Ævar Kjartansson og Torfi Tulinius ræddu við Eirík Bergmann Einarsson stjórnmálafræðing, á Rás 1 19.4.2020. Hér rekur undirritaður nokkur atriði umræðunnar og gagnrýni tvennt í lokin.
Eiríkur er stjórnmálafræðingur, prófessor á Bifröst og hefur skrifað bæði fræðibækur og skáldsögur. Hann er vel máli farinn og sagði margt áhugavert í þessum þætti.
Þessir vikulegu þættir á Rás 1 eru um tilfinningar – og þær koma víða við sögu. Það kom t.d. fram í þessum þætti að þegar fólk greiðir atkvæði ráða tilfinningar ekki síður en köld rökhyggja. Lýðræði þroskast vegna þess að það eru tilfinningar í spilinu – og það er pólitík í öllu. Allir menn stunda pólitík.
Í stjórnmálum er tekist á um stöðu og stefnu – og ákvarðanir eru teknar í hópi. Maðurinn er flokksdýr (hópdýr). Lífsbjörgin ræðst af því að flokknum gangi vel. Við leitum alltaf að staðfestingu á að við séum í réttum flokki.
Hafi maður góða tilfinningu fyrir stjórnmálamanni og hann sýnir síðan að hann er loddari, þá er erfitt að breyta tilfinningunni – við leitum að réttlætingu. Sumir eru (voru?) bundnir flokki tilfinningaböndum. Risavaxið hrun, t.d. Ráðstjórnarríkjanna, er öðrum þræði tilfinningahrun, líkt og ástarsorg. Þá þurfa menn önnur haldreipi – stundum verður umpólun. Sumt verkafólk og kommúnistar gengu þá ný-þjóðernisstefnu á vald. Jafnvel getur rótgróin lýðræðisþjóð og lýðræðisflokkar verið viðkvæm fyrir loddurum og lýðskrumi.
Popúlismi (lýðhyggja)
Eiríkur slær föstu að sterkasta aflið í stjórnmálum sé óttinn. Stjórnmálamenn sem ala á ótta ná fylgi – hræða fólk til fylgis við sig og vex ásmegin við þjóðfélagslegt áfall. Þjóðernispopúlismi efldist eftir olíukreppuna 1972 – Le Pen, Glistrup, Anders Lange ...
Þjóðernispopúlismi gerir út á tvenns konar ógn (Skiptir ekki máli hvort hún er raunveruleg, bara að hægt sé að ala á henni):
Þriðja skrefið, til að fullkomna formúluna: Þjóðernispopúlistar stilla sjálfum sér upp sem vörninni gegn þessum ógnum, svo fólk fylki sér um þá í nauðvörn.
Þessi formúla er missterk eftir tímabilum, hún er lang sterkust eftir áföll – í krísum.
Eiríkur telur popúlisma ekki vera stjórnmálastefnu sem lýsi því hvernig þjóðfélagið eigi að vera, t.d. hvað skattar eigi að vera háir og hvernig eigi að verja þeim, heldur sé popúlismi aðferð. Hugtakið popúlisti vísi ekki til vinsælda (popular) heldur til þjóðarinnar (populus), þess innri hóps sem ber að vernda. Popúlistinn höfði alltaf til okkar, í andstöðu við hina. Grefur undan þeim sem bera ábyrgð. Blanda af samkennd (jákvætt) og ótta (neikvætt).
COVID-19 og popúlisminn
Fram kom að popúlistar grafa undan frjálslyndum lýðræðisþjóðfélögum sem byggt voru upp eftir stríð. Þeir grafa undan faglegri stjórnsýslu og vísindahyggju og því að ákvarðanir séu teknar eftir bestu fáanlegum upplýsingum. En þegar stjórnmálin verða mjög fagleg eru stórir hópar skildir eftir, þeir sem skortir upplýsingu og þekkingu. Stjórnmálin geta þannig orðið hertekin af faghópum (elítu).
Popúlismi er ekki bara umræða í fjölmiðlum, hefur líka raunveruleg völd og áhrif. Við sjáum nú dæmi um það í COVID-faraldrinum sem er að breyta tilfinningabúskapnum í heiminum. Lítum t.d. á Ítalíu sem hefur búið við popúlisma í 30 ár (Berlusconi o.fl.) og nú Bandaríkin, þar sem forystan hefur hafnað fagmennsku og vísindum. Andstæðan gæti verið Þýskaland.
Trump komst til valda með því að tengjast hópum sem höfðu setið eftir, þeim sem stjórnmála- og sérfræðingaveldið hafði brugðist. Framan af faraldrinum horfði hann mest á hlutabréfamarkaðinn sem var í hæstu hæðum og átti að tryggja honum endurkjör. Veiran var bara ógn við það og var að mestu hundsuð framan af sem aðskotahlutur frá Kína. Því kom faraldurinn aftan að þjóðinni óviðbúinni. Við horfum upp á forsetann missa völdin til fylkjanna sem verða að grípa til eigin ráða, hvert fyrir sig.
Evrópusambandið hafði ekki getu til neinnar forystu í COVID-baráttunni, enda veikburða stofnun.
Eiríkur telur (mínúta 44) að nú eigi sér stað mikil uppstokkun í heiminum. Eftir stríð hrundi breska heimsveldið og við tók tvípóla kerfi Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Svo um 1990 hrundu Sovétríkin og Bandaríkin urðu óumdeilt forysturíki og höfðu þau átt ríkan þátt í að byggja upp alþjóðasamfélag og Sameinuðu þjóðirnar. Um þessar mundir lækkar ris Bandaríkjanna hratt jafnframt því sem staða Kína styrkist. Þetta forysturíki lýðræðis ber sig nú saman við alræðisríkið Kína – og þar rætast blautir draumar Kínverja. Trump stillir Bandaríkjunum upp gegn Kína, þannig að tveir kappar berjist, svo skilaboðin heima fyrir virki.
Dr. Eiríkur Bergmann misskilur sumt
Eiríkur segir (mínúta 37) að í COVID-faraldrinum hafi reynst nauðsynlegt að víkja til hliðar öllu því sem við höfum talið heilagast: Mannréttindum og borgaralegum réttindum. Það hafi reynst nauðsynlegt og réttlætanlegt að afnema ferðafrelsi um tíma og hætta sé á að gengið verði á lagið til lengdar, sbr. Ungverjaland. Hætta er á að þegar gott fólk tekur upp á þessu – í göfugum tilgangi – að aðrir komi í kjölfarið. Þá eru tækin og tólin til staðar.
Jú, það er alltaf viss hætta á valdaráni, það er ekkert nýtt. En málið er að það hefur ekki þurft að víkja mannréttindum og borgaralegum réttindum til hliðar, a.m.k. ekki hérlendis. Eru einhver mannréttindi æðri en lífið sjálft? Lýðræðislega kjörin stjórnvöld fóru að ráðum þeirra sem best vissu og tóku ákvörðun um takmörkun ferðafrelsis um tíma til að bjarga mörgum mannslífum. Engum mannréttindum var ýtt til hliðar, öðru nær! Rétturinn til að halda lífi var í öndvegi.
Öllu alvarlegra er að stjórnmálafræðingurinn virðist ekki skilja til fulls lýðræðið hér á landi. Hann segir að vísu að við búum í lýðræðisríki og að það sé gæfa íslenskra stjórnvalda að reiða sig á bestu þekkingu sem til er í landinu. En svo villist Eiríkur af leið. Hann segir að sú forysta sem við höfum borið gæfu til að leiða okkur í gegn um þetta sé ekki lýðræðislega kjörin! Sóttvarnarlæknirinn hafi haft forystu um viðburðinn – verið í forsvari. Þegar komi að því að vinna sig út úr krísunni þá geti stjórnmálamenn ekki lengur falið öðrum forystu, en geti þó reitt sig á ráð þeirra. Hættulegt sé að fara í aftursætið og fela öðrum, með ekkert pólitískt umboð, að stýra.
Mér finnst þessi túlkun Eiríks Bergmann furðuleg, ekki síst í ljósi þess að nokkrum mínútum áður hafði hann lýst því hvernig Trump setur sjálfan sig og eigin kosningahagsmuni í fyrirrúm á blaðamannafundum. Ég hélt það hefði ekki farið fram hjá neinum að ríkisstjórn Íslands tekur fulla og formlega ábyrgð á COVID-baráttunni hér. Mér kæmi ekki á óvart að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi öðrum fremur lagt upp þá línu fyrir ríkisstjórnina, enda held ég að það sé vandfundinn á jörðinni sá stjórnmálaforingi sem er ólíkari Trump og hinum popúlistunum sem komist hafa til valda. Hún hefur verið sjálfri sér samkvæm í því að leita ávallt bestu vísindalegrar þekkingar til að styðjast við í ákvarðanatöku, jafnt smáu sem stóru. Hún stendur fyrir máli sínu án þess að troða sér fram. Hugsanlega kann sú aðferð að kosta flokkinn hennar atkvæði, en hún setur það ekki á oddinn. Hún og Svandís heilbrigðisráðherra og Þórólfur sóttvarnarlæknir hafa ítrekað útskýrt og svarað spurningum blaðamanna um það hvernig ábyrgð og ákvarðanatöku er háttað í þessu gríðar mikilvæga máli. Þessar ákvarðanir hafa verið vandasamar því óvissan er óvenju mikil. Svo má ekki gleyma því að við erum á rauðu stigi almannavarna og þá virkar ákveðið skipulag sem stjórnvöld hafa komið á og bera ábyrgð á, en stjórna ekki frá degi til dags. Þar er Víðir við stýrið, í umboði stjórnvalda. Ef við eru ekki ánægð með það sem þríeykið gerir eigum við að láta stjórnarflokkana gjalda þess í næstu kosningum. Þannig virkar lýðræði.
Baráttan við að lina kreppuna verður flókin og langvinn, og enn meiri óvissa þar. Ég vona að ríkisstjórnin okkar (sem er þjóðstjórn þegar horft er til vinstri og hægri) muni taka á því máli með svipuðum aðferðum og á heilbrigðisvandanum. Leitað verði þekkingar og góðra ráða og það verði ekki alltaf ráðherrarnir sjálfir – eða alþingismenn – sem svari spurningum blaðamanna og útskýri fyrir fólki það sem að því snýr.
Höfundur er líffræðingur og eftirlaunamaður.