Það er gott að sjá að stjórnmálamenn eru farnir að gefa yfirlýsingar um stjórnarskrárbreytingar: krefjast breytinga eða mótmæla mögulegum breytingum. Og það fyllir alla áhugamenn um stjórnarskrárbreytingar öryggistilfinningu þegar Birgir Ármannsson byrjar að vara við breytingum á stjórnarskrá: Þá hlýtur eitthvað að vera að gerast.
Stóra spurningin nú er hvort stjórnvöldum tekst að leggja fram frumvarp um stjórnarskrárbreytingar í tæka tíð til að geta afgreitt það fyrir lok kjörtímabilsins. Til að það sé mögulegt þarf að verða nokkuð breið samstaða um breytingarnar og vissa um að þær samræmist því sem kjósendur vilja.
Stjórnmálamenn tala gjarnan um vilja þjóðarinnar sem þeir telja sig yfirleitt þekkja jafnvel betur en þjóðin gerir sjálf. Formaður Viðreisnar hefur til dæmis lýst því yfir að það sé „eindreginn vilji þjóðarinnar að það eigi að endurskoða það ranglæti sem felst í því misvægi atkvæða sem við búum við í dag.“ Fyrrverandi stjórnmálamaður sem um skeið var formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hefur sagt á Facebook síðu sinni að jafnt atkvæðavægi sé „mannréttindi“ en formaður Miðflokksins, heldur því fram að „atkvæðisréttur sé jafn eins og sakir standa.“
Nú er það kannski tímaeyðsla að eltast við yfirlýsingar stjórnmálamanna – þeir segja auðvitað fyrst og fremst það sem þeir telja að komi sér best hverju sinni. En það má þó kannski benda á að verulega kærleikstúlkun þarf til að fallast á að vægi atkvæða sé í raun jafnt og sömuleiðis þarf mikinn sveigjanleika um mannréttindahugtakið til að geta samþykkt að jafnt atkvæðavægi sé mannréttindi. Aðferðir til að velja fulltrúa á þing eru með ýmsu móti. Hlutfallsleg kosning er ein þeirra. Val fulltrúa í einmenningskjördæmum er önnur. Kerfi sem felur í sér að eitt kjördæmi hefur hlutfallslega fleiri fulltrúa en annað kjördæmi getur verið ranglátt – eða réttlátt. Það fer eftir því hverjar ástæðurnar eru og hvað ræður því að slíku kerfi er komi á og haldið við. Það jafnar ekki atkvæðavægi að jöfnunarkerfi dragi úr misvægi sætaúthlutunar til flokka, þótt það kunni að draga úr afleiðingum ójafns vægis atkvæða og geti dregið úr fjölda atkvæða sem falla dauð.
Og svo er það vilji þjóðarinnar. Nú vill svo til að eitt af því sem gert var á síðasta ári var vandaðri könnun en dæmi eru um áður á viðhorfum almennings til breytinga á stjórnarskrá. Athugunin var gerð með hefðbundinni skoðanakönnun til að byrja með, og í framhaldi af henni rökræðufundi hluta þeirra sem áður höfðu tekið þátt í skoðanakönnuninni. Viðhorf þeirra voru könnuð aftur áður en tveggja daga rökræðufundur hófst, og enn aftur þegar honum lauk. Með því mátti sjá hvernig viðhorfin breyttust við að fólk fengi tækifæri til að kynna sér málin betur og rökræða þau við aðra. Skýrslu um fundinn má sjá á vef Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Það er því áhugavert að spyrja hvort slík rökræðukönnun í heild bendi til að það sé eindreginn vilji þjóðarinnar að jafna atkvæðavægi. Svarið er í stuttu máli að þetta er alls ekki ekki svona einfalt. Í fyrsta lagi er óljóst hvað átt er við með „eindregnum vilja þjóðarinnar“, en við hljótum að gera ráð fyrir að það þurfi að vera vel umfram helming kjósenda, ef til vill þrír af hverjum fjórum? Í öðru lagi, jafnvel þótt tiltekið viðhorf njóti slíks fylgis þurfum við líka að vita eitthvað um tengsl þess við önnur viðhorf. Það má taka einfalt dæmi um þetta: Það er í einhverjum skilningi eindreginn vilji þjóðarinnar að lækka skatta. En um leið og afleiðingar þess að lækka skatta eru teknar með í reikninginn kemst þó stór hluti fólks að þeirri niðurstöðu að kannski sé betra að lækka þá ekki.
Nákvæmlega sama á við þegar við skoðum viðhorf fólks til ójafns atkvæðavægis. Þegar fólk var spurt í upphaflegri skoðanakönnun hversu hlynnt eða andvígt það væri því að öll atkvæði á landinu vægju jafnt sögðust 52% mjög hlynnt því og 22% frekar hlynnt því. Það gera 74% sem gæti lýst eindregnum þjóðarvilja, eitt og sér. Í könnun á viðhorfum fulltrúa á rökræðufundi 9.-10. nóvember kom fram að 60% þeirra töldu jafnt atkvæðavægi vera mikilvægasta markmið breytinga á kjördæmaskipan. Þegar spurt var um sama atriði í lok fundar hafði stuðningur við það hækkað í 68%.
En þetta segir ekki alla söguna og það er vandinn sem stjórnmálamenn vilja gjarnan sniðganga. Það sýnir sig nefnilega þegar niðurstöður kannana fyrir fund og eftir eru skoðaðar að þátttakendur setja margt fleira fyrir sig en ójafnt atkvæðavægi. Mikilvægt atriði er til dæmis rödd landsbyggðarinnar og vægi landsbyggðarsjónarmiða. Þannig telja 66% fyrir fund, 73% eftir fund að það sé mikilvægt að allir landshlutar eigi fulltrúa á þingi. Með öðrum orðum, það er ekki víst að þetta fólk væri tilbúið til að berjast fyrir jöfnun atkvæðavægis ef það hefði í för með sér að sumir landshlutar ættu enga fulltrúa á Alþingi.
Áhyggjur af svipuðum toga koma fram í spurningunni um hvort rétt sé að gera landið að einu kjördæmi. Þegar fólk var spurt í upphaflegri skoðanakönnun hvaða kjördæmaskiptingu það teldi að ætti að hafa á Íslandi sögðust 38% vilja að landið væri eitt kjördæmi en 32% óbreytta kjördæmaskipan. 16% vildu fækka kjördæmum en 13% fjölga þeim. Þegar horft er á rökræðufundinn sést að tæplega 20% vildu fjölga kjördæmum (ekki var marktækur munur á viðhorfi til þessa fyrir fund og eftir), rúmlega 40% vildu gera landið að einu kjördæmi, en athyglisverðast var þó að stuðningur við núgildandi kjördæmaskipan jókst talsvert: á rökræðufundinum. Fyrir umræður sögðust 26% vera fullkomlega, mjög eða frekar sammála því að kjördæmaskipan skyldi halda óbreyttri, en eftir umræður var hlutfallið komið í 36%.
Þegar horft er á umræðurnar sem fram fóru á fundinum, en þær voru bæði teknar upp í heild sinni, og helstu atriði þeirra skráð jafnóðum af riturum á hverju umræðuborði, má fá enn gleggri mynd af því hvernig aukinn skilningur á ástæðum, rökum með og á móti og á fórnarkostnaði, hefur áhrif á viðhorf fólks. Einnig má túlka niðurstöðurnar þannig að við það að eiga samræður við fólk allstaðar af landinu og heyra viðhorf sérfræðinga um þetta mál aukist gagnkvæmur skilningur. Þannig virðist fólk af höfuðborgarsvæðinu í auknum mæli hafa komið auga á kosti við það að tryggja að hagsmunir og sjónarmið ólíkra svæða ættu sér málsvara á Alþingi. Á sama hátt benda niðurstöðurnar til að fólk af landsbyggðinni kunni að hafa sé betur að jafnt atkvæðavægi er ekki endilega ógnun við áhrif landsbyggðarinnar.
En hver er þá niðurstaðan: Er hún kannski sú að best sé að halda sig við óbreytt kerfi því breytingar væru of áhættusamar? Það væri vissulega frekar óspennandi endir umræðunnar – enda er það augljóslega rangtúlkun. Niðurstaðan gefur okkur öllum skýra vísbendingu um hvernig best er að halda á málum: Kerfinu þarf að breyta, og atkvæðavægi þarf að jafna, en það þarf að gera það þannig að ekki sé valtað yfir sjónarmið fólks sem hefur fullkomlega réttlætanlegar efasemdir um og áhyggjur af afleiðingunum.
Það er vissulega þjóðarvilji að atkvæðavægi eigi að vera jafnt. En það er líka þjóðarvilji að staða landshluta eigi að vera sem jöfnust, og að ólíkir hópar þurfi að eiga málsvara á Alþingi. Vegna þess hvað rökræðukönnunin gefur miklar upplýsingar um ástæður fólks fyrir viðhorfum sínum og að einhverju leyti forgangsröðun þess, getum við líka séð að fólk vill ekki gera breytingar nema góð vissa sé um að breytingarnar séu til bóta. Venjulegt fólk gerir sér vel grein fyrir því að það sér ekki endilega fyrir allar afleiðingar þess sem það þó styður.
Það væri ráð fyrir þá sem bera ábyrgð á því hvaða breytingar á stjórnarskrá komast í gegnum þingið nú að kynna sér vel það sem fór fram á rökræðufundinum 9. til 10. nóvember síðastliðinn. Það er ekki víst að tilefni sé til mikils rifrildis ef fólk skoðar þessar samræður og áhrif þeirra á viðhorf þátttakenda vel. Í mörgum tifellum er nefnilega hægt að fara eftir því sem þar kemur fram, og passa upp á komið sé til móts við sjónarmiðin sem þar birtast. Sjálfsagt er einfaldara að gefa bara yfirlýsingar um það sem stendur hjarta manns næst og fullyrða annað hvort að þjóðin vilji jafna atkvæðavægi eða að atkvæðavægi sé þegar jafnt. Vandinn er hins vegar sá að á endanum sér fólk í gegnum slíkar yfirlýsingar. Það ætlast til að kjörnir fulltrúar skilji málin að minnsta kosti jafn vel og það gerir sjálft, þegar þeir véla um hvaða breytingar eigi að gera og hvers vegna.