Við búum við það að vera sú þjóð í heiminum þar sem flest vinnandi fólk gengur í stéttarfélög, eða um 90%, og almenn sátt er um félögin. Þar á eftir kemur Svíþjóð með einungis um 66% þátttöku samkvæmt tölum frá statista.
Það segir okkur að Íslendingar hafa verið og eru virkir í baráttunni fyrir hagsmunum launafólks og einnig hvað launþegahreyfingar síðastliðna öld hafa unnið aðdáunarvert starf í þágu félagsmanna sinna.
Stéttarfélög berjast að sjálfsögðu ekki einungis fyrir launahækkunum heldur einnig fyrir sjálfsögðum réttindum hvers vinnandi einstaklings á öllum sviðum eins og um vinnutíma, orlof, jafnrétti og fleira. Launahækkanir hafa þó verið áberandi síðastliðin ár í baráttunni enda ein mikilvægasta krafa félagsmanna. Sú barátta hefur ekki verið án árangurs enda standa stjórnendur stéttarfélaga fast á bakvið sitt fólk.
Nú er þó komin upp sú staða að beinar launahækkanir eru ekki að skila sér í auknum kaupmætti.
Launahækkanir
„Wage-price Spiral" kenningin er eitthvað sem ber að hafa huga, þar sem hækkun launa eykur eftirspurn á vörum, sem eykur verð, sem eykur eftirspurn á launahækkunum. Þó eru til tól sem yfirvöld beita til að sporna við þróun þessarar hringrásar.
Launakostnaður, sem saman stendur af vinnulaunum og öllum tilfallandi gjöldum sem fyrirtækin greiða til þess að hafa starfsfólk í vinnu, er hluti af kostnaðardreifingu fyrirtækja sem meðal annars getur haft áhrif á verðlag. það er þó ekki endilega alltaf samhengi þar á milli en vert að hafa til hliðsjónar.
Fylgni milli launahækkana og kaupmáttar hefur farið minnkandi síðustu tvö ár, eins og sjá má á tölum Hagstofunnar frá árunum 2012-2020.
Ef halda á áfram að styrkja kaupmátt fólks þ.e.a.s að launin hrökkvi fyrir lífsnauðsynjum um hver mánaðamót, þarf að hafa í huga rótina sem vegur hvað þyngst.
Lán, leiga og vextir
Ég tel að tími sé kominn, þó án þess að sleppa takinu af launaþróun og jafnrétti á vinnumarkaði, að beina spjótum að þungavigtinni í reikningum launafólks.
Baráttan um betri kjör þarf að beinast í meira mæli að lánastofnunum, leigumarkaði og rót vandans, fasteignamarkaðnum.
Meiri samkeppni og sanngjarn lagarammi í kringum þessa geira tel ég að væri stærsti liðurinn í að auka kaupmátt launafólks á næstu árum.
Helstu útgjöld eru jú þessir þrír liðir hver einustu mánaðamót.
Fákeppni og viðskipti tengdra aðila, eða frænd-samleg viðskipti, hafa valdið bjagaðri verðstýringu og misbeitingu á þessum mörkuðum. Stór fjárfestingarfyrirtæki moka undir sig lóðum og fjölbýlum; megin áherslan á að hagnast frekar en að svara eftirspurn. Til verður offramboð á húsnæði sem vinnur gegn þeim vanda sem upp er kominn og fer versnandi ef til róttækari aðgerða verður ekki gripið.
Vandinn liggur í því að margir þeir sem sitja við stjórn ríkis og sveitarfélaga eiga hagsmuna að gæta hvað þessi mál varða. Bendi ég sérstaklega til Gamma hf. og tengdra félaga.
Biðla ég því til stéttarfélaga, sem hafa gert okkur að einu farsælasta landi heims hvað varðar réttindi og réttlæti á vinnumarkaði og einnig til alþingis, að leggja áherslu á að berjast fyrir breytingum á þessum megin þáttum útgjalda heimilanna og þannig styrkja kaupmátt almennings. Sanngjarna leigu, sanngjörn lán og vexti.
Hvað gerist nú?
Nú þegar þjóðin, líkt og heimurinn allur, sér fram á erfiða tíma, horfum við aftur á tímabilið frá síðustu kreppu. Síðan þá hafa lúxusíbúðir og aragrúi af hótelum risið án hafta í anda góðæris og skyndigróða.
Mikilvæg tannhjól í efnahagskerfi þjóðar, líkt og ferðaiðnaður og fasteignamarkaður, eru stoðir sem ber að vernda og styrkja með langtíma áætlunum, ekki skyndigróða. Nær hömlulaus uppbygging sem fer að mestu öll fram á erlendum lánum í þeim tilgangi að koma inn á mettaðan markað er ekki hagkvæm aðferð til þess.
Nú þegar við sjáum fram á auð hótelherbergi og tómar íbúðir getur maður ekkert annað en vonað að skuldirnar lendi sem minnst á skattgreiðendum og fyrirtækin beri ábyrgð. Vonandi höfum við lært eitthvað af síðustu kreppu. Því miður er líklegri sú útkoma að gróði verði tekin út, kennitala sett í gjaldþrot og skattgreiðendur sitji uppi með reikninginn. Aftur.