Ef einhver þjóð á tilkall til að teljast forystuþjóð Norðurlanda, þá eru það Svíar. Þeir eru fjölmennastir, eða rúmar 10 milljónir, á meðan danska, norska og finnska þjóðin telja á sjöttu milljón hver. Íslendingar, Grænlendingar og Færeyingar reka svo lestina, en þeir eru um hálf milljón samanlagt. Svíþjóð er með öðrum orðum eina norræna ríkið sem er mögulega hægt að skilgreina sem millistórt út frá fólksfjölda á meðan hin myndu öll teljast til smáríkja.
Svíar hafa markað sína eigin leið í mörgum málum. Þeir eru stoltir af hlutleysi sínu og héldu því til streitu í heimsstyrjöldunum tveim. Þeir eru hreyknir af því að hafa ekki gripið til vopna í meira en 200 ár á sama tíma og ríkið er einn helsti vopnaframleiðandi heims miðað við höfðatölu. Svíar gáfu okkur Astrid Lindgren, en þeir bera líka ábyrgð á Dolph Lundgren. Þeir færðu okkur ABBA, en líka Sten Carlsson & Salta Mandlar.
Þegar kemur að COVID-19 þá hafa Svíar jafnframt fetað sína eigin braut. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til eru það ólíkar þeim sem gripið hefur verið til í nágrannaríkjunum að til þeirra er yfirleitt sérstaklega vísað sem sænsku leiðarinnar.
Leiðin hefur vakið verðskuldaða athygli á tímum þegar efnahagsleg áhrif faraldursins bíta hart. Er hugsanlegt að aðrar þjóðir hafi gengið alltof langt í að verjast veirunni? Það vilja margir stuðningsmenn sænsku leiðarinnar meina á meðan aðrir telja að með henni sé beinlínis verið að fórna fólki.
En hver er eiginlega sænska leiðin? Og hvað greinir hana frá þeim leiðum sem önnur ríki hafa farið? Stuðningsmenn jafnt sem andstæðingar eru að mestu leyti sammála um eftirfarandi:
- Meginmarkmið sænsku leiðarinnar er að tryggja að heilbrigðiskerfið ráði við álagið fremur en að áherslan sé á að lágmarka smitin sem slík.
- Hún styðst við boð frekar en bönn – treystir á heilbrigða skynsemi fólks í stað þess að beita þvingunum.
- Stefnt er að því að verja viðkvæma hópa en að öðru leyti er reynt að valda sem minnstri röskun á daglegu lífi fólks.
Deilurnar um leiðina snúast annars vegar um það hvort að markmiðin séu skynsamleg og hinsvegar hvort að þau séu að nást með þessari leið. Byrjum á að skoða rökin fyrir því að Svíar séu að gera rétt.
Bandalag ólíkra hópa
Sænska leiðin sækir fylgjendur til þriggja ólíkra hópa. Í fyrsta lagi mælist stuðningur við hana innan landsteinanna hár. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart. Á stríðstímum þjappa þjóðir sér gjarnan saman og það þarf töluvert til að fólk snúi baki við hinni opinberu stefnu. Það er þó sjaldnast þannig að allt sé gert rétt og réttmæt gagnrýni fær þannig oft ekki brautargengi við svona aðstæður.
Í öðru lagi nýtur stefnan stuðnings meðal baráttufólks fyrir borgaralegum réttindum. Ljóst er að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í mörgum ríkjum ganga töluvert á réttindi fólks. Innleiðing tæknilausna til að fylgja eftir ferðum fólks er meðal þess sem vakið hefur ugg hjá þeim sem hafa tekið sér stöðu gagnvart valdinu. Samkomubann setur líka hefðbundnum mótmælum skorður. Ýmsir óttast síðan að valdhafar nýti tækifærið til styrkja stöðu sína, þegar lýðræðislegt aðhald er af skornum skammti. Í þessum hópi eru þó líka skiptar skoðanir þar sem mörgum finnst frelsið dýru verði keypt með þeim fjölda sem látist hefur síðustu vikur.
Í þriðja lagi hafa einhverjir hægrimenn hrifist af leiðinni, enda er ljóst að efnahagslegi kostnaðurinn af því að loka samfélögum vikum saman er gríðarlegur og eðlilegt að menn spyrji sig hvort hugsanlega sé hægt að ná þeim árangri sem stefnt er að með mildari aðgerðum. Stuðningur þeirra byggir þó ekki endilega á djúpri greiningu á þeirri leið sem farin hefur verið í Svíþjóð, heldur er frekar um að ræða almennar efasemdir og gagnrýni á miðstýringu og beitingu ríkisvalds við þær óvenjulegu aðstæður sem nú ríkja.
Ákveðnum árangri hefur verið náð
Þegar litið er til yfirlýstra markmiða stefnunnar þá hafa Svíar að miklu leyti náð að uppfylla það fyrsta. Að minnsta kosti eru enn tugir gjörgæslurýma til reiðu. Gagnrýnendur hafa reyndar bent á að þetta komi að hluta til af því að eldri sjúklingum standi úrræðin einfaldlega ekki til boða. Sænskt heilbrigðisstarfsfólk hefur hinsvegar ekki lent í því að þurfa að velja hver skuli lifa og hver deyja af inniliggjandi sjúklingum í sama mæli og kollegar þeirra í norðurhéruðum Ítalíu.
Það er líka ljóst að tilmæli um að fólk skuli draga úr samgangi og gæta hreinlætis hafa haft áhrif, sem dregur úr möguleikum veirunnar til að dreifa sér. Gögn um farsímanotkun sýna fram á með óyggjandi hætti að Svíar verja töluvert styttri tíma þessa dagana í almenningssamgöngum, verslunum og á vinnustöðum, en þó ekki í sama mæli og nágrannaþjóðirnar.
Hvar verja íbúar tíma sínum samkvæmt farsímagögnum?
Að lokum gripu Svíar að nokkru leyti til sömu ráðstafana og Íslendingar, að banna heimsóknir aðstandenda á hjúkrunarheimili, í þeim tilgangi að vernda elsta aldurshópinn. Það er helst þegar kemur að þessu atriði sem yfirvöld viðurkenna að það hafi ekki gengið eftir að öllu leyti – töluvert hefur verið um smit á hjúkrunarheimilum, sérstaklega í höfuðborginni.
Hvað með dauðsföllin?
Fjöldi dauðsfalla þegar Svíþjóð er borið saman við nágrannaríkin hefur orðið tilefni mikillar umræðu. Stuðningsmenn sænsku leiðarinnar hafa bent á ýmislegt í því sambandi:
- Ólíkt mörgum öðrum ríkjum þá fela sænsku tölurnar í sér dauðsföll utan sjúkrahúsa og eru hærri en ella.
- Hafa verður í huga að Svíþjóð er töluvert fjölmennara en nágrannaríkin.
- Auk þess er samsetning þjóðarinnar að ýmsu leyti óhentug þegar kemur að áhættuhópum – þar er átt við óvenju hátt hlutfall íbúa yfir áttræðu en einnig þann fjölda nýbúa sem hefur reynst erfitt að uppfræða um sjúkdóminn vegna tungumálaörðugleika, en Svíar hafa gengið lengra en flestar aðrar þjóðir síðustu ár í að bjóða fólki hæli sem á undir högg að sækja.
- Ennfremur má benda á að í samanburði við önnur meðalstór ríki, þá kemur Svíþjóð ekkert endilega illa út – bæði Belgía og Holland hafa misst töluvert fleiri úr sjúkdómnum miðað við höfðatölu.
- Þá þurfa dauðsföllin ekki að vera hærri en þeir sem látast úr hefðbundinni flensu.
Að lokum kann meiri útbreiðsla sjúkdómsins nú að verða Svíum til blessunar ef önnur bylgja ríður yfir heiminn strax í haust, með það í huga að ónæmiskerfi sýktra hafi þá myndað mótefni gegn veirunni. Þannig að þegar þjarmað er að Svíum, segja þeir: „Spyrjum að leikslokum!“.
Gagnrýni á sænsku leiðina
Stuðningsmenn sænsku leiðarinnar gera sér grein fyrir því að það sjá hana samt ekki allir í sama ljóma. Gagnrýnina megi þó rekja að miklu leyti til vanþekkingar á því hvað í henni felist og þeim sérsænsku gildum sem liggi henni að baki. Í einhverjum tilvikum sé hún svo sprottin af öfund og jafnvel illvilja.
Margir telja einmitt að deilan snúist eingöngu um þetta, hvort mildar eða harðar aðgerðir séu vænlegri til árangurs. En gallinn við þá nálgun er að hún skautar yfir aðra þætti, svo sem það hlutverk sem skimun getur spilað í baráttunni gegn veirunni.
Gildi skimunar
Víðtæk skimun hefur gegnt lykilhlutverki í baráttu Íslendinga gegn veirunni. Með henni hefur reynst unnt að einangra smitbera sem hafa sýnt væg einkenni eða verið án þeirra, og draga þannig úr útbreiðslunni. Óhætt er að segja að skimun hafi skipt miklu varðandi þann árangur sem náðst hefur hérlendis, enda hefur henni verið fylgt eftir með markvissri rakningu smita.
Það er þó ekki svo að þau ríki sem hafa prófað minna séu ekki meðvituð um gildi skimunar. Þau hafa einfaldlega forgangsraðað öðruvísi. Svíar ákváðu að leggja áherslu að geta sinnt þeim vel sem sýndu alvarleg einkenni, frekar en að nota takmarkaðar bjargir til víðtækrar skimunar. Eingöngu þeir sem eru lagðir inn eru prófaðir og þá fyrst og fremst í því skyni að skilja þá að sem eru með veiruna frá öðrum sjúklingum og til staðfestingar á því að smitaðir séu lausir við hana. Þetta var meðal annars rökstutt með því að það væri einfaldlega ekki nógu mörgum sýnatökupinnum til að dreifa og látið að því liggja að víðtæk skimun væri einfaldlega ekki á færi fjölmennra þjóða, nokkuð sem er þó í mótsögn við reynslu Þjóðverja (83 milljónir) og Suður-Kóreumanna (52 milljónir).
Ein af afleiðingum takmarkaðrar skimunar er sú að starfsmenn sem sinna viðkvæmum hópum geta verið óafvitandi að smita skjólstæðinga sína. Það hafði því minna gildi en ella þegar heimsóknir aðstandenda á hjúkrunarheimili var loks lagðar af í Svíþjóð í upphafi mánaðarins (einstök hjúkrunarheimili og sveitarfélög höfðu þá þegar riðið á vaðið).
Það er með öðrum orðum eitt að tala um vernda viðkvæma hópa og annað að fylgja því eftir. Það eru þrjár smitleiðir inn á hjúkrunarheimili – í gegnum aðstandendur, starfsfólk og birgja. Þegar Svíar lokuðu þeirri fyrstu hafði veiran þegar náð nokkurri útbreiðslu og þegar kemur að þeim seinni þá hafa þeir þurft að treysta á að þeir sem sýni einkenni haldi sig heima og að hinir einkennalausu gæti hreinlætis og haldi fjarlægð eins og kostur er.
Hverju hefðu harðari aðgerðir breytt?
Sú staðhæfing að harðari aðgerðir hefðu litlu breytt í þessu sambandi er einfaldlega röng. Innilokun dregur stórkostlega úr möguleikum veirunnar á að dreifa sér, með því að minnka samgang fólks. En slíkar aðgerðir eru vissulega kostnaðarsamar. Það er engum blöðum um það að fletta. Enda hefur útgöngubann í flestum tilvikum verið neyðarráðstöfun.
Bæði Norðmenn og Danir gripu til harðra aðgerða tiltölulega fljótt í ferlinu, ólíkt til dæmis Ítölum og Spánverjum. Þar sem Norðmenn voru jafnframt mjög duglegir framan af að prófa fólk (komast þó ekki í hálfkvisti við okkur og Færeyinga í þeim efnum), þá má segja að þeir hafi verið þar bæði með belti og axlabönd, enda hafa töluvert færri látist af völdum veirunnar þar borið saman við bæði Svía og Dani. Það er þó helst að rígur sé á milli Dana og Svía í þessu sambandi.
Samanburður við Danmörku
En hvað hefur áunnist í Danmörku með þeim hörðu aðgerðum sem gripið hefur verið til, borið saman við nágrannana hinum megin við Eyrarsundið? Danir hafa tekið rúmlega þrjú sýni fyrir hver tvö sem tekin hafa verið í Svíþjóð, þrátt fyrir að vera nánast helmingi færri. Átta sinnum fleiri Svíar liggja á sjúkrahúsi vegna COVID-19 og einnig á gjörgæslu. Sem hlutfall af íbúafjölda eru dauðsföll í Svíþjóð um þrisvar sinnum það sem þau eru í Danmörku.
Lykiltölur fyrir COVID-19 á Norðurlöndum
En skýrist þetta ekki að einhverju leyti af hærra hlutfalli eldri borgara í sænsku tölunum? Ekki jafn mikið og ætla mætti. Ef eingöngu er horft á þá sem hafa látist undir 80 ára aldri er munurinn nálægt því að vera þrefaldur á Svíþjóð og Danmörku og það mikill að sænska hlutfallið fyrir fólk undir áttræðu er hærra en þegar eldra fólk er talið með í Danmörku.
Hlutfall látinna af fólksfjölda í Svíþjóð, Danmörku og Íslandi
Samanburður við önnur ríki
Það er ekki að ástæðulausu að Svíar kjósa frekar að bera tölur sínar saman við þjóðir á borð við Belga. Líkt og Svíþjóð má telja Belgíu millistórt ríki. Belgar skrá einnig samviskusamlega dauðsföll á hjúkrunarheimilum en líkt og í Svíþjóð eru þau stór hluti af heildardauðsföllum, eða tæpur helmingur. Í Belgíu hafa hátt í átta þúsund látið lífið vegna COVID-19, sem er nálægt því að vera þreföld sænsku andlátin og fleiri en látist hafa í Þýskalandi með sínar 83 milljónir íbúa.
En Belgía er hinsvegar það ríki sem hefur farið hvað verst út úr faraldrinum. Hvernig kemur Svíþjóð út í samanburði við önnur Evrópuríki með svipaðan íbúafjölda? Ef við miðum við ríki sem eru með allt að 2 milljónum fleiri eða færri íbúa, þá eru þau öll utan Belgíu með færri andlát á hverja milljón íbúa en Svíþjóð.
Andlát vegna COVID-19 á hverja milljón íbúa í Evrópuríkjum með +/-2 milljónir íbúa miðað við Svíþjóð
Andlát á Norðurlöndum vegna COVID-19 á hverja milljón íbúa
Staðreyndin er nefnilega sú að dánartíðni vegna COVID-19 í Svíþjóð er mun hærri en hjá frændþjóðunum á Norðurlöndum og að velja þarf verstu dæmin í Evrópu til að ríkið líti ekki of illa út. Það er hinsvegar vissulega rétt að staðan er enn verri í einstaka ríkjum. Svíar ættu þó ekki að þurfa að bera sig saman við verstu ríkin. Það er þeim ekki sæmandi.
COVID-19 og inflúensa
Það er sjálfsagt að bera COVID-19 saman við aðra sjúkdóma, svo lengi sem það er gert með skynsamlegum hætti. Talið er að allt að 650 þúsund hafi látist úr inflúensu í heiminum yfir allt síðasta ár. Það er hinsvegar fátítt að yngra fólk látist úr flensu, auk þess sem hægt er að bólusetja sig fyrir henni. Heilbrigðiskerfi heimsins eru vel í stakk búin að mæta henni og hún leggur ekki samfélagið á hliðina, þótt fyrirtæki sjá aukningu í veikindadögum á vissum árstíma.
Síðasti heimsfaraldur var H1N1 inflúensa sem reið yfir heiminn á árunum 2009-2010. Talið er að um 300 þúsund manns hafi látist af völdum þessarar flensu, sem er betur þekkt sem svínaflensan. Það eru hinsvegar ekki liðnir tveir mánuðir síðan að COVID-19 var skilgreind sem heimsfaraldur og á þeim tíma hafa fleiri en 200 þúsund látist. COVID-19 hefur vaxið meira en tvöfalt hraðar en svínaflensan á þeim tíma sem er liðinn frá að hann greindist, með töluvert hærri dánartíðni.
Hjarðónæmi
Þjóðir heims eru síðan skiljanlega orðnar óþreyjufullar að taka aftur upp hefðbundna lifnaðarhætti, sérstaklega í þeim ríkjum sem gengið hafa hvað lengst í því að loka samfélaginu. Von hefur kviknað í brjósti sumra að hægt verði að frelsa fólk úr ástandinu á grundvelli mótefnamælinga og að útbreiðslan sé jafnvel orðin slík að hægt sé að tala um hjarðónæmi sé handan við hornið.
Auk þess sá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sig nýverið knúna til að lýsa því yfir að nákvæmlega engar vísindalegar sannanir séu fyrir því að fólk myndi ónæmi gagnvart veirunni, þar sé meira um óskhyggju að ræða.
Hver er þá niðurstaðan?
Ljóst er að Svíar eru upp á kant við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina varðandi viðbrögð sín við faraldrinum. Vísindin eru með öðrum orðum ekki á sveif með Svíum í þetta skiptið og það er staða sem þeir eru óvanir að vera í.
Þeir gætu auðvitað vel haft ákveðinn efnahagslegan ábata af þeirri leið sem hefur verið farin. Þar hefur ekki verið neitt útgöngubann líkt og í sumum öðrum ríkjum. Veitingastöðum, krám, líkamsræktar-stöðvum og grunnskólum hefur verið haldið opnum, þrátt fyrir tilmæli Alþjóðaheilbrigðismála-stofnunarinnar. Það er reyndar hugsanlegt að þeir hafi hitt naglann á höfuðið varðandi grunnskólana. Vísbendingar eru um að börn séu ekki miklir smitberar, en Íslendingar fylgdu einmitt fordæmi Svía þar. Hinsvegar hefur efnahagslegi ábatinn verið dýru verði keyptur í Svíþjóð. Dauðsföll eru margföld á við það sem gerist í nágrannaríkjunum, jafnvel þegar elsti aldurshópurinn er fjarlægður úr jöfnunni.
Hefðu Svíar gert skimun hærra undir höfði, rakið og einangrað smit, þá væri staðan mögulega önnur. Það var hinsvegar meðvituð ákvörðun að fara ekki þá leið. Á meðan Tegnell talar hróðugur um að Stokkhólmur nái hugsanlega hjarðónæmi í næsta mánuði þá neitar sænska ríkisstjórnin því að sú sé stefnan. Faraldurinn er í rénum í Svíþjóð í þeim skilningi að sjúkrahúsinnlagnir virðast hafa náð ákveðnu hámarki. En sama gildir um löndin í kring og þau eru þegar farin að undirbúa opnun. Ef þau ná því án þess að það komi bakslag gæti fórn Svía verið til einskis.
Staðan gæti þó vissulega verið enn verri. Það er þó rétt að spyrja sig að hve miklu leyti megi þakka það aðgerðum stjórnvalda. Árangur hefur þannig hugsanlega náðst þrátt fyrir þær, frekar en vegna þeirra, enda hefur sænskur almenningur lagt sitt af mörkum til að lágmarka skaðann.
Fylgjast má daglega með þróuninni á Norðurlöndum í stjórnborði sem ég held úti hér.
Höfundur er MBA.