Vegna almennt lítils áhuga og þekkingar hjá verðbréfafyrirtækjum og fjárfestingarstjórum lífeyrissjóða á vinnumarkaðsmálum hafa þeir látið nægja að krefjast þess af stéttarfélögum Icelandair að kjarasamningar þeirra gildi til fimm ára, eigi sjóðirnir að koma að endurreisn félagsins, í stað þess að gera kröfu um að vinnu- og kjarasamningsmál fyrirtækisins séu leyst til frambúðar. Icelandair býr við umtalsvert hærri áhafnakostnað en flugfélögin sem þeir eiga í samkeppni við sem mun gera Icelandair illmögulegt að keppa við þau. Hyggist forráðamenn lífeyrissjóðanna leggja Icelandair til hlutafé, vitandi af þessum framtíðarvanda félagsins, væru þeir að fara afar óvarlega með það fé sem þeim hefur verið trúað fyrir.
Ekki þarf að fara í grafgötur með mikilvægi félags á borð við Icelandair. En álitamálin sem snúa að því hvort heppilegra sé að félagið verði endurreist fyrir eða eftir gjaldþrot eru mörg og þau þarf að útskýra opinberlega ef á að leita eftir fjármunum hjá almenningi, annaðhvort beint eða óbeint, í gegnum lífeyrissjóði.
Höfundur er hagfræðingur.