Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í bæjarráði Hafnarfjarðar hefur ákveðið að setja hlut bæjarins í HS Veitum í söluferli, ef „ásættanlegt verð“ fæst.
HS Veitur annast flutning orku, bæði vatns og rafmagns, reyndar bara hins síðarnefnda innan okkar bæjarmarka. Veiturnar eru því hluti af grunninnviðum samfélagsins og veita þjónustu sem neytendur geta ekki verið án. Samkvæmt lögum þurfa að minnsta kosti 50% fyrirtækisins að vera í opinberri eigu. Í dag á Hafnarfjörður rúm 15%, Reykjanesbær rúm 50% og Suðurnesjabær 0,1%. Þau ríflega 34% sem eftir standa tilheyra HSV eignarhaldsfélagi slhf, sem er í eigu Heiðars Guðjónssonar og tengdra aðila.
Í stefnu HS Veitna segir að fyrirtækið vilji veita ,,viðskiptavinum sínum fyrsta flokks þjónustu og leggja áherslu á að vörur fyrirtækisins séu framúrskarandi að gæðum, á hagstæðu verði og afhending þeirra stöðug og trygg“. Þetta eru allt sjálfsögð markmið og ættu án efa alltaf að standa framar markmiðum um að greiða út hagnað til eigenda. Hagnaður af grunnþjónustu eins og veitum ætti alltaf að renna til almennings, annað hvort beint – til dæmis á formi verðlækkunar eða aukinnar uppbyggingar og þar með afhendingaröryggis – eða þá óbeint, svo sem með arðgreiðslum í sameiginlega sjóði.
Sagan
Árið 2014 seldu Reykjanesbær, Orkuveita Reykjavíkur, Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar áðurnefnd rúm 34% til fagfjárfesta.
Frá þeim tíma hafa arðgreiðslur frá félaginu aukist til muna, á grundvelli umtalsverðs hagnaðar, sem aðallega er rakinn til aukinnar raforkunotkunar og betri nýtingar flutningskerfis.
Árið 2015 breyttist síðan form útgreiðslu rekstrarhagnaðar til eigenda, á þann hátt að í stað þess að greiða út arð hefur félagið keypt eigin bréf. Yfirlýst markmið þessarar breytingar er að forða eigendum frá því að greiða fjármagnstekjuskatt í ríkissjóð, sem nemur 20%. Óneitanlega hefur það fyrirkomulag vakið upp spurningar, meðal annars í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, en það virðist þó samt vera að festa sig í sessi.
Sé litið sérstaklega til HSV eignarhaldsfélags slhf lítur dæmið nú þannig út að á móti þeim 3.140 milljónum króna sem kaupin í veitunum kostuðu árið 2014 hafa komið um 1.684 milljónir, þar af einungis 310 milljónir á skattskyldu formi. Því má segja að helmingur kaupverðsins hafi þegar verið endurheimtur á um 6 árum.
Hagur Hafnarfjarðar
Bæjarsjóður Hafnarfjarðar hefur fengið í sinn hlut um 760 milljónir á þessum sama tíma, þ.e. frá árinu 2014 til ársins 2019. 140 þeirra milljóna hafa verið skattskyldar.
Vissulega má gagnrýna þessa skattaforðun, en þó endar að minnsta kosti sá hluti sem fer til sveitarfélaga með gagnsæjum hætti í sjóðum almennings, þó svo á öðru stjórnsýslustigi sé.
Í fréttum RÚV þann 27. apríl er óbeint haft eftir bæjarstjóra Hafnarfjarðar að hlutur bæjarins í HS Veitum yrði mögulega metinn á 3,5 milljarða króna, miðað við nýlegt mat á félaginu.
Sé það rétt hlýtur HSV eignarhaldsfélag slhf því að halda á eign sem metin er á upp undir 8 milljarða, um 6 árum eftir að hafa borgað 3,14 milljarða fyrir hann. Við það bætist síðan 1,7 milljarður í útgreiddan hagnað og innlögn á bréfum sem hefur ekki haft áhrif á eignarhlut þess í félaginu.
Hlutur Hafnfirðinga
Hafi hlutur HSV eignarhaldsfélags slhf meira en tvöfaldast á síðustu 6 árum hlýtur það sama að gilda um hlut Hafnarfjarðar, sem hefur þá vaxið um ca. 2 milljarða. Það getur vart talist slæm eign að hafa í safni sínu, þegar þar að auki hefur fallið til 760 milljón króna hagnaður af honum á sama tíma.
Svona eign verður aðeins seld einu sinni og ég sem bæjarfulltrúi vil ekki vera aðili að því að afsala henni úr höndum Hafnfirðinga.
Mögulegan framtíðarhagnað fyrirtækisins vil ég frekar sjá renna til bæjarbúa á formi lægri iðgjalda, aukins raforkuöryggis eða inngreiðslna í bæjarsjóð, heldur en til þess að niðurgreiða fjárfestingar fagfjárfesta.
Höfundur er bæjarfulltrúi Bæjarlistans í Hafnarfirði