Ef það er eitthvað eitt sem kallað er eftir af hálfu þjóðarinnar nú á tímum þá er það að stjórnvöld leggi til hliðar hefðbundin ágreiningsmál, allir leggist á eitt, taki höndum saman við úrlausn mála, þingmenn stjórnarliðs og stjórnarandstöðu. Ríkisstjórn hafi samráð við stjórnarandstöðu sem að sínu leyti greiði fyrir málum.
Þetta hefur gengið bæði upp og ofan. Stundum vel: Það gerðist á þinginu í gær, þann 11. maí, að samþykkt var í heyranda hljóði tillaga Oddnýjar G. Harðardóttur um að framlag hækki með hverju barni þeirra sem þurfa að treysta á grunnatvinnuleysisbætur sér til framfærslu. Þetta þýðir að barnafjölskyldur fá 17.370 krónur með hverju barni í stað 11.580 króna.
En í þessu ljósi – kröfunnar um samstöðu og samvinnu á þingi – vekur sérstaka furðu að ríkisstjórnin skuli af undraverðri þrákelkni leggja enn einu sinni fram mál sitt um málefni útlendinga – mál sem enginn friður er um og enginn friður getur orðið um. Nú hyggst þriðji dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins keyra málið í gegn í andstöðu við Rauða krossinn og aðra aðila sem gerst til þessara mála þekkja. Þetta er forgangsmál, svo brýnt er það talið af þessari ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna, að þrengja möguleika þess nauðleitarfólks sem kemur hingað til lands til að koma hér undir sig fótunum. Í þessu frumvarpi er það fólk kennt við „tilhæfulausar“ umsóknir, rétt eins og beiðni þess um skjól hér á landi sé einhvers konar tilraun til að sóa dýrmætum tíma þeirra sem hafa annað og mikilvægara að gera en að hjálpa því að skapa sér tilveru hér.
Í greinargerðinni með þessu frumvarpi kemur orðið skilvirkni 17 sinnum fyrir. Nú getur hún að vísu verið ágæt og jafnvel nauðsynleg til að ljúka brýnum erindum og málum með farsælli niðurstöðu. En skilvirkni má ekki vera skálkaskjól. Hún má ekki vera ópersónulegt stofnanaorð til að hylja skort á mannúð: skilvirknin virkar þá aðeins þegar hún fer saman við mannúð, hún getur aldrei verið markmið í sjálfu sér. Hún má aldrei vera vélræn. Maður á kannski að vera mættur einhvers staðar og þá verður á vegi manns manneskja í nauðum stödd, og þá dugir ekki að segja bara: „Nei, því miður, þarf að vera mættur, finn til með þér en má bara ekki vera að þessu ...“ Það er ekki hægt að segja gagnvart neyðinni: „Nei, því miður, skilvirknin meinar mér að hjálpa.“ Computer says no.
Skilvirknin kemur svo oft fyrir í greinargerð frumvarpsins, höfundar þess eru svo hugfangnir af þessu orði, sem allsherjarlausn gagnvart flóknum vanda, að það hvarflar að manni að þeir skilji það bókstaflegum skilningi: þetta sé virkni til að skila. Og þá skila fólki aftur á sinn stað, sinn upprunastað – en sá staður er óvart ekki til, eða öllu heldur, þau ættu að vera komin á sinn stað, þau eru á griðastað, þau eru á stað þar sem þau hafa möguleika á því að byggja upp líf og tilveru. Þeim verður ekki skilað þangað sem þau numu fyrst land á flótta sínum undan óbærilegum aðstæðum því að hvað sem íslenskri skilvirkni kann að líða er ekki hægt að búa í flóttamannabúðum við öryggisleysi og úrræðaleysi.
Mannúð og skilvirkni eru ekki andstæður, heldur forsenda hvor annarrar. Mannúðin verður að liggja til grundvallar skilvirkninni sem svo aftur þarf að fylgja mannúðinni. Hún hefur stundum náð fram að ganga með harðfylgi undanfarin ár. Við þekkjum fréttir af fjölskyldum, af fólki sem búið er að koma sér fyrir í vinnu, börnin eru komin í skóla, jafnvel langveik börn sem þurfa á sérstöku skjóli að halda, og það stendur til að vísa þessum fjölskyldum úr landi í skjóli nætur jafnvel eins og það hafi drýgt einhvern glæp, komist í kast við skilvirknireglu stjórnarskrárinnar. En þá berast af því fregnir, það koma myndir og viðtöl í fjölmiðla og almenningur, sem ekkert skilur í grimmd skilvirkninnar, rís upp til varnar þessum fjölskyldum – sér sig í aðstæðum þeirra: hvað ef hér yrði óbyggilegt af mannavöldum eða náttúru, hvað ef við myndum lenda í að heimili okkar yrði rifið upp með rótum og við rekin á flótta; myndum við ekki vilja geta vænst mannúðar einhvers staðar? Þannig hugsar fólk og hefur undantekningarlaust skotið skildi fyrir þessar fjölskyldur og oftar en ekki hefur niðurstaðan orðið sú að þeim er þyrmt, og gerast nýtir þegnar hér í framhaldinu, staðráðin í að duga vel í nýju samfélagi, nýju lífi, nýju tækifæri fyrir sig og sína.
Við höfum nokkrar svona sögur. Hvað sýna þær? Þær sýna mannúð. Og já, líka skilvirkni, skilvirka mannúð, mannúðlega skilvirkni.
En þær sýna ekki þá sérstöku vélrænu skilvirkni sem að er stefnt með þessu frumvarpi um tölvuna sem alltaf segir nei. Þessu frumvarpi virðist ætlað að bregðast við þessari stopulu mannúð, kannski á þeim forsendum að það sé óréttlátt gagnvart öllum hinum þegar bara fáir fá sérstaka meðferð – þarna þurfi að vera samkvæmni, annað sé óskilvirkt og jafnvel ómannúðlegt. En í stað þess að leitast þá við að laga þennan réttlætishalla með því að auka möguleika fólks á réttlátri og sanngjarnri málsmeðferð þá er farið í hina áttina hér, það er leitast við að loka fyrir möguleika fólks á réttlátri og sanngjarnri málsmeðferð svo að allir búi við sama ranglætið, sama hvernig komið sé fyrir þeim. Nei-inu skuli komið inn í tölvuna svo að hún segi alltaf nei. Um þessa nálgun ríkisstjórnarinnar á málefni útlendinga getur aldrei orðið sátt.
Ég er sannfærður um að gott samfélag er ekki reist á uppruna fólks, húðlit eða öðrum einkennum sem það getur lítið gert í sjálft. Ég held að ekki skipti máli hvort fólk á uppruna sinn í Húnavatnssýslu, Bombay, á Langholtsvegi, Gilleleje eða í Kúalalúmpur, eða hvort fólk hefur þessar eða hinar matarvenjur, heldur þessa eða hina hátíðisdaga, klæðir sig á þennan máta eða hinn, trúir á þessa guði eða aðra eða engan. Fólk er fólk og það er alls konar, skemmtilegt og leiðinlegt, víðsýnt og þröngsýnt, opið, feimið, og þannig endalaust, en alltaf mikilsvert og lygilega gott, eins og Ari Jósefsson orti um.
Gott samfélag er meðal annars reist á því að geta unnt öðrum þess að vera eins og þeir eru. Það er reist á á umburðarlyndi og kannski hæfilegum hlutföllum af velviljuðum áhuga og áhugaleysi um hætti og hagi annars fólks – ákveðnum sambýlisþroska. En umfram allt er gott samfélag reist á óbifanlegri virðingu fyrir lýðræði, frelsi og mannréttindum, einstaklingsréttindum allra, ekki bara þeirra sem hegða sér vel eða virðast eiga slíkt skilið, heldur allra.
Gott samfélag er reist á jöfnuði, jafnræði, en ekki einsleitni, ekki fámenningu heldur fjölmenningu, ekki einræðum heldur samræðum. Það er reist á tækifærum frekar en hindrunum. Það þrífst á stöðugri endurnýjun, menningarlegri og vitsmunalegri en visnar í einangruninni, og ég held að þannig hafi það verið frá upphafi Íslandsbyggðar, þegar hingað safnaðist saman alls konar fólk úr ólíkum samfélögum og áttum sem smám saman myndaði með sér samfélag. Hvert barn sem fæddist hér vegna samfunda fólks af ólíkum uppruna jók fjölbreytni mannlífsins og aðlögunarhæfni að óblíðri náttúru. Sjálfur er ég afkomandi nýbúa hér sem á 19. öld kom hingað barnungur með tvær hendur tómar en átti eftir að auðga þjóðlífið, ekki síst til að sanna að hér ætti hann víst heima, hvað sem hver segði, og gæti orðið jafn nýtur þegn og hver annar.
Hver er augljósasta afleiðing þess að hér hafa sest að sýrlenskir flóttamenn? Jú, það hefur gert kebab að tískumat hjá ungu fólki sem þar með borðar lambakjötið sem hér er annars framleitt baki brotnu án sjáanlegra tengsla við markaðseftirspurn.
Íslenskt samfélag þarf vinnufúsar hendur. Þrátt fyrir tímabundið atvinnuleysi þarf hér að ráðast í stórfellda uppbyggingu á ótal sviðum og þá þarf vinnuafl af margvíslegum toga. Við höfum farið þá leið að veita hér tímabundið atvinnuleyfi, iðulega gegnum vinnumiðlanir eða atvinnurekendur, en síður viljað fá fjölskyldur sem geta skotið hér rótum. Þannig hafa innflytjendur ekki náð að mynda þau lífrænu tengsl við samfélagið sem æskilegt væri.
Gott samfélag grundvallast á sterkum gildum, sem hafa ekki verið höfð nægilega að leiðarljósi við gerð þessa frumvarps. Mannúðin og réttlætið eiga aldrei að vera undantekning frá skilvirkninni, umbun fyrir góða hegðun eða í boði vegna sérstakrar neyðar. Mannúðin á að vera grunnregla í samfélaginu.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.