Þankar um veiru

Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emiritus, vonar að sú dýrkeypta reynsla sem við höfum eignast vegna COVID-19 gleymist ekki jafnóðum, heldur verði til góðs fyrir okkur sem þjóð.

Auglýsing

COVID-veiran vekur okkur vissulega til umhugsunar um býsna margt, og hér verður drepið á nokkur atriði sem höfundur telur ekki hafa komið til umræðu sem vert væri.

Líklega kemur það mörgum á óvart að samfélag nútímans skuli reynast svona viðkvæmt fyrir farsóttinni. En það er margt sem leggst á eitt og veldur fárinu. 

Margar farsóttir sögunnar hafa kviknað á svipaðan hátt og Covid-19, með örverum frá villtum dýrum.

Greinilegt er til dæmis að menn hafa sýnt of mikla léttúð í að nýta sér villt dýr til matar, og væntanlega verður hætt að nytja til dæmis leðurblökur, sem eru einmitt þekktar sem gróðrarstíur fyrir framandi veirur. Margar farsóttir sögunnar hafa raunar kviknað á svipaðan hátt, með örverum frá villtum dýrum. (Hér verður ekki eytt orðum að þeirri fáránlegu hugmynd valdamanna í öflugasta ríki heims til skamms tíma, að sýkna leðurblökurnar!).

Um eðli farsótta

Því miður er ljóst að margir skilja illa eðli smitandi farsótta sem berast út með vísisvexti (exponential growth) sem nær ógerlegt er að stöðva til fulls nema með svonefndu hjarðónæmi sem hugsanlegt er að ná annaðhvort með bóluefni, eða þá með því að nógu margir hafi meðtekið veiruna og orðið ónæmir. En vísisvöxtur af þessu tagi er algengur í náttúrunni, til dæmis þar sem tegund lífvera nemur „nýtt land“ eða nýtt og stórt búsvæði þar sem hún var ekki áður. Um slíkt gildir sannarlega hið fornkveðna að „mjór er mikils vísir“ því að útbreiðsla tegundarinnar byrjar þá með örfáum einstaklingum en hún fjölgar sér síðan mjög ört. Í náttúrunni er algengt að þess konar vöxtur stöðvist vegna einhverra ytri takmarkana, til dæmis af því að næringu eða lífsrými eru takmörk sett fyrr eða síðar. En þegar um er að ræða veirur sem lifa á mönnum eða öðrum útbreiddum dýrategundum þá er lífsrýmið nær ótakmarkað, nema þegar hjarðónæmi breiðist út og lokar fyrir næringu og fjölgun veiranna. Vanþekking og vanmat á þessum atriðum varð því miður til þess að menn í lykilstöðum í valdakerfi heimsins brugðust seint og illa við aðsteðjandi vá, og heilu þjóðirnar súpa nú seyðið af því.

Auglýsing
Valdhafar allra tíma meðal manna hafa líka átt erfitt með að kyngja því að ráða ekki við vágesti af þessum toga með þeim aðferðum sem þeim eru tamastar, til dæmis með hervaldi eða lögreglu, varnarmúrum eða áróðri. Þeir sem fara með völdin nú á dögum virðast helst hugsa sér að draga tennurnar úr óvininum með valdi peninganna, en þar er þó að mörgu að hyggja. 

Það er sem sé eitt einkenni veirunnar að hún tekur ekkert mark á ýmsum mannanna verkum á borð við landamæri, trúarbrögð eða hagkerfi, og hún fæst alls ekki til að fara í manngreinarálit innan samfélags, enda les hún hvorki skattaframtöl né leyndarskjöl um aflandseyjar. Fyrir henni eru allir menn jafnir og smit berst hindrunarlaust frá hinum fátæka til auðmannsins og öfugt. Þetta er einmitt helsta ástæðan tll þess að menn hreinlega verða að snúa bökum saman allir sem einn gegn þessum vágesti; þeir sem telja sig of góða til að taka þátt í því lenda ekki bara á flæðiskeri heldur mega þeir líka vita að stórstraumsflóðið kemur áður en varir.

Erfitt er að hugsa sér annað en að ferðir heimamanna og útlendinga til og frá landinu muni raska viðkvæmu jafnvægi meðan veiran er enn í nær fullu fjöri annars staðar.
Nú eru margar þjóðir að þreifa sig áfram með að draga úr aðgerðum gegn veirunni, en sumir gera sér þó grein fyrir að þar er ekki á vísan að róa. Að vísu er hægt að sjá fyrir sér, á einangruðu og afmörkuðu svæði eins og Íslandi, að hægt sé að halda veirunni í skefjum með víðtækum og sumpart persónulegum aðgerðum eins og handþvotti, fjarlægðarreglu, samkomutakmörkunum og flelru þess háttar, en erfitt er að hugsa sér annað en að ferðir heimamanna og útlendinga til og frá landinu muni raska viðkvæmu jafnvægi meðan veiran er enn í nær fullu fjöri annars staðar. Ef ekkert hjarðónæmi hefur þá skapast er staðan algerlega óbreytt frá sjónarmiði veirunnar, frá því að hún kom hér fyrst og fór að fjölga sér út frá örfáum einstaklingum. Og í heimi ferðanna er ekki allt sem sýnist.

Ferðamennskan og flugið

Í umræðunni um væntanlega fjölgun ferðamanna og endurreisn ferðaútvegsins er ansi mikið um órökstudda bjartsýni nú um stundir. Slíkt er auðvitað skiljanlegt en tefur hins vegar fyrir því að við komumst niður á jörðina með fast undir fótum og förum að rækta nýja garða í stað þeirra sem tapast. Allra fyrst þurfum við að átta okkur á því að við höfum engin úrslitaáhrif – hvorki almenningur né ríkisstjórn -- á það hvort erlendir ferðamenn koma til Íslands. Það ræðst fyrst og fremst af því (1) að fólk hafi áhuga á að koma hingað, (2) að stjórnvöld í viðkomandi landi leyfi ferðalög hingað, og (3) að sóttvarnir okkar mæli ekki gegn því með hliðsjón af stöðu mála í landinu sem í hlut á. Eins og nú horfir virðist til dæmis langt í land að verjanlegt sé að taka við ferðamönnum frá Bandaríkjunum og öðrum löndum sem gera sig líkleg til að þurfa að berjast lengi enn við verulega Covid-sýkingu. Slíkt verður að minnsta kosti varla gert nema sóttkví komi til.

Svo er einn mikilvægur þáttur sem hefur að mestu orðið út undan í umræðunni um fjölgun ferðamanna enn sem komið er, en það er flugið sjálft og eðli þess gagnvart smithættu. Enn sem komið er hefur öll athyglin beinst að afkomu flugfélaga, atvinnuleysi í flugi og öðru slíku sem er því miður erfitt úrlausnar. En afar fáir hafa spurt (eða þorað að spyrja?) einföldu grunnspurninganna: Verður flogið? Hvernig?

Það er alvöru spurning hvort áhættuhópar eigi helst ekkert að fljúga næstu árin, og mér þykir líklegt að aðrir muni líka draga stórlega úr flugferðum og halla sér til dæmis að rafrænni samskiptatækni í staðinn.
Mér sýnist að við séum sjaldan í meiri hættu á að smitast af farsótt en einmitt í hefðbundnu farþegaflugi milli landa. Venjuleg flugferð byrjar með 1-2 klukkustunda dvöl í miklum þrengslum á flugvelli og þá tekur við margra klukkustunda seta í enn meiri þrengslum og í takmörkuðu rými í flugvélinni, yfirleitt innan um fólk sem við þekkjum hvorki haus né sporð á, og höfum enga hugmynd um hvort það er smitað, né heldur hvort það þvær sér um hendur með sápu í 20 sekúndur. Og svo tekur við ný bið þegar komið er á flugvöllinn á áfangastað. – Sérð þú þetta ekki fyrir þér, lesandi góður? Það er alvöru spurning hvort áhættuhópar eigi helst ekkert að fljúga næstu árin, og mér þykir líklegt að aðrir muni líka draga stórlega úr flugferðum og halla sér til dæmis að rafrænni samskiptatækni í staðinn. 

Sem betur fer leysist sumt af vandanum af sjálfu sér þegar dregur úr flugi, til dæmis verður þá ekki ös á flugvöllum. Og það er auðvitað hægt að fækka sætum í flugvélum til að draga úr smithættu; kannski dugir að hafa einn metra milli manna í stað tveggja, þó að samverutíminn sé að vísu lengri en hjá rakaranum. En fækkun flugsæta mundi hækka miðaverð verulega, sem verður þó ef til vill þolanlegt fyrir almenning ef fólk flýgur sjaldnar. -- Ég hef nefnt vanda flugsins sem dæmi um fyrirsjáanlegar og erfiðar afleiðingar COVID-faraldursins, en þær eru auðvitað miklu fleiri og ekki rúm til að fara yfir þær hér. 

Þreytan og þróttur veirunnar

Við Íslendingar erum nú stödd í þeim kafla veirusögunnar þar sem menn eru orðnir hálfþreyttir á varnaraðgerðunum, einkum þeir hópar sem verða mest fyrir barðinu á þeim, og veiran hefur misst þróttinn hér á landi að svo stöddu. Þjóðin er ánægð með að hafa sameinast gegn vágestinum og náð árangri sem er bæði merkilegur og var alls ekki sjálfgefinn í upphafi. En samt eru enn blikur á lofti því að hagsmunahóparnir eru komnir á kreik og þeir geta verið býsna öflugir þegar þeir beita sér. Nú vilja allir sem telja sóttvarnarreglurnar beinast gegn stundarhagsmunum sínum draga máttinn úr reglunum gagnvart sér án þess að horft sé verulega til hugsanlegra afleiðinga. Þaðan af síður vilja menn halda áfram að „hugsa út fyrir kassann“ eins og þó var gert með ágætum á síðustu vikum, til dæmis með því að nota stafræna  samskiptatækni. Vonandi fer þetta samt allt vel þó að menn virðist stundum ætla að tefla á óþarflega tæpt vað í stað þess að hugsa upp á nýtt.

En hvernig verður lífið á tímum veirunnar?

Það er auðvitað ofdirfska að segja of mikið um þetta, en ég læt slag standa. -- Mér sýnist líklegt að við förum að ferðast miklu meira um eigið land, að við drögum úr vinnutíma, verðum meira með fjölskyldunni og öðrum hópum sem við þekkjum og svo framvegis. Við lærum enn betur að meta góða heilsu sem verðmæti og einnig gildi þess að eiga með okkur samfélag sem býður þegnum sínum öryggi og jöfnuð. Við sem erum nálægt miðju á tekjukvarðanum höfum kannski líka lært það að mörg verðmæti í lífinu skipta meira máli en tölur og peningar. Við höfum eignast þá reynslu að verða fyrir árás frá sameiginlegum óvini og snúa þá bökum saman. Sú dýrkeypta reynsla gleymist vonandi ekki jafnóðum, heldur verður til góðs fyrir okkur sem þjóð.

Hér hefur ekki verið rúm til að fjalla rækilega um faraldurinn frá sjónarmiði alþjóðasamfélagsins. Rétt er þó að minna á að gróðahyggja nútímans á nokkra sök á að lyf og bóluefni skorti þegar faraldurinn skall á. Unnt hefði verið að bæta úr því á grundvelli fyrri faraldra af völdum kórónuveira, en það var ekki gert vegna þess að einkafyrirtæki hefðu ekki grætt á því og alþjóðastofnanir voru í fjársvelti. Vonandi verður bætt úr því til frambúðar og alþjóðastofnanir í heilbrigðismálum efldar, enda spyrja margir sjúkdómar ekki um landamæri. Og vonandi læra menn að umgangast dýr og náttúru með meiri gætni og tillitsemi en áður. 

Ég lýk þessu greinarkorni með eftirfarandi tilvitnun í Frank Snowden, sem er prófessor við Yale-háskóla og sérfróður um sögu farsótta: 

Við höfum skapað þá goðsögn að við getum látið hagkerfið vaxa samkvæmt vísisvexti í það óendanlega, með 8 milljörðum manna á jörðinni, gríðarlegum ferðalögum, umhverfismengun, og með sívaxandi náttúruspjöllum. Þannig höfum við skapað nærri því kjöraðstæður fyrir tilkomu og útbreiðslu kórónaveirunnar ásamt því mikla tjóni sem hún veldur okkur.

Höfundur er prófessor emiritus.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Þögnin rofin á ný
Hundruð íslenskra kvenna hafa í vikunni stigið fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur segja að brotið hafi á sér. Lærði samfélagið lítið af fyrri #metoo-bylgjunni?
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar