Undanfarið hafa komið fram fjölmargar ábendingar um hvernig Ísland sem samfélag getur komist í gegn um þá erfiðleika sem COVID-19 faraldurinn hefur skapað. Stjórn Landverndar vill blanda sér í þær umræður með því að benda á nokkur atriði og aðgerðir sem geta skipt sköpun um sjálfbæra þróun. Stjórnin telur að nýta beri tímabundnar mótvægisaðgerðir eins og kostur er til að skjóta fleiri traustum stoðum undir samfélagið til lengri tíma litið.
Landvernd telur eins og fjölmargir aðrir að mikilvægt sé að fjölga atvinnumöguleikum á Íslandi og einblína ekki á fáeinar lausnir til þess að tryggja fólki atvinnu. Fjölbreytni er styrkur bæði fyrir atvinnulífið og fyrir verndun lífríkisins. Aukin fjölbreytni leggur grunninn að samfélagslega sjálfbærum stöðugleika.
Landvernd vill benda á að fyrir COVID-19 faraldurinn ríkti neyðarástand í loftslagsmálum. Ný og ný hitamet eru slegin, súrnun sjávar er mælanleg, bráðnum jökla og pólanna er hraðari og meiri en áður var talið og víðtæk og ógnarhröð eyðilegging á vistkerfum á sér stað . Þetta neyðarástand ríkir enn. Það má ekki gleymast í annríkinu að við erum að renna út á tíma varðandi að draga úr hættulegum breytingum á loftslagi jarðar.
Aðgerðirnar sem hér er bent á geta örvað atvinnulífið strax en jafnframt búið í haginn fyrir sjálfbærari framtíð:
Loftslagsmál:
- Styrkja verulega og halda áfram góðri vinnu við að nota velsæld til að meta samfélagsþróun og árangur
- Endurheimta votlendi á landi í ríkiseigu í sumar
- Opna aftur fyrir umsóknir í loftslagssjóð – og bæta 500 milljónum í sjóðinn
- Flýta aðgerðum til að efla almenningssamgöngur, þar með talin en ekki eingöngu með borgarlínu.
- Efla grænmetisrækt með því að leita leiða til að lækka orkukostnað hennar og endurskoða styrkjakerfi í landbúnaði til að auka fjölbreytni og minnka áherslu á framleiðslu á dýrafurðum
- Auka við listamannalaun
- Auka fjármagn og bæta umgjörð fyrir nýsköpun og rannsóknir
- Aukið fjármagn í gerð námsefnis fyrir ungt fólk um umhverfismál
- Styrkja framleiðslu á fæðu úr nærumhverfinu
- Fella niður virðisaukaskatt á viðgerðarþjónustu – og leggja áherslur á viðhald og viðgerðir – fremur enn nýframkvæmdir varðandi mannvirkjagerð
Náttúruvernd:
- Fjölga Landvörðum í heilsársstöðum
- Fjölga starfsmönnum Skipulagsstofnunar og Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála til þess að stytta málsmeðferðartíma
- Hraða landsáætlun um skógrækt og bæta tímabundið við starfsfólki í skógræktar- og landgræðslumálum með áherslu á líffræðilega fjölbreytni
- Sameina og efla stofnanir sem annast friðlýst svæði og þjóðgarða og stofna hálendisþjóðgarð
- Bæta innviði á vinsælum stöðum og fjölga áhugaverðum áningarstöðum til að dreifa álagi vegna ferðamanna í framtíðinni
Landvernd telur að gott samráð og samtal stjórnvalda varðandi aðgerðir til að styrkja atvinnulífið séu nauðsynlegar og mikilvægt að tekið sé tillit til fjölbreyttra sjónarhorna. Landvernd er tilbúið til þess að taka virkan þátt í því samtali og samráði.
Sjá nánar um tillögurnar og fleiri tillögur Landverndar á heimasíðu félagsins.
Höfundur er varaformaður Landverndar.