Áskorunin sem samfélagið stendur frammi fyrir er flókin. Nær algjör óvissa er um ferðalög milli landa og enginn veit hversu langur tími líður þar til við getum ferðast erlendis eða fengið gesti til landsins. Þar af leiðandi mun verðmætasköpun þessa árs verða hundruðum milljarða minni en hún var á síðasta ári. Til ýmissa aðgerða hefur verið gripið til að dempa höggið.
Fyrstu skref voru að tryggja afkomu fólks, með launum í sóttkví og með hlutabótaleiðinni svokölluðu. Ríkissjóður stendur traustur og mun taka á sig gríðarlegan halla á þessu ári og verður sennilega meiri en í bankahruninu fyrir rúmum áratug. Seðlabankinn hefur lækkað vexti og hóf jafnframt nýlega kaup á bréfum til þess að halda niðri vaxtakostnaði til lengri tíma. Þá hefur verið gripið til fjölmargra og umfangsmikilla aðgerða til að verja launafólk í landinu og verja störf. Þær snúa m.a. að því að ríkissjóður ábyrgist lán til fyrirtækja, að uppfylltum ýmsum skilyrðum s.s., að fyrirtækin séu skráð á Íslandi en ekki í skattaskjólum, greiði sér ekki arð á lánstímanum og fleira. Enda þó að mikilvægt sé að aðgerðirnar séu almennar þá verða þær einnig að vera hnitmiðaðar.
Krían er komin
Í öðrum aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar er enn meira lagt í nýsköpun hverskonar sem ég tel afar mikilvægt. Það er lykilatriði að hér verði til störf nú þegar gefið hefur á bátinn í atvinnulífinu. Þessi störf þurfa að verða til úti um land allt. Við vitum að til þess að standa undir öflugu velferðarkerfi þarf öflugt atvinnulíf. Þessir tveir þættir næra hvorn annan. Hið opinbera gerir atvinnulífinu kleift að skapa verðmæti til útflutnings. Verðmætasköpun einkageirans gerir hinu opinbera kleift að efla velferðarkerfið. Þetta sjáum við vel núna á öflugu viðbragði hins opinbera, heilbrigðiskerfis og almannavarna sem hefur orðið til þess að settar hafa verið minni hömlur á daglegt líf Íslendinga heldur en í flestum löndum í kringum okkur. Þar hefur skólum verið lokað og útgöngubann verið í gildi og framfylgt af lögreglu vikum og mánuðum saman.
Eitt sem skort hefur lengi á Íslandi er nýsköpunarsjóður sem fjárfestir í fyrirtækjum. Fyrir þinginu liggur frumvarp um slíkan sjóð, Kríu. Lagt er til að í hann fari 1300 milljónir sem hægt sé að nýta í fjárfestingar á þessu ári. Þá er einnig mikilvæg sú tillaga að hækka endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði sem einnig er til þess fallin að fjölga hér störfum og auðvelda endurreisnina. Með þessu erum við að veðja á framtíðina – leysum úr læðingi sköpunarkraft til að skapa enn frekari verðmæti.
Rannsóknir á vegum Norræna ráðherraráðsins sýna að á eftir heilsu og tekjuójöfnuði er það atvinnuleysi sem mestri óhamingju veldur hjá einstaklingum. Nú slær atvinnuleysi öll met og mikilvægt að við náum að spyrna við fótum sem fyrst. Það gerum við með því að styðja við það sem fyrir er og byggir á traustum grunni en einnig með öflugum nýsköpunarastuðningi og horfum til framtíðar. Fjölbreytni í störfum út um allt land er það sem við þurfum til að komast á réttan kjöl aftur.
Höfundur er þingflokksformaður Vinstri grænna.