Sænska leiðin – helstefna eða eina vitið?

Ragnar Bjartur Guðmundsson skrifar um sænsku leiðina í baráttunni við COVID-19.

AuglýsingEf ein­hver þjóð á til­kall til að telj­ast for­ystu­þjóð Norð­ur­landa, þá eru það Sví­ar. Þeir eru fjöl­mennast­ir, eða rúmar 10 millj­ón­ir, á meðan danska, norska og finnska þjóðin telja á sjöttu milljón hver. Íslend­ing­ar, Græn­lend­ingar og Fær­ey­ingar reka svo lest­ina, en þeir eru um hálf milljón sam­an­lagt. Sví­þjóð er með öðrum orðum eina nor­ræna ríkið sem er mögu­lega hægt að skil­greina sem milli­stórt út frá fólks­fjölda á meðan hin myndu öll telj­ast til smá­ríkja.

Svíar hafa markað sína eigin leið í mörgum mál­um. Þeir eru stoltir af hlut­leysi sínu og héldu því til streitu í heims­styrj­öld­unum tveim. Þeir eru hreyknir af því að hafa ekki gripið til vopna í meira en 200 ár á sama tíma og ríkið er einn helsti vopna­fram­leið­andi heims miðað við höfða­tölu. Svíar gáfu okkur Astrid Lind­gren, en þeir bera líka ábyrgð á Dolph Lund­gren. Þeir færðu okkur ABBA, en líka Sten Carls­son & Salta Mandlar.ABBA náði meiri vinsældum utan landsteinana.

Þegar kemur að COVID-19 þá hafa Svíar jafn­framt fetað sína eigin braut. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til eru það ólíkar þeim sem gripið hefur verið til í nágranna­ríkj­unum að til þeirra er yfir­leitt sér­stak­lega vísað sem sænsku leið­ar­inn­ar.

Leiðin hefur vakið verð­skuld­aða athygli á tímum þegar efna­hags­leg áhrif far­ald­urs­ins bíta hart. Er hugs­an­legt að aðrar þjóðir hafi gengið alltof langt í að verj­ast veirunni? Það vilja margir stuðn­ings­menn sænsku leið­ar­innar meina á meðan aðrir telja að með henni sé bein­línis verið að fórna fólki.

En hver er eig­in­lega sænska leið­in? Og hvað greinir hana frá þeim leiðum sem önnur ríki hafa far­ið? Stuðn­ings­menn jafnt sem and­stæð­ingar eru að mestu leyti sam­mála um eft­ir­far­andi:

  1. Meg­in­mark­mið sænsku leið­ar­innar er að tryggja að heil­brigð­is­kerfið ráði við álagið fremur en að áherslan sé á að lág­marka smitin sem slík.
  2. Hún styðst við boð frekar en bönn – treystir á heil­brigða skyn­semi fólks í stað þess að beita þving­un­um.
  3. Stefnt er að því að verja við­kvæma hópa en að öðru leyti er reynt að valda sem minnstri röskun á dag­legu lífi fólks.

Deil­urnar um leið­ina snú­ast ann­ars vegar um það hvort að mark­miðin séu skyn­sam­leg og hins­vegar hvort að þau séu að nást með þess­ari leið. Byrjum á að skoða rökin fyrir því að Svíar séu að gera rétt.

Banda­lag ólíkra hópa

Sænska leiðin sækir fylgj­endur til þriggja ólíkra hópa. Í fyrsta lagi mælist stuðn­ingur við hana innan land­stein­anna hár. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart. Á stríðs­tímum þjappa þjóðir sér gjarnan saman og það þarf tölu­vert til að fólk snúi baki við hinni opin­beru stefnu. Það er þó sjaldn­ast þannig að allt sé gert rétt og rétt­mæt gagn­rýni fær þannig oft ekki braut­ar­gengi við svona aðstæð­ur.

Auglýsing
Anders Tegn­ell, smit­sjúk­dóma­fræð­ingur sænska rík­is­ins, hefur verið helsti málsvari sænsku leið­ar­inn­ar. Hann býr yfir langri reynslu og stýrði meðal ann­ars við­brögðum Svía við svínaflensu­far­aldr­inum 2009-2010. Það er til marks um vin­sældir hans að á annað hund­rað þús­und manns telj­ast til hópa á Face­book sem stofn­aðir hafa verið honum til stuðn­ings. Hann er þó ekki óum­deildur og það vakti athygli fyrr í þessum mán­uði þegar hópur sænskra vís­inda­manna setti fram óvenju harða gagn­rýni á hina opin­beru stefnu í einu af stærstu blöðum Sví­þjóðar.

Í öðru lagi nýtur stefnan stuðn­ings meðal bar­áttu­fólks fyrir borg­ara­legum rétt­ind­um. Ljóst er að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í mörgum ríkjum ganga tölu­vert á rétt­indi fólks. Inn­leið­ing tækni­lausna til að fylgja eftir ferðum fólks er meðal þess sem vakið hefur ugg hjá þeim sem hafa tekið sér stöðu gagn­vart vald­inu. Sam­komu­bann setur líka hefð­bundnum mót­mælum skorð­ur. Ýmsir ótt­ast síðan að vald­hafar nýti tæki­færið til styrkja stöðu sína, þegar lýð­ræð­is­legt aðhald er af skornum skammti. Í þessum hópi eru þó líka skiptar skoð­anir þar sem mörgum finnst frelsið dýru verði keypt með þeim fjölda sem lát­ist hefur síð­ustu vik­ur.

Í þriðja lagi hafa ein­hverjir hægri­menn hrif­ist af leið­inni, enda er ljóst að efna­hags­legi kostn­að­ur­inn af því að loka sam­fé­lögum vikum saman er gríð­ar­legur og eðli­legt að menn spyrji sig hvort hugs­an­lega sé hægt að ná þeim árangri sem stefnt er að með mild­ari aðgerð­um. Stuðn­ingur þeirra byggir þó ekki endi­lega á djúpri grein­ingu á þeirri leið sem farin hefur verið í Sví­þjóð, heldur er frekar um að ræða almennar efa­semdir og gagn­rýni á mið­stýr­ingu og beit­ingu rík­is­valds við þær óvenju­legu aðstæður sem nú ríkja

Ákveðnum árangri hefur verið náð

Þegar litið er til yfir­lýstra mark­miða stefn­unnar þá hafa Svíar að miklu leyti náð að upp­fylla það fyrsta. Að minnsta kosti eru enn tugir gjör­gæslu­rýma til reiðu. Gagn­rýnendur hafa reyndar bent á að þetta komi að hluta til af því að eldri sjúk­lingum standi úrræðin ein­fald­lega ekki til boða. Sænskt heil­brigð­is­starfs­fólk hefur hins­vegar ekki lent í því að þurfa að velja hver skuli lifa og hver deyja af inniliggj­andi sjúk­lingum í sama mæli og kollegar þeirra í norð­ur­hér­uðum Ítal­íu. 

Það er líka ljóst að til­mæli um að fólk skuli draga úr sam­gangi og gæta hrein­lætis hafa haft áhrif, sem dregur úr mögu­leikum veirunnar til að dreifa sér. Gögn um far­síma­notkun sýna fram á með óyggj­andi hætti að Svíar verja tölu­vert styttri tíma þessa dag­ana í almenn­ings­sam­göng­um, versl­unum og á vinnu­stöð­um, en þó ekki í sama mæli og nágranna­þjóð­irnar.

Hvar verja íbúar tíma sínum sam­kvæmt far­síma­gögn­um?

* Google Social Mobility Reports, gögnin ná yfir fimm vikna tímabil til 17. apríl. Upplýsingar eru ekki tiltækar fyrir Ísland.

Að lokum gripu Svíar að nokkru leyti til sömu ráð­staf­ana og Íslend­ing­ar, að banna heim­sóknir aðstand­enda á hjúkr­un­ar­heim­ili, í þeim til­gangi að vernda elsta ald­urs­hóp­inn. Það er helst þegar kemur að þessu atriði sem yfir­völd við­ur­kenna að það hafi ekki gengið eftir að öllu leyti – tölu­vert hefur verið um smit á hjúkr­un­ar­heim­il­um, sér­stak­lega í höf­uð­borg­inni.

Hvað með dauðs­föll­in?

Fjöldi dauðs­falla þegar Sví­þjóð er borið saman við nágranna­ríkin hefur orðið til­efni mik­illar umræðu. Stuðn­ings­menn sænsku leið­ar­innar hafa bent á ýmis­legt í því sam­bandi:

  • Ólíkt mörgum öðrum ríkjum þá fela sænsku töl­urnar í sér dauðs­föll utan sjúkra­húsa og eru hærri en ella.
  • Hafa verður í huga að Sví­þjóð er tölu­vert fjöl­menn­ara en nágranna­rík­in.
  • Auk þess er sam­setn­ing þjóð­ar­innar að ýmsu leyti óhentug þegar kemur að áhættu­hópum – þar er átt við óvenju hátt hlut­fall íbúa yfir átt­ræðu en einnig þann fjölda nýbúa sem hefur reynst erfitt að upp­fræða um sjúk­dóm­inn vegna tungu­mála­örð­ug­leika, en Svíar hafa gengið lengra en flestar aðrar þjóðir síð­ustu ár í að bjóða fólki hæli sem á undir högg að sækja.
  • Enn­fremur má benda á að í sam­an­burði við önnur með­al­stór ríki, þá kemur Sví­þjóð ekk­ert endi­lega illa út – bæði Belgía og Hol­land hafa misst tölu­vert fleiri úr sjúk­dómnum miðað við höfða­tölu.
  • Þá þurfa dauðs­föllin ekki að vera hærri en þeir sem lát­ast úr hefð­bund­inni flensu.

Að lokum kann meiri útbreiðsla sjúk­dóms­ins nú að verða Svíum til bless­unar ef önnur bylgja ríður yfir heim­inn strax í haust, með það í huga að ónæm­is­kerfi sýktra hafi þá myndað mótefni gegn veirunni. Þannig að þegar þjar­mað er að Svíum, segja þeir: „Spyrjum að leikslok­um!“.

Gagn­rýni á sænsku leið­ina

Stuðn­ings­menn sænsku leið­ar­innar gera sér grein fyrir því að það sjá hana samt ekki allir í sama ljóma. Gagn­rýn­ina megi þó rekja að miklu leyti til van­þekk­ingar á því hvað í henni felist og þeim sér­sænsku gildum sem liggi henni að baki. Í ein­hverjum til­vikum sé hún svo sprottin af öfund og jafn­vel ill­vilja.

Auglýsing
Þeir við­ur­kenna þó að það hafi ekki tek­ist nógu vel að vernda gamla fólkið en telja það ekki til marks um ranga stefnu, enda hafi smitin komið upp þrátt fyrir heim­sókn­ar­bann. Það sé því erfitt að færa rök fyrir því að harð­ari aðgerðir hefðu skilað ein­hverju.

Margir telja einmitt að deilan snú­ist ein­göngu um þetta, hvort mildar eða harðar aðgerðir séu væn­legri til árang­urs. En gall­inn við þá nálgun er að hún skautar yfir aðra þætti, svo sem það hlut­verk sem skimun getur spilað í bar­átt­unni gegn veirunni.

Gildi skimunar

Víð­tæk skimun hefur gegnt lyk­il­hlut­verki í bar­áttu Íslend­inga gegn veirunni. Með henni hefur reynst unnt að ein­angra smit­bera sem hafa sýnt væg ein­kenni eða verið án þeirra, og draga þannig úr útbreiðsl­unni. Óhætt er að segja að skimun hafi skipt miklu varð­andi þann árangur sem náðst hefur hér­lend­is, enda hefur henni verið fylgt eftir með mark­vissri rakn­ingu smita.

Það er þó ekki svo að þau ríki sem hafa prófað minna séu ekki með­vituð um gildi skimun­ar. Þau hafa ein­fald­lega for­gangs­raðað öðru­vísi. Svíar ákváðu að leggja áherslu að geta sinnt þeim vel sem sýndu alvar­leg ein­kenni, frekar en að nota tak­mark­aðar bjargir til víð­tækrar skimun­ar. Ein­göngu þeir sem eru lagðir inn eru próf­aðir og þá fyrst og fremst í því skyni að skilja þá að sem eru með veiruna frá öðrum sjúk­lingum og til stað­fest­ingar á því að smit­aðir séu lausir við hana. Þetta var meðal ann­ars rök­stutt með því að það væri ein­fald­lega ekki nógu mörgum sýna­tökupinnum til að dreifa og látið að því liggja að víð­tæk skimun væri ein­fald­lega ekki á færi fjöl­mennra þjóða, nokkuð sem er þó í mót­sögn við reynslu Þjóð­verja (83 millj­ón­ir) og Suð­ur­-Kóreu­manna (52 millj­ón­ir).

Ein af afleið­ingum tak­mark­aðrar skimunar er sú að starfs­menn sem sinna við­kvæmum hópum geta verið óaf­vit­andi að smita skjól­stæð­inga sína. Það hafði því minna gildi en ella þegar heim­sóknir aðstand­enda á hjúkr­un­ar­heim­ili var loks lagðar af í Sví­þjóð í upp­hafi mán­að­ar­ins (ein­stök hjúkr­un­ar­heim­ili og sveit­ar­fé­lög höfðu þá þegar riðið á vað­ið).

Það er með öðrum orðum eitt að tala um vernda við­kvæma hópa og annað að fylgja því eft­ir. Það eru þrjár smit­leiðir inn á hjúkr­un­ar­heim­ili – í gegnum aðstand­end­ur, starfs­fólk og birgja. Þegar Svíar lok­uðu þeirri fyrstu hafði veiran þegar náð nokk­urri útbreiðslu og þegar kemur að þeim seinni þá hafa þeir þurft að treysta á að þeir sem sýni ein­kenni haldi sig heima og að hinir ein­kenna­lausu gæti hrein­lætis og haldi fjar­lægð eins og kostur er.

Hverju hefðu harð­ari aðgerðir breytt?

Sú stað­hæf­ing að harð­ari aðgerðir hefðu litlu breytt í þessu sam­bandi er ein­fald­lega röng. Inni­lokun dregur stór­kost­lega úr mögu­leikum veirunnar á að dreifa sér, með því að minnka sam­gang fólks. En slíkar aðgerðir eru vissu­lega kostn­að­ar­sam­ar. Það er engum blöðum um það að fletta. Enda hefur útgöngu­bann í flestum til­vikum verið neyð­ar­ráð­stöf­un.

Bæði Norð­menn og Danir gripu til harðra aðgerða til­tölu­lega fljótt í ferl­inu, ólíkt til dæmis Ítölum og Spán­verj­um. Þar sem Norð­menn voru jafn­framt mjög dug­legir framan af að prófa fólk (kom­ast þó ekki í hálf­kvisti við okkur og Fær­ey­inga í þeim efn­um), þá má segja að þeir hafi verið þar bæði með belti og axla­bönd, enda hafa tölu­vert færri lát­ist af völdum veirunnar þar borið saman við bæði Svía og Dani. Það er þó helst að rígur sé á milli Dana og Svía í þessu sam­bandi.

Sam­an­burður við Dan­mörku

En hvað hefur áunn­ist í Dan­mörku með þeim hörðu aðgerðum sem gripið hefur verið til, borið saman við nágrann­ana hinum megin við Eyr­ar­sund­ið? Danir hafa tekið rúm­lega þrjú sýni fyrir hver tvö sem tekin hafa verið í Sví­þjóð, þrátt fyrir að vera nán­ast helm­ingi færri. Átta sinnum fleiri Svíar liggja á sjúkra­húsi vegna COVID-19 og einnig á gjör­gæslu. Sem hlut­fall af íbúa­fjölda eru dauðs­föll í Sví­þjóð um þrisvar sinnum það sem þau eru í Dan­mörku.

Lyk­il­tölur fyrir COVID-19 á Norð­ur­löndum

* Heimild: Vefgreining.com/nordurlond. Svíar uppfæra sýnatökutölfræði sína vikulega. Nýjustu tölur fyrir sýnatöku hjá þeim eru frá 28. apríl.

En skýrist þetta ekki að ein­hverju leyti af hærra hlut­falli eldri borg­ara í sænsku töl­un­um? Ekki jafn mikið og ætla mætti. Ef ein­göngu er horft á þá sem hafa lát­ist undir 80 ára aldri er mun­ur­inn nálægt því að vera þre­faldur á Sví­þjóð og Dan­mörku og það mik­ill að sænska hlut­fallið fyrir fólk undir átt­ræðu er hærra en þegar eldra fólk er talið með í Dan­mörku.

Hlut­fall lát­inna af fólks­fjölda í Sví­þjóð, Dan­mörku og Íslandi

* Uppfært 30. apríl, 2020. Fólksfjöldi og skipting dauðsfalla út frá opinberum gögnum viðkomandi ríkja.

Sam­an­burður við önnur ríki

Það er ekki að ástæðu­lausu að Svíar kjósa frekar að bera tölur sínar saman við þjóðir á borð við Belga. Líkt og Sví­þjóð má telja Belgíu milli­stórt ríki. Belgar skrá einnig sam­visku­sam­lega dauðs­föll á hjúkr­un­ar­heim­ilum en líkt og í Sví­þjóð eru þau stór hluti af heild­ar­dauðs­föll­um, eða tæpur helm­ing­ur. Í Belgíu hafa hátt í átta þús­und látið lífið vegna COVID-19, sem er nálægt því að vera þre­föld sænsku and­látin og fleiri en lát­ist hafa í Þýska­landi með sínar 83 millj­ónir íbúa.

En Belgía er hins­vegar það ríki sem hefur farið hvað verst út úr far­aldr­in­um. Hvernig kemur Sví­þjóð út í sam­an­burði við önnur Evr­ópu­ríki með svip­aðan íbúa­fjölda? Ef við miðum við ríki sem eru með allt að 2 millj­ónum fleiri eða færri íbúa, þá eru þau öll utan Belgíu með færri and­lát á hverja milljón íbúa en Sví­þjóð.

And­lát vegna COVID-19 á hverja milljón íbúa í Evr­ópu­ríkjum með +/-2 millj­ónir íbúa miðað við Sví­þjóð

* Uppfært 30. apríl, 2020. Fólksfjöldi miðast við gögn Worldometers.

And­lát á Norð­ur­löndum vegna COVID-19 á hverja milljón íbúa

* Uppfært 30. apríl, 2020. Fólksfjöldi miðast við gögn Worldometers.

Stað­reyndin er nefni­lega sú að dán­ar­tíðni vegna COVID-19 í Sví­þjóð er mun hærri en hjá frænd­þjóð­unum á Norð­ur­löndum og að velja þarf verstu dæmin í Evr­ópu til að ríkið líti ekki of illa út. Það er hins­vegar vissu­lega rétt að staðan er enn verri í ein­staka ríkj­um. Svíar ættu þó ekki að þurfa að bera sig saman við verstu rík­in. Það er þeim ekki sæm­andi.

COVID-19 og inflú­ensa

Það er sjálf­sagt að bera COVID-19 saman við aðra sjúk­dóma, svo lengi sem það er gert með skyn­sam­legum hætti. Talið er að allt að 650 þús­und hafi lát­ist úr inflú­ensu í heim­inum yfir allt síð­asta ár. Það er hins­vegar fátítt að yngra fólk lát­ist úr flensu, auk þess sem hægt er að bólu­setja sig fyrir henni. Heil­brigð­is­kerfi heims­ins eru vel í stakk búin að mæta henni og hún leggur ekki sam­fé­lagið á hlið­ina, þótt fyr­ir­tæki sjá aukn­ingu í veik­inda­dögum á vissum árs­tíma.

Síð­asti heims­far­aldur var H1N1 inflú­ensa sem reið yfir heim­inn á árunum 2009-2010. Talið er að um 300 þús­und manns hafi lát­ist af völdum þess­arar flensu, sem er betur þekkt sem svínaflens­an. Það eru hins­vegar ekki liðnir tveir mán­uðir síðan að COVID-19 var skil­greind sem heims­far­aldur og á þeim tíma hafa fleiri en 200 þús­und lát­ist. COVID-19 hefur vaxið meira en tvö­falt hraðar en svínaflensan á þeim tíma sem er lið­inn frá að hann greind­ist, með tölu­vert hærri dán­ar­tíðni.

Hjarð­ó­næmi

Þjóðir heims eru síðan skilj­an­lega orðnar óþreyju­fullar að taka aftur upp hefð­bundna lifn­að­ar­hætti, sér­stak­lega í þeim ríkjum sem gengið hafa hvað lengst í því að loka sam­fé­lag­inu. Von hefur kviknað í brjósti sumra að hægt verði að frelsa fólk úr ástand­inu á grund­velli mótefna­mæl­inga og að útbreiðslan sé jafn­vel orðin slík að hægt sé að tala um hjarð­ó­næmi sé handan við horn­ið.

Auglýsing
Hjarðónæmi er þekkt hug­tak úr far­ald­urs­fræði. Hins­vegar hefur verið bent á að sú hug­mynd að hægt sé að aðskilja ungt og frískt fólk – þar sem dán­ar­tíðnin af COVID-19 er lægri – frá öðrum hlutum sam­fé­lags­ins og byggja upp hjarð­ó­næmi sam­hliða því sé ótrú­verðug. Útbreidd smit á hjúkr­un­ar­heim­ilum styðja það.

Auk þess sá Alþjóða­heil­brigð­is­mála­stofn­unin sig nýverið knúna til að lýsa því yfir að nákvæm­lega engar vís­inda­legar sann­anir séu fyrir því að fólk myndi ónæmi gagn­vart veirunni, þar sé meira um ósk­hyggju að ræða.

Hver er þá nið­ur­stað­an?

Ljóst er að Svíar eru upp á kant við Alþjóða­heil­brigð­is­mála­stofn­un­ina varð­andi við­brögð sín við far­aldr­inum. Vís­indin eru með öðrum orðum ekki á sveif með Svíum í þetta skiptið og það er staða sem þeir eru óvanir að vera í.

Þeir gætu auð­vitað vel haft ákveð­inn efna­hags­legan ábata af þeirri leið sem hefur verið far­in. Þar hefur ekki verið neitt útgöngu­bann líkt og í sumum öðrum ríkj­um. Veit­inga­stöð­um, krám, lík­ams­rækt­ar-­stöðvum og grunn­skólum hefur verið haldið opn­um, þrátt fyrir til­mæli Alþjóða­heil­brigð­is­mála-­stofn­un­ar­inn­ar. Það er reyndar hugs­an­legt að þeir hafi hitt naglann á höf­uðið varð­andi grunn­skól­ana. Vís­bend­ingar eru um að börn séu ekki miklir smit­ber­ar, en Íslend­ingar fylgdu einmitt for­dæmi Svía þar. Hins­vegar hefur efna­hags­legi ábat­inn verið dýru verði keyptur í Sví­þjóð. Dauðs­föll eru marg­föld á við það sem ger­ist í nágranna­ríkj­un­um, jafn­vel þegar elsti ald­urs­hóp­ur­inn er fjar­lægður úr jöfn­unni.

Hefðu Svíar gert skimun hærra undir höfði, rakið og ein­angrað smit, þá væri staðan mögu­lega önn­ur. Það var hins­vegar með­vituð ákvörðun að fara ekki þá leið. Á meðan Tegn­ell talar hróð­ugur um að Stokk­hólmur nái hugs­an­lega hjarð­ó­næmi í næsta mán­uði þá neitar sænska rík­is­stjórnin því að sú sé stefnan. Far­ald­ur­inn er í rénum í Sví­þjóð í þeim skiln­ingi að sjúkra­húsinn­lagnir virð­ast hafa náð ákveðnu hámarki. En sama gildir um löndin í kring og þau eru þegar farin að und­ir­búa opn­un. Ef þau ná því án þess að það komi bakslag gæti fórn Svía verið til einskis.

Staðan gæti þó vissu­lega verið enn verri. Það er þó rétt að spyrja sig að hve miklu leyti megi þakka það aðgerðum stjórn­valda. Árangur hefur þannig hugs­an­lega náðst þrátt fyrir þær, frekar en vegna þeirra, enda hefur sænskur almenn­ingur lagt sitt af mörkum til að lág­marka skað­ann.

Fylgj­ast má dag­lega með þró­un­inni á Norð­ur­löndum í stjórn­borði sem ég held úti hér.

Höf­undur er MBA.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir er ritstjóri Stundarinnar, en Jón Trausti Reynisson er framkvæmdastjóri útgáfufélagsins auk þess að vera blaðamaður á miðlinum.
Útgáfufélag Stundarinnar tapaði rúmlega milljón krónum á síðasta ári
Tekjur útgáfufélags Stundarinnar námu 233,9 milljónum króna á síðasta ári og jukust þær um fjögur prósent á milli ára. Tapið af rekstrinum nam 1,2 milljónum króna í fyrra, samanborið við rúmlega sjö milljóna hagnað árið 2020.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er utanríkisráðherra.
Inga Hrefna nýr aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar
Utanríkisráðherra er nú komin með tvo aðstoðarmenn. Alls má ríkisstjórnin ráða 27 aðstoðarmenn. Laun og starfs­­kjör aðstoð­­ar­­manna ráð­herra mið­­ast við kjör skrif­­stofu­­stjóra í ráðu­­neytum sam­­kvæmt ákvörð­unum kjara­ráðs.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Jón Gunnarsson er dómsmálaráðherra.
Leggur til að sameina héraðsdómstóla landsins í eina stofnun
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra er með áform um að sameina þá átta héraðsdómstóla sem eru í landinu í eina stofnun. Forsenda sameiningarinnar er að sameinaður dómstóll hafi starfsstöðvar á landsbyggðinni.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Kolafarmi frá Suður-Afríku skipað upp í pólskri höfn í sumar.
Pólverjum er vandi á höndum
Stærsti framleiðandi kola í Evrópu utan Rússlands er í vanda staddur eftir að hafa bannað innflutning á rússneskum kolum vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. virðir hér fyrir sér dauðan hval í Hvalfirði í júlímánuði.
Lögregla væntir þess að Hvalur hf. skili dróna svissneska ríkisútvarpsins í dag
Teymi frá svissneska ríkisfjölmiðlafyrirtækinu SRG SSR flaug dróna yfir hvalstöð Hvals hf. fyrr í vikunni. Starfsmenn Hvals hf. hirtu af þeim drónann og lögreglan á Akranesi hefur krafið fyrirtækið um að skila dróna Svisslendinganna.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins átti 1,5 milljónir eftir í kosningasjóði sínum þegar prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni var um garð gengið. Það fé ætlar hún að færa félagi sem hún sjálf stjórnar, en það heitir Frelsisborgin.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Skúli Mogensen hefur byggt upp mikla ferðaþjónustu í Hvammsvík i Hvalfirði.
Áformin einkennist af „einhvers konar firringu“
Zephyr Iceland, sem áformar vindorkuver í Hvalfirði, „forðast að snerta á kjarna málsins“ í matsáætlun á framkvæmdinni. Kjarninn er sá að mati Skúla Mogensen, eiganda sjóbaðanna í Hvammsvík, að áformin einkennast af „einhvers konar firringu“.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Vatnsyfirborð Rínarfljóts hefur lækkað stöðugt síðustu vikur.
Hættuástand að skapast í Rínarfljóti – Munu skipin geta siglt?
Vatnsyfirborð Rínarfljóts gæti á næstu dögum orðið hættulega lágt að mati þýskra yfirvalda. Sífellt erfiðara er að flytja vörur um ána, m.a. kol og bensín. Gríðarmiklir þurrkar hafa geisað víða í Evrópu með margvíslegum afleiðingum.
Kjarninn 11. ágúst 2022
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar