Bankahrunið reyndist Evrópusambandinu (ESB) mjög erfið prófraun. Nú segja ýmsir að kórónufarsóttin verði því miklu erfiðari, og sumir spá því að ESB rifni í sundur á næstunni.
Aðallega er nú rætt um andstæður milli norðurs og suðurs innan ESB. Norðurþjóðirnar eru Hollendingar, Danir, Svíar, Finnar, Austurríkismenn, Lúxemborgarar, og Þjóðverjar, og jafnvel Eystrasaltsþjóðirnar með. Suðurþjóðirnar eru Ítalir, Grikkir, Spánverjar, og Portúgalar, og Frakkar hafa veitt þeim nokkurn stuðning. - Auk þess hefur mikill ágreiningur blossað upp af öðrum ástæðum vegna stjórnarstefnu í Ungverjalandi og Póllandi.
Suðurþjóðirnar kvarta og heimta aðstoð og fjárframlög, eins og fyrri daginn. En málstaður þeirra er mjög skaddaður af eigin tilverknaði þeirra sjálfra. Ítalir hafa ýtt öllum nauðsynjaverkum á undan sér um langt árabil, og margir minnast þess að Berlusconi þáv. forsætisráðherra svaraði ábendingum Þýskalandskanslara með persónulegu níði á ítalska þinginu. Fátt hefur lagast síðan þá þar í landi, og nú er talað um að alþýðan á Suður-Ítalíu hafi engar stoðir aðrar til framfærslu en lán frá hefðbundnum glæpasamtökum. Ekki er staða mála skárri í Grikklandi. Við höfum öll djúpa samúð með grískri alþýðu eftir hremmingarnar á liðnum áratug. En framkoma grískra stjórnvalda, bankaherra og grísku auðstéttarinnar var skelfileg og olli því að mjög erfitt hefur verið að finna leiðir Grikkjum til hjálpar.
Nú benda Hollendingar á að kröfur um útgáfu sameiginlegra skuldabréfa ESB leiði einfaldlega til þess að norðurþjóðirnar verði látnar borga brúsann. Þeir benda á að eftir áratugalanga þátttöku í ESB eigi suðurþjóðirnar aldrei neina varasjóði eða viðlagasjóði. Þeir minna á að norðurþjóðirnar leggja árlega stórfé í svæðaþróunarsjóði, samlögunarsjóði og framfarasjóði ESB sem gangi að verulegu leyti til suðurþjóðanna. Kjósendur í Hollandi og Þýskalandi vita t.d. fullvel hvernig á því stendur að heilsugæsla er orðin svo fullkomin á Spánarströnd sem dæmin sanna. Beint og óbeint er kostnaður greiddur úr norðrinu, gegnum kassa í Brussel.
Norðurþjóðirnar segja að suðurþjóðirnar noti ESB sem skálkaskjól. Þær hirði stórfé til sín í styrkjum og framlögum ár eftir ár, en komi sér endalaust undan því að vinna á óskilvirkni, nefndabákni, skattsvikum og spillingu. Bent er á að í suðrinu tíðkast alls konar fríðindi, snemmtekinn lífeyrir, aukafrídagar, búsetustyrkir, skattafríðindi og hvað eina annað sem engin norðurþjóð léti sér detta í hug að veita sér. Og allt er þetta greitt og varið með ESB, á kostnað norðurþjóðanna.
Nú hefur auðmaðurinn Georg Soros lagt til að gefin verði út skuldabréf án endanlegs gjalddaga í þessu sama skyni, en það mun sjálfsagt litlu breyta. Samkvæmt venjureglum ESB verður þetta samningaþóf með endalausum næturfundum, áfanga fyrir áfanga, og lýkur með einhvers konar sætt sem engir verða fyllilega ánægðir með. Og þannig geta ágreiningurinn og gremjan áfram grafið um sig innan ESB.
Bankahrunið og kórónufaraldurinn núna hafa staðfest að aðeins þjóðríkið hefur lögmæti í augum almennings til þess að grípa til erfiðra en nauðsynlegra aðgerða. Sameiginleg skuldabréf stórskaða stöðu og svigrúm þjóðríkjanna, en firringin og gremjan vaxa þá að sama skapi. Þjóðir sem hafa lifað við lýðræði og mannréttindi krefjast þess að samfélagsvaldið hafi lögmæti í augum og hugum landsmanna sjálfra. Það er allt annað mál að þjóðríki geta efnt til samstarfs og samráða um nauðsynjamál, til dæmis innan ESB, en framfylgnin verður þá áfram að vera í höndum hvers þjóðríkis fyrir sig, með eðlilegum hætti. Ríkjasamband verður að virða og styðjast við fullveldi þjóðríkjanna.
Margir Íslendingar hafa fylgst með þróun ESB af áhuga og vita að samskipti Íslands og ESB eru einn mikilvægasti grundvallarþáttur viðskiptalífs, framleiðslu og menningar. Flestir Íslendingar telja EES-samstarfið æskilegt og hentugt, en í því felst aukaaðild Íslands að ESB. En sjálfsagt renna tvær grímur á ýmsa, bæði hérlendis og annars staðar, ef á það er bent að einstök aðildarríki geta notað ESB sem skálkaskjól fyrir heimalagaða spillingu, og að ESB er að taka sér yfirþjóðlegt stórríkisvald, og ekki skánar það að ESB ætli að sætta sig við harðstjórnir í sumum aðildarríkjum, þvert á móti almennum hugmyndum um lýðræði.
Höfundur er fyrrverandi skólastjóri.