Kæru félagar, til hamingju með daginn!
Í dag höldum við upp á alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins við óvenjulegar aðstæður, aðstæður sem enginn hefði getað séð fyrir. Í dag berjumst við eins og alltaf fyrir betra samfélagi en einnig fyrir heilsu okkar og öryggi.
Kórónaveirufaraldurinn virðist vera í niðursveiflu hér á landi sem er mikill léttir. Hann hefur þegar haft alvarlegar afleiðingar á heilsu og líf fjölmargra, og mjög hefur dregið saman í efnahagslífinu með afleiðingum sem við sjáum enn ekki fyrir að fullu.
Í þessum heimsfaraldri höfum við séð með skýrum hætti nauðsyn þess að við hjálpumst öll að. Samvinna okkar allra er grundvöllur þess að samfélagið virki. Við erum að öðlast nýjan skilning sem gefur okkur jafnframt von fyrir framtíðina. Við þurfum sem samfélag að virkja þennan samstöðukraft og vilja til að byggja upp réttlátt og sjálfbært samfélag sem einkennist af jöfnuði og jafnrétti í kjölfar faraldursins.
Framlínufólkið okkar hefur unnið þrekvirki við að vernda og annast þjóðina í fordæmalausum aðstæðum. Eins og margir hafa bent á eru þau raunverulegar hetjur okkar samfélags. Hetjurnar okkar lifa ekki á hrósinu einu saman, það þarf að launa þeim erfiðið í samræmi við álag og tryggja stuðning og hvíld við fyrsta tækifæri.
Aukin framlög og fjárfesting í heilbrigðisþjónustu er ekki eingöngu nauðsynleg á næstunni heldur til framtíðar. Nú þurfum við að vinda ofan af undirfjármögnun síðastliðins áratugar, til að tryggja að þjónustan standi undir þeim kröfum sem við gerum til hennar og til að tryggja heilbrigði starfsfólksins sem þar starfar.
En það er ekki bara heilbrigðisþjónustan sem er undir auknu álagi heldur öll almannaþjónustan, eftir áratug af niðurskurði og aðhaldsaðgerðum. Það þarf nýja nálgun á opinbera þjónustu svo að hún geti staðið undir auknum kröfum sem fylgja faraldrinum og til framtíðar.
Stytting vinnuvikunnar í höfn
Þó faraldurinn hafi einkennt síðustu vikur eru sem betur fer jákvæðari mál sem hægt er að gleðjast yfir. Í nýgerðum kjarasamningum var samið um styttingu vinnuvikunnar. Vinnuvika dagvinnufólks getur frá næstu áramótum styst um allt að hálfan dag á viku og um allt að heilan dag hjá vaktavinnufólki að ári. Útfærslan verður mismunandi með hliðsjón af hagsmunum starfsfólks og þeirri þjónustu sem er veitt á hverjum vinnustað. Við hjá BSRB erum stolt af því að hafa dregið vagninn í þessu mikilvæga verkefni.
En verkefnin eru auðvitað fleiri. Í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BSRB lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún muni vinna markvisst að því að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Ríkisstjórnin mun einnig setja af stað vinnu við heildarendurskoðun á opinberum stuðningskerfum við barnafjölskyldur líkt og barnabótakerfinu.
Lögreglumenn kjarasamningslausir 13 mánuði
Þrátt fyrir að kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB hafi verið undirritaðir og samþykktir í atkvæðagreiðslum er einn af okkar fjölmennustu hópum innan bandalagsins ennþá með lausan kjarasamning. Lögreglumenn, félagar okkar sem starfa í framlínunni nú sem endranær, hafa verið kjarasamningslausir í eitt ár og einn mánuð. Þetta er með öllu óásættanlegt og við krefjumst þess að þeir fái kjarasamning strax!
Yfirskrift dagsins í dag, „Byggjum réttlátt þjóðfélag,“ vísar til þess hvert við stefnum. Við krefjumst þess í þeirri brekku sem við stöndum nú í að við stöldrum við, endurmetum og endurskipuleggjum samfélagsgerðina.
Á meðan við erum enn stödd í auga stormsins er okkar mikilvægasta verkefni að verja afkomu fólks í fjölbreyttum aðstæðum hvers og eins. Við þurfum að grípa til markvissra aðgerða með jafnrétti að leiðarljósi. Það þarf að verja störfin, tryggja þarf að hópar í viðkvæmri stöðu geti sinnt sínum grunnþörfum, gæta að afkomu fólks á atvinnuleysisbótum og tryggja afkomu fólks sem getur ekki sinnt vinnu vegna undirliggjandi sjúkdóma og umönnunar barna vegna takmarkana á skólastarfi.
Leiðin upp á við krefst opinberra framlaga og fjárfestinga sem byggja á sanngirni. Skapa þarf störf og fjárfesta í menntun til að tryggja færni í störfum á breyttum vinnumarkaði. Þá þarf að skapa tækifæri með því að efla nýsköpun og rannsóknir. Það mun skapa störf á fjölbreyttum sviðum og leggja grunn að verðmætasköpun til framtíðar. Sókn í húsnæðismálum til að tryggja húsnæðisöryggi og grænar lausnir stuðla enn fremur að félagslegum stöðugleika. Samfélagslegar lausnir eru lykillinn að því að við komumst sem best út úr óvissuni en ekki lausnir sem byggjast á sérhagsmunum.
Hið ómögulega getur orðið mögulegt
Í dag, á baráttudegi verkalýðsins, fögnum við þeim sigrum sem launafólk hefur náð með sameiginlegri og oft á tíðum harðri baráttu fyrir bættum kjörum. Sigrarnir minna okkur á að hið ómögulega getur orðið mögulegt með ríkri samstöðu og þrautseigju að vopni. Nú sem aldrei fyrr þurfum við öll að standa þétt saman í baráttunni og byggja upp réttlátt þjóðfélag!
Kæru félagar, til hamingju með daginn!
Höfundur er formaður BSRB.