Kæru félagar,
ég sendi ykkur innilega kveðju á baráttudegi verkalýðsins. Það er erfitt að finna réttu orðin í dag; stórkostlegur fjöldi okkar missir vinnuna og mikil óvissa ríkir um það hvað bíður okkar. Aðeins tvennt getum við verið viss um, vegna þess að reynslan kennir okkur það: Þetta verður erfitt og það eina sem mun koma í veg fyrir að verka- og láglaunafólki verði gert að bera þyngstu byrðarnar er algjör og afdráttarlaus samstaða okkar. Við munum þurfa að berjast fyrir því að þeir sigrar sem við sjálf og þau sem á undan okkur fóru tókst að vinna verði ekki af okkur teknir og við munum þurfa að berjast fyrir því að viðbrögðin við faraldrinum leggi ekki líf í rúst. Við munum þurfa að berjast fyrir því að setningin „Við erum öll í þessu saman“ verði ekki aðeins innantómt orðagjálfur.
Það er svo stutt síðan að síðustu hremmingar dundu á okkur, vinnandi fólki. Við erum ótalmörg sem upplifðum það að fótunum væri kippt undan okkur á augabraði þegar úrkynjaður og baneitraður kasínó-kapítalisminn hrundi árið 2008. Við sjálf eða nákomnir ástvinir misstu vinnuna. Þúsundir heimila voru boðin upp á nauðungarsölu. Börn horfu á foreldra sína upplifa hræðilega erfiðar stundir, fangar aðstæðna sem þau báru enga ábyrg á. Fólk missti allt sem það sem aflað hafði verið í sveita eigin andlits, afrakstur ára og áratuga strits þurrkaður út eins og ekkert væri. Fólk sem hafði verið á vinnumarkaði frá barnsaldri stóð uppi eignalaust, lent í búrókratískri martröð hjá umboðsmanni skuldara, lent í því að fá atvinnuleysisbætur sem kannski dugðu fyrir allra brýnustu nauðsynjum en engu umfram það.
Ég veit hvaða ömurlegu gestir geta fylgt atvinnumissi. Ég þekki af eigin reynslu að þurfa að tryggja velsæld barnanna minna með eiginlega ekkert á milli handanna. Að lifa með viðvarandi áhyggjum er eitt það skaðlegasta sem hægt er að hugsa sér. Að vita að það sem kemur inn á reikninginn um mánaðamót er aldrei að fara að duga fyrir öllu því sem þarf að standa skil á grefur undan andlegri og líkamlegri heilsu. Að þurfa að hugsa um hverja einustu krónu öllum stundum er fangavist. Þungur dómur sem kveðinn er upp og manneskja hefur afplánun þrátt fyrir að hún hafi sannarlega engan glæp framið. Hvergi er hægt að áfrýja og hvergi er hægt að fá svör við því hversu lengi fangavistin muni vara. Þessu fylgir skuggi sem eltir þig hvert sem þú ferð. Á blíðviðrisdegi þegar sólin skín eru áhyggjurnar samt með í för. Þegar þú leggst til svefns ferðu yfir stöðuna í heimabankanum. Og það gerirðu líka þegar þú vaknar inn í nýjan dag.
Við sem lifðum síðasta hrun tókum á okkur miklar byrðar. Og til að komast undan þeim þurftum við, þegar að ný uppsveifla hófst, að vinna og vinna. Oft í fleiri en einni og jafnvel fleiri en tveimur vinnum. Við seldum burtu sumarfríin okkar og jólafríin líka. Ég þekki fjölda kvenna og karla sem gerðu lítið annað en að strita. Til að sjá fyrir fjölskyldunni sinni, borga skuldir, reyna að eignast húsnæði. Vera í þeirri sjúku aðstöðu að þurfa að greiða stóran hluta af sínum ráðstöfunartekjum í húsaleigu á leigumarkaði sem var í kjölfar hrunsins afhentur fjármagnseigendum til að fara með eins og þeim sýndist. Ég þekki konur sem árum saman unnu við að gæta barna og fóru svo að þeim 8 tíma langa og erfiða vinnudegi loknum beint í að skúra. Ég þekki konur sem nýttu allan sinn frítíma í að prjóna vörur til að selja ferðamönnum. Ég þekki konur sem báru út blöð áður en þær komu til vinnu sem konur í „stjórnendastöðu“, deildarstjórar á leikskólum borgarinnar.
Verka- og láglaunafólk veit að til að komast af þarf það að berjast. Alla daga, árið um kring. Við erum lífsreynt, fullorðið fólk. Okkur verður ekki hægt að blekkja. Vinna okkar hefur knúið áfram hjól atvinnulífsins og við munum aldrei sætta okkur við annað en að fullt og algjört tillit verði tekið til hagsmuna okkar. Okkar vinna hefur skapað auðæfin; nú er tíminn runninn upp til að ríkið viðurkenni það og sýni okkur það þakklæti og þá auðmýkt sem við sannarlega eigum skilið.
Við, félagsfólk Eflingar, fædd hér eða komin hingað til að vinna frá fjölmörgum löndum, tölum ótalmörg tungumál, eigum ólíka sögu og fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn. En við erum sannarlega öll í þessu saman. Aðeins í krafti fjöldans og með afdráttarlausum stuðningi hvort við annað munum við geta barist af nægilegum krafti til að tryggja afkomu okkar og fjölskyldna okkar.
Dagurinn í dag er okkar dagur, baráttudagur verkalýðsinsins, 1. maí. Ekki vegna þess að okkur hafi verið gefinn hann af yfirvaldinu. Nei, sannarlega ekki. Við eigum hann vegna þess að þau sem á undan okkur gengu tóku hann og gáfu sjálfum sér, félögum sínum, fjölskyldum og börnum. Eignalaust og allslaust fólk, hetjur sögunnar, full af eldmóði og þrautseigju, sjálfsvirðingu og stolti. Saga verkalýðsbaráttunnar kennir okkur að okkur er ekki gefið neitt af þeim sem fara með völd. Það hefur aldrei verið þannig og það tíðkast sannarlega ekki á þeim tímum sem við nú lifum. Aðeins barátta okkar skilar árangri.
Ég ætla að fá að enda á ljóði Jakobínu Sigurðardóttur, Fimm börn. Jakobína þekkti fátækt og skort af eigin reynslu. Hún var baráttukona fyrir efnahagslegu réttlæti og jöfnuði í mannlegu samfélagi. Um ljóðin sín sagði hún:
„Þau eru ekki ort til að þóknast einum né neinum. Og ekki að annarra óskum. Ég er ekki að biðja neinn afsökunar á þessu.“
Við skulum gera þessi orð að okkar: Við skulum ekki fara fram til að þóknast einum né neinum. Við skulum ekki biðjast afsökunar á okkur eða kröfum okkar. Við skulum standa saman, keik og bein í baki. Við erum vön því að berjast og við munum halda því áfram. Við ætlum að byggja réttlátt þjóðfélag, fyrir okkur sjálf, fyrir hvort annað og fyrir börnin okkar allra.
Þau sitja í brekkunni saman
syngjandi lag, tvær stúlkur, þrír drengir með bros um brár
sem blóma leita í dag.
Þau vita ekki að heimurinn hjarir
á heljarþröm.
- Þau elstu tvö eru aðeins fjögra,
og öllum er gleðin töm.
Því allt sem frá manni til moldar
við morgni hlær,
umhverfis þau í unaði vorsins
ilmar, syngur og grær.
Hér syngja þau söngva vorsins
sumarsins börn.
Óhrædd við daginn, sólgin í sólskin
Með sakleysið eitt að vörn
gegn öllu sem lífinu ógnar
um allan heim.
Ég heimta af þér veröld, lát vor þeirra lifa
og vaxa í friði með þeim.
---
Höfundur er formaður Eflingar.