Það er athyglisvert að sjá í hvaða mynd við við verðum vör við samstöðuna í samfélaginu núna. Allir setja það á oddinn að passa upp á öryggi sjálfra sín og annarra. Ég held mig heima og fæ engar heimsóknir. Ég fer í gönguferðir – reyndar ekki nógu oft. Og þegar ég fer út mæti ég samborgurum mínum; þeir brosa, kinka kolli og heilsa. Um daginn gekk ég eftir Reykjamörkinni hér í heimabæ mínum, Hveragerði, niðursokkinn í hugsanir mínar um allt og ekkert, þá heyrði ég allt í einu kallað glaðlega – hæ. Og sjá – þegar ég leit upp og horfði til hliðar sá ég strákahóp sem veifaði glaðlega til mín. Ég tók kveðju þeirra með bros á vör og mér hlýnaði um hjartarætur. Æ, ég ætlaði ekki að verða svona væminn – en það er nauðsynlegt að sjá og finna gleðina sem fylgir hinu smáa – sem er reyndar alls ekki svo smátt.
Ég fer í Bónus á þriggja til fjögurra daga fresti – með grímu og einnota hlífðarhanska. Allt gengur rólega fyrir sig – engum liggur á. Það myndast engin örtröð við kassann þegar líður að lokun verslunarinnar, því fólk dreifir innkaupaferðunum yfir daginn. Það gengur ekki með málband eða tommustokk til að mæla fjarlægðina til næsta manns – nú eru allir með innbyggt fjarlægðarskyn og halda sig í um það bil tveggja metra fjarlægð frá náunganum. Þarna er kona sem stendur við hilluna með hnetum og þurrkuðum ávöxtum. Hún gefur sér góðan tíma, athugar verðið og hugsar greinilega um það hvað kallinn hennar kýs helst í bollurnar sem hún ætlar að baka handa honum. Ég bíð álengdar – er alveg viss um hvað ég ætla að kaupa. Ég á nefnilega firnagóða uppskrift af Kaffi-trönuberja-köku. Hún er meinholl af svona köku að vera. Þegar ég kem að kassanum bendir afgreiðslustúlkan mér á að stíga ekki yfir strikið sem á að tryggja tveggja metra fjarlægð frá kúnnanum sem hún er að afgreiða. Ég afsaka mig, stíg eitt skref til baka, brosi til annarra viðskiptavina og þeir brosa á móti.
Þeir lakast settu
Ég er ekki á flæðiskeri staddur – kennari, sestur í helgan stein. Kennarakaupið er reyndar ekki neitt til að hrópa húrra fyrir og lífeyririnn eftir því – en það nægir. Mér verður hugsað til allra þeirra sem eiga ekki fyrir mat út mánuðinn. Hugsa stjórnvöld nægilega til þeirra á tímum sem þessum? Um áraraðir hafa eldri borgarar og öryrkjar mátt þola að tekjur þeirra hafa ekki hækkað í samræmi við tekjur á almennum vinnumarkaði. Og um áraraðir hafa allir stjórnmálaflokkarnir lofað því fyrir kosningar að leiðrétta kjör þessa fólks – en eftir kosningar hafa önnur mál verið sett í forgang. Fleiri hópa má nefna í þessu sambandi, svo sem einstæða feður og einstæðar mæður, leigjendur, námsmenn og fleiri. Í augum hinna háu ráðandi herra á alþingi og í ríkisstjórn, hafa þessir hópar verið afgangsstærðir þegar kemur að því að skapa gott og réttlátt samfélag á Íslandi. Á tímum sem þessum er mjög nauðsynlegt að hafa í huga að áhyggjur og kvíði vegna veirunnar bætist hér ofan á áhyggjur og kvíða vegna matarleysis og skorts á öðrum nauðsynjum. Við vitum að fjárhagsstaða þeirra hópa sem ég nefndi hér að framan er mjög mismunandi. Það er enginn sem lætur sér detta í hug að vel stæðir einstaklingar meðal þeirra eigi rétt á auknum bótum eða lagfæringu lífeyris. En það verður að huga betur að þeim hluta sem lakar stendur. Hugmyndin um borgaralaun er að vakna til lífsins núna. Útfærsla þeirra á að tryggja öllum lágmarksframfærslu. Við ættum að huga að slíkum lausnum þegar við erum laus úr þessum hremmingum.
Samvinna og samráð
Það er ljóst að valdhafarnir hafa ekki dregið nægan lærdóm af hruninu árið 2008. Margt tókst vel í þeim bjargráðum sem stjórnvöld buðu upp á þá. En þegar grannt var skoðað kom í ljós að margt fór úrskeiðis. Þegar frá líður veltir maður því fyrir sér hversu algengt það var að fyrirtæki fengu ótakmarkaðan stuðning – hvort sem þau voru stórgróðafyrirtæki eða önnur minni. Mjög mörg þeirra áttu góða að hjá valdastéttinni og það var ótrúlega auðvelt að fá niðurfelldar skuldir og gjöld. Á sama tíma misstu margir hús sín og eignir þó þeir hefðu haft alla burði til að standa við skuldbindingar sínar fyrir hrun. Eins og svo oft áður voru stórir hópar í samfélaginu sem litið var á sem afgangsstærðir. Þegar á heildina er litið þá voru það þeir best settu sem fengu mest út úr þeim bjargráðunum sem stjórnvöld buðu upp á. En þeir sem lakar stóðu máttu þola miklar hremmingar. Ég er ekki í vafa um að ef meiri samvinna hefði verið milli allra stjórnmálahreyfinga á alþingi þá hefði verið hægt að finna betri og réttlátari lausnir. Og ef meira samráð hefði verið haft við ýmsa hagsmunahópa í samfélaginu þá hefði betur tekist að rétta hlut allra sem urðu illa úti í hruninu.
Samráð við ýmsa mikilvæga hagsmunahópa í samfélaginu er í skötulíki. Umsögn ASÍ um aðgerðapakka tvö lýsir glögglega hversu stórgallaðar tillögur ríkisstjórnarinnar eru: „Enn á ný beina stjórnvöld stuðningi sínum ekki að fólki heldur að fyrirtækjum sem eftir óljósum leikreglum geta sótt sér fjármuni í vasa almennings, óháð því hvort þau viðhalda störfum, fara eftir kjarasamningum eða standa skil á framlagi sínu til samfélagsins. Það er lykilatriði við endurreisn efnahagslífsins að tekjur fólks séu tryggðar, atvinnuleysisbætur og önnur framfærsla sé þannig að fólk geti lifað sómasamlegu lífi og stutt við þjónustu og framleiðslu með kaupmætti sínum.“
Síðan er haft eftir Drífu Snædal forseta ASÍ: „Forsvarsfólk ríkisstjórnarinnar hefur kosið að þróa tillögur til aðgerða við fordæmalausum aðstæðum einkum í samtali við sjálft sig. Reyndin er hins vegar sú að þekkingin og reynslan liggur hjá verkalýðshreyfingunni og aðeins með samtali og samvinnu getum við búið til lausnir sem henta vanda af þeirri stærðargráðu sem við nú stöndum frammi fyrir. Krafa okkar um samráð snýr að þessu.“
Stöndum þétt saman – Þegar hremmingarnar eru að baki
Enginn vafi er á því að Íslendingar koma standandi út úr þessum hremmingum. En miklu skiptir að þær byrðar sem fólk þarf að bæta á sig verði réttlátar og skynsamar. Það gengur ekki að óhóflegar byrgðar sér lagðar á almenning í landinu. Og það gengur ekki að sá litli hluti þjóðarinnar sem mest hefur á milli handanna axli ekki ábyrgð í takt við þau efnislegu gæði sem þeir njóta. Hvaða vit er í því að fyrirtækjum, sem um áraraðir hafa greitt hluthöfum sínum milljarða í arð, sé hleypt á ríkisjötuna? Það þarf að gera greinarmun á fyrirtækjum sem sigla með himinskautum og öðrum sem hafa haldið þokkalegum sjó og svo þeim sem voru og eru að sökkva. Það er hrein ósvinna að fyrirtæki sem eiga mikið eigið fé og greiða milljarða króna í arð til eigendanna fái sömu bjargráðin og önnur fyrirtæki. Menn verða að átta sig á því að þeir sem „eiga“ peningana hafa ekki „eignast“ þá með súrum sveita síns andlitis. Þeir hafa tekið þá frá almenningi á Íslandi í gegnum tíðina.
Að loknum hremmingunum þurfa ráðamenn að setjast niður og meta hvernig til hefur tekist, með réttlæti og sanngirni að leiðarljósi. Og þegar ég tala um ráðamenn á ég ekki bara við ríkisstjórn Íslands og stuðningsmenn hennar – ég á við alla alþingismenn og ekki síður alla forystumenn hagsmunahópa í samfélaginu. Samráð og samvinna á að einkenna þetta mat. Við skulum vona að slíkt mat leiði til betra samfélags þegar hremmingarnar eru að baki.
Höfundur er framhaldsskólakennari.