Við vitum ekki hvað bíður okkar, hvernig veiran mun haga sér – hvort aðrar fylgi í kjölfarið – hvernig samfélaginu reiðir af þegar tekjur dragast svo mikið saman sem fyrirsjáanlegt er. Svartsýnar spár sýna líkur á efnahagslegu hruni í líkingu við það sem við upplifðum fyrir meira en áratug.
Í því sambandi er vert að muna að þá hrundi ekki bara efnahagur þjóðarinnar heldur var líka um að ræða siðferðilegt hrun, samfélagsleg gildi hrundu, sjálfsmynd þjóðarinnar, traust hennar á grunnstofnunum samfélagsins. Í þeim erfiðleikum sem kunna að bíða okkar er ekki um neitt slíkt að ræða, þvert á móti hefur traust þjóðarinnar á yfirvöldum aukist í þessum hremmingum, almenningur setur traust sitt á talsmenn og andlit almannavarna, heilbrigðismála og sóttvarna – þríeykið góða – og við finnum styrk í því að standa saman, finna og skynja að það er samfélagslegt úrlausnarefni okkar allra að vinna okkur út úr þessum vanda; enginn má skorast undan sem getur lagt sitt að mörkum.
En ekki borðum við siðferðisgildi og samfélagslegt traust, gæti nú einhver sagt. Og það er alveg rétt – en við getum byggt á þeim.
Úrlausnarefnin eru yfirþyrmandi og vegferðin rétt að hefjast. Nú þegar stefnir atvinnuleysi í mettölu, 17% í aprílmánuði og ferðaþjónustan virðist hrunin, sú atvinnugrein sem landsmenn hafa sett traust sitt á, einstaklingar, sveitarfélög og samfélagið allt. Við þessu þarf að bregðast hratt og fumlaust, með því að fjölga störfum í opinberri þjónustu, stórauka fjárfestingar í langvanræktum innviðum en þó sérstaklega fjárfesta í nýsköpun og sísköpun – skapandi greinum í víðasta skilningi þess orðs – og þar yrði skólakerfið virkjað og styrkt í þessu uppbyggingarstarfi á fólki og þekkingu. Það þarf að hlúa sérstaklega að vaxtarbroddum í umhverfisvænni matvælaframleiðslu með sérstakri fyrirgreiðslu til grænmetisbænda og hvers kyns ylræktar – og það þarf að halda við þeim verðmætum sem skapast hafa hér á umliðnum árum í ferðaþjónustunni, því að íslensk náttúra, fegurð hennar og sú upplifun sem hún veitir, er ekki að fara neitt frá okkur, og þeir tímar koma þegar á ný sækja landið heim ferðalangar í leit að öræfaundrum og fossatöfrum.
Og er þá fátt eitt talið af því sem þarf að gera. Við í Samfylkingunni viljum fyrir alla muni leggja okkar fram í þessari vinnu, eins og við erum kjörin til að gera og kjósendur okkar ætlast til af okkur. Eftir sem áður munum við styðja góð mál sem koma frá ríkisstjórninni og ekki hika við það þegar kemur til okkar kasta á þinginu, að bæta þau sem bæta þarf, með hag lands og þjóðar að leiðarljósi.
Það er svo margt sem við getum ekki beðið eftir að gera: Hittast, fara í sund, á tónleika, leikhús, bingó, félagsvist, alls konar mannamót; vinna, faðmast og kyssast, vera saman enda höfum við fundið á eigin skinni hversu mikilvægt það er að vera innan um annað fólk í rauntíma og raunrými.
En svo er annað sem við skynjum flest að nú kunni að vera tækifæri til að endurmeta eða jafnvel afleggja. Þegar við komum út úr þessum dimmu göngum þá þurfum við ekki að ferðast alveg svona mikið. Við þurfum kannski ekki að nota heimsendingarþjónustu heimsálfa á milli. Við þurfum ekki að nota olíu svona mikið til að fara á milli staða. Við þurfum ekki að láta samfélagið starfa svona mikið á forsendum fjármagnseigenda og stórfyrirtækja. Við þurfum ekki að byggja upp þennan fjöldatúrisma með stöðlun á upplifun. Við þurfum ekki að byggja verksmiðjur sem ná heljartökum á heilum byggðarlögum í einhæfu atvinnulífi. Við þurfum ekki á allri þessari neyslu að halda – og þurfum ekki að knýja hagkerfi okkar svona gegndarlaust áfram með neysluvarningi. Við þurfum ekki að arðræna fátækt fólk sem á engra annarra kosta völ en að framleiða fyrir okkur á lúsalaunum. Við þurfum að nota tækifærið til að finna nýjar lausnir í framleiðslu varnings og samgöngum, lausnir sem samræmast betur eðli og eiginleikum Jarðarinnar, þeirrar einu sem við eigum. Við þurfum að staldra við og anda.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.