Á nokkrum mánuðum hefur heimsmynd okkar tekið miklum stakkaskiptum. Þeir atburðir sem við lifum núna valda breytingum nánast á hverjum degi. Eitthvað sem þótti nærri óhugsandi fyrir örskömmu er nú raunverulega að gerast.
Líkindi og tölfræði – ásamt sögulegu minni – segja okkur að alvarlegar sóttir geti alltaf rokið af stað en að áhrifin yrðu svo afgerandi og alltumlykjandi og raun ber vitni hefðu sennilega fáir getað ímyndað sér.
Banvænar farsóttir eru vel þekktar alveg frá því fólk tók að flytjast milli landsvæða og jafnvel heimsálfa. Hinn ógnvænlegi Svartidauði á fjórtándu öld er sennilega einna þekktust.
Að sögn Ólafs Guðlaugssonar, yfirlæknis sýkingavarnadeildar Landspítalans eru heimsfaraldrar ekki óalgengir. Hin árlega inflúensa sé í raun dæmi um slíkt. Slæmir faraldrar alveg nýrra sjúkdóma skelli reglulega á; sá síðasti var svínaflensan 2009. Áður og síðan hafi jafnframt skotið upp kollinum nýir sjúkdómar (SARS, MERS) sem hefðu getað orðið svipaðir COVID-19, en náðu ekki flugi.
En hvernig verður heimsmynd okkar eftir að faraldurinn hefur látið í minni pokann fyrir úthaldi og ekki síst hugviti mannkynsins?
Samþykkt eftirlit – er Stóri bróðir kominn til að vera?
Til að draga úr möguleikum á útbreiðslu Kóróna-veirunnar hefur fólk út um allan heim samþykkt að láta fylgjast með ferðum sínum og hlýða banni eða takmörkunum á ónauðsynlegri útivist. Sums staðar og stundum er jafnvel refsivert að brjóta þær reglur.
Í lýsingu franska heimspekingsins Michels Foucault á viðbrögðum við plágunni miklu frá lokum 17. aldar má greina aðferð valdsins til að ná og halda stjórn, við að skapa ákveðið ögunarkerfi. Því ögunarkerfi hlýddu þeir sem undir það voru settir að viðlögðum refsingum eða til að tryggja (heilsufarslegt) öryggi sitt.
Foucault bjó til hugtakið lífvald (e. bio-power) til að skilgreina valdið sem þjóðríkið notar til að stjórna og hafa vald yfir líkömum manna og gera þá að skilvirkum tækjum í kapítalísku hagkerfi samtímans.
Til varð huglæga fyrirbærið Alsæisbygging (e. Panopticon) sem skapar tilfinningu fyrir sífelldu eftirliti, þótt mögulega sé það ekki fyrir hendi. Alsjáin er grunnteikning að hinu fullkomna valdi, þar sem hver fylgist með öðrum.
Auðvitað er heilbrigðisógnin efst í huga okkar núna en hættan sem steðjar að í veröld heimsviðskiptanna er ekki síður raunveruleg. Afkoma venjulegra heimila um alla veröld er líka í uppnámi, fólk sem fyrir skömmu hafði atvinnu og litlar fjárhagsáhyggjur hefur skyndilega staðið frammi fyrir ófyrirsjáanlegum áskorunum.
Ónýtt rusl eða antík?
Þá verður sú vá sem blasir við ef Netflix og aðrar veitur haska sér ekki við að framleiða meira efni harla léttvæg. Skortur á afþreyingu blasir þó við, þegar fólk hefur hámhorft upp til agna. Það gæti fljótlega skapað nýja tegund neyðarástands á mörgum heimilum.
Í hugum þeirra sem búa á Íslandi minnir sú framvinda sem nú hefur raungerst á heldur drungalega framtíðarskáldsögu. Ástandið er allt að því dystópískt. Skyndilega er svo komið að fjöldi fólks ver mestum tíma sínum innan veggja heimilisins og þegar vinnu sleppir, sé hún enn til staðar, þarf að finna sér eitthvað til dundurs.
Fyrstu dagana og jafnvel vikurnar var nýlundan við að vinna heima og sú öryggistilfinning sem það skapaði allt að því notaleg. Við vorum öll í þessu saman og ljúf skylda að vera varkár og halda sig heima. Þegar staðan breyttist lítið sem ekkert tók að grafa um sig eitthvað sem líktist óróa og leiða yfir því að geta sig hvergi hreyft.
Viðbúið er að sumir hafi farið nokkrar ferðir í geymsluna eða út í bílskúr að endurraða dótinu sem hefur legið þar árum saman. Inn hafa verið dregnir kassar fullir af löngu gleymdu dóti sem fólk vandræðast með um stund þangað til sest er niður og haldið áfram þar sem frá var horfið við að glápa á Netflix.
Vonin liggur þó kannski að hluta til í þessum munum sem fólk hefur sankað að sér gegnum árin enda höfum við búið í efnishyggjuheimi. Notagildi gripanna er metið, það hvernig þeir voru notaðir og hvaða merkingu hafa þeir fyrir eigandann – sem getur verið mismunandi frá stað til staðar og frá stund til stundar. Þarna býr efnismenningin; menningarlegur bakgrunnur skapar táknmynd og notagildi hlutarins – en skapar líka sjálfsmyndina – vitundina um hver við erum.
Mögulega er nefnilega hægt að finna rykfallnar (og sennilega ónýtar) VHS spólur og mynddiska í kössunum sem dregnir voru inn úr skúmaskotum geymslunnar. Líklega er þetta dót varðveitt í kassanum við hliðina á þeim sem inniheldur allar gömlu vínylplöturnar. Allt eru þetta efnislegir hlutir sem endurspegla smekk viðkomandi á tónlist, sjónvarpsefni og bíómyndum. Sjálfsmyndina sjálfa.
Þegar allt þetta gamla og án efa elskaða efni hefur verið dregið upp úr kössunum blasir við næsta óþægilegur raunveruleiki. Þeim heimilum hefur fækkað mjög sem eiga þau tæki sem þarf til að njóta efnisins.
Þá eru góð ráð dýr. Kannski væri hægt að fara á vefinn og kaupa spilara en myndbandsspólurnar verða sennilega kvaddar í næstu Sorpuferð. Mögulega gæti fésbókin, Instagram, Twitter, Tik Tok og hvað þetta heitir allt orðið eina björgin í leiðindunum.
Bjargræðið í vínandanum?
Hugsanlegt er að bjargræðið liggi í að heimsendingarþjónusta verði leyfð á áfengum drykkjum samfara því að hægt verði að kaupa viskí og vodka með mjólkinni í næstu búð. Þá er hætt við að stefni í vísan voða og að obbi þjóðarinnar skelli sér á kenderí í núvitundarheiminum.
Önnur og hollari leið til að gleyma stund og stað er að lesa sér til gagns og gamans líkt og almenningur á Íslandi hefur verið hvattur til undanfarnar vikur. Sumir hafa gripið til þess ráðs að draga fram gömlu mannspilin eða borðspil – og svo er auðvitað alltaf hægt að spjalla við fólkið sitt.
Ekki má heldur gleyma öllu því góða og fallega sem fólk af öllu tagi út um víða veröld hefur tekið upp á til að gera líf náungans betra og skemmtilegra. Dæmin eru mýmörg og vonandi höldum við áfram að rækta góðmennskuna eftir að faraldurinn er genginn yfir.
Ferðalög í huganum heima við eru sömuleiðis holl og góð afþreying, en um leið og ljóst var að mögulegt væri á næstunni að slaka á samskipta- og ferðahömlum fundu margir hjá sér þörf fyrir að stökkva út í vorið. Það er nefnilega gaman að ferðast, hitta nýtt fólk og skoða ókunna staði.
Víði var samt ekki skemmt og benti ákveðinn á að fjórði maí, dagurinn þegar létta skal á samkomubanni, væri ekki runninn upp.
Sjúkdómurinn sjálfur
Hvorugur höfunda þessarar greinar er sérfræðingur á sviði faraldsfræði. Því fara þeir afar varlega í fullyrðingum varðandi allt það sem hér fer á eftir en telja það vera vangaveltur sem eigi sannarlega vel við nú um stundir.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðunni Worldometer, hafa 171,850 þegar látist af völdum veirunnar þegar þetta er skrifað þann 21. apríl 2010 kl. 14:29 að breskum tíma. Á sama tíma hafa 2.505.367 greinst með veiruna í 210 löndum og landsvæðum. Hafa ber í huga að aðferðir við að skrá smit og dauðsföll hafa verið með mismunandi hætti eftir löndum.
Þessi háa tala látinna er blessunarlega aðeins lítið brot af þeim 7.778.525.000 sálum sem eiga sér samastað á jörðinni núna. Sú tala er auðvitað harla óáreiðanleg og flöktandi enda bættust nokkrir tugir í þennan hóp á meðan þetta var skrifað. Hér er hlekkur á fólksfjöldaklukkuna.
Athygli vekur að þau ríki sem virðast hingað til hafa farið hvað verst út úr farsóttinni eru Kína, þar sem veiran á upptök sín, Bandaríkin og Ítalía. Hugsanlega er það ein af ástæðunum þess hve mjög veröldin á tánum núna.
Þetta eru jú þróuð ríki sem státa af heilbrigðiskerfi sem ætti að jafnaði að vera vel í sveit sett til að takast á við heilbrigðisvanda af þessu tagi. Önnur þróuð ríki hafa einnig orðið illa úti í fangbrögðum við COVID-19.
Fram hefur komið að nýir sjúkdómar hafa skotið upp kollinum án þess að þeir kölluðu á viðlíka viðbrögð og nú eru uppi um allan heim. Enn vitnum við í Ólaf Guðlaugsson, yfirlækni sem segir meginmuninn liggja í smitleiðum og smithæfni. Til að mynda smitist enginn af HIV nema við mjög ákveðnar aðstæður sem fólk ákveði yfirleitt sjálft að koma sér í.
Veirur sem smitist með öndunarfærasmiti segir Ólafur dreifast mjög auðveldlega við almenna umgengni og því geti fólk ekki stjórnað hvort það verð útsett fyrir smiti. Dreifing COVID sýni okkur að svokallað „attack rate“ sé hátt þótt enn sé ekki komin nákvæm tala fyrir það.
Við höfum iðulega heyrt bæði sóttvarnalækni og landlækni nota aðra tölu sem er R°(Rho). Sú tala segi til um hve marga hver smitaður smitar. Heilbrigðisyfirvöld eru ennþá að átta sig á almennu samfélagslegu smiti, það skýrist þegar lengra líður, einkum þegar hægt verði að gera mótefnapróf.
Sjúkdóminn segir Ólafur vera mjög alvarlegan enda megi sjá háa tíðni alvarlegra veikinda og dauðsfalla. Hann kveður að SARS og MERS hefðu getað orðið ámóta vandamál og COVID, en smithæfni þeirra reyndist minni og viðbrögðin í samfélaginu miðist alltaf við stærð vandans.
Á Íslandi hefur verið skipaður vinnuhópur á vegum þjóðaröryggisráðs til að fylgjast með og „kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðunnar“ sem tengist COVID-19.
Framvindan
Annar höfunda greinarinnar er búsettur í Papúa Nýju Gíneu sem er þróunarríki. Heilbrigðiskerfið þar er ekki vel tækjum búið né hefur það mikil fjárráð til að takast á við faraldur sem þennan.
Þar virðast vera fá smit enn sem komið er en hugsanlega er skýringin sú að þar í landi skortir úrræðin til að greina þá sem smitaðir eru. Sé svo er mögulegt að önnur holskefla smita eigi eftir að skella á í þróunarlöndum. Hvaða áhrif það mun hafa á fjölda þeirra sem láta í minni pokann fyrir veirunni veit enginn.
Nú eru miklar hörmungar að ganga yfir í Ekvador og þar í landi virðist vera fátt um varnir. Óstaðfestar fregnir benda til að þúsundir hafi látist þar af völdum COVID-19. Það má hugsa sér að sama verði upp á teningnum í öðrum þróunarríkjum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin óttast að Afríka kunni að verða næsti suðupunktur faraldursins. Þar gætu nokkur hundruð þúsund látist af völdum hennar og milljónir orðið fátækt að bráð. Almennu hreinlæti er víða ábótavant og í álfunni eru öndunarvélar fáséðar; innan við 2000 vélar eru til fyrir nokkur hundruð milljónir manna. Í tíu ríkjum er engin öndunarvél til.
Nú berast fréttir um að önnur alda smita sé að eiga sér stað í Singapúr og það vekur spurningar um það hvort hið sama verði upp á teningnum annars staðar.
Öndunarvélar eru bráðnauðsynlegar lífshættulega veikum sjúklingum. Framboð á slíkum tækjum hefur dregist mjög saman í veröldinni en Bretar hófu framleiðslu á sínum eigin að fyrirmynd frá NASA.
Hið sama var uppi á teningnum vestanhafs þaðan sem þær fréttir bárust að bifreiðaframleiðandinn Ford hygðist framleiða öndunarvélar. Bílaframleiðandinn tók líka að framleiða andlitsgrímur en framboð þeirra var orðið mun minna en eftirspurnin.
Vandi við viðbrögð og varnir er því ekki aðeins uppi þar sem fátækt er mikil. Fréttir hafa m.a. borist frá frá Bretlandi um að heilbrigðisstofnanir þar séu að verða uppiskroppa með hlífðarbúnað fyrir starfsfólk.
Annar hlífðarbúnaður hefur einnig verið illfáanlegur sem er hugsanlega skiljanlegt í ljósi þess að þó að viðvörunarbjöllurnar hafi klingt er sem fáir hafi heyrt í þeim.
Björn Zoega forstjóri Karolinska-sjúkrahússins í Svíþjóð nefndi jafnframt nýverið í viðtali að enginn hefði verið viðbúinn því hve mikið þyrfti að vera til af tækjum og búnaði til að bregðast við faraldri af þessari stærðargráðu.
Allt frá árinu 2007 hefur þó mikið verið til til í landinu af nauðsynlegum búnaði til að bregðast við áskorun af þessu tagi.
Á Íslandi hafa viðbragðsáætlanir vegna farsótta verið til síðan um aldamótin og hafa verið í stöðugri þróun og rýningu. Síðasta áætlunin (sem áður hét viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu) mun hafa verið gefin út um það bil sem faraldurinn var að ná flugi.
Samdráttur
Nú þegar rykið virðist vera að setjast og myndin ögn að skýrast þarf að velta fyrir sér þeim spurningum sem brenna á fólki.
Líkt er sem stjórnvöld í Kína væru að vona að þeim tækist að hefta útbreiðslu veirunnar frá Wuhan og að þeir þyrftu hreinlega ekki að segja heimsbyggðinni frá þeirri ógn sem svo sannarlega stafar af COVID-19.
Lengi lét Bandaríkjaforseti í það skína að faraldurinn ætti eftir að hjaðna hratt og hverfa innan skamms án þess að grípa þyrfti til sérstakra aðgerða. Eftir að ljóst varð að svo er ekki hefur forsetinn óhikað beint spjótum sínum í allar áttir og kennt öllum öðrum en ríkisstjórn sinni um hvernig komið er.
Hann er til dæmis einn hatrammasti gagnrýnandi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og hefur lagt það til að greiðslum Bandaríkjanna til þeirrar stofnunar verði hætt
Sérfræðingar virðast sammála um að óumflýjanlegt sé að efnahagskerfi heimsins muni skreppa töluvert saman um sinn. Vesturlönd sem stóla mikið á verslun, þjónustu og iðnað því tengdu munu fara verst út úr þeim samdrætti. Þau lönd sem framleiða meira munu koma betur út vegna þess að þau eru að höndla með verðmæti sem eru ekki huglæg heldur eitthvað sem má handleika.
Enn hafa höfundar ekki rekist á spár um hvernig þróunarlöndum muni farnast en gera má ráð fyrir því að þar verði kreppan djúp og muni auka við þá fátækt sem er nú þegar til staðar.
Nýverið bárust fréttir af fjölmennum mótmælum í Bangladesh vegna afpantana stórra vestrænna verslunarkeðja á þarlendum vefnaðarvörum. Þær eru mikilvægur þáttur í hagkerfi landsins en fjölmargt starfsfólk í vefnaðariðnaði hefur verið launalaust í allt að tvo mánuði.
Reglufestan breytist
Samfélag nútímans ætlast til að einstaklingarnir séu heil og óbrotin tannhjól í gangverki þess, það skipar þeim með sífellt skilvirkari hætti í fyrirfram gefin hólf, gefur þeim mælanleg einkenni og skapar handa þeim stofnanir sem í sjálfum sér bera reglufestu og vald. Flestir virðast samþykkja þetta og þykir undarlegt að nokkur hafi áhuga á annars konar lífi.
Nánast á augabragði var almenningur samt tilbúinn að samþykkja viðamiklar breytingar á langvarandi reglufestu og vana. Þær víðtæku, fjölþjóðlegu aðgerðir að hefta ferðafrelsi fólks, banna samkomur og jafnvel að loka vinnustöðum hafa ekki eingöngu skapað efnahagskreppu sem ekki sér fyrir endann á heldur hafa mælingar sýnt að magn CO2 agna í lofthjúpi jarðar hefur dregist saman.
Umferð allra gerða farartækja hefur minnkað mikið, verksmiðjum hefur verið lokað og flugumferð er margfalt minni en vant er svo dæmi séu nefnd. Þeir sem berjast fyrir betri umgengni um móður Jörð eru margir hverjir ánægðir með þróun mála.
Mengun hefur enda minnkað snarlega og í Los Angeles njóta ljósmyndarar þess að mynda borgina þar sem hún baðar sig í sólarljósi því mengunarskýið sem legið hefur yfir henni lengi er að mestu horfið.
Bjart er yfir Himalaja fjöllum en dimmt yfir Úkraínu, einu stærsta og fátækasta ríki Evrópu. Bæði hefur veiran haft alvarleg áhrif á daglegt líf íbúa landsins og mökkur af skógareldum sem loguðu nærri Chernobyl lögðust yfir Kiev. Þau tíðindi hafa borist að fólk veikist verr á þeim svæðum þar sem loftmengun er mikil.
Tröllin á samfélagsmiðlum hafa nýtt sér andrúmsloftið með því að skrifa upplognar fréttir. Ein þeirra snýr að höfrungum og fleiri sjávardýrum sem hingað til hefðu ekki hætt sér í drullupyttinn sýki Feneyja en geri það nú vegna minnkaðrar mengunar.
Spáð hefur verið að á þessu ári verði allt að 5% minnkun á losun. Vísindamenn telja að þetta sé stutt hlé sem muni hafa óveruleg áhrif til langs tíma litið. Um leið og hjól athafnalífsins taki að snúast aftur muni fljótlega verða snúið til fyrri vegar og langtímaáhrifin verði ekki þau sem baráttumenn fyrir betra umhverfi hafa látið sig dreyma um.
Á vef Norska ríkisútvarpsins voru nýlega taldar upp nokkrar ástæður þess að farsóttin væri slæm tíðindi fyrir loftslagið m.a. frestun loftslagsráðstefnu, hægari uppbygging í sól- og vindorku og að efnahagsaðgerðir ríkisstjórna heimsins geri illt verra.
Velta má fyrir sér hvort veiruváin og afleiðingar hennar muni opna augu almennings og ráðamanna fyrir því að hægt sé að draga úr mengun með því að draga úr neyslu á ýmsum sviðum.
Á hinn bóginn gefur núverandi staða vísindamönnum tækifæri til að safna upplýsingum sem hægt er að nota til að skrifa lærðar greinar um það sem koma skal ef tekst að snúa þróuninni og hugarfarinu við. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.
Kenningar af ýmsu tagi
Eftir stendur að það sem fáir vildu heyra er orðið að raunveruleika. Nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar um farsóttir og aragrúi af skáldsögum skrifaðar sem fjalla um aðstæður svipaðar þeim sem uppi eru í heiminum í dag.
Heilbrigðiskerfi veraldar hafa vitaskuld lengi gert sér grein fyrir að farsóttir og heimsfaraldrar gætu skollið á og hafa t.d. séð skæða inflúensu árin 1918, 1957, 1968, 1977 og 2009.
Ekki ómerkari maður en Bill Gates hefur ítrekað varað við hættunni á heimsfaraldri undanfarin ár. Gates hefur sjálfur verið sakaður um að bera ábyrgð á veirunni og stefna ásamt öðrum að því að koma á eftirlitskerfi í anda alsjár Foucaults eða Stóra bróður Orwells.
Aðrir hafa gert slíkt hið sama en talað fyrir fremur daufum eyrum ráðamanna. Hér skal einnig nefndur Michael Osterholm sem er sérfræðingur í smitsjúkdómum sem varaði fyrst við heimsfaraldri árið 2005 með skrifum sínum í The Foreign Affairs Magazine.
Það sem hann ritaði þar var síðar birt á CNN fréttastöðinni og í lauslegri þýðingu var það þetta: „Við stöndum á mikilvægum tímapunkti í sögunni. Sá tími sem við höfum til að búa okkur undir næsta heimsfaraldur er að renna út. Við verðum að bregðast við nú þegar með yfirveguðum og afgerandi hætti.“
Osterholm ítrekaði þetta í bókinni Dealdliest Enemy: Our War Against Killer Germs sem kom út árið 2017.
Veirufræðingurinn Robert G. Webster gaf út bókina Flu Hunter: Unlocking the Secrets of a Virus í desember 2019 þar sem hann fullyrti að hættulegur faraldur væri ekki aðeins mögulegur heldur væri það eingöngu tímaspursmál hvenær hann skylli á.
Jeremy Konyndyk sem var yfirmaður USAID Office of US Foreign Disaster Assistance í forsetatíð Obama lýsti því yfir að veira svipuð þeirri sem olli farsóttinni 1918 myndi koma fram. Hann varaði við því að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, væri ekki vel undirbúinn til að takast á við faraldur sem þennan.
Dr. Luciana Borio sem starfaði fyrir viðbragðsteymi Hvíta hússins gegn heimsfaröldrum (e. The White House National Security Council team responsible for pandemics) sagði hættuna af heimsfaraldri vera eitt mesta áhyggjuefni heilbrigðiskerfa. Hún kvaðst jafnframt óttast að enginn væri viðbúinn að bregðast við.
John Bolton, sem var þjóðaröryggisráðgjafi Trumps forseta leysti þetta teymi upp þegar Þjóðaröryggisráðið (NSC) var endurskipulagt.
Alls konar óáreiðanlegar tilgátur hafa einnig verið settar fram upp á síðkastið. Ein er sú að bandaríski rithöfundurinn Dean Koonz hafi spáð fyrir um COVID-19 í bók sinni The Eyes of Darkness. Í bókinni er fjallað um veiru sem var búin til í efnarannsóknarstöð og nefnd er „Wuhan -400“. Þar lýkur samlíkingunni því dánarlíkur af veirunni í bókinni er 100%. Auk þess var veiran nefnd „Gorki-400“ í upphaflegri útgáfu bókarinnar árið 1981.
Einhverjir „sérfræðingar“ í spádómum sextándu aldar læknisins og spámannsins Nostradamusar hafa fullyrt að hann hafi spáð fyrir um yfirstandandi farsótt í tveimur ef ekki þremur af torræðum fjögurra lína spádómsvísum sínum.
Margir virðast jafnvel álíta að um einhvers konar sviðsetningu sé að ræða og ástæður hennar eru taldar vera af ýmsu tagi, allt frá því að verið sé að fela uppsetningu 5G mastra fyrir almenningi til þess að alþjóðasamtök auðkýfinga hafi þurft á frystingu hagkerfa heimsins að halda. Slíkum kenningum fylgja oft yfirlýsingar um að COVID-19 sé varla hættulegri en venjuleg flensa eða jafnvel kvef.
Því tengd er kenning um að það sé 5G kerfið, símar og möstur sem valdi og dreifi veikindunum. Svarið við því er að rafsegulgeislun flytji orku en alls ekki efni. Því sé algerlega ómögulegt að hún dreifi veirum.
Loks virðast einhverjir telja að Kínverjar hafi komið veirunni af stað til fella hagkerfi andstæðinga sinna um veröldina og koma svo inn sem frelsandi englar með úrræði og bjargráð. Látið er að því liggja að þeir sjálfir hafi sloppið ótrúlega vel; t.d. hafi engir ráðamenn sýkst og stórborgir í nágrenni Wuhan hafi ekki orðið fyrir barðinu á veirunni.
Hagkerfi Kína hefur þó dregist saman í fyrsta skipti í áratugi og hátt í hundrað þúsund dauðsföll hafa verið skráð í landinu.
Þáttur stjórnvalda
Hvers vegna virðast sumir ráðamenn heimsins koma af fjöllum varðandi tilkomu COVID-19 og hvers vegna eru viðbrögð margra þeirra jafn slæleg og raun ber vitni?
Getur það verið vegna þess að þau sem við veljum til þess að stjórna ríkjum okkar vilji fyrst og fremst tryggja sér áframhaldandi setu í embætti og forðist þess vegna að ræða erfiðar aðstæður sem koma upp?
Hversdagslegu vandamálin sem stjórnmálamenn þurfa að glíma við eru margvísleg og hví þá að verja orku í að draga fram erfiðleika sem eru hvort eð er líkt og fjarlæg martröð sem ætti frekar heima í kvikmyndum eða skáldsögum?
Enginn vinnur sér inn atkvæði með því að draga slík mál upp á yfirborðið á meðan flest leikur í lyndi. Til að sanngirni sé gætt hlýtur þó að mega búast við að skynsamir stjórnmálamenn styðji við og hvetji til undirbúnings gegn hverskyns vá þótt það fari ekki endilega fram á opinberum vettvangi.
Um þessar mundir er ástandið að versna í Bretlandi og Bandaríkjunum með hverjum deginum sem líður. Nú berast fréttir um það eins og áður sagði að ný bylgja smita séu að koma fram í Singapúr. Hinsvegar virðast Kínverjar vera búnir að ná tökum á faraldrinum þar í landi sem er mjög gleðilegt og gefur von um að í það minnsta sé hægt að hefta útbreiðsluna á meðan verið er að leita að bóluefni sem getur unnið á veirunni.
Á hinn bóginn virðast kínversk stjórnvöld ekki einvörðungu vera að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar heldur líka að hefta umræðu og rannsóknir um hvers vegna veiran gat valdið jafn miklum usla og raun ber vitni. Þessar aðgerðir eru örugglega ekki hjálplegar til að finna lausn vandans eða til þess að læra af reynslunni.
Efnahagskreppa
Öll heimsbyggðin siglir hraðbyri inn í kreppu sem virðist ætla að verða mjög erfið og erfitt að sjá fyrir endann á. Samanburður við kreppur fyrri tíma gefur til kynna að hún verði enn verri en kreppan eftir bankahrunið 2008 og jafnvel verri en „kreppan mikla“ sem hófst í Bandaríkjunum árið 1929. Henni fylgdi mikill samdráttur á flestum sviðum atvinnulífsins, atvinnuleysi og harðræði fyrir marga.
Kreppunni miklu lauk þegar seinni heimsstyrjöldin skall á og í raun má segja að tímabilið frá 1929 til stríðsloka 1945 hafi verið langvinnt umbrotatímabil. Þegar upp var staðið og uppbyggingin hófst var öllum ljóst að bæta yrði samskipti á alþjóðavettvangi.
Sameinuðu þjóðirnar litu dagsins ljós og fyrstu skrefin voru stigin til meiri samvinnu Evrópuríkjanna. Evrópubandalagið á rætur sínar að rekja til Parísarsáttmálans sem var undirritaður árið 1951 og Rómarsáttmálans sem tryggði frekari efnahagsbönd á milli ríkjanna sem að honum stóðu.
Þar með var Evrópska efnahagssvæðið orðið að raunveruleika (European Economic Community). Það var þó ekki fyrr en 1993 að Evrópu Bandalagið (EU) var stofnað þegar Maastricht-sáttmálinn var undirritaður.
Alþjóðastofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn voru einnig stofnaðar og aðrar ráðstafanir gerðar sem hafa hjálpað til við að viðhalda einu lengsta efnahagsvaxtartímabili sögunnar.
Allt þetta gerðist meðan heimurinn skiptist í tvö gagnstæð kerfi í ísköldu stríði.
Umbreyting á tímum farsóttar. Hvað svo?
Hvernig verður málum háttað þegar þessi heimsfaraldur er yfirstaðinn? Efnahagskreppan mun væntanlega vara eitthvað áfram eftir að faraldurinn sjálfur hefur verið kveðinn niður.
Þótt Ólafur Guðlaugsson yfirlæknir sýkingavarnadeildar Landspítalans segi of snemmt að horfa til baka í miðjum faraldri sé lærdómur dreginn af öllu því sem gert er í rauntíma og reynt að bæta næstu ákvarðanir. Allir þættir tengdir faraldrinum sjálfum eru í stöðugri rýningu innan heilbrigðiskerfisins þar sem verið er að læra af því sem gert er, það notað sem vel reynist og öðru breytt.
Enn er alls óvíst hvenær faraldurinn verður að baki og hversu margir munu láta lífið. Vonin er þó sú að við sem mannkyn munum bera gæfu til að geta litið um öxl og séð hvað fór úrskeiðis og hvað var vel gert til þess að læra af reynslunni. Alvarlega þarf t.d. að huga að og styrkja fæðuöryggi heimsins og efnahagslega afkomu fólks.
Verksmiðjuframleiðsla hefur færst til Kína og Indlands til að nefna fjölmennustu svæðin þar sem ódýrt vinnuafl gefur fjölþjóðafyrirtækjum færi á að auka gróða sinn.
Þeir hlutir sem við kaupum eru hreint og beint hannaðir til að ganga fljótt úr sér svo við kaupum meira.
Að mestu er af sem áður var þegar til dæmis armbandsúr eða húsgögn entust mannsævina alla og gengu svo í erfðir til afkomenda eigandans. Harla litlar líkur eru á því að farsímar gangi í erfðir og efast má um að IKEA húsgögn muni duga margar kynslóðir.
Kannski förum við að lesa gömlu bækurnar, horfa á gömlu myndirnar og spila gömlu vínylplöturnar meðan við látum fara vel um okkur í gamla sófanum. Við þurfum ekki að hætta að ferðast til fjarlægra staða en kannski leyfum við okkur að gera það stundum í huganum án þess að fyllast vonleysi yfir því.
Áður en faraldurinn skall á var nefnilega tekið að glitta í hugarfarsbreytingu þar sem kallað var eftir minni sóun verðmæta. Að mörgu þarf að huga og ýmislegt þarf að skoða til að sneiða hjá þeim hremmingum sem gætu verið á næsta leiti verði ekkert að gert.
Umhverfis- og loftslagsmál eru vandamál sem ekki munu hverfa án þess að tekið sé á þeim. Aðgerða er þörf og hugarfars- og kerfisbreytingu þarf til þess að þær nái fram að ganga. Ef til vill verður nýtt og bjartara viðhorf til umhverfisins, fólksins í kringum okkur og munanna sem við þegar eigum hin jákvæða niðurstaða heimsfaraldursins.