Skilvirkni

Guðmundur Andri Thorsson segir að mannúðin og réttlætið eigi aldrei að vera undantekning frá skilvirkninni, umbun fyrir góða hegðun eða í boði vegna sérstakrar neyðar. Mannúðin eigi að vera grunnregla í samfélaginu.

Auglýsing

Ef það er eitt­hvað eitt sem kallað er eftir af hálfu þjóð­ar­innar nú á tímum þá er það að stjórn­völd leggi til hliðar hefð­bundin ágrein­ings­mál, allir legg­ist á eitt, taki höndum saman við úrlausn mála, þing­menn stjórn­ar­liðs og stjórn­ar­and­stöðu. Rík­is­stjórn hafi sam­ráð við stjórn­ar­and­stöðu sem að sínu leyti greiði fyrir mál­um.

Þetta hefur gengið bæði upp og ofan. Stundum vel: Það gerð­ist á þing­inu í gær, þann 11. maí, að sam­þykkt var í heyranda hljóði til­laga Odd­nýjar G. Harð­ar­dóttur um að fram­lag hækki með hverju barni þeirra sem þurfa að treysta á grunnatvinnu­leys­is­bætur sér til fram­færslu. Þetta þýðir að barna­fjöl­skyldur fá 17.370 krónur með hverju barni í stað 11.580 króna. 

En í þessu ljósi – kröf­unnar um sam­stöðu og sam­vinnu á þingi – vekur sér­staka furðu að rík­is­stjórnin skuli af undra­verðri þrá­kelkni leggja enn einu sinni fram mál sitt um mál­efni útlend­inga – mál sem eng­inn friður er um og eng­inn friður getur orðið um. Nú hyggst þriðji dóms­mála­ráð­herra Sjálf­stæð­is­flokks­ins keyra málið í gegn í and­stöðu við Rauða kross­inn og aðra aðila sem gerst til þess­ara mála þekkja. Þetta er for­gangs­mál, svo brýnt er það talið af þess­ari rík­is­stjórn undir for­ystu Vinstri grænna, að þrengja mögu­leika þess nauð­leit­ar­fólks sem kemur hingað til lands til að koma hér undir sig fót­un­um. Í þessu frum­varpi er það fólk kennt við „til­hæfu­laus­ar“ umsókn­ir, rétt eins og beiðni þess um skjól hér á landi sé ein­hvers konar til­raun til að sóa dýr­mætum tíma þeirra sem hafa annað og mik­il­væg­ara að gera en að hjálpa því að skapa sér til­veru hér.

Auglýsing

Í grein­ar­gerð­inni með þessu frum­varpi kemur orðið skil­virkni 17 sinnum fyr­ir. Nú getur hún að vísu verið ágæt og jafn­vel nauð­syn­leg til að ljúka brýnum erindum og málum með far­sælli nið­ur­stöðu. En skil­virkni má ekki vera skálka­skjól. Hún má ekki vera óper­sónu­legt stofn­ana­orð til að hylja skort á mann­úð: skil­virknin virkar þá aðeins þegar hún fer saman við mann­úð, hún getur aldrei verið mark­mið í sjálfu sér. Hún má aldrei vera vél­ræn. Maður á kannski að vera mættur ein­hvers staðar og þá verður á vegi manns mann­eskja í nauðum stödd, og þá dugir ekki að segja bara: „Nei, því mið­ur, þarf að vera mætt­ur, finn til með þér en má bara ekki vera að þessu ...“ Það er ekki hægt að segja gagn­vart neyð­inni: „Nei, því mið­ur, skil­virknin meinar mér að hjálp­a.“ Computer says no.

Skil­virknin kemur svo oft fyrir í grein­ar­gerð frum­varps­ins, höf­undar þess eru svo hug­fangnir af þessu orði, sem alls­herj­ar­lausn gagn­vart flóknum vanda, að það hvarflar að manni að þeir skilji það bók­staf­legum skiln­ingi: þetta sé virkni til að skila. Og þá skila fólki aftur á sinn stað, sinn upp­runa­stað – en sá staður er óvart ekki til, eða öllu held­ur, þau ættu að vera komin á sinn stað, þau eru á griða­stað, þau eru á stað þar sem þau hafa mögu­leika á því að byggja upp líf og til­veru. Þeim verður ekki skilað þangað sem þau numu fyrst land á flótta sínum undan óbæri­legum aðstæðum því að hvað sem íslenskri skil­virkni kann að líða er ekki hægt að búa í flótta­manna­búðum við örygg­is­leysi og úrræða­leysi.

Mannúð og skil­virkni eru ekki and­stæð­ur, heldur for­senda hvor ann­arr­ar. Mann­úðin verður að liggja til grund­vallar skil­virkn­inni sem svo aftur þarf að fylgja mann­úð­inni. Hún hefur stundum náð fram að ganga með harð­fylgi und­an­farin ár. Við þekkjum fréttir af fjöl­skyld­um, af fólki sem búið er að koma sér fyrir í vinnu, börnin eru komin í skóla, jafn­vel lang­veik börn sem þurfa á sér­stöku skjóli að halda, og það stendur til að vísa þessum fjöl­skyldum úr landi í skjóli nætur jafn­vel eins og það hafi drýgt ein­hvern glæp, kom­ist í kast við skil­virkni­reglu stjórn­ar­skrár­inn­ar. En þá ber­ast af því fregn­ir, það koma myndir og við­töl í fjöl­miðla og almenn­ing­ur, sem ekk­ert skilur í grimmd skil­virkn­inn­ar, rís upp til varnar þessum fjöl­skyldum – sér sig í aðstæðum þeirra: hvað ef hér yrði óbyggi­legt af manna­völdum eða nátt­úru, hvað ef við myndum lenda í að heim­ili okkar yrði rifið upp með rótum og við rekin á flótta; myndum við ekki vilja geta vænst mann­úðar ein­hvers stað­ar? Þannig hugsar fólk og hefur und­an­tekn­ing­ar­laust skotið skildi fyrir þessar fjöl­skyldur og oftar en ekki hefur nið­ur­staðan orðið sú að þeim er þyrmt, og ger­ast nýtir þegnar hér í fram­hald­inu, stað­ráðin í að duga vel í nýju sam­fé­lagi, nýju lífi, nýju tæki­færi fyrir sig og sína.

Við höfum nokkrar svona sög­ur. Hvað sýna þær? Þær sýna mann­úð. Og já, líka skil­virkni, skil­virka mann­úð, mann­úð­lega skil­virkni.

En þær sýna ekki þá sér­stöku vél­rænu skil­virkni sem að er stefnt með þessu frum­varpi um tölv­una sem alltaf segir nei. Þessu frum­varpi virð­ist ætlað að bregð­ast við þess­ari stop­ulu mann­úð, kannski á þeim for­sendum að það sé órétt­látt gagn­vart öllum hinum þegar bara fáir fá sér­staka með­ferð – þarna þurfi að vera sam­kvæmni, annað sé óskil­virkt og jafn­vel ómann­úð­legt. En í stað þess að leit­ast þá við að laga þennan rétt­læt­is­halla með því að auka mögu­leika fólks á rétt­látri og sann­gjarnri máls­með­ferð þá er farið í hina átt­ina hér, það er leit­ast við að loka fyrir mögu­leika fólks á rétt­látri og sann­gjarnri máls­með­ferð svo að allir búi við sama rang­læt­ið, sama hvernig komið sé fyrir þeim. Nei-inu skuli komið inn í tölv­una svo að hún segi alltaf nei. Um þessa nálgun rík­is­stjórn­ar­innar á mál­efni útlend­inga getur aldrei orðið sátt.

Ég er sann­færður um að gott sam­fé­lag er ekki reist á upp­runa fólks, húð­lit eða öðrum ein­kennum sem það getur lítið gert í sjálft. Ég held að ekki skipti máli hvort fólk á upp­runa sinn í Húna­vatns­sýslu, Bombay, á Lang­holts­vegi, Gill­el­eje eða í Kúala­lúmp­ur, eða hvort fólk hefur þessar eða hinar mat­ar­venj­ur, heldur þessa eða hina hátíð­is­daga, klæðir sig á þennan máta eða hinn, trúir á þessa guði eða aðra eða eng­an.  Fólk er fólk og það er alls kon­ar, skemmti­legt og leið­in­legt, víð­sýnt og þröng­sýnt, opið, feim­ið, og þannig enda­laust, en alltaf mik­ils­vert og lygi­lega gott, eins og Ari Jós­efs­son orti um.

Gott sam­fé­lag er meðal ann­ars reist á því að geta unnt öðrum þess að vera eins og þeir eru. Það er reist á á umburð­ar­lyndi og kannski hæfi­legum hlut­föllum af vel­vilj­uðum áhuga og áhuga­leysi um hætti og hagi ann­ars fólks – ákveðnum sam­býl­is­þroska. En umfram allt er gott sam­fé­lag reist á óbif­an­legri virð­ingu fyrir lýð­ræði, frelsi og mann­rétt­ind­um, ein­stak­lings­rétt­indum allra, ekki bara þeirra sem hegða sér vel eða virð­ast eiga slíkt skil­ið, heldur allra.

Gott sam­fé­lag er reist á jöfn­uði, jafn­ræði, en ekki eins­leitni, ekki fámenn­ingu heldur fjöl­menn­ingu, ekki ein­ræðum heldur sam­ræð­um. Það er reist á tæki­færum frekar en hindr­un­um. Það þrífst á stöðugri end­ur­nýj­un, menn­ing­ar­legri og vits­muna­legri en visnar í ein­angr­un­inni, og ég held að þannig hafi það verið frá upp­hafi Íslands­byggð­ar, þegar hingað safn­að­ist saman alls konar fólk úr ólíkum sam­fé­lögum og áttum sem smám saman mynd­aði með sér sam­fé­lag. Hvert barn sem fædd­ist hér vegna sam­funda fólks af ólíkum upp­runa jók fjöl­breytni mann­lífs­ins og aðlög­un­ar­hæfni að óblíðri nátt­úru.  Sjálfur er ég afkom­andi nýbúa hér sem á 19. öld kom hingað barn­ungur með tvær hendur tómar en átti eftir að auðga þjóð­líf­ið, ekki síst til að sanna að hér ætti hann víst heima, hvað sem hver segði, og gæti orðið jafn nýtur þegn og hver ann­ar.

Hver er aug­ljós­asta afleið­ing þess að hér hafa sest að sýr­lenskir flótta­menn? Jú, það hefur gert kebab að tísku­mat hjá ungu fólki sem þar með borðar lamba­kjötið sem hér er ann­ars fram­leitt baki brotnu án sjá­an­legra tengsla við mark­aðs­eft­ir­spurn.

Íslenskt sam­fé­lag þarf vinnu­fúsar hend­ur. Þrátt fyrir tíma­bundið atvinnu­leysi þarf hér að ráð­ast í stór­fellda upp­bygg­ingu á ótal sviðum og þá þarf vinnu­afl af marg­vís­legum toga. Við höfum farið þá leið að veita hér tíma­bundið atvinnu­leyfi, iðu­lega gegnum vinnu­miðl­anir eða atvinnu­rek­end­ur, en síður viljað fá fjöl­skyldur sem geta skotið hér rót­um. Þannig hafa inn­flytj­endur ekki náð að mynda þau líf­rænu tengsl við sam­fé­lagið sem æski­legt væri.

Gott sam­fé­lag grund­vall­ast á sterkum gild­um, sem hafa ekki verið höfð nægi­lega að leið­ar­ljósi við gerð þessa frum­varps. Mann­úðin og rétt­lætið eiga aldrei að vera und­an­tekn­ing frá skil­virkn­inni, umbun fyrir góða hegðun eða í boði vegna sér­stakrar neyð­ar. Mann­úðin á að vera grunn­regla í sam­fé­lag­inu.

Höf­undur er þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar