þegar fólkið sem um ræðir er jaðarsett, fatlað, býr í fátækari löndum heims eða er okkur ekki nátengt. Eða ef um er að ræða framtíðarkynslóðir. En nú er það allt í einu gert og það er gott.
En hvað gerist svo?
Það vitum við ekki. Það sem vísindamenn virðast sammála um er að veiran er ekkert að fara og það mun taka marga mánuði og jafnvel ár að þróa bóluefni og bólusetja heimsbyggðina. Og svo gæti kórónuskrattinn komið aftur í breyttri mynd. Það verður því ekki allt orðið gott 4. maí og við verðum að hugsa lengra. Og við sem fylgjumst með alþjóðapólitíkinni sjáum að víða er að myndast þrýstingur, jafnvel frá valdhöfum, um að breyta út af þeirri stefnu sem farin hefur verið víða; að loka samfélaginu. Fólk vill út, í klippingu, fljúga landa á milli og "koma hjólum efnahagslífsins af stað" eins og það er kallað. Annars staðar hefur lýðræðið verið svo gott sem afnumið, sums staðar með tímabundnum heimildum, annars staðar varanlega.
Steingrímur, við hljótum að vera sammála um að í þessu felast bæði ótal hættur en líka tækifæri. Nú þarf að standa í lappirnar og standa vörð um allt sem er einhvers virði. Ekki bara viðkvæma fólkið okkar sem gæti dáið úr veirunni, loftið sem allt í einu er orðið hreint um heim allan, lífsviðurværi fólks, matvælaöryggi og samgönguleiðir. Við þurfum líka að standa vörð um lýðræðið sem á undir högg að sækja víða um heim. Við ráðum ekki yfir öllum heiminum en við getum ýmsu ráðið á Íslandi, sérstaklega þú.
Síðustu daga hef ég fylgst með þingfundum sem hafa ekki allir staðið lengi. Einn þeirra var mjög stuttur. Uppnám varð vegna þess að á dagskrá var mál sem ekki var sátt um. Og þá vilja þingmenn tala en geta það ekki vegna samkomubanns. Lagt hefur verið til aðflytja Alþingi tímabundið í hentugra húsnæði, til dæmis Hörpuna. Það voru mér vonbrigði að sjá að þú slóst þá hugmynd strax út af borðinu.
Þar væri nefnilega mun auðveldara að stúka af ákveðna hluta og tryggja að öllum kröfum um sóttvarnir sé mætt í rýmra húsnæði. Slíkt væri auðvelt að gera í stórum sal, t.d. í Eldborgarsal Hörpu, þar sem eru margir inngangar og og hægt að setja skilrúm á milli hluta þannig að þingmenn utan við 20 manna hópa hittust aldrei í raunheimum, notuðu ólík salerni og sætu á afmörkuðu svæði með tveggja metra millibili. Þetta er mun einfaldara að gera í stórum sal en í Alþingishúsinu. Þar er það þó alls ekki ómögulegt. Þingmenn eru bara 63 en einnig koma starfsmenn Alþingis að þinghaldi. Hægt væri að skipta þingmönnum og starfsfólki í fjóra ólíka hópa sem væru í sitthvorum salnum. Einn hópur gæti notað þingsalinn, annar matsalinn en hinir verið á nefndarsviðinu eða annars staðar þar sem eru stór fundarherbergi. Hægt væri að tengja salina saman með einföldum og ókeypis fjarfundarbúnaði eins og milljónir jarðarbúa reiða sig á þessa dagana. Eins væri hægt að færa þinghald í Háskólabíó, ýmist með því að stúka af stóra salinn eða skipta mannskapnum niður í minni sali og tengja þá með fjarfundabúnaði sem er þegar til staðar þar. Í Reykjavík eru líka fjölmörg ráðstefnuhótel þar sem allt er til alls og enginn að nota nú um stundir. Ódýrast fyrir ríkið væri auðvitað að nota eitthvert þeirra húsa sem það á og er ekki í notkun núna en fyrst ríkissjóður er hvort sem er að styrkja fyrirtæki er allt eins hægt að gera það með leigu.
Því Steingrímur, þetta eru svo mikilvægir tímar. Það sem við gerum núna og á næstu vikum og mánuðum skiptir sköpum. Núna er tækifærið til að byrja með hreint borð og það er mikilvægt að lýðræðið virki. Slík tækifæri gefast ekki oft. Og ræðupúlt Alþingis er sá vettvangur sem þjóðin getur fylgst með. Þar á hin lýðræðislega umræða að fara fram. Þess vegna er ótækt að bara "samkomulagsmál" fari á dagskrá þingsins því til þess að komast að samkomulagi þarf að fara fram umræða. Sú umræða á að fara fram í heyranda hljóði þar sem öll þjóðin getur fylgst með. Hún á að fara fram á þingfundi en sá þingfundur þarf ekki að vera í Alþingishúsinu. Hann gæti allt eins farið fram á Þingvöllum. Hann þarf bara að geta farið fram og allir þingmenn að geta tekið þátt í honum. Til þess eru þeir kjörnir. Og það þarf ekki rafrænan búnað til að greiða atkvæði, frekar en hann þurfti fyrir nokkrum áratugum. Þú veist eins vel og ég að til eru aðrar leiðir. Reglulega fara atkvæðagreiðslur á Alþingi fram með nafnakalli eða, ef búnaður bilar, með handauppréttingum eins og í gamla daga.
Kæri Steingrímur. Nú standa stjórnvöld frammi fyrir fordæmalausum vanda sem krefst fordæmalauss fjárausturs úr ríkissjóði. Alþingi hefur fjárveitingavaldið og það verður að geta fundað og rætt það sem þarf að ræða. Auk þess er það ekki svo að öll önnur mál gufi upp þótt þessi veira leiki lausum hala. Þau þarf líka að ræða. Allir 63 alþingismennirnir voru kjörnir til að vinna að málefnum þjóðarinnar. Við erum kannski ekki sammála þeim öllum en þeir voru kosnir og þannig virkar lýðræðið. Það er þitt hlutverk, sem forseta Alþingis, að tryggja að þeir geti unnið vinnuna sína. Nú hefur allt þjóðfélagið aðlagast breyttum aðstæðum á undraskömmum tíma. Sveitarfélögin hafa gjörbreytt félagsþjónustunni. Nemar á öllum aldri læra heima í gegnum fjarfundarbúnað. Fólk vinnur heima með misergilega krakka í kringum sig en nær samt að skila sínu. Landspítalinn tvöfaldaði gjörgæsludeildina á tveimur vikum. Það er einfaldlega óboðlegt að þú segir þjóðinni að það sé stórmál að færa ríflega sextíumanna fund í annað húsnæði. Fyrst gamla fólkið á öldrunarstofnunum getur lært á fjarfundarbúnað til að tala við fólkið sitt hljóta þingmenn að geta það líka. Það þarf ekki einu sinni sérstaka lýsingu. Því skora ég á þig að sjá til þess að þingmenn geti tekið þátt í þingstörfum og rætt þau mál sem þarf að ræða. Lýðræðið og framtíðin er nefnilega í húfi.
Bestu kveðjur,
Margrét