Nýleg ummæli þeirra Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um jöfnun atkvæða milli landshluta má endursegja þannig, að þeir telji jafnræði ekki forgangsmál. Ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (SDG) komu mér ekki á óvart, önnur hefðu valdið vonbrigðum. Það sem Logi sagði gerði mig hins vegar agndofa. Jöfnun mannréttinda hefur verið megin kennisetning jafnaðarmanna frá upphafi og Alþýðuflokkurinn, fyrirrennari Samfylkingarinnar, barðist skeleggur fyrir jöfnun atkvæðavægis milli byggðarlaga, jafnvel þótt það kostaði hann áhrif og völd. Í þessu máli er hvert tækifæri til leiðréttingar, forgangsmál. SDG lofar mismunun á flestum sviðum samfélagsgerðarinnar. Hann er því skoðun sinni trúr. Með Loga gegnir öðru máli. Hann má ekki undir neinum kringumstæðum melda sig í sama skiprúm og SDG.
Hvað mikið misvægi?
Hvenær skyldi, að Loga mati, atkvæðamisvægi mega verða það mikið að leiðrétting verði forgangsmál, þreföld, fjórföld eða kannski fimmföld? Jöfnun atkvæðavægis er mergurinn málsins. Það er ekki og má aldrei verða skiptimynt, því þarna liggur lykillinn að samfélagslegum grundvelli lýðræðislegra stjórnarhátta. Það er þó huggun harmi nær að Viðreisn heldur kúrs. Af hverju skiptir jafnt atkvæðavægi máli? Af hverju skipta jöfn hlutföll karla og kvenna á flestum sviðum svo miklu máli? Af hverju sömu laun fyrir sömu vinnu? Af hverju banna mannréttindasáttmálar mismunun eftir kyni, búsetu og kynþætti? Af því að við eigum öll að vera jöfn gagnvart lögunum og það erum við aðeins, séum við öll jafn mikils metin þegar við kjósum til æðstu valda.
Fýkur í flest skjól
Já, jafn atkvæðisréttur er vissulega mannréttindamál. En það er ekki síður afdrifaríkt við val á valdhöfum því ákvarðanir þeirra skipta oft sköpum fyrir þjóðir. Donald Trump, og margir aðrir skoðanabræður SDG, náði völdum í krafti misvægis atkvæða milli kjördæma innan BNA. Hann var kosinn af minnihluta sem breyttist í meirihluta vegna þess að sum atkvæði voru hærra metin en önnur. Hér heima hafa flokkar einnig stjórnað í krafti atkvæðamisvægis, því við búum einnig við kosningakerfi sem mismunar. Það erfðum við frá þeim tíma, þegar bændasamfélagið hafði hér bæði tögl og haldir. Þau stjórnmálaöfl sem öðluðust úrslitaáhrif á alþingi í krafti misvægis atkvæða, hafa varið þetta kerfi með kjafti og klóm og aldrei hnikað til nema í fulla hnefana. Rökin fyrir mismunun hafa verið svolítið á hjörum eftir tímum og aðstæðum. Nú er sagt að misvægi atkvæða eigi að vega upp óskilgreindan aðstöðumun sem sagður sé t.d. vera á milli Akurnesinga og Hafnfirðinga.
Ætli það þætti ekki afkáralegt ef atkvæði Kjalnesinga við borgarstjórnarkosninga væru þyngri en atkvæði okkar sem búum í 101 sem búum jú nær stjórnarráðinu? Meti það hver sem vill. Hvar endum við ef mannréttindi verða skiptimynt í mati á aðstæðum milli héraða. Hvað er þá réttlát mismunun? Við eigum okkar Trumpa og Borisa sem mæra mismunun, ekki bara í mannréttindum, heldur sem víðast. Eigum við að ganga þeim á hönd og láta þá ráða? Ef Samfylkingin hefur þetta sem aukamál og leggst við stjóra, þá er í flest skjól fokið.
Höfundur er hagfræðingur.