Stundum koma upp mál sem eru fáránlega áhugaverð og skemmtilegt að velta fyrir sér. Stóra Bubba-sígarettu-málið er einmitt þannig og ég er eiginlega sammála öllum sem segja eitthvað um það. Allir hafa eitthvað til síns máls þótt staðhæfingarnar séu tvist og bast og ósamrýmanlegar með öllu.
Bara til að koma því frá, já, það er viss ritskoðun í gangi. Hún fer bæði fram af hendi opinberra aðila, svo sem Alþingis sem hefur sett lög um að reykingar eigi ekki að sjást í auglýsingum en í 7. gr. laga um tóbaksvarnir segir: "Bannað er enn fremur að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu og í myndskreytingu á varningi." Og jú, jú, vissulega felst í þessu bæði viss forræðishyggja og ritstkoðun.
Svo eru það samfélagsmiðlarnir, sem lúta útlenskri og oft á tíðum púrítanískri stjórn. Það veit ég vel enda vill svo til að ég bý með listmunasala sem lendir í því oft og iðulega að samfélagsmiðlar stöðva auglýsingar á listaverkum sem sýna nekt, jafnvel í litlu mæli. Þegar verst lét bannaði Facebook alla hlekki inn á vef gallerísins í auglýsingum í marga mánuði í kjölfar birtingar nektar á listaverki í auglýsingu. Allir sem reka fyrirtæki í nútíma samfélagi ættu að átta sig á að það er ekkert grín. Það er auðvelt að segjast taka slaginn en í raunveruleikanum er útilokað að eiga við báknið. Venjulega stoppar miðillinn þó bara birtingu auglýsinga ef einhvers konar nekt er sjáanleg í verkunum sem ætlunin er að auglýsa. Í orði kveðnu á það þó ekki að vera þannig. Nekt á að vera heimil á Facebook í listaverkum en gallinn er bara að vélmennin sem fara yfir fyrirhugaðar auglýsingar bera ekkert skynbragð á list.
Margir halda því fram, að Borgarleikhúsið sé að ritskoða list. Listin er þá væntanlega myndin af Bubba að reykja, mynd sem tekin var fyrir um 40 árum. Gallinn er bara sá að sú mynd er alls ekki notuð í auglýsingum Borgarleikhússins. Gamla myndin sem birtist á forsíðu Samúels og er eftir ljósmyndarann Björgvin Pálsson er vissulega fyrirmynd auglýsingamyndarinnar. Auglýsingamyndin er engu að síður ný mynd - nýtt sköpunarverk, sem hefur ýmis sérkenni sem sú gamla hefur ekki og er að ýmsu leyti frábrugðin henni. Hér má sjá þær báðar.
Eins og sjá má er nýja myndin tölvugerð eftirmynd og ýmsu hefur verið breytt. Bubbi er til dæmis ekki lengur með eyrnalokk. Áferð myndarinnar er líkari málverki en grófri ljósmynd af þeim fremur sveitta manni sem myndin á Samúel sýnir okkur. Með því að gera allar línur mýkri svipar myndinni til gamalla leikaramynda og það fyrsta sem manni dettur í hug er James Dean.
Já, Bubbi er nefnilega sannarlega töff með þessa sígarettu.
Í dag hef ég séð, ja roskið fólk, segja frá því að áður fyrr hafi verið töff að reykja. Svo birtir það töff myndir af sér með rettuna í munnvikinu til að staðfesta að þetta hafi svo sannarlega verið töff. En tekur jafnframt fram að það sé gott að það sé alls ekki töff lengur. En sennilega er það ekki töff lengur af því að við erum hætt að sjá stjörnur á borð við James Dean, Bubba og Hr. Hnetusmjör reykja. Það er nefnilega þannig sem áhrifavaldar virka. Það er mun áhrifaríkara fyrir framleiðenda vöru að fræg og töff manneskja noti vöruna en að verja miklu fé í að auglýsa hana. Og þess vegna hafa mörg ríki, meðal annars Ísland, sett lög sem banna tóbaksreykingar í auglýsingum, jafnvel þótt verið sé að auglýsa eitthvað allt annað. Og jú, jú það er bæði forsjárhyggja og ritskoðun.
Sígarettur höfðu á 20. öldinni sérstaka merkingu í dægurmenningu. Þær tilheyrðu ekki bara þessum töff týpum heldur voru þær "nauðsynlegar" í ýmsum aðstæðum. Ég ólst upp við slíkar fyrirmyndir og þótt ég hafi sjálf aldrei reykt hef ég upplifað stundir þar sem mér hefur fundist það eina rétta í stöðunni vera að halla mér upp að vegg, kveikja mér í sígarettu ofursvöl, og láta eins og tilveran í kringum mig komi mér ekki við.
En aftur að myndinni af Bubba með sígarettuna lafandi. Ég hef séð því haldið fram að verið sé að ritskoða list. Það er áhugaverð skoðun sem ég er þó ekki sammála, ekki síst vegna þess að eftir sem áður er sígarettan í leikritinu sjálfu, á bolum og varningi tengdum sýningunni og í kynningarefninu inni í leikhúsinu. Og það er þar sem listin fer fram og töfrarnir gerast. Hún er hins vegar horfin af rafrænu kynningarefni og stóru plakati utan á leikhúsinu. Áhugaverðast er samt að fólk virðist telja auglýsinguna sem slíka list og það hljóta að vera nýmæli þótt margar geti verið úthugsaðar, flottar og listrænar. Við gætum jafnvel sagt að sumt fólk sem býr til auglýsingar sé listamenn í sínu fagi. Það gerir auglýsingarnar sjálfar þó ekki listaverk.
Auglýsingum er líka breytt á hverjum einasta degi, til að þjóna því sem á að auglýsa og fyrir því eru ótal ástæður. Auglýsendur eru alltaf að láta búa til nýjar og nýjar auglýsingar og breyta gömlum. Þeim er breytt á hverjum degi. Yfirleitt tekur enginn eftir því, frekar en því að eyrnalokkurinn sem Bubbi skartaði framan á Samúel var horfinn úr eyranu á honum á auglýsingamyndinni. Svo er þeim fargað með dagblöðum eða þær hverfa sjónum okkar á vefmiðlum þegar nýjar birtast í staðinn.
Myndin í auglýsingunni byggir á ljósmynd sem við getum alveg flokkað sem listaverk en þetta er ekki hún. Þetta er önnur mynd; auglýsing. Auglýsing um leiksýningu en leiksýningin er sannarlega list. Það gerir auglýsinguna þó ekki að list. Við getum sagt að auglýsing hafi verið ritskoðuð og Borgarleikhúsið breytt henni í kjölfarið en það er illa hægt að halda því fram að list hafi verið ritskoðuð.
Einu sinni rákum við hjónin lítið gallerí í Kringlunni. Markaðsstjóri Kringlunnar kom að máli við okkur og vildi endilega að við stæðum fyrir listsýningum í verslunarmiðstöðinni og það fannst okkur hið besta mál. Listin á að vera sem víðast og ná til sem flestra. Fyrsti listamaðurinn sem var fenginn til að sýna verk sín í húsinu var Gunnar Karlsson. Rýmið sem var um að ræða var opið svæði á efri hæð þar sem hægt var að hengja verkin úr loftinu þannig að þau voru sýnileg bæði á efri og neðri hæð hússins. Sýningin var fyrirhuguð haustið 1999 og allt sumarið hengu þar auglýsingaborðar fyrir söngleikinn Rent sem þá var sýndur í Loftkastalanum. Einn borðinn sýndi netasokkabuxna- og leðurklæddann rassinn á persónunni Mímí sem var 16 ára eyðnisjúkur krakkfíkill og dansari á sadómasóklúbbi. Myndin hefði allt eins getað verið auglýsing fyrir slíkan klúbb en enginn hreyfði andmælum við því. Þetta var jú bara auglýsing.
Þegar setja átti upp sýningu Gunnars kom hins vegar babb í bátinn. Gunnar hafði tölvuteiknað og prentað út myndir á nákvæmlega jafnstórum renningum og höfðu hangið þarna allt sumarið af Jesú reiðum. Verkið kallaði hann Kringlu Krist. Og allt í einu var ómögulegt að hafa verkin þarna, þau skyggðu á búðir, trufluðu fyrirhugaða uppsetningu á jólaskrauti (Jesú var sennilega ekki nægilega jólalegur) og verkin voru því uppi í mun styttir tíma en fyrirhugað hafði verið. Listin truflaði sem sagt daglega starfsemi í Kringlunni en auglýsingarnar ekki. Listamaðurinn tók verkin að lokum niður en hengdi Jesú upp í Húsdýragarðinum þar sem hann fékk inn í aðdraganda jólanna. En hann var auðvitað ekki með sígarettu.