Núna blasir við okkur heimsfaraldur sem hefur lamað hagkerfi heimsins og skert lífsgæði fólks verulega. Nú þegar fólk er farið að sjá ljós við endann á dimmum göngum faraldursins, og vonast til að það sé ekki svo langt í burtu, þá er farið að renna upp fyrir okkur að við gætum verið að ganga inn í stærstu heimskreppu sem við höfum nokkurn tímann séð. Á þessum tímum lítum við til ríkisins til að bjarga hagkerfinu eins og það þarf vanalega að gera þegar markaðir hrynja.
Það sem ég tek eftir í þessu ástandi er að fólk situr á höndum sér og gerir lítið til að hjálpa hvert öðru. Það virðist engu og engum vera bjargað nema ríkið geri það. Samtök atvinnurekenda og verkalýðsins hafa komið sínum áhyggjuefnum til ríkisins, sem er eðlilegt, en engar lausnir koma beint frá atvinnurekendum né verkafólki. Nú höfum við orðið vör við mikinn ágreining innan ASÍ um hvort verkafólk eigi að gefa eitthvað eftir til að halda hagkerfinu á floti og þar með lífskjörum fólks. Sumir vildu finna leiðir til að fórna litlu til að bjarga miklu, sem er skynsöm hugsun. Meirihlutinn vildi hinsvegar ekki gera neitt því vinnandi fólk ætti ekki að þurfa að fórna neinu til að bjarga fyrirtækjum atvinnurekenda, sem hinsvegar er skiljanlegt. En er eitthvað sem hægt er að gera?
Í skynsömum heimi mundi verkafólk sjá að ekki sé hægt að reka vinnustaðina með núverandi fyrirkomulagi. Það mundi sjá, að til þess að bjarga heildinni þyrftu það allt að fórna sínum launum og kjörum til þess að sjá til þess að engum þyrfti að henda út á götuna, atvinnulausum, heimilislausum og hvað annað. Þetta er einmitt það sem var gert innan fjölda starfsmanna-samvinnufélaga úti í heimi í seinustu kreppu. Starfsfólk ákvað lýðræðislega að það vildi frekar skerða sín kjör, heldur en þurfa að fórna vinum og samstarfsmönnum á altari hagkerfisins til að bjarga sjálfu sér. Þetta fólk sagði að þó það hafi verið erfitt að lifa á skertum kjörum þá hefði það verið verra að þurfa að hafa það á samviskunni að lífi fárra hafi verið fórnað til þess að halda þeirra kjörum uppi. Að fólk þyrfti að missa vinnuna, ekki geta borgað lán eða náð endum saman, missa heimili sín og mögulega aldrei ná að vinna upp það sem það tapaði. Þarna var fólk virkilega á sama báti og hegðaði sér þannig.
En mikilvægi munurinn á þeim og okkur er sá að þetta voru, eins og áður sagði, starfsmanna-samvinnufélög. En það eru félög sem eru algjörlega í eigu starfsmannanna sem þar vinna og lýðræðislega rekin.
Það er því ljóst að hið nauðsynlega traust getur ekki lifað milli þeirra og því mun öll von um skynsama samvinnu þeirra alltaf bregðast. Vinnandi fólk lætur ekki blekkja sig til að bjarga skipinu á meðan atvinnurekendur sigla burt í eina björgunarbátnum. Vinnandi fólk treystir ekki atvinnurekendum til að endurgjalda þetta þegar betur gengur. Það treystir því ekki að atvinnurekendur mundu fórna sínum kjörum til að bjarga starfsfólkinu.
Þegar atvinnurekandi borgar þér lágmarkslaun, hefur hann ákveðið að þú eigir ekki meira skilið. Þegar atvinnurekandi borgar þér fátæktarlaun þá hefur hann ákveðið að þú eigir ekki skilið að lifa mannsæmandi lífi. Ef börnin þín verða svöng seinni part mánaðar þá er það atvinnurekandinn sem hefur ákveðið að börnin þín eiga ekki skilið að vera södd. Rekstur sem getur ekki borgað starfsfólki sínu laun sem hægt er að lifa á er rekstur sem virkar ekki og á ekki rétt á sér. Samt sem áður greiða fjárfestar sér arð úr fyrirtækjum sem borga starfsfólki sínu fátæktarlaun. Ef þú sættir þig ekki við þessi kjör þá er röð af fólki úti tilbúið að taka starfinu í þinn stað.
Á meðan starfsfólkið fær lágmarkslaun greiða atvinnurekendur sér milljónir með þeirri réttlætingu að þeir séu að taka áhættu. En starfsfólk tekur líka áhættu. Þegar þú tekur starfi setur þú framtíð þína í hendur atvinnurekandans. Ákvarðanir atvinnurekandans hafa bein áhrif á þitt líf og þína framtíð, því hann ákveður lífsgæði þín með því að ákveða hversu mikið þú hefur á milli handanna. Þegar fyrirtæki fer á hausinn þarf starfsfólkið að taka afleiðingunum af fullum þunga. Það tekur afleiðingunum, en fékk samt aldrei að taka þátt í þeim ákvörðunum sem leiddu til gjaldþrots. Skipstjórinn sigldi skipinu á sker og óbreyttir sjómenn þurftu að horfa á það gerast með ekkert vald til að reyna að breyta stefnunni.
Þetta er fullkomið dæmi um þegar eignarrétturinn þykir mikilvægari en lýðræðið eða líf starfsmanna. Það er því ekki von á öðru en að verkafólk líti það hornauga, að vera beðið að fórna sínu til að bjarga atvinnurekandanum og þeirra fyrirtæki, þó svo það sjálft gæti sokkið með skipinu.
Kerfi sem gerir skynsamar ákvarðanir ómögulegar er kerfi sem er ekki þess virði að verja. Við munum aldrei hafa traust á meðan sumir vinna vinnuna og aðrir græða á vinnunni. Á meðan hluthafar græða milljarða á striti verkafólksins og borga svo starfsfólki sínu lægstu laun sem þeir lagalega mega borga þeim.
Við þurfum nýtt fyrirkomulag. Við þurfum að lýðræðisvæða vinnustaðinn því án þess mun aldrei ríkja það traust sem er nauðsynlegt til að takast á við þetta ástand núna eða endurtekningu þess seinna. Því þetta verður hvorki seinasta kreppan né seinasti heimsfaraldurinn.
Búa þarf til lög um starfsmanna-samvinnufélög sem gefa þeim sömu réttindi og kjör eins og hlutafélög hafa í dag. Hvetja þarf til stofnana slíkra fyrirtækja og eru margar aðferðir til þess.
Ríkið getur tekið gjaldþrota fyrirtæki og gefið til starfsfólks. Ef fyrirtæki er selt getur ríkið gert kröfu um að starfsfólk eigi forkaupsrétt á fyrirtækinu, með hagstæðu láni frá ríkinu. Vinnumálastofnun gæti leyft hóp atvinnulausra að taka út atvinnuleysisbætur sínar í formi stofnfjár ef það yrði nýtt til að stofna starfsmanna-samvinnufélag. Í öðrum fyrirtækjum er hægt að gefa starfsfólki þann rétt að eiga fulltrúa í stjórnum fyrirtækja sem hagsmunaaðilar en ekki aðeins hluthafar.
Núna er tími fyrir ríkið til að ákveða hvort lýðræði sé mikilvægara en réttur lítilla einræðisherra til að hafa vald á lífi og vinnu verkafólks.
Núna er tíminn til að endurhugsa hvernig við viljum að samfélagið líti út þegar við göngum út úr þessu ástandi. Tíminn er aldrei réttur, ef ekki núna.
Höfundur er stjórnarmaður í VR.