Nú er það öllum ljóst að horfur ferðaþjónustu á íslandi eru með þeim svörtustu sem nokkur atvinnugrein hefur upplifað á jafn skömmum tíma. Fordæmalaus forsendubrestur og litlar horfur um að eitthvað vænkist fyrr en í fyrsta lagi sumarið 2021 og ekkert gefið að sama árangri verði náð í framhaldi plágunnar.
Fjöldi lítilla og meðalstórra fyrirtækja þrátt fyrir minnkandi vöxt freistað þess að auka þjónustu víðs vegar um landið, þar sem ekki þótti áður vitrænt eða arðbært að halda úti verslun, með bæði nauðsynjavöru og aðra þjónustu svo sem veitingar og matsölu. Fólksflóttinn til höfuðborgarinnar vegna hagræðingar í grunnatvinnuvegum stóð um stundarsakir í stað, gekk jafnvel að hluta til baka. Ferðamanninn hafði rekið inn á firði og flóa og nú átti að hirða rekann og sjá til þess að hver arða yrði nýtt eins og Íslendingum er einum lagið.
Þetta hafði í för með sér að horfur hinna dreifðu byggða landsins voru bara eftir atvikum vænlegar. En eins og dögg fyrir sólu er rekinn horfinn, strendur landsins hreinlega auðnin ein og engin von um að annað á þær reki en hafís. Í þessu árferði hefðu forfeður okkar ekki setið auðum höndum, nú hefði aukin sjósókn verið það sem fólki væri ofarlega í huga fyrst aðrar bjargir brugðust.
Það er til nóg af fólki til að sækja aflann. Það er til nægilegt fólk til að vinna hann. Það eru mýmörg fley sem liggja í bakgörðum líkt og minnisvarðar um betri tíð. Það er til nægt húsnæði, húsnæði sem með einni svipan losnaði um land allt, til að hýsa alla þá sem hyggjast sækja sjó eða vinna áfram afurðirnar sem af því koma.
Hvað tálmar það að smábátaflotinn sé virkjaður og um hann verði sett umgjörð sem gerir sjósókn einstaklinga mögulega?. Frelsi einstaklingsins til þess að stunda handfæraveiðar sér til atvinnu. Öllum þeim sem sér það kynna er það dagljóst að hafinu verður enginn skaði unnin með slíkri tilhögun. Á tímum sem þessum er það hins vegar ljóst að rétturinn til atvinnufrelsis við fiskveiðar er lykilatriði til þess að stefna okkur út úr þessum ógöngum sem blasa við.
Þessi aðgerð ein og sér myndi vænka hag flestra þeirra sem starfrækja kytrur til útleigu og þeirra veitingamanna sem nú horfa fram á fullkominn uppskerubrest. Þetta minnkar atvinnuleysi einhverra þeirra sem hrekjast úr verkefnum tengdum ferðamanninum. Þetta verður ekki nóg til þess að allt fari í sama horf, en þetta er þó skárra en fimmþúsundkróna ferðatékkinn sem ríkisstjórnin hefur lofað að úthluta landsmönnum.
Það eina sem vantar í uppskriftina er vilji stjórnvalda. Nú er þörf til að sætta sig við að núverandi sjávarútvegur er ekki jafn góður og arðgreiðslurnar gefa til kynna. Með síaukinni hagræðingu fást færri störf og með færri störfum fer minna út í æðar efnahagsins. Með minna flæði fást minni umsvif og þau sem þó eru til staðar virðast ekki gagnast nema fáum. Það er engin sérstök þörf fyrir að útgerðarmenn sölsi undir sig fleiri bílaumboð, leigufélög eða heildsölur. Það er þörf fyrir að þeir gangi í verslanir víðs vegar um landið og kaupi í matinn. Það hljóta flestir að sjá að þó digrir séu þá éta þeir ekki á við þúsundir munna. Það er jafnskýrt að fleiri með fé handa á milli um landið allt er svo gott sem öruggt til þess að blása lífi í byggðirnar og kynda andann á ný. Aukið frelsi einstaklingsins til sjósóknar mun færa nauðsynlegt súrefni í æðar efnahagslífsins.